05.11.1964
Neðri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

19. mál, lækkun skatta og útsvara

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð út af ræðu hv. 3. þm. Sunnl., sem ég þarf að segja hér.

Hv. 3. þm. Sunnl. sagði, að við hefðum ekki bent á tekjuleið í sambandi við þetta frv. okkar, þótt ég benti hins vegar á það, að þessi tekjustofn, tekju- og eignarskatturinn mundi, miðað við það, ef hann hefði gefið að óbreyttum lögum 480–500 millj. kr. tekjur á næsta ári, eins og segir í grg. fjárlagafrv., þá hlýtur hann að fara á annað hundrað millj. kr. fram úr áætlun á þessu ári. Það hefði því ekki verið goðgá, þó að þessu hefði verið skilað aftur til þeirra, sem oftekið var af. Ég vil líka benda á það, að tekjuafgangur ríkissjóðs s.l. ár hefur numið hundruðum millj. og eitthvað verður maður að ætla, að eftir sé af honum.

Í sambandi við það, sem hann ræddi hér um till. um ráðstöfun á söluskatti, sem mun hafa verið hér á þingunum eftir 1950, — ég man ekki nákvæmlega, hvort það var 1953 eða 1954, — en þar mun hafa verið gerð till. um að ráðstafa tekjustofni, sem ríkissjóður þá hafði, en ekki eins og gert var, þegar jöfnunarsjóðurinn varð til, að taka hluta af tekjustofni, sem tekinn var upp og þá við það miðaður, hafður það hár, að þessu var ráðstafað á þann hátt, að til jöfnunarsjóðsins gengi nokkur upphæð.

Hv. 3. þm. Sunnl. vék einnig að jöfnunarsjóðnum og því, sem ég hafði sagt um það, að dýrtíðin hefði þynnt hann mjög út. Ég vil máli mínu til sönnunar nefna til þess að sýna, að þrátt fyrir þennan tekjustofn hafa útsvörin verið hærri en áður hefur verið, dæmið sem ég nefndi hér áðan um blaðamann Alþýðublaðsins, sem sagðist hafa fylgzt með þessum málum í 40 ár og ekki hafa orðið var við annað eins og nú hefði verið á borð borið. Ég vil líka nefna það, að hér hafa verið gerðar á þessu ári meiri ráðstafanir eða meira talað um ráðstafanir, en nokkru sinni hefur átt sér stað fyrr út af skattskránni, sbr. hinn sögulega fund hæstv. ríkisstj., sem stjórnarblaðið Alþýðublaðið skýrði frá í ágúst í sumar. Þetta sýnir, að dýrtíð núv. hæstv. ríkisstj. hefur lagt að velli þennan tekjustofn og meira þó.

Hv. 3. þm. Sunnl. sagði, að ég hlyti að vera minnugur þess, að dýrtíð hefði átt sér stað hér á landi fyrr en nú og nefndi þar til, er vínstri stjórnin fór frá völdum. Ég er minnugur þess, að dýrtíðin hefur verið til hér á landi fyrr en nú, þó að aldrei muni hún hafa vaxið jafnmiklum risaskrefum og síðustu ár. Ég vil Iíka segja það, að vinstri stjórnin ætlaði sér að stöðva þessa dýrtíð. Henni tókst það ekki og hún náði ekkí samstöðu um það, sem forsrh. lagði til að gert yrði til að stöðva dýrtíðina og þá sagði hann við þing og þjóð: Fyrst stjórnin nær ekki samstöðu til að leysa það verkefni, sem hún tók að sér, þá segir hún af sér til að gefa öðrum kost á að leysa það, ef þeir geta betur. — Hvað gerðist upp úr því, að sú stjórn sagði af sér? Það var mynduð samstaða Sjálfstfl. og Alþfl. Og hvað var höfuðmarkmiðið? Það var að stöðva dýrtíðina í landinu, og því var lýst yfir, að það hefði tekizt. Og hvað segja svo staðreyndirnar? Þær segja, að dýrtíðin hafi vaxið hraðari skrefum, en áður átti sér stað. En ríkisstj. situr þrátt fyrir það, því að hennar takmark er að sitja í ráðherrastólunum, en ekki að leysa verkefnin, sem hún lýsti yfir að hún mundi leysa.

Hv. 3. þm. Sunnl. vildi enn á ný reyna að halda því fram, að ekki væri ráðstafana þörf út af álagningu skatta á s.l. sumri. Ég ætla ekki að fara að leiða hér mörg vitni til viðbótar því, sem leidd hafa verið fram í þessum umr., en vil þó með leyfi hæstv. forseta — vitna í ummæli forseta A.S.Í, hv. 5. þm. Vestf., en hann segir 17. ágúst m.a. þetta :

„Það er réttilega sagt, að hækkun skatta jafngildir verulegri kauplækkun og ógnar þeim friði, sem um var samið:

16. ágúst er sagt frá ályktun Alþýðusambands Íslands í Þjóðviljanum, en hún var gerð 15. ágúst. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stað lækkunar skatta hefur hin ofsalega skattahækkun, sem nú blasir við, komið eins og reiðarslag og lamað launastéttirnar. Skattabyrðar þær, sem launþegum er ætlað nú að bera, jafngilda verulegri kauplækkun og ógna þeim friði, sem um var samið.“

Ég undrast, hvað þeir, sem að þessum ályktunum stóðu, hafa verið rólegir og það er fullkomin þörf á því að vera á verði út af þeirri skattaframkvæmd, sem átti sér stað á s.l. sumri.