27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í D-deild Alþingistíðinda. (3223)

111. mál, bifreiðaferja á Hvalfjörð

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Hvalfjörður er einn mesti farartálmi á vegakerfi Íslands. Fyrir hann liggur þjóðbraut frá Suðurlandi og Reykjavíkursvæðinu annars vegar til Vesturlands, Vestfjarða, Norður- og Austurlands hins vegar. Hver bifreið, sem ekur þessa leið, verður að taka 40—50 km krók, allt að klukkustundar akstri.

Mikið hefur verið um það hugsað, hvernig stytta megi leið um Hvalfjörð. Hefur verið rætt um malbikaðan veg, um brú í Þyrilsnes, um ferju yfir fjörðinn innarlega eða utarlega, um brú yfir fjörðinn eða göng undir hann og loks um bílaferju beint frá Reykjavík til Akraness. Árið 1946 hófust Akurnesingar handa um að leysa mál þetta með ferju yfir fjörðinn. Voru tvö skip keypt og byrjað á mannvirkjum, en þó horfið frá frekari framkvæmdum. Pétur Ottesen flutti málið hér á þingi, en það varð ekki útrætt.

Árið 1963 vakti ég hugmyndina á nýjan leik, og samþykkti Alþ. þá till., þar sem ríkisstj. var falið að láta gera áætlanir um stofnkostnað og rekstur ferjunnar. Árið 1964 fylgdi Alþ. málinu eftir með því að veita 100 þús. kr. á fjárl. til þessa undirbúnings. Sú fsp., sem ég nú ber fram, er um árangur af þessum tveim samþykktum þingsins.

Hvalfjörður verður því meira vandamál sem umferðin eykst. Samkv. upplýsingum vegamálaskrifstofunnar er sumarumferð fyrir fjörðinn nú þegar komin upp í 500—600 bíla á dag. Þegar umferð fer yfir 500 bíla á dag, er talið, að hún verði innan 10 ára a.m.k. 1000 bílar á dag, og þá verður vegurinn samkv. vegal. að hraðbraut. Hvalfjörður er þegar kominn í þennan flokk, og verður því samkv. l. að stefna að því að malbika hann innan tíðar. Mjög lauslega áætlað má gera ráð fyrir, að malbikun Hvalfjarðar mundi kosta 400—500 millj. kr. Vegarstæði er þar svo miklu erfiðara en t.d. Keflavíkurvegar, brúagerð svo mikil, að kostnaðurinn verður a.m.k. þetta miklu meiri. Er því augljóst, hversu hagkvæmt það væri, ef ferja gæti gert okkur mögulegt að fresta malbikun Hvalfjarðarvegar, t.d. í 10 ár eða svo. Rétt er að minnast þess, að samkv. reynslu vegagerðarinnar er nálega ómögulegt að halda við malarvegi, þegar umferðin nálgast 1000 bíla á dag. Þá virðist vera sama, hvað gert er. Eftir klukkutíma rigningu og bleytu eða svo verður vegurinn nálega ófær. Þess vegna er ekki hægt að fresta lengi varanlegri vegagerð, þar sem umferðin nálgast þetta mark.

Það er mikið hagsmunamál fyrir Vesturland, Vestfirði og Norðurland, að leiðin fyrir Hvalfjörð styttist. En engin byggð hefur þó eins mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli og Akranes, vaxandi útgerðar- og iðnaðarbær á Skaga. Er það sérstaklega nauðsynlegt fyrir hinn nýja iðnað á Akranesi og iðnfyrirtæki, sem eiga eftir að risa þar, að eiga greiðan aðgang að Reykjavíkursvæðinu, t.d. sem markaði. Er því mikill áhugi á samgöngubótum á þessu svæði á Akranesi ekki siður en í öðrum landshlutum, sem nota þessa samgönguleið.

Akraborg siglir nú 2—3 sinnum á dag milli Akraness og Reykjavíkur, og hefur sú þjónusta batnað í seinni tíð, enda munu um 40 þús. manns fara þessa leið á sjó til viðbótar við alla þá, sem fara á landi. En mikill halli er á rekstri skipsins, og útgerð þess er að verða illviðráðanleg. Þegar fullkomnar upplýsingar liggja fyrir um kostnað við Hvalfjarðarferju, væri einnig rétt að athuga til samanburðar, hvort hugsanleg væri bein bílaferja á milli Akraness og Reykjavíkur nú á næstunni eða hvort sú framkvæmd, sem örugglega verður gerð, þarf að bíða langt fram í framtíðina. Vandinn er að komast fram hjá farartálmanum á hvern þann hátt, sem hagkvæmastur reynist. Og þess vegna er sótt á með það að fá gerðar athuganir á þessu máli. Þegar 600 bílar aka fyrir Hvalfjörð á dag, kostar það 600 vinnustundir bifreiðastjóra og mörg þúsund vinnustundir farþega, en ca. 3000 lítra af benzíni a.m.k. Ef við gætum minnkað þennan kostnað, þótt ekki væri nema um helming, væri mikið unnið. Ég hygg, að vandfundið sé það verkefni í samgöngumálum landsins, sem beinlínis mundi spara svo mikil verðmæti og tíma, ef leyst væri.