21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ríkisstj. hefur lagt hér fyrir þingið frv. til l. um Fiskveiðasjóð Íslands. Ég hef ekki orðið var við neinar óánægjuraddir meðal útvegsmanna eða þeirra, sem fiskvinnslustöðvar reka, með lög Fiskveiðasjóðsins að því undanskildu, að það komu oft fram óskir um það, að vextir væru lækkaðir. En það fékkst ekki fram. Vera má, að því hafi verið hreyft að sameina Stofnlánadeildina og Fiskveiðasjóðinn, en ég hef ekki verið á þeim fundum. En háværar hafa þær raddir ekki verið. Það er ekki þar fyrir, að ég veit það, að þeir, sem fást við fiskvinnslu og fisköflun, eru fegnir að flytja sig úr Seðlabankanum og jafnvel Landsbankanum og yfir í Fiskveiðasjóðinn, þannig að ég býst við, að það skapi frekar ánægju meðal útvegsmanna heldur en hitt, því að okkur hefur yfirleitt líkað vel við Fiskveiðasjóðinn. Elías Halldórsson hefur skilið erfiðleika útvegsins, og þó að hann sé dálitið erfiður, þegar á að hefja lán, er hann raungóður ef erfiðleikar koma fyrir og skilur það, að dráttur getur orðið á greiðslum, jafnvel þó að vilji sé fyrir hendi áð inna þær af höndum. En hvað sem því líður, hvort sem þetta hefur verið gert eftir eindregnum óskum eða alls engum óskum hjá útvegsmönnum að breyta hér mörgum ákvæðum viðvíkjandi Fiskveiðasjóði, er það ekki aðalatriðið úr því, sem komið er, heldur þau lög, sem hér liggja fyrir. Ég sá ástæðu til að biðja um orðið hér við l. umr. til að benda á nokkur atriði, sem ég taldi, að hagkvæmara væri að haga á annan hátt. Hæstv. sjútvmrh. sagði, að tilgangur l. væri að gera hlutina einfaldari og hagkvæmari en verið hefði. Ég satt að segja er ekki sannfærður um, að þeir verði einfaldari og hagkvæmari með þessum l. heldur en þeim l., sem áður voru.

Í stjórn bankans eða stjórn Fiskveiðasjóðsins, — ég á ef til vili ekki að kalla það banka, en væri fullkomin ástæða að hafa það sjálfstæðan banka ekki síður en aðra banka, því að hann hefur meira hlutverki að gegna en ýmsar aðrar stofnanir í þessu landi, — eiga þrír bankar að velja fulltrúa. Það er ekki tekið fram, hverjir eiga að gera það í þessum bönkum, hvort það eiga að vera bankastjórarnir eða bankaráðið. En ég held, að það væri gleggra að hafa það ákveðið. Annars virðist mér það hjákátlegt, að þrír bankar séu að kjósa stjórn fyrir stofnun, sem er sjálfstæð, byggð upp af ríkissjóðnum og útvegsmönnum sjálfum, fyrst og fremst af útvegsmönnunum, þá eiga þrír bankar að kjósa stjórnina. Ég held, að Elías Halldórsson hafi ráðið hlutunum þarna og ég held, að það hefði ekki verið til bóta, að fleiri hefðu blandað sér mikið í það. En svo á þessi maður að fara að eiga húsbændur frá þremur stofnunum. Þetta er vitanlega til að gera aðstöðu hans alla veikari og lakari og þar að auki er það skv. ákvæði í 8. gr. þessara l. í verkahring þessara fulltrúa, sem bankarnir eiga að kjósa, að taka ákvarðanir um útlán sjóðsins og lánskjör. Mér skilst, að samkv. því eigi forstjórinn, hvort sem það er Elías Halldórsson eða ekki, ekki að hafa vald til að ráða þessu, heldur eigi þessir fulltrúar að gera það, þannig að eftir því eigi hann að vera þarna bara skrifstofumaður. Ég skal ekki segja, hvernig þetta verður framkvæmt, það getur enginn maður sagt, það fer eftir því, hvernig liggur á þessum fulltrúum, sem