14.12.1963
Neðri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

95. mál, vegalög

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. í nútíma þjóðfélagi eru greiðar og öruggar samgöngur eitt af frumskilyrðum blómlegs atvinnulífs og fjölbreytts menningar- og félagslífs. Sú staðreynd verður ekki hvað sízt ljós á Íslandi, þar sem þjóðin býr dreifð um stórt og torfarið land. Íslendingar hafa um aldir búið við algera einangrun og vegleysi. Segja má, að reiðgatan og sjórinn hafi allt frá landnámstíð og fram á 20. öld verið þjóðvegir Íslendinga. Allt frá því að þjóðin fékk sína fyrstu stjórnarskrá fyrir tæpum 90 árum, á 1000 ára afmæli byggðar landsins, hafa vegamálin og samgöngumálin yfirleitt verið ofarlega á baugi hér á háttvirtu Alþingi.

Með vegalögunum frá 1893 er merkilegt spor stigið í sögu íslenzkra vegamála. Þá er ákveðið, að samtals 375 km leið um þéttbýlustu héruð landsins skuli gerð akfær, en þjóðvegum um 1500 km skuli haldið við sem reiðvegum. Með nýjum vegalögum árið 1907 er svo ákveðið, að þjóðvegirnir skuli einnig gerðir akfærir. En þá er svo komið, að akfærir vegir í landinu eru taldir 241 km. í dag munu akfærir þjóðvegir vera tæpir 8000 km á lengd, akfærir sýsluvegir um 2000 km og akfærir hreppavegir um 700 km. Akfærir fjallvegir munu nú vera um 600 km að lengd. Samtals munu því akfærir vegir í landinu vera nú um 11300 km. En ástand þessara vega er ákaflega misjafnt. Þeir eru nær allir malarvegir, sem bera svip veðurs og vatns á flestum árstíðum. Akvegasambandið við einstaka landshluta er enn þá mjög ófullkomið, og fjöldi byggðarlaga er einangraður og innilokaður frá því í fyrstu snjóum og fram á vor.

Talið er, að til þess að akvegakerfi íslendinga fullnægði nokkurn veginn þörfum þjóðarinnar, þurfi það ekki að lengjast mjög mikið fram yfir það, sem gert er ráð fyrir í lögum. En brýna nauðsyn ber til að bæta hina eldri vegi stórlega, til þess að þeir verði færir um að mæta þeirri gífurlegu umferðaraukningu, sem þegar er orðin og mun verða, enn fremur að ljúka lagningu þeirra vega, sem þegar hafa verið lögfestir. Bifreiðin er eina samgöngutæki þjóðarinnar á landi. Íslendingar eiga nú tæplega 30 þús. bifreiðar, en gert er ráð fyrir, að eftir 2 ár verði bifreiðaeignin orðin 35500 bifreiðar og árið 1970 um 44 þús. bifreiðar. Stórbrotin verkefni eru því fram undan á sviði vega- og umferðarmála hér á landi.

Takmarkið í vegamálunum hlýtur í fyrsta lagi að vera að skapa fullkomið og öruggt akvegasamband við alla landshluta meginhluta árs hvers,í öðru lagi að endurbæta hina gömlu vegi og gera þá færa um að mæta stóraukinni umferð og í þriðja lagi að ljúka brúarbyggingum á hátt á annað hundrað ám auk smábrúa. Endurnýja þarf allmargar hinna eldri brúa, ráðast í gerð jarðganga og framkvæma ýmsar aðrar þýðingarmiklar nýjungar, sem eiga munu ríkan þátt í greiðari umferð og öruggari samgöngum. Aukin tækni og mikill vélakostur í eigu þjóðarinnar hafa skapað möguleika stórra átaka á sviði vegamála á næstu árum. Í fjórða lagi ber svo nauðsyn til þess að bæta gatnakerfi kaupstaða og kauptúna og skapa einnig þar skilyrði greiðrar og öruggrar umferðar.

Við íslendingar verðum að átta okkur á þeirri staðreynd, að síbatnandi lífskjör fólksins skapa stöðugt aukna bifreiðaeign, og innan skamms tíma verður svo komið, að svo að segja hver fjölskylda hefur eignazt bifreið. Er þegar gert ráð fyrir, að árið 1966 muni 3 af hverjum 4 fjölskyldum í landinu eiga bifreið. Mikil breyting á vega- og gatnakerfi landsins er þess vegna óhjákvæmileg nauðsyn.

