15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (2668)

204. mál, félagsheimili

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja hér lengi. Ég vil lýsa fylgi mínu við báðar þær till., sem hér hafa verið ræddar.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þau, að fjárþörf félagsheimilasjóðs er ærin, og ég vil segja, að ef áfram á að halda á þeirri braut, sem farin hefur verið til þessa, hvað hlut ríkisins í byggingu hvers félagsheimilis viðvíkur, þá sjáum við, að þarna hlýtur þegar að vera komið í óefni eða a.m.k. von bráðar. Tekjur sjóðsins hafa ekki vaxið að sama skapi og ég vil segja kröfurnar um stærri og dýrari félagsheimili. Nú þegar hafa verið byggð nokkur félagsheimili, sem munu hafa kostað einn tug milljóna, og mér er ekki grunlaust um, að í undirbúningi sé bygging félagsheimilis, sem kostar jafnvel fleiri tugi millj., um og yfir 20 millj. Ef félagsheimilasjóður á að standa við sínar skuldbindingar og greiða 40% í þeim tilfellum, þá sjáum við, að tekjuþörf sjóðsins mun verða ærin, þó að ekki sé þá litið á þann mikla skuldahala, sem fyrir er. Það hefur sjálfsagt verið í góðri meiningu gert að útvíkka skyldur félagsheimilasjóðs, þ.e.a.s. gefa fleiri félögum kost á því að verða aðili þar að. En ef það er gert án þess að tryggja sjóðnum auknar tekjur á móti, þá er hætt við, að notagildi samþykktar þeirra laga verði ekki sem skyldi.

Upphaflega hefur það eflaust verið meginsjónarmið að byggja upp félagsheimili vítt úti um landið, þar sem kallað er í hinum dreifðari byggðum, en kaupstaðirnir mundu fremur geta ráðið við þessi mál sjálfir. En ég hygg nú, að reyndin sé að verða sú, að einmitt kaupstaðirnir og þéttbýlið byggi upp dýrustu félagsheimilin. Það er eðlilegt. Þar eru kröfurnar mestar og aðstaðan og nauðsynin til þess að koma þeim upp einnig fyrir hendi, en fjármagn fétagsheimilasjóðs vissulega takmarkað, og þá bitnar það einnig á þeim byggðarlögum, sem ráðast í framkvæmdir af enn meiri vanefnum við að koma sér upp félagsheimilum.

Ég held, að í upphafi hefði verið betra — og það er kannske hægt að vera skynsamur eftir á — að skipuleggja þessi mál frekar en gert hefur verið, þ.e.a.s. að ákvarða stærra svæði fyrir hvert einstakt félagsheimili, að það hafi í mörgum tilfellum verið skaðlegt, að hin gamla hreppaskipan skuli hafa ráðið í þeim málum, miðað við gerbreytta samgönguhætti. í Þessu eins og mörgum atriðum öðrum er hin gamla hreppaskipan orðin — mér liggur við að segja fjötur um fót í uppbyggingu ýmissa stærri mannvirkja, sem auðveldlega er hægt að nýta af íbúum fleiri hreppa til samans. Og það er staðreynd, að þrátt fyrir það, þótt félagsheimilin hafi vissulega leitt margt gott af sér til þessa, þá hafa þó ekki alls staðar rætzt þær vonir, sem byggðar voru á tilkomu þessara glæsilegu húsa, og eins og hv. 2. Þm. Vesturl. (AP) tók réttilega fram, þau góðu skilyrði, sem þessi glæsilegu félagsheimili hafa skapað til þess að halda uppi fjölþættu félags- og menningarlífi, hafa ekki verið nýtt eins og vonir stóðu til og ég vil segja vonir standa til, að hægt sé að gera. Má vera, að ein af fleiri ástæðum fyrir því, að svo hefur orðið, sé einmitt sú, að þarna var ráðizt í byggingu stórs félagsheimilis af tiltölulega fámennu byggðarlagi, lítið fjármagn fyrir hendi, og þó að hlutur ríkisins, 40%, hafi fengizt allur greiddur, þá hefur það verið ærið átak fyrir byggðarlagið að ljúka sínum hluta. En mér er kunnugt um það, að það hefur þó ekki ávallt verið það erfiðasta að koma upp stóru og myndarlegu fétagsheimili. Það hafa margir lagt sig fram um að stuðla að því, að það yrði framkvæmanlegt á ódýrari máta fjárhagslega en ætla mætti. En þegar hefur komið að því að reka þessi hús, hefur komið í ljós, að það hefur kostað ærið mikið fé, og eins og hv. 2. þm. Vesturl. tók fram, starfsemin hefur orðið að hníga svo og svo mikið að því að afla fjár til þess — í fyrsta lagi að nokkru leyti að standa undir byggingarkostnaði og a.m.k. að verulegu leyti til þess að standa undir rekstrarkostnaði stórs samkomuhúss. Þetta hefði verið auðveldara í framkvæmd, ef stærri svæði hefðu verið aðilar að hverju félagsheimili, þar sem þannig háttar til, að það er hægt.

Það er vissulega tímabært að óska eftir því, að l. verði endurskoðuð og reynt verði að finna leiðir til þess að efla tekjur félagsheimilasjóðs.

Ef við lítum á þær framkvæmdir, sem byrjað er á, hugum að því, sem fyrirhugað er, þá er þarna um tugmilljóna kostnað að ræða, sem skv. núgildandi lögum félagsheimilasjóðs ber að styrkja að 40%, og ég vil mjög eindregið taka undir tillögu hv. 2. þm. Vesturl. um, að það verði athugað einnig í leiðinni, hvort ekki sé hægt að efla og styrkja fjölþættara félagsog menningarstarf í þessum mörgu glæsilegu félagsheimilum, sem komin eru upp.

Út af því, sem hv. 2. þm. Austf. (HA) sagði um, að það væri eðlilegt, að húsbúnaður væri kostaður eða styrktur á sama hátt, Þá veit ég, að það hefur verið gert að öðru leyti en kvikmyndasýningarvélar.

Ég veit, að miklu verður ekki úr þessu breytt um skipulag þessara mála, hvað snertir byggingu stærri og færri heimila, sem hafi að baki sér stærri heildir en orðið er nú þegar. Stefnan er nokkuð mörkuð í þessu. Ég viðurkenni, að víða er þetta ekki hægt öðruvísi. Annars staðar liggur þetta mjög vel fyrir. Ég vil sérstaklega leggja áherzlu á, að það er nauðsynlegt að

reyna a.m.k. að sameina sem flesta aðila um byggingu félagsheimilis, þar sem það er mögulegt. Og ég vil í leiðinni vekja athygli á því, að ég hygg, að þróunin sé mjög sú hin sama varðandi byggingu íþróttamannvirkja. Við erum skemmra á veg komnir í því að byggja upp íþróttamannvirki vítt úti um landið, en það væri fyllilega ástæða til þess að sporna við því, að það yrði sams konar þróun, hvað snertir byggingu þeirra, og að leggja beri áherzlu á að reyna að sameina enn fleiri aðila um hvert einstakt mannvirki þar heldur en gert hefur verið að mínu viti varðandi félagsheimilin.