eru valdir af þessum þremur bönkum, hvað þeir eru ráðríkir og hvað þeir eru afskiptasamir. En það má nærri geta, hvort það gerir aðstöðu þessa forstjóra sterkari, ef hann þarf að eiga fulltrúa frá þremur bönkum fyrir húsbændur. Ég sé ekki, að það geri hlutina einfaldari, eða hagkvæmari í rekstri, ef þarna er nokkurs konar þríhöfða kerfi. Það hefur nú yfirleitt ekki gengið betur að stjórna með þremur höfðum en einu, ef það eina er bara í lagi. Hann þarf að sækja öll fyrirmæli til þessara þriggja banka. Ég veit ekki, hvort einhver þeirra á að hafa neitunarvald, en sennilega á meiri hl. að ráða. En það er nú þannig, er menn hlífast við að bera einn ofurliði, þannig að einn bankinn, ef honum þóknaðist svo, gæti krafizt þess með hnefann í borðið, að einhver aðili fengi fyrirgreiðslu. Eg sé ekki, að þetta sé að gera hlutina einfaldari eða hagkvæmari. Ég fyrir mitt leyti vildi miklu heldur hafa það eins og það er, að maður fengi að tala við einn mann og hann réði hlutunum, jafnvel þó ég geri ekki ráð fyrir, að þeir fái neinn, sem er alfullkominn. Það er eins og hv. 5. þm. Austf. benti á hér áðan, þetta er ekki hliðstætt hjá öðrum stofnunum, t.d. hjá Bústofnslánadeild landbúnaðarins. Verður þá ekki næsta skrefið eins og hv. 5. þm. Austf. sagði, að það verði farið að breyta þessu í öðrum greinum. Er ekki alveg eins mikil ástæða til þess í landbúnaði, iðnaði og verzlun, að þar yrði öllum þessum fyrirtækjum stjórnað þannig af bankastjórum eða bankaráðum — það þyrfti nú raunar að vita, hvort heldur væri, svo þetta lenti ekki í einum graut, hver ætti nú að kjósa þessa blessaða fulltrúa — frá öllum þessum bönkum. Annars held ég að fólki sé farið að ofbjóða þetta bankavald. Það má varla hundur pissa upp við vegg nú orðið án þess að Seðlabankinn fari eitthvað að vasast í því og skipta sér af því, alls staðar þarf hann að hafa fingurna og öllu þarf hann að stjórna. Ég sé ekki að þetta sé til að gera hlutina einfaldari eða hagkvæmari. Svo er gengið algerlega fram hjá útvegsmönnum. Ég hef heyrt ávæning af því, að L.Í.Ú. hafi alls ekki verið sent þetta frv. til umsagnar. Ég veit ekki, hvort Elías Halldórsson hefur nokkru fengið að ráða um þetta. Ég held, að fyrirkomulagið sé gott eins og það var, að framkvæmdastjórinn fái að ráða miklu og svo bankastjórar Útvegsbankans, það sé einfalt. Það er algerlega gengið fram hjá útvegsmönnum. Ætli væri ekki nær að lofa þeim að hafa einn fulltrúa í þessari stjórn heldur en að hafa fulltrúana úr þremur bönkum? Ætli væri ekki eins gott að þeir hefðu einn, eins og Landsbankinn tvo? Ég held, að ekki sé hægt að ganga fram hjá því, að útvegsmenn eru árlega reyttir um tugi milljóna inn í þessa stofnun og eiga svo engu að ráða, en vera algerlega ofurseldir duttlungum annarra. Fyrir utan það, að þetta er ekkert hliðstætt því sem er með aðrar stofnanir, og það má vera, að það sé meining ríkisstj. að fara að hafa þetta svona með allar stofnanir eða allar atvinnugreinar, að setja þær undir stjórn þriggja banka. En það er ekkert meiri ástæða til þess með sjávarútveginn heldur en aðra atvinnuvegi að taka, eins og virðist eiga að gera samkv. þessum lögum, alveg völdin af framkvæmdastjóranum. Mér skilst þessir fulltrúar bankanna eigi að veita lánin, eða a.m.k. að samþykkja þau.