Frv. það til nýrra vega vegalaga, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. og hér er til umr., miðar að því að mæta og fullnægja þessari þörf hins nýja tíma. Það byggist á þeirri grundvallarskoðun, að fullkomnar samgöngur séu sameiginlegt hagsmunamál alþjóðar, hvort sem umbæturnar beinast að því að leggja vegi út um sveitir og sjávarbyggðir eða byggja upp nýtt og fullkomið gatnakerfi í kaupstöðum og kauptúnum. Samgönguerfiðleikarnir og umferðarvandamálin eru verkefni, sem öll þjóðin verður að sameinast um að leysa. Að því er stefnt með hinu nýja vegalagafrv., sem felur í sér þau tvö höfuðnýmæli að tryggja stóraukið fjármagn til vega- og gatnagerðar og jafnframt að skapa aukna festu í framkvæmd vega- og brúargerða með vönduðum undirbúningi framkvæmdaáætlana og aukinni yfirsýn úr framkvæmd nauðsynlegra umbóta.

Með þessu frv. er brotið í blað að því leyti, að gert er ráð fyrir, að allir skattar, sem lagðir eru á umferðina, renni eingöngu til vega- og gatnakerfisins. Áður hefur benzín- og þungaskattur gengið að verulegu leyti til almennra þarfa ríkissjóðs. Er því hér um geysiþýðingarmikil nýmæli að ræða.

Síðan vegalög voru síðast endurskoðuð, eru liðin 8 ár. Má því segja, að brýn þörf hafi verið orðin á endurskoðun þeirra. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ávöxtur af starfi milliþn., sem unnið hefur að athugun þessara mála s.l. 2 ár. Er óhætt að fullyrða, að sú n. hafi unnið mikið og gott starf. Frv. var vísað til samgmn. d. hinn 6. des. s.1. Varð að samkomulagi, að samgmn. beggja þingdeilda fjölluðu um frv. til þess að flýta afgreiðslu þess. Hefur samvinnunefnd haldið marga fundi um málið og notið þar mikilvægrar aðstoðar Sigurðar Jóhannssonar vegamálastjóra og Brynjólfs Ingólfssonar ráðuneytisstjóra, sem setið hafa nær alla fundi n. Enn fremur hefur hæstv. samgmrh., Ingólfur Jónsson, tekið virkan þátt í meðferð málsins. Loks hafa formenn beggja stjórnarandstöðuflokkanna, Framsfl. og Alþb., haft náið samstarf við n., og fulltrúi frá Alþb. hefur skv. boði n. setið fundi hennar og tekið þátt í umr. um málið. Hjá öllum þessum aðilum hefur komið fram ríkur áhugi á að hraða afgreiðslu þess og tryggja, að frv. nái lagagildi um næstu áramót. Má raunar segja, að það sýni allmikla dirfsku að ætla sér að ljúka afgreiðslu slíks stórmáls á Alþingi á fáum dögum, en eftir þá góðu samvinnu, sem tekizt hefur milli allra flokka um málið, virðist mér sem óhætt sé að gera sér von um, að það takist.

Hæstv. samgmrh. gerði svo ýtarlega grein fyrir efni þessa frv. og nýmælum þess í framsöguræðu sinni við 1. umr. málsins, að ég sé ekki ástæðu til þess að eyða miklum tíma nú til þess að nýju. N. hefur orðið sammála um að flytja allmargar brtt. við frv., en nokkur atriði, sem bar á góma í n., vannst ekki tími til að taka afstöðu til fyrir þessa umr.

Ég mun nú gera grein fyrir helztu efnisbreytingum; sem felast í þeim brtt., sem n. hefur lagt fram á þskj. 140.

1. brtt. n. er við 1. gr. frv. Er þar lagt til, að orðið „bifreiðastæði“ í 2. mgr. falli niður úr upptalningu þeirra mannvirkja, er til vegar teljast. Enn fremur er lagt til, að orðin „í beinu sambandi við vegi“ í 3. mgr. falli niður. Skýra þessar brtt. sig sjálfar.

