23.10.1962
Sameinað þing: 5. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

1. mál, fjárlög 1963

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fáum þjóðum heims fjölgar jafnört og íslenzku þjóðinni. Í lok þessa árs mun mannfjöldi á landinu verða um 184 þús., og á næstu árum mun þjóðinni fjölga um 3400–3500 árlega. Sú tala fer síðan hækkandi á síðari hluta áratugsins, þannig að árið 1970 er fjölgunin áætluð rúmlega 4 þús. fæddir umfram dána, Í lok þess árs verður íbúatala landsins orðin um 214 þús. Samkvæmt þessu verður fólksfjölgunin á árunum 1960—70 21% eða um 2% á ári. Svipuð fjölgun hefur átt sér stað undanfarin ár. Þessi öri vöxtur þjóðarinnar skapar ýmis vandamál. Það þarf fleiri skóla fyrir æskuna, en menntun hennar er einhver sú allra bezta fjárfesting, sem lagt er í. Það þarf ný og fullkomnari atvinnutæki fyrir vinnufært fólk. Aldraðir og sjúkir þurfa meiri umönnun, sem m.a. kemur fram í aukinni þörf fyrir sjúkrahús og elliheimili eða hjúkrunarheimili. Loks þarf að auka íbúðabyggingar. Og er þá fátt talið af því, sem hinn öri vöxtur útheimtir. Fólksfjölgunin og aukin athafnasemi þýðir svo m.a. það, að stöðugt eru gerðar auknar kröfur til ríkisins og stofnana þess um ýmiss konar þjónustu og fyrirgreiðslu, eins og sést af því, að niðurstöðutölur fjárlaga fara hækkandi ár frá ári.

Rekstraryfirlit þess fjárlfrv. fyrir næsta ár, sem hér liggur fyrir til umr., hefur niðurstöðutölurnar 2123 millj. kr. Ef þessu væri á annan veg farið, þannig að fjárlögin hækkuðu ekki þrátt fyrir fólksfjölgunina, heldur stæðu í stað, þá væri um raunverulegan samdrátt að ræða á ríkisbúinu. Og þótt menn hafi það oft á orði, að þeim finnist nóg um útgjaldaaukninguna hjá ríkissjóði frá ári til árs, komast flestir að þeirri niðurstöðu, er þeir kryfja málið til mergjar, að á mörgum sviðum sé ekki nóg að gert. Vissulega væri æskilegt og nauðsynlegt, að ríkið gæti á ýmsum sviðum veitt meiri þjónustu og fyrirgreiðslu en það gerir. Þannig erum við t.d. á eftir með byggingu skóla og sjúkrahúsa, og til atvinnumála, samgangna og rannsókna í þágu atvinnuveganna er stöðugt talin þörf á meiri fjárveitingum en hægt er að fullnægja. Sama er að segja um margt fleira, sem í sjálfu sér eru góðir og gagnlegir hlutir. Þessi þörf kemur í ljós í hvert skipti, sem fjárlög eru afgreidd, í aragrúa erinda, sem fjvn. berast, þar sem beðið er um aukin framlög ríkísins. Stjórnarandstaðan notfærir sér þessa þörf á sinn hátt með því að flytja yfirboðs- og sýndartillögur um gjöldin og óraunhæfar tillögur um auknar tekjur. Það er svo aftur fátítt, að fjvn. berist erindi eða vel rökstuddar till. um lækkun gjaldanna. Í því efni veltur mest á því, að sá meiri hl., sem tekizt hefur á hendur ábyrgð á fjárl., sýni í verki fullan vilja til að stjórna af hagsýni, og á þessu kjörtímabili hefur margt áunnizt í því efni, eins og hæstv. fjmrh. rakti í ræðu sinni áðan.

Mesti vandinn fyrir þann þingmeirihluta og þá ríkisstj., sem hverju sinni fer með stjórn ríkisbúsins, er sá að halda útgjöldunum innan þeirra takmarka, sem tekjuöfluninni eru sett, þannig að hvort tveggja sé, að ríkisbúskapurinn sé rekinn hallalaus og án þess að þjóðinni sé íþyngt úr hófi fram með sköttum. Slíkt jafnvægi milli tekna og gjalda ríkissjóðs er ákaflega mikilvægt fyrir þjóðarbúið í heild, og er ánægjulegt til þess að vita, að á ríkisstjórnarári Alþfl. 1959 tókst að skapa þetta jafnvægi, og einnig, að á fyrstu þrem árum þessa kjörtímabils mun slíkt jafnvægi nást. Jafnframt hefur verið unnt að lækka tekjuskatt stórlega og draga verulega úr tollum.

Þeirri jákvæðu stefnu að hafa jafnvægi milli tekna og gjalda ríkisins er enn fylgt í því frv., sem hér liggur fyrir, því að á sjóðsyfirliti er greiðslujöfnuður áætlaður 12.7 millj. kr., og er þess að vænta, að frv. verði afgreitt án þess, að víkja þurfi frá þeirri stefnu.

Ég gat þess áðan, að fjárl. hlytu jafnan að fara hækkandi vegna vaxtar þjóðarinnar, og er augljóst, að slík hækkun mundi eiga sér stað, jafnvel þótt verðlag héldist óbreytt frá ári til árs. Þetta kemur t.d. glöggt fram, ef athuguð eru útgjöld til menntamála og heilbrigðismála og að nokkru leyti útgjöldin til félagsmála. Heilbrigðismálin hækka að þessu sinni samanboríð við s.l. ár um 1.8 millj. kr., menntamálin hækka um 19.3 millj. kr., félagsmálin, þ.e.a.s. almannatryggingarnar, hækka um 85.7 millj. kr.

Í skýringum með frv. kemur fram, að gert er ráð fyrir 27 nýjum kennurum til almennrar barnafræðslu, 29 nýjum kennurum í gagnfræðaskólum, og í öðrum skólum á kennurum að fjölga um 6. Eiga þannig á næsta ári að bætast við 62 nýir kennarar á launaskrá hjá ríkinu, en fyrir munu vera um 1600 fastráðnir kennarar og skólastjórar. Heildarútgjöldin til menntamálanna verða samkvæmt frv. um 257 millj. kr., eða um 12% af heildarupphæð fjárlaganna.

Þá er einnig ráðgert skv. frv., að stækkun barnadeildar landsspítalans komi til framkvæmda á næsta ári, og sú viðbót við þá merku stofnun hefur það í för með sér, að starfsfólkinu fjölgar um 25 manns. Kostnaður við heilbrigðismálin er alls áætlaður 66.1 millj. kr., þ.e.a.s. mismunur á tekjum og gjöldum sjúkrahúsanna og annað, sem ríkissjóður þarf að greiða í sambandi við rekstur þeirra og læknaskipunina. Byggingarframlag er til viðbátar þessu áætlað 7.1 millj. kr., eða alls til heilbrigðismála um 3.4% af heildarupphæð fjárlaga. Nú er starfslið landsspítalans og fæðingardeildarinnar samkvæmt launaskrá 319 manns, en þegar viðbætur þær, sem nú eru í smíðum við spítalann, komast allar í notkun, þannig að þar verði alls um 400 sjúkrarúm, mun ekki ofætlað, að starfsliðið þurfi að vera 500-600 manns.

Til félagsmála er alls áætlað að varið verði 504.4 millj. kr., en það eru rúmlega 23% af fjárlagaupphæðinni. Þar munar langsamlega mest um almannatryggingarnar, sem kosta ríkissjóð samkvæmt frv. 334 millj. kr. á næsta ári, og er verulegur hluti hækkunarinnar milli ára vegna fólksfjölgunar.

Þessi þróun verður hvorki stöðvuð né umflúin, og í skóla- og heilbrigðismálum eru verkefnin fram undan meiri að vöxtum en svarar til eðlilegrar þróunar, vegna þess að á liðnum árum hefur ekki verið haldið nægilega vel í horfinu í byggingu skóla og sjúkrahúsa.

En það er fleira en eðlilegur vöxtur þjóðarinnar, sem veldur árlegri hækkun fjárlaga. Þar koma ekki síður við sögu almennar hækkanir verðlags og launa, sem alltaf fela í sér þá hættu, að efnahagskerfi þjóðarinnar verði ofboðið. Stjórnarflokkunum tókst að stöðva þessar hækkanir framan af kjörtímabilinu, og árangurinn sagði fljótt til sín í bættri gjaldeyrisstöðu og auknum sparnaði og enn fremur í því, að á fjárlögum ársins 1961 var unnt að lækka tíu útgjaldaliði frá því, sem verið hafði árið áður. S.l. ár hófust svo kaup- og verðhækkanir á ný fyrir aðgerðir þeirra afla, sem vilja stjórnina og stefnu hennar feiga, og árangurinn af því sýndi sig í fjárl. þessa árs í óhjákvæmilegum hækkunum útgjalda. Hefðu þessar hækkanir ekki komið til, hefði verið hægt að halda áfram á þeirri braut að lækka bæði útgjöld ríkisins og skattana í enn ríkara mæli en gert hefur verið. Það er sú kjarabót, sem launþegar glata af völdum kaupgjalds- og verðlagshækkunar.

Þegar dýrtíðin vex, hefur það nákvæmlega sömu áhrif á ríkisbúskapinn og á búskap einstaklinga. Ríkið þarf fleiri krónur, sem það aflar sér með sköttum og tollum, og þjónustustofnanir þess verða að hækka gjöld fyrir veitta þjónustu. Sá, sem fengið hefur launahækkun, kannske eftir langt verkfall, verður þannig að borga verulegan hluta af hækkuninni sjálfur. Þetta er ein af veigamestu ástæðunum fyrir því, að kauphækkanir í krónutölu eru ekki einhlítar til raunhæfra kjarabóta.

Meðal þeirra áhrifa, sem almennar launahækkanir hafa á búskap ríkisins, er aukinn kostnaður við starfsmannahald þess. Ríkið er stærsti vinnuveitandinn í landinu með um 5000 manns í þjónustu sinni, og það getur að sjálfsögðu ekki til lengdar boðið starfsfólki sínu lakari kjör en aðrir bjóða. Opinberir starfsmenn hafa nú fengið samningsrétt, og búast má við miklum breytingum á launum þeirra á næsta ári. Hjá þeim breytingum verður ekki komizt, m.a. til þess að ríkið og stofnanir þess geti tryggt sér starfskrafta hæfustu manna, sem völ er á hverju sinni, í sem flestum starfsgreinum á þess vegum. Launagreiðslur ríkisins munu nú nema alls um 500 millj. kr. á ári, ef miðað er við fjárlagafrv., eins og það er nú. Ég skal engu spá um, hver útkoman verður af samningunum við opinberu starfsmennina á næsta ári, en talið er, að óskir þeirra, ef að þeim verði gengið, muni þýða aðrar 500 millj. kr. Í frv. er 7% almenn hækkun til opinberra starfsmanna og launauppbót kennara samtals áætlað 65 millj. kr. Af þessum háu tölum geta menn nokkuð ráðið, hversu gífurlegrar kröfugerðar aðrir launþegar en opinberir starfsmenn stofna til á sjálfa sig með því að spenna eigið kaup upp ár eftir ár, því að sjálfir fá þeir að borga hækkunina til starfsmanna ríkisins og stofnana þess.

Þessi áhrif almennra kauphækkana á ríkisbúskapinn eru hliðstæð við áhrifin á verðlagið almennt. Hækkanirnar elta hver aðra á víxl og valda hættulegri röskun í efnahagslífinu. Þjóðin hefur enn á ný látið berast inn í þennan vítahring, og mesta vandamálið fram undan er stöðvun þeirrar þróunar. Jafnframt þarf að koma í veg fyrir, að það, sem þegar hefur skeð, verði til þess að eyðileggja þann mikla árangur, sem orðið hefur af hinu jákvæða viðreisnarstarfi stjórnarflokkanna í efnahagsmálunum.

