18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla nú ekki að fara að taka upp hérna almennar stjórnmálaumr. í sambandi við þetta frv., eins og hv. síðasti ræðumaður gaf þó tilefni til. En af því að við höfum nú tækifæri til þess að ræða saman hér á seinna stigi þessa máls og um fleiri mál, held ég, að ég geti sparað mér það núna, enda legg ég áherzlu á, að þetta mál komist sem fyrst til n. Hv. þm. fagnaði því, að þetta frv. var fram komið, lýsti ánægu sinni yfir því, að vel hefði til tekizt, að samkomulag hefði náðst í meiri hl. n. og að þetta frv. er til orðið. Það út af fyrir sig er ágætt að fá þá viðurkenningu.

Það er rétt, að í. um framleiðsluráð voru sett 1947 og samkv. þeim hefur Sexmannanefnd starfað. En ef málið er rétt skoðað, hefur Sexmannanefnd verið starfandi frá því 1943. L. um Sexmannanefnd var aftur á móti breytt 1947 og ýmis ákvæði tekin inn í þau, sem ekki voru áður í sexmannanefndarlögunum, en grundvöllurinn, sem starfað hefur verið eftir, er síðan 1943. Þetta er vitanlega aukaatriði, en þó rétt að það komi fram, vegna þess að þessi hugsun, að stéttirnar vinni saman, kom fram á þinginu 1943 og var lögfest þá, og hefur í aðalatriðum verið unnið eftir þeim sjónarmiðum síðan.

Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir hv. þm., þegar hann var að tala um, að það hefðu tvisvar verið gefin út brbl., vegna þess að aðilar neituðu að tilnefna í n., og það er rétt. Það var haustið 1959 og aftur á s.l. hausti. En þótt ótrúlegt sé, þá held ég, að hv. þm. hafi sagt, að bændur búi að nokkru leyti enn þá að því, hvernig gengið var frá búvöruverðinu 1959–60. Það getur verið, að ég hafi heyrt skakkt, og það er sennilegast. Það er nú vitað, að þessi 3%, sem voru dregin af bændum með brbl. haustið 1959, voru að fullu greidd frá því að afurðasala byrjaði, og það er í fyrsta sinn nú, sem ég heyri því slegið fram, að bændur hafi tapað á því, að tekin var upp trygging fyrir útflutninginn 10%, þannig að ég hygg, að þarna sé um einhvern misskilning að ræða eða mismæli.

Þá er það misskilningur hjá hv. þm., að þótt þetta frv. sé fram komið, sé ekki þörf á því að ræða brbl., sem liggja hér fyrir þessari hv. d. Það gæti verið, að það gerðist ekki neitt, þótt þau væru látin daga uppi, en ég sé nú ekki áslæðu til annars en að þetta frv., sem hefur verið lagt fram til staðfestingar á brbl., verði alveg rætt til enda, og þess vegna er ekki ástæða til að fara nú að ræða brbl. og ekki þá dóma, sem hv. þm. lagði á þau. Sjálfur er hv. þm. bóndi og gæti þess vegna tekið undir með öðrum bændum, að málið hafi verið leyst vel á s.l. hausti. En hann er þm., hv. ræðumaður, og vill nú nota tækifærið til að koma því fram, að hann sé þó ekki að öllu leyti sammála mér, þó að hann sé út af fyrir sig samþykkur þessu frv., sem ég hef lagt hér fram. Það er nú rétt að vísu, að hv. l. þm. Vesturl. (ÁB) og ég erum sjaldan alveg sammála hér í hv. d. Það er mjög sjaldgæft, ef það er, en vissulega er það framför, þegar hv. I. þm. Vesturl. lýsir ánægju sinni yfir frv., sem ég legg fram í jafnviðkvæmu máli og verðlagsmálum búvöru.

Ég hef nú ekki heyrt það frá þessum hv. þm. eða öðrum, sem gagnrýna brbl. á s.l. hausti, hvernig hefði átt að leysa þann vanda, sem þá steðjaði að, með öðrum hætti en gert var. Það er talað um, að samningsrétturinn hafi verið tekinn af bændum. Átti ríkisstj. að taka upp samninga við bændur? Var það lögum samkvæmt? Löggjöfin um verðlagninguna var sprungin, og það varð að leysa þetta mál til bráðabirgða, reyna að finna úrræði, sem gætu að gagni komið og verið sanngjörn bæði fyrir bændur og neytendur. Það er vitanlega alltaf vandi að sigla bil beggja, þannig að fundin sé hin sanngjarna leið, sem allir geti sætt sig við, en það hafa nú ýmsir mætir menn úr mörgum stéttum haldið því fram, að þetta hafi tekizt í þessu tilfelli.

Hitt atriðið, að það hafi verið fullyrt 1960, að 10% ákvæðið um útflutningsuppbæturnar tryggði bændum alltaf fullar útflutningsbætur, það efast ég nú um. Það hefur kannske verið sagt eitthvað á þá leið, að það væri líklegt, af því að það vantaði nú svo mikið á 1960, og það var vegna þess, að þá var framleiðsla búvörunnar svo miklu minni en núna.

Svo er það rétt, sem hv. þm. sagði, að dýrtíðin hefur vaxið síðan 1960, hún hefur vaxið of mikið, en dýrtíðin hefur bara vaxið með hverju ári núna í þrjátíu ár, hverjir sem hafa verið í stjórn. Við skulum þess vegna ekki tala um þetta núna eins og það hafi engin dýrtíð verið áður og dýrtíðin hafi aldrei vaxið áður. Það er hægt að nefna prósenttölur um dýrtíðarvöxt frá ári til árs alla tíð, ef við kærum okkur um, en ég ætla að bíða með að rökræða frekar við hv. þm., þar til annað tækifæri gefst. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeim undirtektum, sem frv. fékk hjá hv. ræðumanni.