20.11.1962
Neðri deild: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2264)

11. mál, ríkisábyrgðir

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. frá 1961, um ríkisábyrgðir. Í 2. gr. þeirra l. segir svo, með leyfi forseta: „Ríkissjóður má ekki ganga í sjálfskuldarábyrgð, nema slíkt sé sérstaklega ákveðið í lögum þeim, sem ábyrgð heimila.“ Í frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að inn í gr. bætist: „fyrir aðra en sveitarfélög“, þannig að bannið við því að ganga í sjálfskuldarábyrgð, nema sérstaklega sé ákveðið í lögum, sem ábyrgðina heimila, gildi aðeins fyrir aðra en sveitarfélög.

Í lögunum frá 1961 er undantekningarákvæði um ríkisábyrgðir fyrir lánum til hafnargerða. Í bráðabirgðaákvæði laganna segir, að heimilt sé að veita ríkisábyrgðir vegna lána til hafnargerða eftir reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til. Þetta ákvæði um hafnargerðirnar var í frv. upphaflega, þegar það var lagt fyrir þingið af hæstv. ríkisstj., og var samþ. Sýnir það, að ríkisstj. hefur þá verið ljóst, að sveitarfélög mundu ekki geta fengið lán til hafnargerða nema gegn sjálfskuldarábyrgð ríkisins. Lánveitendur mundu ógjarnan vilja taka hafnarmannvirki til greiðslu á skuldum. En sama gildir um fleiri mannvirki, sem sveitarfélög koma upp. Það hefur komið í ljós, að það er ekki heldur hægt fyrir sveitarfélögin að fá lán til þeirra framkvæmda gegn einfaldri ábyrgð ríkisins. Gildir þetta um lán til að koma upp hitaveitum, vatnsveitum og rafveitum.

Í lögum frá 1953 um hitaveitur utan Reykjavíkur er heimilað ríkisstj. að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs nauðsynleg lán til að koma upp hitaveitum skv. fyrirmælum laganna. Mega ábyrgðir þó aldrei fara fram úr 80% af heildarkostnaði hitaveitunnar. Þá eru lög nr. 93 1947, um aðstoð til vatnsveitna. Skv. þeim lögum er ríkisstj. heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs gegn tryggingum, sem hún metur gildar, nauðsynleg lán, er sveitarstjórn kann að taka til að koma upp vatnsveitu skv. lögunum. Og í þriðja lagi vil ég nefna raforkulögin, nr. 12 1946. Skv. heimild í 22. gr. þeirra getur ríkisstj. ábyrgzt allt að 85% stofnkostnaðar fyrir raforkuver sveitarfélaga og héraðsrafmagnsveitur, enda liggi fyrir samþykki raforkumálastjóra um gerð og tilhögun og fyrirkomulag verksins hverju sinni.

Verði frv. samþ., sem hér liggur fyrir, hefur það í för með sér, að ríkisstj. getur gengið í sjálfskuldarábyrgð vegna ríkissjóðs fyrir lánum, sem sveitarfélög taka til að koma upp vatnsveitum, hitaveitum og rafstöðvum. Víðtækari áhrif mundi samþykkt frv. ekki hafa, því að eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, eru ekki í fleiri lögum slíkar almennar heimildir fyrir ríkisstj. til þess að taka ábyrgð á lánum fyrir sveitarfélög til framkvæmda. Það er um þetta að ræða, og við í minni hl. fjhn. teljum rétt, að það gildi sama um þessar framkvæmdir og hafnargerðirnar. Við teljum, að það sé þörf á þessari breytingu, því að það hefur komið á daginn, að það er ekki hægt fyrir sveitarfélögin að fá lán til þessara framkvæmda frekar en til hafnarframkvæmdanna, ef aðeins er veitt einföld ábyrgð fyrir lánunum.

Við athugun á ríkisreikningum síðustu ára sést, að greiðslur, sem fallið hafa á ríkissjóð vegna ábyrgðar fyrir sveitarfélög, eru að langmestu leyti vegna vanskila á öðrum lánum en þeim, sem hér hafa verið nefnd. Það er mikið um það, að ríkissjóður hafi orðið að borga afborganir af lánum til hafnarframkvæmda, — mjög mikið um það, — en lítið um það, að fallið hafi á ríkið greiðslur vegna ábyrgða fyrir rafveitur og vatnsveitur, nokkur þó hvað rafveiturnar snertir. Benda má á það einnig, að ráðuneytið hefur mikla möguleika nú og meiri en áður til þess að innheimta skuldir hjá sveitarfélögum, sem myndazt hafa vegna þess, að ríkið hefur greitt afborganir af lánum, sem það var í ábyrgð fyrir. Nú er það svo, að öll sveitarfélög á landinu fá hluta af söluskatti, og ríkissjóður getur tekið af þeim greiðslum kröfur, sem hann hefur á sveitarfélögin vegna greiðslu á ábyrgðarskuldum, og fleiri möguleikar eru skv. lögunum um ríkisábyrgðir til þess að innheimta slíkar kröfur.

Við höfum gefið út nál. á þskj. 93, ég og hv. 4. þm. Austf., og við mælum með því, að frv. verði samþ. Við teljum, að það sé þörf á þessu fyrir sveitarfélögin, en fjárhagsáhættan í sambandi við þetta lítil fyrir ríkissjóð.