Því er ekki að neita, að nú um þessar mundir eru ýmsar blikur á lofti í sambandi við kaupgjalds- og verðlagsmálin. Á síðastliðnu ári urðu almennar kauphækkanir 13–19%. Var það meiri hækkun en svaraði til aukningar þjóðarframleiðslunnar á árunum 1960–61 og leiddi óhjákvæmilega til gengisbreytingar. Verðhækkanir, sem á eftir fylgdu, urðu þó minni en meðalkauphækkunin, og er talið, að raunveruleg laun hafi hækkað um 3–4% á s.l. ári. Á þessu ári hafa einnig orðið kauphækkanir, sem sumpart eiga rót sína að rekja til mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli og til þess, að margir vinnuveitendur bjóða hærra kaup en umsamið er. Þessar kauphækkanir eru líklega nálægt 12% að meðaltali og hafa valdið mikilli röskun á verðlagi, sem síðan gerir þær minna virði en ella fyrir launþega, þótt engin gengisbreyting verði gerð. Aðstaðan til þess að greiða hærra kaup er hins vegar mun betri á þessu árí en var í fyrra vegna vaxandi þjóðarframleiðslu og hækkaðs verðs á útflutningsafurðum okkar. Bætt gjaldeyrisstaða og aukin sparifjáreign koma nú einnig í góðar þarfir. Er vonandi, að á þeim grundvelli, sem lagður hefur verið með viðreisnarstefnu stjórnarflokkanna, verði hægt að varðveita jafnvæg í efnahagsmálunum og tryggja þjóðinni bæt lífskjör í samræmi við aukna framleiðslu og hagnýtari vinnubrögð. En engu að síður er rík ástæða til að vara við afleiðingum þess, ef kaupkröfurnar eru meiri en svarar til eðlilegrar aukningar framleiðslunnar. Reynum heldur að varðveita það, sem unnizt hefur. Vil ég í því sambandi benda á, að þrátt fyrir þau truflandi áhrif, sem kaupskrúfan hefur haft á hina efnahagslegu viðreisn, má gera ráð fyrir, að raunverulegt kaup verði í lok þess árs 4–5% hærra en það var í ársbyrjun 1960, þegar framkvæmd viðreisnarstefnunnar hófst. Má telja það eftir atvikum góðan rangur, þótt hins vegar megi fullyrða, að betri árangur hefði náðst, ef öðruvísi hefði veri farið að í kaupgjaldsmálunum.

Í næsta mánuði halda stærstu launþegasamtök í landinu, Alþýðusamband Íslands, þing sitt, og er von, að menn spyrji: Ætla þau samtök að taka upp aðra og hyggilegri stefnu í launamálum en þau hafa fylgt að undanförnu, stefnu, sem væri líklegri til þess að tryggja launþegum varanlegar kjarabætur? Ég hygg, að það sé talið láta nærri, að 5% framleiðsluaukning árlega geti tryggt um 3% raunverulegar kjarabætur. Þetta er það takmark, sem fjöldi þjóða hefur sett sér á þeim áratug, sem nú er að líða og helgaður hefur verið fjárhagslegum framförum af Sameinuðu þjóðunum og stofnunum á þeirra vegum. Með þessu er talið, að markið sé sett hátt, því að fjöldi þjóða mun ekki geta náð því og fáar farið fram úr því. Við Íslendingar verðum að gera okkur ljóst, að við erum ekki í neinum sérflokki að þessu leyti, og það mundi á okkar vísu vera talið vel af sér vikið, ef við gætum náð því marki að bæta lífskjör okkar um 30% á 10 árum.

Mér hefur orðið nokkuð tíðrætt um þessi mál í sambandi við það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, vegna þess, hve víðtæk áhrif kaupgjald og verðlag hafa á ríkisbúskapinn, og ég tel nauðsynlegt, að menn geri sér sem ljósasta grein fyrir samhenginu þar á milli.