Við III. kafla frv. eru flestar veigamestu brtt. n. Höfuðtakmark þeirra er að gera ákvæði þessa kafla skýrari og fyllti, m.a. ákvæðin um samningu vegaáætlunar gildistöku hennar og meðferð á Alþingi. Er upphaf 10. gr. frv. orðað um og lagt til, að vegamálastjóri semji till. að vegáætlun fyrir þjóðvegi, aðalfjallvegi og aðra fjallvegi til 4 ára í þessu felst einnig sú breyting, að lagt er til, að vegáætlunin gildi til 4 ára í stað 5, eins og gert var ráð fyrir í frv. Voru nm. sammála um, að 4 ár væru hófleg tímalengd vegáætlunar. Í framhaldi af þessari breyt. á áætlunartímanum leggur n. svo til í brtt., að vegáætlun skuli endurskoðast á 2 ára fresti.

Þá flytur n. þá brtt. við 11. gr., að upphaf hennar orðist þannig: „Í vegáætlun skulu taldir allir þjóðvegir svo og nýbyggingar þjóðvega á þeim tíma, sem áætluninni er ætlað að gilda.“ Með þessari breytingu eru tekin af öll tvímæli um það, að allir þjóðvegir eiga að vera greindir í vegáætluninni, hvort sem þeir hafa verið teknir upp í framkvæmdaáætlun og fé veitt til þeirra eða ekki.

Þá er einnig lagt til, að síðari málsliður 2. mgr. 11. gr. falli niður, þar sem hann þótti fela í sér óþarflega rúma heimild til framkvæmdavaldsins.

N. leggur til, að veruleg efnisbreyting verði gerð á 5. mgr. 12. gr. Er lagt til, að hún orðist á þessa leið: „Landsbraut. Vegur, sem er minnst 2 km langur frá vegamótum og nær a.m.k. til 3 býla, þannig að hann nái að þriðja býli frá vegarenda. Víkja skal frá þessari reglu, ef um er að ræða kirkjustað, opinberan skóla eða heilsuhæli, fullgerð orkuver, kauptún með færri en 300 íbúa eða tengiveg milli aðalleiða. Sömuleiðis má, þar sem aðalfjallvegur liggur upp úr byggð, telja landsbraut að innsta býli.“

Meginbreytingin, sem í þessu felst, er sú, að lagt er til, að þjóðvegur nái að þriðja býli frá vegarenda í stað fjórða, eins og lagt var til í frv. Mun af þessari breytingu leiða, að sýsluvegir styttast a.m.k. um 200 km frá því, sem gert var ráð fyrir í till. vegalaganefndar. Nefndin leggur enn fremur til í annarri brtt. við frv., að enginn vegur skuli falla úr þjóðvegatölu næstu 5 ár eftir gildistöku laga þessara, nema nýr vegur hafi komið í stað gamals. Af þessari breytingu leiðir það enn, að sýsluvegir munu styttast um rúmlega 400 km frá því, sem gert var ráð fyrir í till. vegalaganefndar. Samtals munu því sýsluvegir styttast samkv. brtt. samgmn. um 600–700 km frá því, sem gert var ráð fyrir í till. vegalaganefndar. Munu sýsluvegir þá verða fullum 200 km styttri að þessari endurskoðun vegalaga lokinni en þeir eru nú. Er það mjög í samræmi við það, sem gerzt hefur við fyrri endurskoðanir vegalaga, sem jafnan hafa haft í för með sér nokkra styttingu sýsluvega.

Eins og hv. þm. er kunnugt, gerir frv. ráð fyrir, að fjárráð sýsluveganna verði stóraukin frá því, sem nú er. Ef sýsluvegakerfið verður um 2000 km að endurskoðun vegalaga og samningu vegáætlunar lokinni, en heildarframlög til þessara vega a.m.k. þrefölduð, miðað við það, sem nú er, verður auðsætt, að unnt verður að sýna sýsluvegunum mjög aukinn sóma og vinna af allmikið auknum krafti að lagningu þeirra.

Í brtt. sinni við 14. gr. frv. gerir n. till. um það, hvernig vegáætlun skuli lögð fyrir Alþingi og afgreidd þar, en það atriði var að verulegu leyti látið opið af hálfu vegalaganefndarinnar til ákvörðunar fyrir Alþingi sjálft. N, leggur til, að 14. gr. frv. orðist á þessa leið:

„Leggja skal fyrir sameinað Alþingi till. til þál. um vegáætlun samkv. 10. gr., samtímis frv. til fjárlaga. Sama gildir um till. til þál. um endurskoðun vegáætlunar, sbr. 15. gr. Vegáætlun öðlast gildi, þegar Alþingi hefur samþykkt hana.”

