02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

173. mál, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þetta frv. fylgir því frv., sem var hér til afgreiðslu áðan, um byggingasjóð fyrir aldrað fólk, og í frv. eru ákvæði um tekjuöflun til þess byggingasjóðs, eins og fram hefur komið í umr. um það mál.

Samkv, gildandi lögum ætti happdrættisleyfi dvalarheimilis aldraðra sjómanna að renna út 24. apríl 1964, en samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að leyfið framlengist til ársloka 1974, og jafnframt er ákveðið, að 40% af ágóða happdrættisins renni í byggingasjóð aldraðs fólks.

Hins vegar verður 60% af ágóðanum eftir sem áður varið til dvalarheimilis aldraðra sjómanna, og jafnframt er stjórn dvalarheimilisins heimilað að veita styrki eða lán til annarra dvalarheimila.

Eins og fram hefur komið í umr. um byggingasjóð aldraðs fólks, hefur stjórn dvalarheimilisins hug á því að styrkja rekstur og byggingu dvalarheimila annars staðar á landinu en hér í Reykjavík. og kemur þetta fram í þessu frv.

Heilbr: og félmn. mælir öll með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.