20.02.1967
Neðri deild: 43. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (1904)

116. mál, uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það háa embætti, sem hæstv. forsrh. skipar, gerir þá kröfu til mín, að ég svari þeirri ræðu, sem hann flutti hér. Ef það hefði verið einhver venjulegur Heimdellingur, sem hefði sagt þetta, hefði ég varla gert það, en hæstv. forsrh. á vissulega kröfu á því, að hvert einasta orð, sem frá honum kemur, sé tekið mjög alvarlega og rætt með fullu tilliti til þess málefnis, sem hann flytur.

Hann byrjaði á að ræða um, að ég setti mig á nokkuð háan hest,að ég ætlaði að fara að bjarga öðrum löndum og léti mér ekki lengur nægja að baksa við að bjarga Íslandi og ég væri hér með till. um það, hvernig aðrar þjóðir ættu að fara að því að reyna að tryggja sig gagnvart t.d. einokunarhringum og öðru slíku. Það er kannske bezt að byrja á því, af því að ég er ekki alveg viss um, að hæstv. forsrh. þekki svo vel, hvernig þessu máli hagar, að fræða hann ofurlítið um, hvernig þetta mál stendur og hvort það sé ekki einhver ástæða fyrir Íslendinga til þess að íhuga þetta mál nokkuð.

Ég hef hér umræðurnar í norska Stórþinginu viðvíkjandi alúminíumverksmiðjunni og samningnum, sem þar var gerður, og mér sýnist satt að segja, að þær umr. beri það fyllilega með sér, að það sé full ástæða fyrir okkur Íslendinga að athuga, hvar við stöndum. Það var upplýst í þessum umr. af þeim, sem hefur framsögu af hálfu n., sem flytur þessa till., að ameríski alúminíumhringurinn, sem þarna er um að ræða, og þeir hringir, sem standa í sambandi við hann, ráði yfir 96% af allri oxýd-framleiðslunni og að þeir ráði yfir möguleika til að framleiða þau hálf-fabriköt, sem þarna eru notuð, sem samsvarar 90% af allri framleiðslu hins vestræna heims á alúminíum. Síðan er sagt frá því, hvernig þeir fáu sjálfstæðu aðilar, sem verið hafa í þessum efnum, og það magn, sem þeir hafa ráðið yfir, hafi minnkað um 1 milljón tonna á síðustu 10 árum. Vald þessara einokunarhringa fer sífellt vaxandi hvað þetta snertir. Og það kemur alveg greinilega fram í öllu þessu máli, að þessir menn, sem þarna er um að ræða, álíta sig ekki eiga neins annars úrkostar heldur en bókstaflega gefast upp í þessum efnum. Þeir skýra t.d. frá þeim bréfum sem hafa komið frá stjórn þessa ríkisfyrirtækis, og segja, að þessi einokunarhringur stefni að því að ráða yfir öllu framleiðslukerfinu, allt frá því að báxítið er framleitt, síðan yfir alúminíum-oxýdinu og síðan yfir þeim verksmiðjum, sem framleiða úr því fullunna alúminíum. Það er enn fremur tekið fram, að í Indlandi ráði Norður-Ameríkanar yfir 90% af markaðnum og í Vestur-Þýzkalandi hafi Norður-Ameríkanar 70% af markaðnum. Þannig upplýsa þessir menn, sem hafa athugað þetta bezt, að aðstaðan á heimsmarkaðinum sé slík, að þeir séu til neyddir að ganga inn á þær till., sem þarna sé lagt til. Einar Gerhardsen, fyrrv. forsrh. Noregs og formaður Verkamannaflokksins lengi vel, segir á bls. 18: „Þegar ég hef sagt þetta, vil ég gjarnan bæta við, að það er sérstaklega erfitt fyrir Verkamannaflokkinn að ganga inn á þessar till., sem hér eru lagðar fram, líka vegna þess, að með þessari samþykkt gerum við hreint ríkisfyrirtæki að blönduðu fyrirtæki ríkis og einstaklinga.“ Og það kemur greinilega fram í allri þessari ræðu, að hann segir, að alúminíum-verksmiðjurnar, sem fyrir séu í Noregi og verið sé að vinna að, séu allar blandaðar inn í þessa stóru hringa. Eftir því sem ég bezt veit, segir hann, á þetta við um alla nema Ardal- og Sundalverken, allt nema þetta ríkisfyrirtæki, sem þarna er um að ræða. Og enn fremur segir Einar Gerhardsen í þessari ræðu, að stjórn fyrirtækisins reikni með því, að hinn frjálsi markaður fyrir alúminíum muni minnka enn frekar. Það, sem þarna liggur fyrir og kemur greinilega fram hjá Einari Gerhardsen, er, að það fara síminnkandi allir möguleikar til þess, að það, sem hæstv. forsrh. mundi kalla venjulega „frjálst framtak einstaklingsins“, geti þarna nokkru ráðið. Einn aðili, sem ég að vísu þekki því miður ekki meiri deili á, einn þm. segir, það er á bls. 27 í þessum þingtíðindum þeirra: „Við áttum einskis annars úrkostar.“ Það er ekkert spursmál um það, að það, sem þarna er verið um að ræða, er, að alúminíumhringurinn drottnar yfir allri aðstöðu þessara aðila og hann er harður í horn að taka, og fyrir því verða þeir að beygja sig, og þeir eiga einskis annars úrkostar en að gefast þarna upp.

Það er þetta ástand, sem gerir það að verkum, að ég legg til, að það sé nokkuð athugað, hvort menn eigi að una svona ástandi, hvort menn eigi að sætta sig við það, þjóðir, sem vilja telja, að þær hafi komið á lýðræði hjá sér, að þjóðirnar eigi sjálfar að ráða því með sínum samþykktum, hvernig hlutunum sé fyrir komið, hvort þær eigi að beygja sig fyrir því, að nokkrir einokunarhringar geti ráðið öllu, þegar til kemur. Ef þetta væru sjóræningjar, sem kæmu á land og fyrirskipuðu ríkisstj. að gefast upp og afhenda þeim ríkisfyrirtæki, ef það væru einhverjir herforingjar, sem gerðu uppreisn, mundi mönnum þykja þetta mjög slæmt. En ef það eru menn, sem ráða peningunum, ráða allri framleiðsluaðstöðunni, ráða yfir öllum hráefnalindunum, ráða yfir öllum sölufyrirtækjunum, á þetta að heita frelsi.

Ég álít, að þarna sé ekkert frelsi. Þess vegna álít ég, að það sé nauðsynlegt, að við hér á Íslandi, einhverjir þeir allra smæstu í þessum efnum, við athugum þessa hluti, og það munu vafalaust vera til menn erlendis líka, í Noregi, sem vilja hugsa um og athuga þessa hluti og hvað gera skuli. Ég þykist vita, að hæstv. forsrh. sé með frelsi einstaklingsins, með frjálsu framtaki og öllu slíku, með einkaframtakinu og á móti einokunarhringum. En ég er stundum hræddur um, að bann geri þann greinarmun þar á, að hann ræði aðeins um einokun, þegar um lagalega einokun sé að ræða, ef sú einokun sé sett með lögum. Ef sú hin sama einokun aftur á móti er sköpuð með því að koma á með krafti peningavalds einokun, gegni allt öðru máli. Þessu held ég, að menn megi ekki blanda saman. Einokun er alveg nákvæmlega jafnslæm, þó að það sé peningavald, sem skapar þá einokun, eins og sú einokun, sem t.d. er samþykkt með lögum, eins og Hörmangaranna eða einhverra annarra fyrr á tímum. Ég er þess vegna ekki að setja mig á háan hest, þegar ég kem með þessar till. Ég er aðeins sem fulltrúi einnar smæstu þjóðar heimsins að reyna að sýna fram á, að þessir smáu eigi að standa saman gagnvart þeim stóru í þessum efnum, og ég held, að það ættu fleiri, sem eru fulltrúar þjóðarinnar, að hugsa um slíkt.