Það er skoðun n., að sá háttur skuli á hafður, að í þáltill. til vegáætlunar, sem ráðh. leggur fyrir Alþingi, eða í till. um endurskoðun vegáætlunar skuli greind ósundurliðuð sú fjárupphæð, sem ætluð er til framkvæmdar hennar. Það komi hins vegar í hlut þingnefndar að fá hinar sundurliðuðu tillögur vegamálastjóra um einstakar framkvæmdir til meðferðar og geri hún síðan till. um þær til Alþingis. Með þessum vinnubrögðum væru áhrif Alþingis á stefnuna fyllilega tryggð í þessum mikilvægu málum og jafnframt stuðzt nokkuð við þá venju, sem skapazt hefur um meðferð vegamála í sambandi við setningu fjárlaga.

Í brtt. við 15. gr. frv. leggur n. til, að í upphafi hvers reglulegs Alþingis skuli ráðh. leggja fyrir þingið skýrslu um framkvæmd vegáætlunar. Enn fremur skal ráðh. hlutast til um, að endurskoðun vegáætlunar fari fram á tveggja ára fresti.

Samkv. till. samgmn. yrði gangur vegáætlunar þá sá, að vegamálastjóri semur till. að henni, en ráðh. leggur þær síðan fyrir Alþingi. Þingnefnd, sem að öllum líkindum yrði fjvn., fjallaði síðan um málið og skilaði því til þingsins, sem afgreiddi það endanlega. Vegáætlun yrði jafnan samferða fjárl. inn í þingið og mundi sennilega verða lokið um svipað leyti og fjárlög yrðu afgreidd.

Þá flytur n. brtt. við 16. gr. frv. um, að heimild ráðh. til að ráðast í vegaframkvæmdir, sem ekki er gert ráð fyrir í vegáætlun, sé við það bundin, að til hafi komið tjón á vegum, t.d. vegna vatnavaxta, eldgosa eða annarra náttúruhamfara. Var talið nauðsynlegt, að slík heimild til handa ráðh. væri fyrir hendi í lögum.

Við 28. gr. frv. flytur n. till. um þá efnisbreytingu, að vegamálastjóri skuli annast skiptingu á framlagi ríkissjóðs, sbr. 1. mgr., eftir reglugerð, sem ráðh. setur. Vegamálastjóri hefur jafnan annazt skiptingu á sýsluvegafé, og er ekki annað vitað en það hafi vel gefizt. Hins vegar er það talinn styrkur fyrir þennan embættismann, eftir að framlög til sýsluvega hafa verið stóraukin, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., að reglugerð verði sett um skiptingu þessa fjár. Taldi n. þess vegna eðlilegt, að þessi breyting yrði gerð.

Samgmn, flytur þá brtt. við 32. gr. frv., að á eftir 2. mgr. komi ný mgr., svo hljóðandi: „Greiða má af hluta sveitarfélags kostnað vegna kaupa á fasteignum í þágu þjóðvegar samkv. þessum kafla laganna.“

Bent var á það í n., að án slíkrar heimildar gæti lagning þjóðvegar í efnalitlum kaupstað eða kauptúni hreinlega stöðvazt um lengri eða skemmri tíma, þar sem sveitarfélag kynni að bresta fjárhagslegt bolmagn til þess að kaupa hús eða önnur mannvirki, sem óhjákvæmilegt væri að ryðja úr vegi vegna vegagerðarinnar.

Þá leggur n. til, að í niðurlagi síðustu mgr. sömu greinar skuli gerð smávægileg breyting, er miðar að því, að sveitarstjórn verji sínum hluta fjárframlags samkv. 1. mgr., að frádregnum viðhaldskostnaði þjóðveganna, til almennrar, varanlegrar gatnagerðar, þegar lagningu þjóðvegar um byggðarlagið er lokið.

Brtt. n. við 44. gr. miðar að því að skilgreina, hvaða fjallvegir skuli teljast aðalfjallvegir, en þeir skulu taldir sérstaklega í vegáætlun samkvæmt 10. gr.

