30.11.1964
Neðri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2462)

83. mál, veiting prestakalla

Fram. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Menntmn. flytur frv. þetta samkv. ósk hæstv. dóms- og kirkjumrh. Einstakir nm. áskilja sér að vanda allan rétt í afstöðu sinni til málsins og hafa um það óbundnar hendur.

Frv. þetta fjallar um afnám prestskosninga og gerir ráð fyrir annarri skipun í þeirra stað, er eigi að tryggja íhlutun safnaðanna um val presta sinna.

Málið á alllangan aðdraganda, mun fyrst hafa verið rætt að marki á prestastefnu 1960, síðan á kirkjuþingi sama ár, en fór eftir það til héraðsfunda um land allt. Bárust þaðan allmargar álitsgerðir. Var málið síðan lagt fyrir kirkjuþing árið 1962 og með nokkrum breytingum samþ. þar með 10:5 atkv.

Frv. var flutt af menntmn. þessarar hv. d. snemma á árinu 1963, samkv. ósk dóms- og kirkjumrh. Það náði ekki fram að ganga. Hinn 23. okt. s.l. sendi hæstv. kirkjumrh. menntmn. frv. á nýjan leik með þeim tilmælum, að n. flytti það að fenginni umsögn kirkjuþings. Kirkjuþing kom saman rétt í þann mund, og var frv. til þess sent.

Frv. var lagt fyrir kirkjuþing, sem eftir allmiklar umr. samþ. það óbreytt með 10:4 atkv. Eru nánari upplýsingar um þá atkvgr. í grg., sem frv. fylgir.

Þar sem mál þetta hefur áður verið fyrir hv. d., sé ég ekki ástæðu til að hafa frekari efnislega framsögu, en vil, herra forseti, leggja til, að því verði að lokinni umr. vísað til 2. umr.