19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

1. mál, fjárlög 1963

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh, var hér áðan m.a. að tala um samgöngumál á Austurlandi og þar mundi mikið ógert um vegagerðir og brúargerðir. Það mun rétt vera, og þó mun miklu fé hafa verið varið til samgöngumála í þeim landshluta að undanförnu. Hæstv. ráðh, lét orð að því liggja, að hv. 1. þm. Austf., sem lengi hefur verið kjörinn þm. fyrir það hérað þar austur frá, hafi staðið sig heldur slælega, þar sem svo mikið væri ógert þar eystra. Annar maður á sæti hér á þingi, sem er búinn að vera lengur á þingi en Eysteinn Jónsson, hv. 1. þm. Austf. Sá heitir Ólafur Thors og er nú hæstv. forsrh. og 1. þm. Reykn. Hann hefur alla sína þingtíð verið þm. fyrir Reyknesinga. En nú eru uppi till. um að taka 70 millj. kr. að láni til að leggja veg héðan frá Reykjavík og þarna suður á skaga, og það er nauðsynjaframkvæmd. En sá mun dómur hæstv. fjmrh., að hæstv. forsrh. hafi staðið sig ósköp illa og illa gætt hagsmuna sinna kjósenda, úr því að svona mikil þörf er að gera þar veg.

En það var nú fyrst og fremst annað, sem ég vildi segja. Það hefur verið venja hér við fjárlagaumr., að þm. hafa getað fengið svarað fsp. um einstök atriði, sem snerta fjárlagaafgreiðsluna, og ég bar fram fsp. hér í kvöld um eitt atriði. Ég benti á það, að í fjárlfrv. eins og það nú er, 22. gr., er ákvæði um það, að ríkisstj, megi ábyrgjast allt að 35 millj. kr. til bygginga og endurbóta á síldarverksmiðjum og síldarumhleðslustöðvum, og nú leggur hv. fjvn. til, að þessi upphæð verði hækkuð úr 35 millj. í 50 millj. Ég spurði um það og vil leyfa mér að endurtaka þá spurningu, hvort þessi heimild verði ekki m.a. notuð til þess að ábyrgjast lán fyrir síldarverksmiðjuna Rauðku á Siglufirði, sem hún þarf að fá, til þess að þar verði komið fram nauðsynlegum endurbótum. (KJJ: Hún er ein af þeim verksmiðjum, sem hafðar voru í huga og ég gat um í framsöguræðu minni, að ollu því, að till. var gerð um hækkun.) Ég bið afsökunar á því, það hefur þá farið fram hjá mér, ef hv. frsm. hefur gefið þessa skýringu á hækkuninni, og ég vil þá líta svo á, að þeir muni fá þarna fyrirgreiðslu, verði þessi upphæð hækkuð, eftir því sem þörf gerist, til þess að þeir geti komið þessum endurbótum fram.