17.04.1967
Efri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

105. mál, orkulög

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að stofna hér til neinna meiri háttar umr. við hæstv. raforkumálaráðh. Ég hef gert grein fyrir okkar sjónarmiðum, og hæstv. ráðh. hefur í rauninni ekki andmælt þeim svo mjög, a.m.k. ekki svo að sannfærandi væri og gæfi tilefni til áframhaldandi umr., en þó eru örfá atriði, sem ég vildi samt ekki láta hjá líða að drepa á.

Hæstv. ráðh. minntist á, að það væri verið að tala um það vald, sem raforkuráð hefði skv. núgildandi l. Ég hef aldrei talað um það, ég hef aldrei talað um vald raforkuráðs, ég hef gert mér ljóst, hvert hlutverk raforkuráðs hefur verið, bæði í löggjöf og einnig í framkvæmd, því að mér hefur verið ljóst, að það hefur kannske verið nokkuð annað eða nokkru minna í framkvæmd en lög gerðu ráð fyrir, en það er nú með raforkuráðið eins og annað, að veldur hver á heldur, og ég sé ekki að það séu nein rök fyrir því að breyta lagaákvæðunum um hlutverk raforkuráðs, þó að það hafi ekki gegnt einhverjum af þeim hlutverkum nú um hríð. Ég álít þess vegna, að við eigum að halda þeim ákvæðum í l., sem nú eru um raforkuráð, þau eru skynsamleg og það verður þá á valdi þeirra manna, sem veljast í framtíðinni í raforkuráð, að gegna því hlutverki eftir því sem þeir hafa samvizkusemi til. Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að hann taldi að efni bráðabirgðaákvæðisins, sem við leggjum til, að verði tekið upp í þetta frv., eigi ekki heima í frv. Ég get fallizt á, að ráðh. hafi þar nokkuð til síns máls. Þó er það nú svo, að það er heldur ekki fráleitt að hugsa sér það, að svona ákvæði geti verið þarna sem bráðabirgðaákvæði. Hitt er annað mál, að við hefðum kosið að þurfa ekki að flytja þetta mál sem brtt. við frv. eins og það, sem hér liggur fyrir. Og ef hæstv. raforkumálaráðh, hefði haft áhuga fyrir því að lögfesta þann vilja Alþ., sem hann var sammála mér um, að væri fyrir hendi, þá hefur hann haft tækifæri til þess fyrr. Það hafa legið fyrir Nd. frá okkur framsóknarmönnum frv. sem ganga í þessa stefnu, en hv. meiri hl. hefur ekki viljað sinna, og það er ástæðan til þess, að þessi efnisatriði er að finna hér í brtt. okkar sem bráðabirgðaákvæði við þetta frv. Mér þóttu andmæli hæstv. ráðh. gegn till. okkur um að hækka lánin til vatnsaflsstöðvanna vera mjög óvænt. Hann hélt því fram, hæstv. ráðh., að bændur, sem virkjuðu vatnsafl, fengju kw. ódýrara en þeir, sem fengju sér mótorstöð. Það eru nýjar fréttir fyrir mig.

Að lokum var svo eitt atriði, sem ég vildi spyrja hæstv. ráðh. sérstaklega um. Það kom fram í ræðu hans, að Seðlabankanum væri ætlað það hlutverk að geyma orkusjóð, en ekki hafa daglega afgreiðslu hans á hendi, og verð ég að segja, að þá er orðalag frv. æði ónákvæmt, því að þar segir: „Orkusjóður skal vera í vörzlu Seðlabanka Íslands, sem hefur á hendi daglegan rekstur hans,“ og ég skildi það þannig, að hann mundi hafa með höndum afgreiðslu hans og tel, að þetta ákvæði verði tæpast öðruvísi skilið. Á hinn bóginn, ef þetta er ekki réttur skilningur, þá vildi ég gjarnan, að hæstv. ráðh. upplýsti það, hvar dagleg afgreiðsla fyrir sjóðinn á að fara fram.