Þá er í 15. gr. talað um vaxtakjörin og orðað þannig: „Vaxtakjörin skulu ákveðin af stjórn Fiskveiðasjóðs að höfðu samráði við sjútvmrh. og Seðlabankann.“ Þarna er aftur komið þríhausakerfið. Sjútvmrh. og Seðlabankinn og fulltrúarnir þeir eiga að ákveða vaxtakjörin. Nú held ég, að það sé þannig með Stofnlánad. landbúnaðarins, að ákveðnir séu í l. 61/2% vextir, og það hefur verið í Fiskveiðasjóðnum líka. Því á ekki að ákveða vextina í l., eins og verið hefur og er hjá hliðstæðri stofnun eins og Stofnlánadeild landbúnaðarins, og skilja útvegsmenn og fiskvinnslustöðvarnar algerlega eftir í öryggisleysi. Nú er það þannig með þessa blessaða víxlavexti, að þeir voru hækkaðir um 1% við síðustu áramót, og mér varð hugsað, að það væri af því að þeir hefðu lítið að gera, þessir herrar í Seðlabankanum, en ekki af því, að þetta hefði mikil áhrif. Dettur eiginlega nokkrum manni í hug, að það hafi dregið úr beiðni um lánsfé við þessa 1% hækkun? Næst áður lækkuðu þeir, þá um 1%. Þetta er bara til að hafa eitthvað að gera, því vitanlega er verðbólgan ör, 1% hefur hreint ekkert að segja til eða frá. Ef á að reyna að koma á einhverri stöðvun með það, að menn séu alltaf að biðja um lán og festa peninga sína í öllu mögulegu, þá verður vitanlega að stöðva verðbólguna,en 1% til eða frá á vöxtunum, það hefur ekkert að segja. Það er bara til að hlæja að því. Við vitum allir, hvað íbúðirnar hafa hækkað ört síðustu tvö árin. Hvað ætli 1% ársvextir hefðu að segja viðvíkjandi því? Þarna eru útgerðarmenn skildir eftir í algeru öryggisleysi. Raunar er sagt: „enda séu vextirnir ekki hærri en Seðlabankinn ákveður vexti hæsta af sambærilegum skuldum.“ Hvaða skuldir eru sambærilegar? Í raun og veru, ef á að taka lán til sjávarútvegsins, þá eru engar skuldir sambærilegar, því að þetta eru miklu áhættumeiri lán. Það er ekkert líkt með Stofnlánadeild landbúnaðarins, hvað það er meira öryggi, sem kemur fram í því, að það eru miklu betri skil á þeim skuldum, heldur en hjá sjávarútveginum. Vitanlega græða sumir, en ef afli bregzt, þá er hætta á, að menn geti ekki staðið í skilum, þannig að þetta eru áhættusömustu lánin. Ég er ekkert að segja, að þetta verði misnotað, en þarna er um algert öryggisleysi að ræða.

En svo kemur rúsínan í pylsuendanum, það að dráttarvextir skulu vera 1/2% á hálfum mánuði. Það eina, sem er ákveðið, eru dráttarvextirnir og í viðbót skal vera 1/2% fyrir hvern byrjaðan hálfan mánuð, sem greiðsla dregst, takið þið nú eftir, þannig að ef við skuldum 1 millj. í 32 daga, verðum við að gera svo vel að greiða af henni vexti í 11/2 mánuð og við skulum taka vexti af 1 millj. t.d., sem er fallin í gjalddaga, ekki stór upphæð í Fiskveiðasjóði. Þá eru mánaðarvextir reiknaðir með, 12%, dráttarvextir eru 10 þús., og ef greiðsla hefur dregizt í 1 dag eða 2, þá er bundið í l., að það á að greiða hálfan mánuð í viðbót, þá verða það 17–18%. Það er farið að nálgast það, sem Sigurður sálugi Berndsen lánaði mönnum fyrir, þegar þeir voru í vandræðum, og þetta á nú að leika við þá menn, sem þjóðin lifir á. Því við vitum það öll, að fjármagn þjóðarinnar er komið frá útveginum. Það þýðir ekkert að vera að blekkja sig á því, að erlendi gjaldeyririnn er þaðan kominn, og allt það peningaflóð, sem nú er í landinu, er þaðan komið, þ6 að því sé dreift á meðal fólksins. Ég held, að þetta sé ámóta gáfulegt og ef fjósameistari væri óánægður við kú, það væri of lítið í henni, hún hefði verið á slæmu haglendi, og hann ætlaði að auka nytina með því að reka oddhvassan nagla í lærið á henni. Þetta er ekkert