05.11.1964
Neðri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

19. mál, lækkun skatta og útsvara

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í sambandi við þetta frv. hafði ég ekki hugsað mér að segja fleiri orð að sinni en það, sem ég gerði við fyrri umr. málsins. En það eru tvö atriði, sem fram hafa komið í þessum umr., sem ég vildi aðeins minnast á.

Annað er það, að því er haldið fram, að tekjuskattur til ríkissjóðs muni fara svo stórkostlega fram úr áætlun fjárlaga á þessu ári, að það fé megi nota til þess að lækka tekjuskatt og útsvör. Hér er um algeran misskilning að ræða. Í fjárlögum fyrir árið í ár er tekjuskatturinn áætlaður 255 millj. kr. Álagður tekjuskattur á öllu landinu í ár var upphaflega um 300 millj. kr. Eftir þeim venjum og reynslu, sem verið hefur undanfarin ár um, hversu mikið greiðist annars vegar af álögðum skatti það ár og hins vegar af eftirstöðvum frá fyrri árum, liggur fyrir áætlun um það nú, að tekjuskatturinn, sem greiðist til ríkissjóðs í ár, verði um 265 millj., m.ö.o. 10 millj. hærri en fjárlög gera ráð fyrir. Það er því alger misskilningur, að hér sé um stórkostlegar fjárfúlgur að ræða, jafnvel á annað hundrað millj., sem verði þarna umfram af tekjuskatti til ríkissjóðs í ár.

Hér var minnzt í öðru lagi á þörfina á lánastofnun fyrir sveitarfélögin og áskoranir til ríkisstj. um að gera eitthvað í þeim efnum. Ég vildi minna á það, sem ég hélt að hv. alþm. væri kunnugt, að í ágústmánuði árið 1963, í sambandi við þing Sambands íslenzkra sveitarfélaga, skipaði ég n. manna til að athuga og undirbúa stofnun lánasjóðs eða lánsstofnunar fyrir sveitarfélögin og væri ætlunin sú, að sú stofnun gæti bætt úr tvenns konar þörf hjá sveitarfélögunum, annars vegar stofnfjárþörf eða þörf fyrir fjárfestingarlán og hins vegar þörf þeirra fyrir rekstrarfé. Þessi n., en formaður hennar er Jónas Guðmundsson, formaður Sambands íslenzkra sveitarfélaga, hefur unnið mikið starf að undanförnu og mun í þann veginn að ljúka störfum nú og skila sínum till. til ríkisstj. Þetta mál hefur því verið undirbúið og kemur sem sagt frá n. með grg. og till. væntanlega næstu daga.