Einar Gerhardsen notaði orðin „rómantískur óskadraumur“ í sambandi við þessa hluti. Ég vil segja það blátt áfram, að lýðræðið er ekki annað en rómantískur óskadraumur, ef við eigum að láta það viðgangast, að nokkrir einokunarhringar geti gert ráðstafanir á móti þjóðunum þannig, að þessir hringar setji ríkisstjórnunum stólinn fyrir dyrnar, þannig að þær finni sig ekki eiga annars úrkostar en að gefast upp við þá stefnu, sem ríkisstj. hefur ætlað sér að framfylgja, og ganga inn á að framfylgja stefnu hringanna. Við skulum bara hugsa okkur, hvernig aðstaðan væri fyrir okkur hérna heima. Mér þætti satt að segja gaman að heyra, hvað hæstv. forsrh. mundi segja og hvort hann mundi þá ekki koma kannske inn á einhverja svipaða till. og ég er með, ef tveir stórir hringar, sem eru í fiskiðnaðinum, Unilever og Findus International, ef þessir tveir slægju sér saman, ef þeir væru búnir að ná á sitt vald allri fiskútgerð allra landanna hér í nágrenni við okkur, ef þeir væru búnir að ná undir sig svo að segja allri fiskútgerð Íslands, nema einu ríkisfyrirtæki og nokkrum togurum, sem stæðu í sambandi við það ríkisfyrirtæki, ef þeir með sínum sömu „organisasjónum“ þess vegna drottnuðu yfir öllum þeim mörkuðum, sem við hefðum, og kæmu og segðu við okkur: Nú hættum við að kaupa af ykkur, nú gerum við ykkur ómögulegt að selja, nema þið seljið okkur helminginn í þessu ríkisfyrirtæki. — Þætti hæstv. forsrh. þetta frelsi? Þætti honum þetta það einstaklingsframtak, sem hann hefur verið að berjast fyrir? Eða þætti honum þetta einokun, sem væri alveg jafnslæm og Hörmangaranna? Ætli hann mundi þá ekki vera til í að segja við eitthvað af þeim þjóðum, sem byggju við einokun þessara hringa: Eigum við ekki að reyna að slá okkur saman og vita, hvort við getum ekki gert einhverjar ráðstafanir á móti þessum hringum? Ég held, að hæstv. forsrh. megi vara sig á því að hugsa alltaf sem lögfræðingur. Hann hefur kannske fulllitla trú á að beita sínum miklu hæfileikum, þegar um efnahagsmálin er að ræða. Hann skilur einokun, þegar hún er lagaleg, en þegar sú sama einokun er hreint efnahagsleg, hreint fjárhagsleg, virðist hann halda, að þetta sé óhjákvæmilegt lögmál viðskiptalífsins eða þetta sé bara önnur mynd af því frjálsa framtaki einstaklingsins. Þannig megum við ekki hugsa. Við verðum að gera okkur ljóst, að þessir nútímahringar eru jafnvoldugir og t.d. Hansastaðasambandið var á sínum tíma, að sínu leyti eins voldugir og Hörmangararnir voru á sínum tíma gagnvart okkur. Okkur ber alveg jafnt að standa á verði gegn þeim, eins og ég veit, að honum hefði fundizt sjálfsagt að standa á verði gagnvart þessum einokunarbringum, sem ég nefndi, á þeim tíma, sem þeir pláguðu okkar þjóð. En þessir einokunarhringar eru það sterkir, að þeir hafa ekki einokun í einu landi, þeir hafa einokun í mörgum löndum, þeir hafa einokun jafnvel í hálfum heiminum, og í því liggur þeirra styrkur. Þeir eru alþjóðlegt vald, sem getur boðið hverri ríkisstjórninni á fætur annarri byrginn, og þess vegna finnst mér, að þessar ríkisstj., sem verða fyrir barðinu á þeim, eigi vissulega að athuga um að koma þannig samtökum á sín á milli, að þessir hringar geti ekki drottnað á þennan máta.

Þetta vildi ég aðeins segja vegna þess, að hæstv. forsrh. var að gera grín að því, að ég væri að setja mig þarna upp á háan hest. Þvert á móti, ég er að finna til minnar smæðar og til smæðar okkar þjóðar í baráttu við þessa aðila. Við vorum sammála um það, ég og hæstv. forsrh., þegar við ræddum hér í fyrra um alúminíumhringinn, að ef okkur fyndist hann vera eitthvað óþægilegur gagnvart okkur hér innanlands, þá gætum við vissulega þjóðnýtt hann. Í samningnum við hann væri meira að segja gert ráð fyrir þeim möguleika. En hvað þýðir fyrir okkur að tala um þennan möguleika, ef við ættum svo á eftir, þó að við hefðum allir orðið sammála um að gera slíkt, að standa bara frammi fyrir því, að vegna þeirra alþjóðlegu sambanda og alþjóðlegu samheldni þessara hringa, þýddi ekkert fyrir okkur að reyna nokkurn skapaðan hlut í slíku sambandi? Við verðum að horfast í augu við þann heim, sem við búum við, og reyna það, sem við getum, til þess að orka þannig á hann, að við breytum honum til hins betra. Og í staðinn fyrir þá einokun, sem meir og meir ryður sér til rúms í krafti peningavalds á ýmsum sviðum, reynum við, eftir því sem við getum, með samstarfi við aðra, vegna þess að sjálfir erum við allt of veikir til þess, — reynum við að koma því á, að þessir hringar geti ekki drottnað eins og þeir hafa gert.

Mér fannst einmitt ástæða til þess að koma með þetta mál á dagskrá, þegar Norðmenn urðu að gefast upp við að hafa seinasta fyrirtækið svona sjálfstætt þar, hafa það utan við áhrif hringanna, seinasta fyrirtækið, sem var sjálfstætt, sem ekki var innlimað meira eða minna í hina alþjóðlegu hringasamsteypu, þá fannst mér ástæða til þess, þegar við vorum sjálfir á sama tíma að grundvalla hér fyrirtæki og gefa því hér sérstaka aðstöðu.

