28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (2813)

42. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því enn betur en gert hefur verið, að þetta mál á merkisafmæli um þessar mundir. Það á 25 ára afmæli: Það var 1937, sem það var borið fram, þá á haustþinginu, og það hlaut afgreiðslu einhvern tíma fyrir áramótin. Þar var í till., sem samþ. var, ákveðið, að það skyldi kjósa 5 manna nefnd á Alþingi til að athuga þetta mál. Og það var gert, áður en þingi var slitið þá. 5 þessa nefnd voru kosnir 2 sjálfstæðismenn, einmitt þeir sömu þm. sem flutt höfðu till., 1 Alþýðuflokksmaður og 2 menn frá Framsfl.. og ég var annar þeirra.

Svo gerðist það milli jóla og nýárs 1937, að nefndin kom saman til fyrsta fundar hér í þinghúsinu, í svonefndu ráðherraherbergi. Þar var kosinn formaður nefndarinnar, annar fulltrúi Sjálfstæðisfl., annar þeirra, sem höfðu flutt till., og ritari var kosinn fulltrúi Alþfl. Svo hvarf það ár í aldanna skaut, án þess að fleira gerðist í málinu, og ég var alltaf að búast við því, að formaðurinn mundi kalla nefndina saman til annars fundar til að athuga málið. En árin liðu hvert af öðru, en aldrei kom fundarboð frá formanni.

Nokkrum árum eftir þetta gerðist það, að einn af meðnefndarmönnum mínum, annar fulltrúi Sjálfstfl., fluttist af landi brott vestur til Ameríku og hefur verið þar síðan. Og nokkrum árum þar á eftir féll hinn fulltrúi Sjálfstfl. frá, en engir voru tilkvaddir mér vitanlega í nefndina í þeirra stað og þess vegna aldrei haldinn nema þessi eini fundur í nefndinni.

Það má vel vera, að mér hefði borið og hinum tveim nefndarmönnunum, sem hafa verið hér á landi alltaf og erum á lífi eftir þessi 25 ár, að vinna eitthvað í nefndinni, þó að formaðurinn væri farinn. En það verður að játa, að það hefur ekki orðið. Við höfum ekkert gert í þessu.

Ég vildi nú aðeins rifja upp þessa sögu málsins, og svo vil ég flytja þá ósk til afmælisbarnsins, að það fái greiða og góða ferð inn í þingnefndina, sem frsm. gerði að till. að fengi það til athugunar, og verði þar gaumgæfilega athugað.