annað en að pína þessa menn, sem eiga erfiða aðstöðu og geta ekki greitt okurvexti — hreina okurvexti, sem geta nálgast, eins og ég bendi á, ef það aðeins losar mánuð, 18%. Ég veit ekki, hvers vegna þetta er tekið fram við þessa stofnun, hvort það er af því, að ég kom hér með þáltill. um að lækka þessa vexli. Við höfum ástæðu til að ætla, að þeir þarna í Seðlabankanum hafi átt mestan þátt í þessu frv. og verið svona minnugir á dráttarvextina einmitt vegna þess, og ég er nú sannfærður um, að þó að þeir hafi gengið ríkt eftir dráttarvöxtum í Fiskveiðasjóði þá hafa þeir ekki tekið einn dag, hafi hann verið fram yfir mánuð, til þess að láta menn borga vexti í 11/2 mánuð, jafnvel þó að ég viðurkenni, að þeir hafi gengið vel eftir dráttarvöxtum, en það hafa þeir sagt mér að væri af því, að þeir væru bundnir af lögum. En þarna eru það lögbrot — það eru hrein lögbrot — ef ekki eru reiknaðir þarna 1/2% dráttarvextir fyrir hvern byrjaðan 1/2 mánuð, sem greiðsla dregst, af allri upphæðinni, sem er fallin í gjalddaga. Ég held það væri nær að lækka þessa okurvexti. Ég kom með þessa þáltill., af því að þessir vextir hafa ekkert verið lækkaðir síðan 1960. Þó að að allir aðrir vextir hafi verið lækkaðir, þá hafa ekkert verið lækkaðir vextir hvorki í Stofnlánadeild landbúnaðarins eða hjá sjávarútveginum. Gengið var fellt 1960 og krónan minnkuð og minnkuð, og þá voru hækkaðir vextir. Skriðan hélt áfram, og það hefur allt komið fram, sem ég sagði þá. Skriðan er ekki stöðvuð og vafasamt að hún verði stöðvuð fyrr en krónan er orðin sáralítils virði. En í stað þess að hafa vextina lægri og fella gengið minna og hækka vörurnar minna til bændanna, þá hefur allt saman flogið upp og stökkin aldrei verið stærri en 2 síðustu árin á landbúnaðarafurðunum, þannig að þær eru komnar alveg í blindgötu. Það er farið að stangast á þannig, að núna vantar 70–100 millj., eftir því sem form. Stéttarsambandsins skýrir frá, til þess að bændur geti fengið þetta verð, af því að bremsan verkar hvað snertir útflutningsuppbæturnar. Það er nefnilega ekki allt fengið með því að fjölga krónunum, sem menn fá fyrir hvert kíló af kjöti. Það er ýmislegt fleira, sem kemur til greina, og þ. á m. afsetningsmöguleikar. Hér er bara um hreina vitleysu að ræða, hvort hún verður framkvæmd eða ekki get ég ekki sagt um. En í stað þess að fara að binda þetta í l. og jafnvel að hækka vextina frá því, sem þeir hafa verið, þá á vitanlega að lækka þá, ef eitthvert vit er í þessu. Því að það eru fiskibátarnir fyrst og fremst, sem dregst að borga af. Stærri síldarbátarnir hafa margir getað borgað á réttum tíma, en það eru fiskibátarnir, sem skapa atvinnu hjá sjávarþorpunum, sem fyrst og fremst eiga í örðugleikum með að standa í skilum við Fiskveiðasjóðinn og þá á að refsa þeim með okurvöxtum. Þetta eru heimskulegar aðfarir, vildi ég segja. Það er enginn að tala um það, að menn eigi ekki að borga, ef þeir geta borgað, og ég allt, að útvegsmenn og þeir, sem hafa verið að stunda verkun sjávarafurða, hafi verið ógætnir með það, að ef þeir hafa haft fjárráð, þá hafa þeir alltaf fest meira og meira, en það eru ekki þessir menn, sem standa ekki í skilum, heldur hinir, sem eru að basla við að gera út fiskibátana og verka fiskinn, það eru þeir, sem eiga örðugast, og þeir þurfa helzt hjálpar við. Og þá á að pína þá með dráttarvöxtum, þannig að þeir gefist alveg upp, menn verða vonlausir, og það er það heimskulegasta að leggja þær byrðar á menn, að þeir gefist upp, því að meðan menn hafa kjarkinn, þá eru aldrei allar leiðir lokaðar.

