05.03.1964
Sameinað þing: 50. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (2404)

181. mál, úthlutun listamannalauna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár eru veittar 3 millj. kr. til listamannalauna, þ.e.a.s. til að launa rithöfunda, skáld og aðra listamenn. Fjárveitingar til listamannalauna hafa aukizt mjög verulega á undanförnum árum. S.l. 10 ár hafa þær numið sem hér segir: 1954 630 þús., 1955 800 þús., 1956 992608 kr., 1957 og 1958 1 millj. og 200 þús., 1959, 1960 og 1961 1 millj. 260 þús., 1962 var fjárveitingin aukin upp í 1 millj. 550 þús., 1963 upp í 2 134 456 kr. og nú á yfirstandandi ári upp í 3 millj. kr. Þessum fjárhæðum hefur mörg undanfarin ár verið skipt af þingkjörinni nefnd 5 manna. Efni þessarar till. er, að Alþ. álykti, að sami háttur skuli vera hafður á þessu sinni, að 5 manna þingkjörin nefnd skipti fjárveitingunni.

Stundum undanfarið mun till. um þetta efni ekki hafa farið til nefndar, heldur verið afgreidd við eina umr. nefndarlaust. Ég legg hins vegar nú til, að till. verði vísað til hv. allshn. í trausti þess, að nefndin afgreiði málið fljótlega. Legg ég því til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.