07.02.1967
Neðri deild: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

105. mál, orkulög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Hinn 29. des. 1965 var skipuð n. til að endurskoða raforkulög. Í þessa n. voru skipaðir Gísli Jónsson rafveitustjóri, Jón Sigurðsson deildarstjóri og Valgarð Thoroddsen verkfræðingur. Var Jón Sigurðsson deildarstjóri skipaður formaður n. Í skipunarbréfi n. var tekið fram, að n. skyldi sérstaklega ætlað að gera glögg skil milli verksviðs embættis raforkumálastjóra og verksviðs rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins, jafnframt því sem skipulag raforkuvinnslu og raforkudreifingar á vegum ríkisins verði athugað í ljósi þeirrar stefnu, sem mörkuð hefur verið með setningu 1. um Landsvirkjun. Er n. hafði starfað um hríð, bar hún fram þá till., að verksvið hennar yrði víkkað þannig, að henni yrði falið að endurskoða í heild þau lög, er fjölluðu almennt um nýtingu innlendra orkulinda, og steypa þeim saman í frv. að einum lagabálki um orkumál. Var á þetta fallizt og að athuguðu máli talið mikils virði að samræma löggjöfina í eina heild. Lögð var áherzla á það, að Jakob Gíslason raforkumálastjóri og Eiríkur Briem, þáv. rafmagnsveitustjóri, störfuðu með n. og væru henni til ráðuneytis við samningu frv. Haukur Pálmason framkvstj. Sambands ísl. rafveitna starfaði einnig með n. og Páll Sigurðsson, rafmagnseftirlitsstjóri ríkisins, starfaði einnig með n. og gaf ráð um það, sem varðaði rafmagnseftirlitið. Ritari n. var Magnús Thoroddsen lögfræðingur.

Það eru ekki gerðar róttækar breytingar á gildandi l. í raforkumálum, en eins og áður er sagt, eru þau samræmd og felld saman í einn lagabálk. Þykir mikið við það unnið. En helztu nýmæli frv. varða stjórn orkumála. Það er gert ráð fyrir að koma á fót sérstakri Orkustofnun, er annist rannsóknir, áætlana- og skýrslugerðir á sviði orkumála og verði ráðh. til ráðuneytis í þeim efnum, jafnframt því, sem stofnun þessari er ætlað að auðvelda samvinnu allra þeirra aðila, er starfa að orkumálum. Framkvæmdastjóri Orkustofnunar verður sérstakur embættismaður, orkumálastjóri, sem svarar til þess embættis, sem nú heitir raforkumálastjóri, en honum til ráðuneytis í tæknilegum og fjárhagslegum efnum er sérstök n., tækninefnd Orkustofnunar, skipuð af ráðh. Í þessari n. eiga m. a. sæti fulltrúar frá þeim aðilum, er helzt hafa hagsmuna að gæta á vettvangi orkumála. Fulltrúar þessir mundu því hafa sérstaka reynslu og þekkingu á þeim málum, sem kæmu til úrlausnar í n. N. er ætlað að tryggja samræmingu á starfsemi allra þeirra, sem vinna á sviði orkumála. Þá hefur verið gert ráð fyrir í frv. þessu að afnema einkarétt ríkisins til þess að reisa og reka raforkuver, en í reyndinni hefur þetta ekki mikið að segja, þar sem leita verður til Alþ. um leyfi til þess að reisa eða reka raforkuver. Þá er í frv. leitazt við að gera glögg skil á milli starfssviðs raforkumálastjóra og rafmagnsveitustjóra ríkisins.

Orkumálastjóri mun sjá um rannsókn áætlana og skýrslna á vettvangi orkumála, en rafmagnsveitustjóri annast stjórn og rekstur rafmagnsveitna ríkisins og mun hann hér eftir heyra beint undir ráðh., en eigi orkumálastjóra eða raforkumálastjóra, eins og áður hefur verið.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að raforkusjóður og jarðhitasjóður verði sameinaðir í orkusjóð. Orkuráði, sem kemur í stað raforkuráðs og kosið er í samvinnu við Alþ., er ætlað að fara með stjórn orkusjóðs jafnframt því að gera till. um ráðstöfun stofntillaga til lagningar rafmagnsveitna í strjálbýli, sem raforkuráð hefur áður haft með höndum. Þá er rétt að geta þess, að frv. ráðgerir, að héraðsrafmagnsveitur ríkisins verði sameinaðar rafmagnsveitum ríkisins, enda hafa þær annazt rekstur héraðsrafmagnsveitnanna.