Hæstv. forsrh. gerði hér að umtalsefni till., sem ég hafði komið með fyrir alllöngu í sambandi við það, hvernig ætti að tryggja okkar hlutleysi eða reyna að tryggja það. Og það er vandamál, sem vissulega snertir það mál, sem hér er til umr., og er í raun og veru alltaf tímabært mál. En það er rétt út af þeim orðum, sem féllu hjá honum þar, að ég rifji nokkuð upp, hvað um var að ræða þá. Ég vil í fyrsta lagi lýsa því yfir, að það var þá skoðun okkar sósfalista og er enn þá skoðun okkar sósíalista og Alþb.-manna, að við Íslendingar eigum á hverjum tíma að miða okkar utanríkispólítík við það að varast fyrst og fremst þá hættu, sem í svipinn er mest fyrir okkar sjálfstæði, þó að við verðum auðvitað alltaf að vera á verði gegn öllum þeim hættum, sem að því kunna að steðja, úr hvaða átt sem þær kunna að koma. Ég álít, að við eigum í þessu efni líka að hagnýta okkur þær andstæður, sem til eru á milli hinna ýmsu ríkja og stórvelda, til þess að reyna að varðveita sjálfstæði þessa lands, en reyna að varast um leið að ánetjast nokkru af þessum stórveldum.

Ég veit, að þetta er vissulega mjög erfitt mál. Þetta krefst mikils skilnings og réttrar skilgreiningar á aðstæðunum á hverjum tíma og rétts mats á þeim hættum og þá líka þeirri höfuðhættu, sem er á hverjum tíma. Það er gefið mál, að það er vandamál að varðveita sjálfstæði lítils og varnarlauss lands í þessum heimi, sem við lifum í. Ég skal ekki beint fara að lýsa skoðun Sjálfstfl. eða a.m.k. t.d. Morgunblaðsins, eins og það hefur lengst af komið fram í þessum málum. En oft liggur manni við að halda, að afstaða Morgunblaðsliðsins eða þeirra voldugustu manna innan Sjálfstfl. sé sú, að það sé venjulega bezt að fylgja þeim sterkasta í slíkum efnum, a.m.k. eftir að danska valdinu sleppti, sé það í raun og veru kannske höfuðatriðið í sambandi við utanríkispólitíkina og aðalatriðið að hugsa um það að hafa völdin á Íslandi í skjóli svo að segja hvers sem það kunni að vera á hverjum tíma. Það var álit Íslendinga, meðan við börðumst fyrst og fremst á móti danska valdinu, því kúgunarvaldi, sem var okkur nærtækast, þó að það væri ekki sterkast, þá var það pólitík Íslendinga að styðjast við aðila, sem áttu meira eða minna andstæða hagsmuni við það. Það er ekkert launungarmál, að allan síðari hluta 19. aldar og framan af 20. öld höfðum við óbeinan og oft beinan stuðning af Englandi í okkar sjálfstæðisbaráttu við Dani og alveg sjálfsagt og eðlilegt að hagnýta sér það. 1916 er það raunverulega England, sem yfirtekur þá dönsku aðstöðu hér á Íslandi, og frá þeim tíma og næstu tvo áratugi er það raunverulega sú enska heimsveldisstefna, sem er drottnandi gagnvart okkur fjárhagslega og pólitískt, enskir olíuhringar, enskt bankavald og annað slíkt, sem fyrst og fremst hefur þau fjárhagslegu tök á Íslandi, sem þá er okkar erfiðasti andstæðingur að eiga við. Þegar að því kemur, og það fór hæstv. forsrh. líka nokkuð inn á, að Þýzkaland Hitlers fer að verða voldugt, þá byrja átökin milli Hitler-Þýzkalands og Englands raunverulega um Ísland. Það, sem gerist á þessum tíma, og það skulum við sérstaklega athuga, gildi hlutleysisyfirlýsingarinnar í því sambandi, það, sem gerist á þessum tíma, er, að með tilkomu þýzka nazismans og með þróun hans fyrstu 3—4 árin verður það öllum þeim, sem sjá vilja, alveg greinilegt, að það er orðin alger umbreyting í heiminum. Það gerast hlutir, sem krefjast af okkur svo að segja endurmats allra gilda. Þýzki nazisminn er fyrirbrigði, sem aldrei hafði komið fyrir í veröldinni áður í slíkri mynd og ekki hafði verið reiknað með, að væri til, að gæti komið fyrir í Evrópu. Sú hlutleysisyfirlýsing, sem við gáfum 1918, var góð í sjálfu sér og er enn í sjálfu sér góð og er enn í sjálfu sér sú rétta stefna, sem rétt er að framkvæma og treysta á, á meðan nokkurn veginn eðlilegt ástand ríkir í veröldinni í kringum okkur. Og fyrstu 20 árin eða a.m.k. fyrstu 18 árin, eftir að hlutleysisyfirlýsingin er gerð, er svo. Það, sem gerbreytist í þessu, er, að þegar þýzki nazisminn kemur til, verður alveg greinilegt, að það er ekki lengur hægt að treysta á neinar slíkar yfirlýsingar. Það tímabil, sem nazisminn drottnar í Þýzkalandi, ríkir undantekningarástand í veröldinni, ástand, sem var gerólíkt því ástandi, sem var áður, þ.e. fyrstu tvo áratugina, og ástand, sem var gerólíkt því ástandi, sem er eftir það. Og það er þetta, sem menn verða að gera sér ljóst. Hlutleysisyfirlýsingin var rétt og góð og er það enn, en hve örugg hún er sem pólitík það fer eftir aðstæðunum í kringum okkur. Ég álít hana örugga í dag. Ég álít hana líka alveg örugga frá því 1918 og fram undir 1936—1938. Þá fyrst, þegar HitlerÞýzkaland fer að sýna sig í því að gleypa hvert ríkið á fætur öðru, þá er greinilegt, að þarna er kominn til skjalanna aðili, sem engu skeytir um neitt af því, sem hægt var að leggja til grundvallar í allri stefnu og öllum stjórnmálum Evrópu fram að þeim tíma. Ég álít, að við sósíalistar höfum áttað okkur tiltölulega fljótt á því, hvað þá var að gerast, og það gerðu ýmsir borgaralegir stjórnmálmenn líka. Við álitum það skyldu okkar að líta raunsætt á þann heim, sem var að gerbreytast í kringum okkur, og gera till. út frá því, og sagan sýnir, að við höfðum í þessu efni á réttu að standa. Það, sem var öruggt á árunum áður og ekki aðeins rétt, var ekki öruggt lengur. Það, sem við þess vegna gerðum, var, að 1. des. 1938, á 20 ára afmæli fullveldisins, var forustumönnum stjórnmálaflokkanna falið að koma fram í útvarpinu og ræða aðstæðurnar eins og þær voru þá. Af því að þáv. formaður Sósfl., Héðinn Valdimarsson, var fjarverandi, lenti það f minn hlut að koma þá fram, og flutti ég þá til1. um, að við Íslendingar, eins og ástandið væri þá orðið í beiminum, gerðum ráðstafanir til þess að reyna að fá ábyrgð á okkar fullveldi, okkar friðhelgi og hlutleysi. Og við lögðum til, að við snerum okkur til fjögurra stórvelda um, að þau sameiginlega ábyrgðust sjálfstæði og friðhelgi okkar lands. Þessi stórveldi voru Bandaríkin, England, Frakkland og Sovétríkin.