Ég vil vegna ummæla Lúðvíks Jósefssonar, sem talaði hér á undan mér um gerðardóminn í síldveiðideilunni í sumar, segja þetta: Þegar svo er komið með atvinnuveg eins og síldveiðarnar, að öruggt má telja, að hann geti gefið bæði útgerðarmönnum og sjómönnum góðan arð, þá liggur beinast við, að þessir aðilar komi sér sjálfir saman um skiptingu aflans milli skips og áhafnar. Aðrir ættu þá ekki að þurfa að koma þar nærri. En þegar aðilarnir setja hvor um sig fram mun hærri kröfur en þeir hugsa sér að ganga að síðar og sitja síðan við samningaborð viku eftir viku og mánuð eftir mánuð án þess að gera sig líklega til samkomulags, þá verður einhvern veginn að höggva á þann hnút. Þetta var gert í sumar með bráðabirgðalögum, sem kváðu svo á, að síldveiðiflotinn skyldi láta úr höfn, enda var síldin komin á miðin. Lögin gerðu síðan ráð fyrir, að deiluaðilar hefðu allt að hálfum mánuði til samninga, en tækjust þeir ekki, skyldi málinu skotið til gerðardóms. Deiluaðilarnir voru svo ákveðnir í því hvor fyrir sig að semja ekki, að það eina, sem þeir komu sér saman um, strax eftir að lögin voru sett, var það að skjóta málinu til dómsins. Enginn, hvorki ráðherrann, sem lögin setti, né aðrir, gat vitað fyrir fram, hver niðurstaða dómsins yrði. Mun það hafa komið flestum á óvart, að dómurinn var algerlega öðrum aðilanum í vil skv. niðurstöðu meiri hluta dómenda. Hygg ég, að flestir hafi búizt við einhverri millileið, eins og þeirri, sem Jón Þorsteinsson alþm. lagði til, og hefðu menn þá eftir atvikum unað við niðurstöðuna. Skal ég ekki ræða þetta frekar. En hitt vil ég undirstrika, að með þrátefli sínu í samningunum kölluðu deiluaðilarnir yfir sig hinn umdeilda dóm, en setning bráðabirgðalaganna forðaði þeim samt frá því gífurlega tjóni, sem þeir hefðu beðið, ef síldveiðiflotinn hefði legið lengur bundinn.

Lærdómurinn, sem mér finnst að útgerðarmenn og sjómenn eigi að draga af þessu í sambandi við þá nýju deilu, sem stofnað hefur verið til um kjörin á vetrarsíldveiðunum, er þessi: Við skulum setjast að samningaborðinu með þeim eindregna ásetningi að semja og ekki standa upp, fyrr en það hefur tekizt. — Annað er ekki samboðið mönnum, sem árum saman hafa beðið eftir góðum möguleikum til tekjuöflunar og hafa nú vissulega hreppt það hnoss.

Þegar fjárlög eru til umr., eru jafnan einhverjir utan þings og innan, sem hafa þá dægradvöl að reikna út, að þessi eða hinn útgjaldaliðurinn hafi fyrr á árum verið svo og svo mörg prósent af heildarupphæð fjárlaga, en sé nú miklu lægri hlutfallslega en áður var. Þeim, sem leggja þessa reikningslist fyrir sig, láist þá að geta þess, að gegnum árin verða ýmsar breytingar á fjárlögum, þannig, að þau eru alls ekki sambærileg á þennan hátt, jafnvel ekkí frá ári til árs. Það bætast stöðugt nýir gjaldaliðir við, og aðrir eru hækkaðir með lagabreytingu, Ég hef nýlega séð í blaði útreikning af þessu tagi eftir einn af hv. þm. Framsfl. Hann miðar við fjárlögin 1958 og býr sér til á þennan hátt hækkunartöluna 138% og reiknar út frá henni, hvað framlög til samgöngumála, atvinnumála, raforkumála o.s.frv. ættu að hækka mikið í frv. því, sem nú er verið að ræða. Hins vegar þegir reiknimeistarinn vandlega um þá liði fjárlaga, sem mest hafa hækkað síðan 1958, eins og t.d. félagsmál og niðurgreiðslur skv. 19. gr. Félagsmálin ein hafa hækkað síðan 1958 vegna aukningar almannatrygginganna úr 106 millj. kr. í 504 millj. kr., þ.e.a.s. um 398 millj. kr. eða nálægt 480%. Á 19. gr. voru 1958 40 millj. til dýrtíðarráðstafana. Nú eru á sömu gr. áætlaðar niðurgreiðslur á vöruverði og uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir 430 millj. kr. og til launauppbóta 65 millj. kr., eða samtals til dýrtíðarráðstafana 495 millj. kr. Er það 455 millj. kr. hærri tala en 1958, og nemur hækkunin um 1200%. Núna fær jöfnunarsjóður sveitarfélaga 101.4 millj. kr. af tekjum ríkissjóðs. Sá liður var ekki til í fjárlögum 1958. Til landbúnaðarsjóðanna er nú áætlað framlag að upphæð 81/2 millj. kr., sem þekktist ekki áður. Til aflatryggingasjóðs er nú áætlað 81/2. millj. kr. framlag, sem ákveðið var á síðasta þingi. Einnig fær byggingarsjóður verkamanna nú í fyrsta skipti 3.2 millj. kr. Allt þetta gerir það að verkum, að niðurstöðutölur fjárlaga nú, í hlutfalli við einstaka gjaldaliði, eru algerlega ósambærilegar við sömu þætti í fjárlögum 1958. Réttan samanburð er að sjálfsögðu hægt að gera, t.d. með því að bera saman sambærilega liði hvern fyrir sig hvort árið og athuga síðan breytinguna, t.d. með hliðsjón af vísitölu byggingarkostnaðar, þar sem það á við. Sú aðferð stríðir á móti meginreglu áróðursstjóranna hjá Framsókn, sem er sú að beita blekkingum, þegar staðreyndir eru ekki að þeirra skapi.

