20.04.1966
Neðri deild: 74. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég vil gera eftirfarandi grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Söluverð rafmagns er lágt, staðsetning álbræðslunnar umdeilanleg og vinnuaflsskortur á vissum stöðum. Við eigum að horfa fram á við frekar en til baka. Rúnir framtíðarinnar fær enginn lesið með vissu. Litlar líkur eru til, að hliðstæður síldarafli og 1965 verði varanlegur um árabil. Íbúum landsins fjölgar, og vissar iðngreinar geta dregizt saman, ef tollvernd minnkar. Á þjóðarhag ber að líta frekar en deilur um staðsetningu og tímabundna örðuleika. Ég álít það jákvæðast við álbræðsluna, að ráðgert er að verja útflutningsskatti af framleiðslunni til að efla atvinnuvegi úti á landsbyggðinni, en meira en vafasamt er, að fé fengist til þess á annan hátt, svo að nokkru næmi. Sé það fé notað af hagsýni og réttsýni, sem ég vona að verði, getur það gert mikið gagn. Ég vil því eigi greiða atkv. á móti þessu frv., þó að það sé háð vissum vandkvæðum, og greiði því eigi atkv. um þessa gr. eða frv. í heild.