Það var alveg greinilegt, við hvað þetta var miðað. Það var miðað við það, að framkoma Hitler-Þýzkalands á þessum dögum og þessum mánuðum væri orðin slík, að okkar hlutleysisyfirlýsing væri ekki lengur örugg í þessum heimi, eins og hún hafði verið 20 ár áður. Raunsæir stjórnmálamenn yrðu þess vegna að reyna að gera einhverjar ráðstafanir til þess að skírskota til þeirra stórvelda, sem maður hlaut að ganga út frá að hefðu a.m.k. ekki neinn áhuga á því, að HitlerÞýzkaland tæki Ísland, hvort þau vildu gefa yfirlýsingu um að ábyrgjast sjálfstæði og hlutleysi landsins. Slíkt fyrirkomulag er tiltölulega algengt í stjórnmálaheiminum og á ekkert skylt við það, að viðkomandi stórveldi hafi t.d. herstöðvar eða neitt slíkt í slíku landi. Og aldrei hefur verið á neitt slíkt minnzt, og þetta er atriði, sem er svo fjarri því að vera úrelt, að þvert á móti nú eftir stríðið tíðkast þetta, og áberandi stjórnmálamenn, forustumenn fyrir litlum ríkjum, hafa nákvæmlega sömu afstöðu og við höfðum þá og við höfum enn. Ég skal taka sem dæmi núna í dag t.d. Austurríki. Austurríki hefur lýst yfir ævarandi hlutleysi, og sú yfirlýsing, sem gefin var 28. okt. 1955, þar sem Austurríki tók það fram, að það lýsti yfir ævarandi hlutleysi og vildi viðhalda sínu sjálfstæði og friðhelgi o.s.frv., og í þeirri ræðu, sem kanzlarinn þá flutti, sagði hann þessi orð um leið:

„Ég vil taka það fram samt sem áður, að við mundum bjóða velkomna greinilega, sameiginlega ábyrgð á friðhelgi og óskertu fullveldi okkar lands frá hálfu hinna fjögurra stórvelda:`