Þegar Eysteinn Jónsson, 1. þm. Austf., flutti síðustu fjárlagaræðu sína, komst hann m.a. að orði á þessa leið, eftir að hann hafði skýrt þingheimi frá miklum erlendum lántökum, sem hann sjálfur kallar „óvenjulega stórfelldar“, Eysteinn Jónsson sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Rifjast upp í þessu sambandi okkar aðaláhyggjuefni og höfuðhætta í efnahagsmálum, hin litla fjármagnsmyndun innanlands. Kemur þar margt til greina. Fólk vill ekkí leggja fyrir fjármuni sína vegna verðbólguhættunnar, en vill festa allt fé strax í því, sem kallað er raunveruleg verðmæti. Sé ég ekki annað en að við verðum í vaxandi mæli að fara inn á þá braut að verðtryggja sparifé, ef ekki næst samkomulag um að hverfa frá vísitölukerfinu í kaupgjalds- og afurðamálum. Yrði þá líka að setja vísitöluákvæði á lánsfé, a.m.k. á lánsfé til langs tíma.“

Þannig talaði Eysteinn Jónsson 13. okt. 1958, og fæ ég ekki betur skilið en sú „verðtrygging sparifjár“ og „vísitöluákvæði á lánsfé,“ sem hann talar um, jafngildi hækkun innlánsog útlánsvaxta. Það hefur síðan komið í annarra hlut að framkvæma þá vaxtahækkun, sem Eysteinn Jónsson taldi þannig nauðsynlega, og síðan hún kom til framkvæmda, 20. okt. 1960, hefur hún m.a. gefið sparifjáreigendum 171 millj. kr. í aðra hönd umfram það, sem þeir hefðu fengið, ef vaxtafótur hefði haldizt óbreyttur. Spariféð, sem fyrrv. fjmrh. taldi ónógt og hafði með réttu áhyggjur af haustið 1958, var í lok sept. s.l. 3501 millj. kr., og mundi fjmrh. haustið 1958 vafalaust hafa fagnað slíkri upphæð og gert sér far um að auka hana fremur en rýra. Með því að áætla meðalinnstæðu sparifjárins á næsta ári 3900 millj. kr. má reikna með, að hagnaður sparifjáreigenda með núgildandi vöxtum nemi 78 millj. kr. En hvað skeður nú? Nú leggja framsóknarmenn til, undir forustu Eysteins Jónssonar, að vextir, þ. á m. innlánsvextir, verði lækkaðir niður í það sama og þeir voru áður. Þannig er umhyggja Framsóknar fyrir sparifjármyndun og sparifjáreigendum rokin út í veður og vind. Það er engin furða, þó að viðskmrh. hafi átt bágt með að þekkja Eystein Jónsson fyrir sama mann og áður, þegar þeir á dögunum leiddu saman hesta sína um vaxtalækkunarfrv. Framsóknar í þessum sal. Við það tækifæri gaf viðskmrh. að marggefnu tilefni m.a. upplýsingar um bundið fé í Seðlabankanum. Heildarupphæðin var í septemberlok 389 millj. 108 þús. kr. og skiptist þannig: Frá Reykjavík 341 millj. 961 þús. kr., frá útibúum bankanna 74 millj. 600 þús. kr., frá sparisjóðum 65 millj. 719 þús. kr., frá innlánsdeildum kaupfélaga 6 millj. 828 þús. kr. Hann upplýsti einnig, að gjaldeyrisvarasjóðurinn hefði í lok september verið 87.6 millj. kr. og að fé það, sem Seðlabankinn hefur til umráða, sé að upphæð 1650 millj: kr. Það skiptist í stórum dráttum þannig: seðlavelta 600 millj. kr., eigið fé 200 millj. kr., mótvirðisfé 350 millj. kr., sparifé 500 millj. kr., samtals 1650 millj. kr. Af þessu fé Seðlabankans eru 258 millj. kr. í útlánum hjá landbúnaði og 563 millj. kr. í útlánum hjá sjávarútvegi, og gjaldeyrisforðinn er, eins og ég áðan nefndi, 816 millj. kr.

