08.04.1963
Neðri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (2175)

238. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er samið af yfirlæknunum á Kleppi, þeim prófessor Tómasi Helgasyni og Þórði Möller. Það kom frá þeim í ráðuneytið skömmu eftir áramótin, hefur síðan verið til athugunar þar og í fjmrn., varðandi fjárhagsatriði frv. einkanlega, og hefur skýrzt í meðförum ráðuneytanna, eins og gengur, en er nú borið fram í þeirri mynd, sem það er, með fullu samþykki yfirlæknanna tveggja, sem upphaflega sömdu það.

Frá núgildandi löggjöf um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, sem er frá árinu 1949, eru gerðar nokkrar meginbreytingar.

Í I. kafla frv. er sú aðalbreyting, að þar, sem samkv. lögunum frá 1949 var ætlazt til þess, að yfirleitt yrðu þeir menn, sem settir væru í hald vegna ölvunar, fluttir á sjúkrahús eða a.m.k. til læknis, þá er nú ráðgert, að þetta verði einungis gert við ítrekuð brot eða þegar sérstakar ástæður benda til þess, að um yfirvofandi drykkjusýki sé að ræða eða þá um beina drykkjusjúklinga, ef vitneskja er fyrir um, að þannig standi á. Þetta ákvæði um flutning ölvaðra manna á sjúkrahús hefur aldrei verið framkvæmt eins og lögin segja til um, hefur að minni vitund verið gersamlega dauður bókstafur og með öllu óraunhæft.

Það má deila um, hvort ákvæðin, eins og þau eru ráðgerð í þessu frv., muni að fullu verða framkvæmanleg. Í fyrstu er ljóst, að svo muni ekki verða, en að því ber að sjálfsögðu að stefna. En víst er, að ákvæðin eru miklu framkvæmanlegri en þau, sem nú eru í gildi, og þar með meiri líkur til þess, að þau komi að raunhæfum notum. En aðalvinningurinn við ákvæðin, eins og þau eru ráðgerð í þessu frv., er, að með þeim er efnt til skráningar á öllum þeim mönnum, sem teknir eru fastir sökum ölvunar, þannig að fyrir liggi um þá skýrslur, sem bæði er æskilegt til þess, að hægt sé að gera sér heildarmynd af því vandamáli, sem við er að etja, og eins til þess, að auðveldara verði að hjálpa þessum mönnum hverjum um sig, ef svo kveður að vínhneigð þeirra, að ætla megi, að hún sé sjúkleg eða nálgist það að vera sjúkleg. Það má segja, að slík skráning sé nú þegar í skýrslum lögreglunnar víðs vegar um landið, en þau gögn eru ekki tiltæk og sú umbót gerð með frv., að þessi gögn eigi að berast til áfengisráðunautar, þannig að hann hafi þau handbær og þar geti heilbrigðisyfirvöld að þeim gengið. Það er enginn vafi á því, að þetta gerir allt þetta mál viðráðanlegra eða auðveldara til lausnar, því að eins og í grg. frv. segir, er það að vísu skoðun manna, að áfengisvandamálið hér á landi sé alvarlegt og víðtækt, en vegna þess að engin fullnægjandi gögn eru fyrir hendi, er ekki hægt að gera sér næga grein fyrir, við hvað er að fást, en með þessari skráningu ætti að vera lagður grundvöllur að því. Hins vegar verður einnig að játa, að það er rétt, sem í grg. frv. er tekið fram, að auðvitað eru, því miður, mjög margir fleiri í hættu fyrir drykkjusýki eða drykkjusjúkir en þeir, sem beinlínis lenda í höndum lögreglunnar, svo að fullnægjandi upplýsingar fást ekki með þeirri skráningu, sem samkv. frv. á að lögbjóða. Höfundar frv. víkja að því, að ástæða sé til þess að gera gangskör að því að safna einnig gögnum um þá, sem þessu meini eru haldnir, en lenda ekki undir lögreglunnar höndum, en telja það slíkt vandaverk, að þeir treysta sér ekki til að gera till. um það á þessu stigi málsins. En með samvinnu lækna og heilbrigðisstjórnar ætti þó að vera hægt að fá um þetta betri heimildir en enn eru fyrir hendi.