Hlutleysisyfirlýsing, þar sem um leið er óskað eftir ábyrgð, t.d. í þessu tilfelli þessara fjögurra stórvelda, þykir algengt og eðlilegt fyrirkomulag til þess að tryggja fullveldi lítils ríkis, sem t.d. vegna legu sinnar gæti annars freistað einhverra stórvelda. Hæstv. forsrh. notaði sjálfur þau orð, þegar hann var að tala um Ísland, að við værum núna þannig settir, að við værum eins og í miðri Evrópu. Og hvað gerir svo einmitt eitt af þeim minnstu ríkjum í miðri Evrópu? Það framkvæmir nákvæmlega þessa pólitík, sem ég lagði til 1. des. 1938 og við sósíalistar og við Alþb.-menn álitum enn mjög skynsamlega pólitík. Það er þess vegna fjarri því, að hér sé um eitthvað að ræða, eins og langalengi er búið að vera að reyna áð snúa út úr, eins og oft er vaninn, t.d. hjá Morgunblaðinu, og byrjaði raunar strax þá, fyrir tæpum 20 árum, þ.e. snúa út úr þessu. Þetta var ekkert annað frá okkar hálfu heldur en það að reyna að hagnýta sér þær andstæður, sem greinilega voru í uppsiglingu á milli Hitler-Þýzkalands annars vegar og allra hinna stórveldanna, Frakklands, Englands, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, þó að þau öll saman stæðu þá mjög misjafnlega að vígi pólitískt, — hagnýta sér andstæðurnar á milli þessara tveggja aðila til þess að reyna að tryggja hlutleysi, friðhelgi og sjálfstæði Íslands. Og ég álít, að þannig eigi menn að breyta, ef þeir vilja sýna einhverja ábyrgðartilfinningu fyrir sínu landi og reyna að tryggja sjálfstæði þess, en séu ekki að miða við að gera það háð einhverju þessara stórvelda. Ég held þess vegna, að það að koma fram með þessa till., — þetta er rúmum mánuði eftir München-samninginn, rúmum mánuði eftir að Tékkóslóvakía var svikin í hendurnar á Hitler-Þýzkaland með öllum þeim góðu köstulum og vígum og vopnabúnaði, sem hún átti, — þá hafi þetta verið alveg sjálfsagður hlutur og eðlilegt og skynsamlegt af hálfu íslenzku ríkisstj. að gera slíkt, ef hún hefði sýnt ábyrgðartilfinningu og forsjálni í þessum efnum.

Það gerðist annað atvik nokkru seinna, þar sem reyndi aftur á þetta. Það var eftir 15. marz 1939. 15. marz 1939 tók Hitler Tékkóslóvakíu, réðist þar inn, hafði fyrst boðið forseta Tékkóslóvakíu til Berlínar, sett honum þar stólinn fyrir dyrnar, sett honum þar þá úrslitakosti, að annaðhvort fæli hann þýzka hernum vernd Tékkóslóvakíu eða það yrði ráðizt á Prag og hún yrði sprengd í rúst. Náttúrlega hafði forsetinn enga heimild til að gera nokkurn skapaðan hlut í slíku efni, en það, að hann var af þessum glæpamönnum settur frammi fyrir þessum kostum, gerði það, að hann féllst á þetta, og síðan marséraði Hitler-Þýzkaland inn í Tékkóslóvakíu.

17. marz 1939 kom ég þess vegna með fsp. hér á Alþ. út frá því, sem þá hafði gerzt úti i Evrópu. Ég áleit, að það væri ekki rétt, að við hér á Íslandi værum alveg sinnulausir um, hvað væri áð gerast. Fsp. mín þennan dag var, með leyfi hæstv. forseta, svo hljóðandi:

1. Hvort hinn væntanlegi þýzki rannsóknarleiðangur hafi óskað eftir leyfi íslenzku ríkisstj. til þess að ferðast um landið. 2. Hvort hinir þýzku flugmenn, sem séu á leiðinni og taldir vera á vegum Lufthansa til þess að semja um lendingarstaði hér fyrir þýzkar flugvélar í sambandi við flugsamgöngur til Ameríku, hafi óskað eftir að fá að tala við íslenzku ríkisstj. 3. Hvort stjórnin ætlaði að leyfa skipverjunum á Emden að fara í fylkingu um götur Reykjavíkur, eins og s.l. ár, og ganga vopnuðum í hergöngu og syngja hersöngva eins og í herteknu landi. 4. Hvort nokkrar ráðstafanir hafi verið gerðar í sambandi við heimsókn hins þýzka herskips til þess að tryggja það, að hér séu samtímis stödd ensk eða amerísk herskip.

Þá var ekkert farið að ræða um þessa hluti opinberlega, en ég vildi gera þá opinbera, vegna þess að ég þóttist vita, hvað í húfi væri, svo framarlega sem menn héldu áfram að vera jafnauðtrúa gagnvart Hitler-Þýzkalandi og ýmsir ráðandi menn landsins voru þá enn þá. Þess vegna kom ég með þessa fsp., og þessi fsp. varð til þess, að hæstv. þáv. forsrh., núv. 1. þm. Vestf., Hermann Jónasson, svaraði þessum fsp., og ég símaði um þær undireins til útlendra blaða til þess að vekja eftirtekt á því úti um heim, hvað væri að gerast hér úti á Íslandi. Og þannig kom þetta mál upp í blöðum um alla veröld, og það var fylgzt með því alls staðar frá, hvað hér væri að gerast.