Þá er í 18. gr. dálítið, liður, sem á að gera hlutina einfaldari og hagkvæmari í rekstri og það er það, „að stjórn Fiskveiðasjóðs skal skipa sérstaka matsnefnd til þess að meta þær eignir, sem í ráði er að veðsetja Fiskveiðasjóði. Skal n. skipuð þremur mönnum, einum tilnefndum af Seðlabankanum, einum af Landsbankanum og einum af Útvegsbankanum. N. kýs sér formann.“

Svo er því nú ekki gleymt síðar í gr. „að lánbeiðandi greiði sjálfur matskostnað“. Ég held, að þetta sé nú ekki til að gera hlutina einfaldari og ódýrari og hagkvæmari. Þeir hafa víst orðið nóg að borga, þessir lánbeiðendur, þó að þeir fari ekki að kosta heila hópa af mönnum til þess að meta þetta. Það hefur nú verið þannig, að Fiskveiðasjóður hefur sjálfur séð um þetta og ég veit ekki til, að það hafi neitt farið í handaskolum með þetta mat, þannig að ég held, að það væri alveg óhætt að fela framkvæmdastjóranum að láta fara fram mat, en þyrfti ekki endilega að taka það fram, að það yrði einn maður úr hverjum banka, því þessir blessaðir bankar eiga ekkert í þessum sjóði og hafa þess vegna engra hagsmuna að gæta þar. Þeir eru bara þarna að sletta sér inn í hluti, sem þeim koma ekkert við, og ég veit ekki til, að það hafi orðið mikil mistök á þessum mötum, ég veit ekki til, að mönnum hafi verið borið það á brýn.

Í 21. gr. eru ýmis ákvæði um það, að heimilt sé að segja upp lánum, þegar greiðslur af lánum eru ekki inntar af hendi á réttum gjalddaga. Þetta er víst í flestöllum lánskjörum og vitanlega er þetta heimilt, en þetta er bara ekki framkvæmt hjá lánastofnunum og allra sízt í sjávarútvegi, því að satt að segja hefði Fiskveiðasjóður ekkert að gera með alla þá báta (setja þá á uppboð), sem dregst eitthvað að borga af, og mér finnst satt að segja óþarfi að vera að hafa ákvæði, sem vitað er að hvorki er framfylgt eða er vit í að framfylgja. Hitt er annað mál, að lánastofnun hefur eðlilega rétt til að krefjast þeirrar upphæðar, sem fallin er í gjalddaga, og hefur rétt til að ganga að veðinu í því tilfelli, þannig að þetta atriði skiptir ekki mjög miklu máli, en virðist þó vera nokkuð hart.

Þá er d-liður: „sé hin veðsetta eign flutt úr þeim stað, þar sem hún var starfrækt, er lán var veitt, þá er lánið uppsegjanlegt“. Mér finnst þessi liður óþarfur, því að samkv. þessu getur sjóðsstjórnin eða þetta fulltrúaráð, kosið af 3 bönkum, algjörlega hindrað það, að skip séu seld með því að ganga að láninu. Þannig, að hvað sem a-liðnum líður, sé ég ekki, að d-liðurinn sé til annars en að skapa ófrelsi. Þetta eru nokkurs konar áttahagafjötrar. Það er ekki hægt að selja skip nema með leyfi stofnunarinnar. Ég er ekkert að segja, að það verði misnotað, en það getur verið misnotað og það er ástæðulaust þess vegna að hafa það.

Þetta eru nú helztu punktarnir, sem ég vildi vekja athygli á. Annars held ég satt að segja, að útvegsmenn harmi það ekkert, þó að þetta frv. verði ekki samþ., en vitanlega má laga þessa liði, þannig að þeir komi ekki að sök, og ég vænti þess; að n. taki þessi atriði, sem ég benti hérna á, til athugunar. Geri hún það ekki, mun ég koma með brtt. við 2. umr. við sum atriðin a.m.k. og dugi það ekki, mun ég skrifa fáeinar línur, því að þó að þið trúið mér kannske ekki, þá munu útvegsmenn gera það, og satt að segja held ég, að ríkisstj. ætti ekki að vera að espa þá á móti sér með þessum fáránlegu dráttarvöxtum, þó að ekki sé annað, eða ganga algerlega fram hjá þeim með stjórn Fiskveiðasjóðsins, því að henni veitir ekkert af fylgi þeirra.