Þá flytur n. brtt. um, að vegagerð ríkisins skuli aðstoða nýbýlastjórn við lagningu nýbýlavega og samtök hestamanna við gerð reiðvega, enda sé kostnaður greiddur af sérstakri fjárveitingu í fjárlögum eða á annan hátt. Er hér kveðið nokkru fastar að orði en gert var í greininni samkv. till. vegalaganefndar.

Við 59. gr. flytur n. þá brtt. að við hana bætist ný mgr., svo hljóðandi: ,.Veghaldari skal jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við vegagerð og græða upp sár, sem myndast á grónu landi við vegaframkvæmdir.“ Er hér um að ræða eðlilegt og sjálfsagt ákvæði, sem skýrir sig sjálft.

Þá er lagt til, að síðasti málsl. 60. gr. falli niður. Í þessum málsl. var kveðið á um það, að kostnað við yfirmat skuli sá greiða, sem þess hefur krafizt, ef matsupphæðinni verður ekki breytt honum í vil meira en 10% af matsupphæð undirmatsins, ella teljist hann með öðrum skaðabótakostnaði. Hæstaréttardómur hefur nýlega fallið, þar sem talið er, að þetta ákvæði eigi ekki stoð í stjórnarskrá lýðveldisins, og taldi því n. sjálfsagt að fella það niður úr frv.

Lagt er til, að smávægileg breyting verði gerð á upphafi 80. gr., þar sem ræðir um það tilvik, að vegur er lagður gegnum land manns. Samkv. frv. á hann þá rétt á að fá óhindraðan aðgang að veginum á einum stað frá landareign sinni. N. leggur til, að sú breyting verði gerð á þessu ákvæði, að landeigandi eigi rétt á að fá óhindraðan aðgang að veginum af a.m.k. einum stað frá landareign sinni.

Í niðurlagi ákvæðis til bráðabirgða er svo lagt til, eins og áður er sagt, að enginn vegur skuli falla úr þjóðvegatölu næstu 5 ár eftir gildistöku laga þessara, nema nýr vegur hafi komið í stað gamals. Að 5 árum liðnum gefst svo Alþingi tækifæri til þess að taka afstöðu til þessa atriðis að nýju í ljósi þeirra viðhorfa, sem þá hafa skapazt.

Aðrar brtt. við ákvæði til bráðabirgða leiðir af styttingu þess tímabils, sem vegáætlun og framkvæmdaáætlun fyrir sýsluvegi er ætlað að gilda og áður hefur verið gerð grein fyrir. Gangur þessara mála verður þá þannig, að ráðh. mun snemma á næsta ári leggja fyrir Alþingi till. til bráðabirgðavegáætlunar, sem gilda á fyrir árið 1964. Framkvæmdaáætlun fyrir sýsluvegi hlýtur einnig að verða gerð til bráðabirgða fyrir það ár. Hins vegar ber ráðh. að leggja fyrir reglulegt Alþingi haustið 1964 till. til vegáætlunar, sem gilda á fyrir árin 1965–1968, þ.e. næstu 4 ár.

Aðrar brtt. samgmn. við frv. eru þess eðlis, að ekki er þörf frekari skýringa á þeim, enda eru sumar þeirra aðeins orðalagsbreytingar.

Eins og ég gat um í upphafi, vannst samvinnunefndinni ekki tími til þess á þeim stutta tíma, sem hún hafði til athugunar þessa stórmáls, að taka afstöðu til allra atriða og brtt., sem þar bar á góma, þ. á m. til ákvæða 32. gr. frv. og erindis frá forráðamönnum Kópavogskaupstaðar, sem telja, að ákvæði 34. gr. frv. skapi byggðarlagi þeirra mikinn vanda og taki ekki til greina algera sérstöðu byggðarlagsins. N. mun að sjálfsögðu taka þetta mál og ýmis önnur til athugunar fyrir 3. umr. frv.

Ég vil svo að lokum geta þess, að mjög góð samvinna hefur ríkt innan beggja samgöngumálanefnda þingsins um þetta mikilvæga mál. Það er ósk og von nefndanna, að þetta frv. megi verða að lögum, áður en þingi verður frestað fyrir jól, og með hinni nýju löggjöf verði lagður grundvöllur að stórfelldum umbótum í samgöngumálum þjóðarinnar til sjávar og sveita.

Samkv. framansögðu leggur samgmn. einróma til, að frv. til vegalaga, sem hér liggur fyrir, verði samþykkt með þeim breytingum, sem n. hefur flutt á þskj. 140.