Það var til allrar hamingju þá svarað algerlega neitandi öllum þessum till., og ég skal ekki fara að rifja upp þær umr. hér. Það mætti máske við tækifæri, ef reynt verður að einhverju leyti að fara að rangtúlka þessa hluti, en það var greinilegt, að af hálfu Hitler-Þýzkalands var óskin að ná ítökum hér auðsjáanlega mjög rík. Ég var kallaður landráðamaður og allt slíkt fyrir að hafa vakið athygli á þessu og fyrir að vekja athygli á því, að það var einhver hætta vofandi yfir Íslandi, og ég var fyrir mitt leyti alveg ósmeykur við að spyrja að því, hvort það hefðu ekki verið gerðar ráðstafanir til þess, að ensk eða amerísk herskip væru hér einhvers staðar nærri, því að ég áleit það mögulegt, að það yrði beitt álíka aðferðum við ríkisstj. Íslands þá eins og var beitt við forseta Tékkóslóvakíu í Berlín tveim dögum áður. En hér á landi aftur á móti virtust menn vera mjög trúaðir á, að þýzka stjórnin væri ekkert annað en mjög vinsamleg og indæl stjórn að öllu leyti við að fást.

Ég veit, að það er í sífellu reynt, ekki sízt af hálfu Morgunblaðsliðsins, að rangfæra þá afstöðu, sem við þá tókum, og það er gert venjulega í trúnni á það, að hér hafi svo sem verið svo indælir lýðræðissinnar, að það hafi ekki verið nokkur hætta á, að nokkur maður hér mundi vilja fara að eiga eitthvað vingott við Hitler-Þýzkaland.

Ástandið var hins vegar ekki þannig þá. Ástandið var þannig þá, að ýmsir af valdamestu mönnum Sjálfstfl. litu svo á, að nazisminn og nazista-flokkurinn hér væri hluti af Sjálfstfl., eins og einn af þm. Sjálfstfl. skrifaði í Morgunblaðið á sínum tíma í maí 1933. Og það var alveg sama afstaðan þá líka eins og í leiðara Morgunblaðsins, þegar afstaða var tekin með því að segja, að það hefðu verið kommúnistar, sem hefðu kveikt í ríkisþinginu, og það var spurt: Hvenær fer að loga við Austurvöll? Hvaða svívirðingarverk sem var, sem Hitler lét vinna að, var Morgunblaðið þá eitt af þeim fáu blöðum í allri Evrópu, sem trúðu því, að það væri rétt, sem Hitler segði. Og þegar bæði verkalýðsblöðin, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið, voru þá að skrifa og vara við, þá má kannske minna á, hver afstaðan var hjá Morgunblaðinu. Þegar t.d. Alþýðublaðið var að deila út af þessum málum 1936, þá segir Morgunblaðið beinlínis í leiðara 26. nóv. 1936:

„Ef utanrrh. Haraldur Guðmundsson gerði skyldu sína og stöðvaði hið gálauslega fleipur blaðs síns um Þjóðverja, er verzlunarsamningnum við þá ekki lengur teflt í voða og mjög sennilegt, að ná mætti samningum um innflutning til Þýzkalands á enn meira magni af ísfiski.“

Þá var hótað í Morgunblaðinu, eins og fyrir hönd Hitler-Þýzkalands, að verzlunarsamningarnir við Þýzkaland séu í voða, ef Alþýðublaðið þegi ekki um Hitler, en ef það þegi, sé hægt að auka þá. Það er alveg greinilegt, hvaða bakhjarl það er, sem Morgunblaðsliðið þá telur sig hafa. Það kom líka fram í yfirlýsingum, sem framstandandi menn í Sjálfstfl. gáfu, hvernig var litið á málin. Einn af helztu forustumönnum Sjálfstfl., sem verið hefur á síðustu árum, einkavinur hæstv. forsrh., Gunnar Thoroddsen, sem ég heyri jafnvel sagt að hugsi sér sig sem næsta forsetaefni Sjálfstfl., hann var ekkert að draga dul á það þá, hvernig við Íslendingar ættun að haga okkar málum. Í flokkstímariti Sjálfstfl., stefnutímariti þess, birtist grein einmitt um þessar mundir, síðast á árinu 1938, um það leyti sem München-samningurinn og slíkt er gert, þá birtist grein, sem heitir „Þegar vernda skal fullveldið“, það er í 5. hefti „Þjóðarinnar“, þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að Norðurlöndum frágengnum eru tvær þjóðir oss skyldastar, Englendingar og Þjóðverjar. Báðar hafa þessar þjóðir sýnt okkur velvild og vináttu, Englendingar einkum í efnahagsmálum, Þjóðverjar í menningarmálum.“ Síðan segir: „En til þess að eiga nokkra von um að ná samúð stórveldanna eru viss skilyrði um stjórnarfar innanlands óhjákvæmileg. Það er víst, að þýðingarlaust er að ætla sér að fá vináttu tveggja fyrrnefndra ríkja, ef hér ríkir stjórnarstefna, sem er fjarlæg og fjandsamleg stjórnarstefnu þeirra.“

