13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

173. mál, Skipaútgerð ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um Skipaútgerð ríkisins, og í því felst, að settar eru lagareglur um þessa ríkisstofnun eða m. ö. o. tilvist hennar er lögfest, en þessi stofnun ríkisins hefur starfað nú í tæpa fjóra áratugi, án þess að bein lagaheimild væri til yfir hennar starfsemi. Í þessu frv. er skilgreint, hvert sé hlutverk Skipaútgerðar ríkisins og hvernig skuli fara með stjórn þess fyrirtækis. Þetta frv. fór til samgmn. til athugunar. Það var enginn ágreiningur í samgmn. um það grundvallaratriði, að það væri eðlilegt að setja lög um Skipaútgerð ríkisins. En ágreiningurinn var hins vegar um, hvert efni þeirra l. ætti að vera, og er fyrst og fremst fólginn í því, að meiri hl. n. vill skipa stjórn fyrirtækisins á þann hátt, sem gert er ráð fyrir hér í 4. gr. þessa frv., en minni hl. samgmn. vill, að stjórn fyrirtækisins sé þingkjörin. Nú er það út af fyrir sig rétt, að það er algengt, að stjórnir ríkisfyrirtækja séu þingkjörnar, en þar fyrir er ekki endilega nauðsynlegt, að það sé gert einnig í þessu tilfelli. Ég vil taka það fram, að ég er almennt ekki á móti því, að þingkjörnar stjórnir sitji í ríkisfyrirtækjum og stjórni þeim. En hér kemur nokkuð annað til álita. Í fyrsta lagi er hér verið að lögfesta skipan, sem þegar hefur gilt í eitt ár, því að það voru skipaðir stjórnarnefndarmenn fyrir Skipaútgerðina fyrir um það bil ári síðan, og þessi stutta reynsla, sem fengizt hefur af þessu fyrirkomulagi, hefur þegar borið árangur á þann hátt, að starfsemi Skipaútgerðarinnar hefur verið endurskipulögð, og rekstrarhalli á. Skipaútgerðinni hefur minnkað, svo að um munar.

Í öðru lagi er hugmyndin á bak við þetta fyrirkomulag sú, sem reyndar kemur fram í aths. við frv., að með skipun þessarar stjórnarnefndar á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv., er verið að tryggja það, að í þessa n. veljist eiginlega tilsjónarmenn frá þeim rn., sem mest hafa með málefni Skipaútgerðarinnar að gera, þ.e.a.s. samgmrn. og fjmrn.

Í þriðja lagi tel ég ekkert á móti því, að um stjórn atvinnustofnana ríkisins sé farið inn á nýjar brautir, ekki endilega alltaf fetað í sömu fótsporin, heldur reynt eitthvað nýtt og séð, hvort sú nýbreytni getur ekki gefið góða raun og góðan árangur, en binda sig ekki alltaf á sama klafann í þessum efnum. Meiri hl. samgmn. hefur, eins og fram kemur í nál. á þskj. 440, mælt með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir.