17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

95. mál, vegalög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er auðvitað með öllu gagnslaust að vera að karpa hér við hæstv. ráðh. um málið á þessum grundvelli. Það vitanlega útskýrir ekkert í þessu máli, þó að hann sé að tala um það, að ég hafi sérstakar áhyggjur af því, að þessir tekjustofnar muni gefa of mikla peninga, eða eins og hann sagði, að það verði of mikið fé til ráðstöfunar. Þetta eru auðvitað hreinir útúrsnúningar og ekkert annað. Hæstv. ráðh. skilur mætavel, hvað um er að tefla. Ég vil, að ríkissjóður leggi áfram jafnmikið úr sínum almenna sjóði til vegagerðarmála og hann hefur gert, og að nýi skatturinn, sem nú á að leggja á, komi allur til viðbótar til vegagerðarframkvæmda. Þetta vil ég tryggja. Um þetta snýst málið, ekki um neitt annað. Mér er það ljóst, að ef þetta er ekki tryggt í löggjöfinni, þá er veruleg hætta á því, að þetta hlutfall glatist fljótlega og það sé engin viðmiðun til og menn segi: Já, þessir tekjustofnar hafa nú gefið það drjúgan pening og meira en menn gerðu ráð fyrir í upphafi, að það er hægt að standa undir áætluninni með þessum tekjustofni. Og þannig kippir ríkið að sér hendinni, og þá hefur framkvæmdin ekki orðið sú, sem til var ætlazt, að nýi skattstofninn, sem nú er verið að búa til, komi allur sem viðbótarframlag við það, sem ríkið hefur lagt fram til þessara mála, og auki þannig við framkvæmdirnar. Um þetta snýst málið. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því, að það komi of mikið fé út úr þessum tekjustofnum. Mér er alveg ljóst, að það er mikil þörf á því að hafa mikið fé til umráða til vegagerðarmála.

Hæstv. ráðh. viðurkennir líka, enda ekki annað hægt að gera, að það er auðvitað ekki hægt að gera með nokkrum sanni framkvæmdaáætlun fjögur ár fram í tímann án þess að vita um það, hvað ríkissjóður á að leggja mikið fram til viðbótar við tekjustofnana. Þetta er í rauninni óvinnandi verk, nema þá að áætla upphæðina eitthvað út í bláinn. Þetta viðurkenndi hæstv. ráðh. En hann sagði: Það verður í byrjuninni reiknað með sömu upphæð. — Jú, það er búið að slá því föstu, það á að reikna með upphæðinni 47.1 millj. á árinu 1964, en það er ekki búið að slá neinu föstu um það, með hvaða upphæð á að reikna í næstu fjögurra ára áætlun. Ég vil slá hlutfallinu föstu, svo að það sé hægt að miða við eitthvað. Hæstv. ráðh. segir: Sláum engu föstu, höfum allt saman á lausu.

Þó að hægt sé að segja, að það sé mikil þörf á því að leggja fram mikið fé til vegamála, og það sjá allir, að það sé þörf á því, að ríkið leggi meira, en ekki minna, þá er það vitanlega engin trygging fyrir því, að féð verði lagt fram. Það hefur fyrst verið þörf á því að leggja meira til vegamálanna en gert hefur verið. Þörfin hefur verið fyrir hendi. Það hefur ekki verið gert, vegna þess að á það hefur verið bent, að ríkið þyrfti í fleiri staði að líta en bara til vegagerðarmála.

Mér kemur ekki heldur til hugar, að þm. hætti að halda uppi kröfunni um það, að fé verði lagt fram á fjárl. til vegagerðarmála. Það kemur mér ekki til hugar. Ég veit það líka, að þm. hafa allan þann tíma, sem ég hef verið á þingi, alltaf verið að leggja til, að það væri lagt meira til vegagerðarmála en ríkisstj. hefur samþykkt. Þó að alþm. haldi áfram að berjast fyrir því, þá er það ekki trygging fyrir því, að féð komi.

Og svo er þessi endurtekning enn einu sinni, að það sé engin trygging í því, þótt þetta sé sett í lög nú, þetta hlutfall, Alþingi geti breytt því síðar. Hafði hæstv. ráðh. þetta í huga, þegar hann var að tryggja stofnlánasjóðum landbúnaðarins ákveðið framlag í lögum og montaði mjög af því, með 14 eða 20 ára útreikningi, hvað sjóðurinn yrði stór í lok áætlunarinnar, að það þýddi auðvitað ekkert að vera að binda svona árlegt framlag í lögum, því að næsta Alþingi gæti alltaf breytt upphæðinni? Hafði hann þetta í huga, þegar hann var að tryggja framtíð stofnlánadeildar landbúnaðarins? Ég held ekki. Ég held, að hann hafi ekki haft þetta í huga. Ég held, að þetta eins og fleira sýni, að hæstv. ráðh. hefur borið upp á sker í þessum efnum. Þetta er vitanlega alveg vonlaust, að ætla að rökstyðja sitt mál á þennan hátt.

Mitt sjónarmið er ekki á neinn hátt byggt á því, að það, sem nú er gert ráð fyrir að leggja fram á fjárlögum fyrir árið 1964, þessar 47.1 millj., að það sé ríflegt framlag, heldur aðeins hitt, að með því er því slegið föstu fyrir árið 1964, að allur nýi skatturinn skuli fara sem viðbótarframlag, og ég vil slá þessu föstu fyrir framtíðina líka sem lágmarki.

Ég skal svo ekki eyða lengri tíma í þetta, það er tilgangslaust. Ég hygg, að málið liggi alveg ljóst fyrir, það skilji allir hv. þm., um hvað er að tefla í þessum efnum, og þeir hafi líka áttað sig á því, hvernig á því stendur, að hæstv. ráðh. og ýmsir fleiri vilji ekki slá neinu föstu í þessum efnum, þeir vilji hafa þetta allt óákveðið. Til þess liggja auðvitað ákveðnar ástæður.