Þetta eru hin helztu atriði, sem fram koma í frv. Þetta frv. er í 11 köflum, eins og sjá má, og er I. kaflinn um Orkustofnun. Samkv. 2. gr. frv. er skilgreint, hvert hlutverk Orkustofnunar er, og tel ég ekki ástæðu til þess að lesa það upp. Þá er í 3. gr. frv. kveðið á um skipun framkvæmdastjóra Orkustofnunar og að hann heiti orkumáálástjóri. — 4. gr. frv. gerir ráð fyrir tækninefnd, Sem starfar til ráðuneytis orkumálastjóra, og er gert ráð fyrir, að í henni eigi sæti ásamt orkumálastjóra tæknimenntaðir fulltrúar, tilnefndir af Landsvirkjun, Sambandi ísl. rafveitna, Sambandi ísl. hitaveitna, rafmagnsveitum ríkisins, rannsóknaráði ríkisins og hagfræðimenntaður fulltrúi Efnahagsstofnunarinnar. En þar til Samband hitaveitna á Íslandi verður stofnað, tilnefnir Hitaveita Reykjavíkur fulltrúa í þess stað. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

II. kafli frv. er um vinnslu raforku og kveður á um það, hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi, til þess að raforkuver verði byggð og rekin. En til þess að reisa og reka raforkuver stærra en 2000 kw. þarf leyfi Alþ. Til að reisa og reka raforkuver 200—2000 kw. þarf leyfi ráðh. raforkumála.

III. kaflinn er um vinnslu jarðhita og kveður á um rétt landeiganda til þess að hagnýta sér jarðhita, einnig um rétt ábúanda jarðar og einnig rétt ríkisstj. til þess að hagnýta jarðhita í landareign annarra, en það skal heimilt, þegar almenningsheill krefur. Nánari ákvæði eru í þessum kafla um vinnslu jarðhita, sem ekki er sérstök ástæða til þess að rekja að sinni. En um hagnýtingu og vinnslu jarðhitans í eigu ríkisins skal leita umsagnar Orkustofnunar í hvert sinn, áður heldur en til framkvæmda kemur.

IV. kafli er um héraðsrafmagnsveitur, og er kveðið á um það, hvert verkefni héraðsrafmagnsveitna er, en það er nánar tiltekið í ýmsum greinum. þessa kafla, en það er að veita raforku um tiltekið orkuveitusvæði og selja hana neytendum innan þeirra takmarka. Ráðh. sá, sem fer með raforkumál, ákveður orkuveitusvæði hverrar rafmagnsveitu. Þá er nánar kveðið á um ýmis atriði héraðsrafmagnsveitnanna í þessum kafla, sem ekki er ástæða til þess að lesa hér upp, enda liggur það ljóst fyrir.

V. kafli er um hitaveitur og kveður á um það, að ráðh. sé heimilt að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkaleyfi með þeim skilyrðum, sem lög þessi ákveða, til þess að starfrækja hitaveitur, sem annist dreifingu eða sölu heits vatns eða gufu til almenningsþarfa á tilteknu veitusvæði frá jarðhitastöðvum eða hitunarstöðvum eða öðrum orkugjafa. Þeir aðilar, sem nú hafa einkaleyfi til að starfrækja hitaveitu, skulu halda þeim rétti. Þá er ríkisstj. heimilt að ábyrgjast lán til hitaveituframkvæmda fyrir sveitarfélög, sem vilja ráðast í hitaveituframkvæmdir, og gæti ábyrgðin orðið allt að 80% af kostnaðinum.

VI. kafli er um varnir gegn hættum og tjóni af raforkuvirkjum og eftirliti með þeim. Eru nokkuð ströng ákvæði um þetta efni og nokkuð strangari heldur en verið hefur, enda hefur reynslan sýnt, að þörf er á miklu eftirliti með raforkuvirkjum og að fyllstu varúðar sé gætt í hvívetna um það efni, því að sé ekki fyllsta varúð viðhöfð, getur stafað af því mikil hætta. En þetta eftirlit hefur með höndum rafmagnseftirlit ríkisins, og er því ætlað að hafa það, eins og verið hefur.

VII. kaflinn er um verndun jarðhitasvæða, jarðhitavirki og eftirlit með þeim. Það er tekið fram, að óheimilt sé að spilla jarðhitasvæðum, hvort sem það er með ofaníburði, framræslu eða með öðrum hætti, svo og að breyta farvegi þess vatns, sem frá jarðhitasvæði rennur, nema talið sé nauðsynlegt samkv. matsgerð til varnar landi eða landsnytjum eða til þeirrar hagnýtingar jarðhita, sem heimil er að lögum.