Ég mundi segja, að það væri ein aðalnýjung í I. kafla frv. þessa, að efnt væri til slíkrar skýrslugerðar, sem að verulegu leyti hlýtur að verða undirstaða frekari aðgerða til lausnar þessu vandamáli.

Þá er í I. kafla frv. einnig sú breyting gerð, að í stað þess, að samkv. núgildandi lögum er til þess ætlazt, að ef sjúkrahús er reist til að taka við sjúklingum samkv. því boði, sem í 1. gr. er sett, þá sé kostnaður við slík sjúkrahús greiddur með sama hætti og um sjúkrahús almennt, þ.e.a.s. kostnaðurinn mundi að verulegu leyti lenda á sveitarfélögunum, en samkv. 4. gr. frv. hins vegar kveðið svo á, að kostnaður við byggingu slíkra sjúkrahúsa og sjúkrahúsdeilda skuli greiðast úr gæzluvistarsjóði eftir ákvörðun heilbrigðisstjórnarinnar. Þarna eru sem sagt tekin á gæzluvistarsjóð, þ.e. ríkið, útgjöld, sem samkv. núgildandi lögum hvíla á sveitarfélaginu.

Í II. kafla frv., um meðferð drykkjusjúkra manna, eru nokkrar meginbreytingar.

Sú er fyrst, að felld er niður sú yfirstjórn, sem yfirlæknir á Kleppi átti að hafa yfir allri starfsemi í þessum efnum. Í grg. eru færð rök að því, að það sé ekki heppilegt, að yfirmaður eða yfirmenn einnar stofnunar, sem eigi að vinna að þessum málum ásamt ýmsum fleiri stofnunum, eigi að hafa einnig yfirstjórn yfir þeim. Slíkt leiðir til ruglings og e.t.v. hugsanlegra árekstra, sem æskilegt sé að komast hjá. Hitt sé eðlilegra, að það sé frjálsræði um rekstur slíkrar starfrækslu. Að vísu sé hún öll undir eftirliti heilbrigðisstjórnarinnar, þ.e.a.s. fyrst og fremst landlæknis, en að því eftirliti áskildu sé fleiri en einum aðila, þ.e.a.s. sveitarfélögum og sjálfboðaliðum, heimil starfræksla í þessu skyni, eftir atvikum einnig einhverjum, ef hann vildi leggja það fyrir sig sem atvinnu að lækna þessa menn eða setja upp fyrir þá sérstakar stofnanir, — að allt þetta sé frjálst, en það sé hins vegar komið undir ákvörðun ríkisvaldsins, að hve miklu leyti það vilji styðja slíka starfrækslu með fjárframlögum, og er það látið opið samkv. 10. gr. frv.

Samhliða þessari frjálsu starfsemi og þó sem aðalaðilinn til að berjast gegn því böli, sem hér um ræðir, er svo sjálft ríkið, og er þá ráðgert, að geðveikraspítali eða geðsjúkrahús ríkisins annist þá starfrækslu og hún verði aðallega með þrennu móti: Þar verði séð fyrir sjúkrahúsvist, ekki ýkjalangri, fyrir hjálparstöð utan sjúkrahússins og loks fyrir hæli, einu eða fleiri, sem tæki við þeim sjúklingum, sem þurfi langrar eða varanlegrar hælisvistar.

Það er sem sé ætlazt til þess, að ríkið annist fullkomna meðferð þeirra sjúklinga, sem til þess leita, en jafnframt gert ráð fyrir, að fleiri aðilum sé heimilt að starfa sjálfstætt að lausn málsins undir yfirstjórn og eftirliti heilbrigðisstjórnarinnar, eins og ég áður sagði.

Greinilegt er, að ef á að koma upp þeim stofnunum, sem í frv. eru ráðgerðar, muni það kosta verulegt fé, og það hlýtur auðvitað ætíð að verða álitamál, hversu miklu fé sé hægt að verja í þessum tilgangi. Höfundar frv. óskuðu eftir því, að ákveðnum hluta af áfengistekjum ríkissjóðs yrði varið í þessu skyni, og varð hlutfallið slíkt, að það hefði orðið allmiklu hærri fjárhæð en að lokum varð samkomulag um að ætla til þessa. En eins og frv. liggur nú fyrir, á að þrefalda framlagið til gæzluvistarsjóðs, hækka það úr 2½ millj. upp í 7½ millj. Ljóst er, að í þessu felst mjög veruleg bót frá því, sem hingað til hefur verið, og ætti á ekki mjög löngum tíma að vera hægt að koma upp þeim stofnunum, sem í þessu skyni eru nauðsynlegar. Lengra þótti hins vegar ekki fært að fara á þessu stigi málsins með hliðsjón af mörgum öðrum aðkallandi þörfum, bæði í sjúkrahúsmálum, þ. á m. aðbúnaði að geðveiku fólki öðru en því, sem hér um ræðir, og ótalmörgum öðrum þörfum ríkisins.

Um þetta er ákvæði í III. kafla frv.

Þá er einnig rétt að vekja athygli á því, að í 14. gr. eru mjög víkkuð refsiákvæði um það, hverjum hegna beri fyrir það að láta áfengissjúklingum drykkjarföng í té. Áður var miðað við þá, sem á sjúkrahúsi eða hæli væru. Nú eru þarna undir teknir allir þeir, sem vitanlega þeim, er áfengi lætur í té, eru í meðferð vegna drykkjusýki, þ.e.a.s. þó að þeir séu ekki á hæli.

Þetta eru aðalbreytingar, sem í frv. þessu felast, frá núgildandi löggjöf. Ég tel hiklaust, að frv. stefni í rétta átt. Það er ætlazt til þess, að verulega hærri fjárhæð en áður verði varið til lausnar þessu vandamáli. Það er sett fram ákveðin ráðagerð um þær helztu stofnanir, sem upp þurfi að koma. Það er frjálslegra en áður fyrir starfsemi sveitarfélaga og samtaka annarra, sem að þessum málum gefa sig. Og ákvæðin í I. kafla eru sýnu raunhæfari og framkvæmanlegri en þau, sem nú eru í gildi.

Ég tel þó rétt að taka það fram, að sjálfur efast ég um, hvort ákvæðin, eins og þau jafnvel eru enn skv. frv., um að leggja menn á sjúkrahús eða leiða fyrir lækni við ítrekað ölvunarbrot, verði framkvæmanleg hér á landi, eins og nú háttar til. Úr þessu fær reynslan ein skorið. Aðalatriðið í þessum kafla frv. tel ég vera skráninguna, sem þarna er efnt til og vissulega getur orðið að verulegu gagni.

Mér er það ljóst, að þetta frv. kemur nokkuð seint fram, og það eru ekki vonir til þess, að það geti náð samþykki á þessu þingi, nema allir séu um það sammála og vilji fyrir því greiða. Um það geta auðvitað verið ýmsar hugmyndir, hvað gera eigi í þessu vandamáli. En ég vona þó, að allir séu sammála um, eins og ég sagði, að frv. horfi í rétta átt, og geti því stuðlað að framgangi þess nú, jafnvel þó að þeir, þegar frekari reynsla er fengin, telji, að á þessu þurfi að gera nokkrar breytingar frá þessu frv. og þá fyrst og fremst ef til vill að verja meira fé en hér er ætlað, en það verður auðvitað að skoðast með hliðsjón af því, hvað menn yfirleitt telja sér fært að leggja til sjúkrahúsa og annarra nauðsynja, sem við þurfum að sjá borgið.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.