Af þessum upplýsingum verður ljóst, hversu fráleit sú kenning framsóknarmanna er, að sparifé landsmanna sé fryst og komi engum að gagni. Það er þvert á móti ýmist notað til útlána hjá atvinnuvegunum eða til þess að tryggja það, að víðskipti okkar út á við geti gengið með eðlilegum hætti. Nú reyna framsóknarmenn, eins og viðskmrh. benti rækilega á, að telja mönnum trú um, að það sé hægt að nota sömu peningana tvisvar. Þeir veifa bundnu innstæðunum framan í lánsfjárþurfandi menn og segja, að sjálfsagt sé að lána þetta fé til fjárfestingar, án þess að gera grein fyrir, hvort þeir ætla þá að draga úr lánveitingum til atvinnuveganna eða eyða gjaldeyrisvarasjóðnum. Í umræðunum á dögunum lét Eysteinn Jónsson að vísu í það skína, að hann mundi kjósa síðari kostinn, ef hann fengi rásið, því að óhætt væri að sigla djarft, eins og hann orðaði það, og nota upp þann gjaldeyrisforða, sem til væri hverju sinni. Ég skildi þessi ummæli á þann veg, að Eysteinn Jónsson vildi gera gjaldeyrisskortinn aftur að skömmtunarstjóra. En það eru áreiðanlega ekki margir, sem eru honum sammála um, að æskilegt sé að hverfa aftur til þess tíma, jafnvel ekki flokksmenn hans sjálfs.

Það, sem ég hef nú rakið, lýsir vel baráttu framsóknarmanna um þessar mundir. Þeir gera hverja tilraunina á fætur annarri til að rífa niður þann jákvæða árangur, sem orðið hefur af viðreisninni. Þeir reyna með öllum ráðum að koma af stað svo mikilli verðbólgu, að ekki verði við neitt ráðið. Allt er reynt: að skrúfa upp kaupið, lækka vextina, auka útlánin og rýra sparifjáraukninguna og ýta sem mest undir þau öfl, sem eru þjóðfélaginu hættulegust. Það er áreiðanlegt, að fleiri en viðskmrh. gengur erfiðlega að þekkja Eystein Jónsson fyrir sama mann og hann áður var, og á það sama raunar einnig við um flokk hans.

Að endingu vil ég segja þetta: Efnahagsmálin voru í tíð vinstri stjórnarinnar komin í slíka flækju, að þar var ekki samstaða um nein úrræði, og taldi þáv. forsrh. það ástand fullkomið tilefni til stjórnarslita. Var þá engum blöðum um það að fletta, að fram undan var stórkostlegt efnahagslegt hrun og atvinnuleysi, ef ekkert yrði að gert. Stjórn Alþfl. undir forustu Emils Jónssonar tók við vandanum og gerði þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar voru til þess að bægja mestu hættunni frá. Síðan komu þrír flokkanna sér saman um að gera tímabæra kjördæmabreytingu, og eftir síðustu kosningar var stofnað til þess stjórnarsamstarfs, sem síðan hefur haldizt og mun örugglega haldast út kjörtímabilið. Það út af fyrir sig sýnir þann árangur af samstarfi stjórnarflokkanna, að meiri festa hefur komizt í stjórnmálin en áður var, því að langt mun síðan ein og sama stjórn hefur setið heilt kjörtímabil. Alþfl. hefur gengið að þessu samstarfi heill og óskiptur, og hann hefur ávallt stefnt að því, sem hann taldi umbjóðendum sínum fyrir beztu. Var fyrsti liðurinn í því starfi sá að hindra stöðvun og atvinnuleysi, sem er versta böl hverrar þjóðar og bitnar harðast á lægst launuðu stéttunum. Þetta hefur tekizt, og má segja, að hver vinnandi hönd hafi haft nóg að starfa síðustu árin, og nú er svo komið, að í ýmsum greinum skortir vinnuafl. Jafnframt þurfti að koma fótum undir atvinnuvegina, til þess að hægt væri að halda í horfinu með eðlilega framleiðsluaukningu, sem er höfuðskilyrði þess, að hægt sé að bæta lífskjörin og halda áfram opinberum framkvæmdum, eins og byggingu hafna, vega, brúa, skóla, flugvalla, lagningu rafmagns o.s.frv. Allt þetta byggist á því, að atvinnuvegirnir standi traustum fótum og gefi þjóðinni góðar tekjur. Þetta hefur líka tekizt. Og jafnframt hefur verið hægt að auka stórkostlega framlög til félagsmála, eins og ég gat um áðan, en með auknum almannatryggingum er í rauninni framkvæmd mikil tekjujöfnun í þjóðfélaginu milli þeirra betur stæðu og hinna, sem minnst mega sín. Nú stendur fyrir dyrum að ganga lengra á þessari braut, m.a. með því að afnema skiptingu landsins í verðlagssvæði hjá tryggingunum. Áður var búið að afnema skerðingarákvæðin. Níðurgreiðslur á vöruverði og uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, sem nú eru áætlaðar 430 millj., eru einnig á sinn hátt tekjujöfnun og aðstoð við helzta atvinnuveg okkar, sem annars stæði enn þá verr að vígi í samkeppni við aðrar atvinnugreinar. Mikla þýðingu hefur sú ákvörðun að fá sveitarfélögunum nýja tekjustofna, hluta af söluskatti og landsútsvör, en sá tekjustofn þeirra verður á næsta ári um 130 millj. kr. Lán til íbúðabygginga hafa verið hækkuð og meira fé útvegað til þeirra en nokkru sinni fyrr, þótt ekki hafi tekizt að fullnægja allri eftirspurn eftir íbúðarhúsalánum. Það mun samt vera svo, að við séum nú nær því en oft áður að geta afgreitt allar umsóknir um slík lán. Víðskiptahömlur hafa verið afnumdar, og gjaldeyrisskortur er nú næstum því gleymt fyrirbæri. Tekjuskattur og útsvör hafa verið lækkuð og gerðar mikilvægar breytingar á lögum um þau efni, sem eru gjaldendum til stórra hagsbóta.

Hef ég nú talið fátt eitt af því, sem áunnizt hefur í stjórnarsamstarfinu, en allt þetta — og margt annað — tel ég vera til mikilla hagsbóta fyrir umbjóðendur Alþfl. Hann getur þess vegna gengið til kosninganna að vori með góðri samvizku, en á þingi flokksins, sem hefst 15. n.m., verður mörkuð stefna hans í framtíðinni. Veit ég, að flokkurinn mun hér eftir sem hingað til miða starf sitt við heill og hag landsmanna og það, að þeir geti lifað við mannsæmandi kjör í landinu og notið frelsis og menntunar til jafns við það, sem bezt gerist meðal annarra þjóða. Um þetta markmið veit ég, að flokkurinn verður reiðubúinn til samstarfs við aðra, en aldrei hefur riðið meira á því en einmitt nú, á þeim háskatímum, sem við lifum, að lítil þjóð snúi bökum saman. —- Ég þakka þeim, sem hlýtt hafa. Góða nótt.