VIII. kaflinn er um jarðboranir ríkisins. Hér er ekki um breytingu að ræða frá gildandi l. nema orðalagsbreytingar í samræmi við frv., eins og vera ber.

IX. kafli er um rafmagnsveitur ríkisins, og er þar kveðið svo á, eins og í gildandi l., að ríkisstj. starfræki rafmagnsveitur, sem eru eign ríkisins og reknar sem fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki með sérstöku reikningshaldi undir umsjón þess ráðh., er fer með raforkumál. Stofnunin skal heita Rafmagnsveitur ríkisins, en eins og áður er lýst, eru rafmagnsveitur ríkisins nú skildar frá raforkumálastjóraembættinu eða orkustofnuninni, eins og það nú heitir, og framkvæmdastjóri rafmagnsveitna ríkisins heyrir nú beint undir ráðh., en var áður nánast sagt undirmaður raforkumálastjóra. Rafmagnsveitur ríkisins taka við eignum og rekstri rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins, sem stofnaðar voru með l. nr. 12 2. apríl 1946, en eins og kunnugt er, voru gildandi raforkulög sett þá, og er því fengin allmikil reynsla af framkvæmd þeirra og ekki nema eðlilegt, að nú þyki tímabært að gera nokkrar breytingar á þeim, þótt l. í heild haldi sínu markmiði og efnisbreytingar séu tiltölulega litlar.

Ráðherra skipar rafmagnsveitustjóra ríkisins og honum til ráðuneytis nefnd þriggja manna, og skal einn þeirra, tilnefndur af orkuráði, en tveir af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Annar þeirra er fulltrúi strjálbýlis, en hinn þéttbýlis. Starfssvið n. skal nánar ákveðið í reglugerð. Það þótti rétt að skipa þessa n. til ráðuneytis rafmagnsveitustjóra, til þess að breikka grundvöllinn undir starfssviðinu, og gæti það aldrei verið til annars en góðs, ef skipan n. á annað borð ætti nokkuð að þýða, en skipun hennar er þannig, að í henni ættu að eiga sæti menn, sem þekkja vel til þessara mála, bæði í strjálbýli og þéttbýli.

X. kaflinn er um orkusjóð, og er tekið fram, að orkusjóður sé eign ríkisins, er ber ábyrgð á skuldbindingum hans. Orkusjóður tekur við öllum eignum raforkusjóðs og jarðhitasjóðs eins og þær eru við gildistöku þessara laga og öllum skuldbindingum beggja sjóðanna, en báðir þessir sjóðir hafa starfað sitt í hvoru lagi, og þykir fara betur á því að sameina þá í einn sjóð, þar sem verksvið þeirra er vissulega mjög skylt og náið. En stjórn orkusjóðs er í höndum orkuráðs undir yfirstjórn ráðh. þess; sem fer með raforkumál. Sþ. kýs með hlutfallskosningu 5 menn í orkuráð til fjögurra ára í senn. Það er kosið með sama hætti og raforkuráð hefur verið kosið. Ráðh. skipar formann úr hópi kjörinna ráðsmanna. Orkumálastjóri er framkvstj. orkusjóðs. Þá er gert ráð fyrir, að orkusjóður verði í vörzlu Seðlabanka Íslands, en það hefur raforkusjóður eða jarðhitasjóður ekki verið áður, og að Seðlabankinn sjái um ársuppgjör, skýrslugerð og bókhald. Hlutverk orkusjóðs er skilgreint í 71. gr. frv., og er óþarfi að tilgreina það nánar. Það er skýrt tekið þar fram, en það er sama hlutverk og raforkusjóður og jarðhitasjóður báðir gegndu áður.

Þá er XI. kaflinn, almenn ákvæði, og skýrir hann sig sjálfur. En eins og áður hefur verið vikið að, er með frv. þessu lagt til, að lög um raforku- og jarðhitamál verði samræmd í einum lagabálki. Það er byggt á 20 ára reynslu og margt fært til betri vegar og við hæfi nútímans. Það gefur og nokkra tryggingu fyrir því, að rétt hefur verið að farið, að við samningu frv. störfuðu hinir hæfustu menn á sviði raforkumála og þeir, sem bezt þekkja til þessara mála að fenginni langri reynslu. Það er von mín, að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi og hv. alþm. sannfærist um, eftir að hafa kynnt sér málið, að það sé til bóta frá gildandi lögum og það megi verða til þess, að framkvæmd þessara mála verði einfaldari en áður og sniðin við það, sem nú er helzt krafizt.

Ég tel, herra forseti, ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að svo stöddu, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn, að lokinni þessari umr.