Síðan er farið inn á, að í Þýzkalandi séu tvö meginauðkenni stjórnarstefnunnar: þjóðernisstefna og einræðisstjórn. Og svo er hann að bollaleggja um, að það, sem hér eigi að vera, það sé þjóðernissinnuð lýðræðisstjórn, og þá tryggjum við okkur vináttu Þýzkalands og Englands. Stjórnendur Þýzkalands og Englands voru á þessum tíma Chamberlain og Hitler. Og þessi forustumaður Sjálfstfl. er ekkert að draga dul á það, að til þess að við getum náð vináttu þessara þjóða og þessara stjórna, þurfum við að hafa slíkt stjórnarfar hér innanlands, að það sé í samræmi við þeirra vilja. Þá var það mikið útbásúnerað, af því að þá var hér enn þá svokölluð vinstri stjórn, stjórn hinna vinnandi stétta, Alþfl. og Framsfl. í ríkisstj., og Morgunblaðið talar fyrst og fremst alltaf á móti sósialistum, þá þótti þessum forustumanni sjálfsagt, að hér þyrfti að. breyta um, hér ætti að koma stjórn, sem þeir Chamberlain og Hitler litu réttum og sanngjörnum augum, og hótanirnar í sambandi við verzlunarsamninginn eru þess vegna alveg skiljanlegar í sambandi við þetta allt saman. Svona var aðstaðan á þessum tíma.

M.ö.o.: við Íslendingar áttum svo sem ekki að ráða okkar stefnu sjálfir, við áttum ekki að mega móta hana eftir því, hver væri hugur landsmanna sjálfra. Nei, það voru viss skilyrði, sem aðrar þjóðir áttu að setja, og vinátta þessara stórvelda átti að vera bundin því, að við framkvæmdum þá stefnu, sem þeim var að skapi.

Svo kom að München-samningnum. Og þá voru ýmsir, sem byrjuðu að átta sig, þegar Münchensamningurinn var gerður, og við skrifuðum þá mjög hatramlega um Chamberlain og álitum það. svik við lýðræðið í Evrópu, það sem hann hafði framkvæmt. Morgunblaðið var á annarri skoðun. Morgunblaðið leit svo á, að það, sem Chamberlain hefði gert, væri mjög gott. Í leiðara Morgunblaðsins 30. sept. 1938 segir:

„Allur heimurinn hefur með aðdáun og lotningu horft á aðgerðir Chamberlains, forsrh. Breta, undanfarið í þágu friðarins. Engum hefur dulizt, að hér hefur verið mikilmenni að verki, mikilmenni, sem á fáa eða engan sinn líka nú á dögum.“

Og síðan er talað eins og alltaf var þá um alls konar landráðamenn, sem leyfi sér að ráðast á þessa ágætismenn; og það, sem vægast er sagt, er tal um ábyrgðarlausa lýðskrumara, átt m.a. við Churchill. Og það er ekki bara Þjóðviljinn, sem hafði þá verið efasamur um gildi München-samningsins. Alþýðublaðið og Tíminn voru það líka, og það er ráðizt t.d. 6. okt. hatramlega í Morgunblaðinu á Tímann fyrir að skrifa rétt eins og Tímanum væri stjórnað frá Moskvu. Nú gætu menn kannske haldið, að eitthvað hefðu þessir menn farið að átta sig á eftir. Þegar svo höfuðglæpurinn kemur og jafnvel þeir, sem vitlausastir voru áður og blindastir, vakna 15. marz 1939, þegar Hitler tekur Tékkóslóvakíu, hvað segir Morgunblaðið þá? Hvað segja þeir menn, sem allan tímann og líka síðan hafa verið að reyna að rangfæra og rangtúlka allt það, sem við reyndum að gera þá til þess að vekja þjóðina til meðvitundar um, hvaða hætta stafaði frá HitlerÞýzkalandi? 15. marz 1939 segir í leiðara Morgunblaðsins:

„Tékkóslóvakía var að liðast í sundur, hverfa inn í „þýzka búrið“, eins og það er kallað sums staðar á meginlandinu. Það er verk mannanna frá Versölum, sem er að hrynja í rústir.“ Síðan segir: „Atburðirnir, sem nú eru að gerast, eru aðeins afleiðing af þeirri heimsku, sem drýgð var í Versölum.“ Síðan segir: „Skref fyrir skref eru Þjóðverjar að breyta ósigri sínum frá því 1918 í glæsilegan sigur, án þess að nokkrum blóðdropa sé úthellt.“ Og svo segir seinast í leiðaranum: „Hitler heldur áfram stefnu sinni í austurátt. Á eftir Tékkóslóvakíu er röðin að líkindum komin að Rúmeníu, þar sem Þjóðverjar fá olíu og hveiti, Póllandi, Ungverjalandi og Úkraínu, hinu frjósama forðabúri í austurátt, sem nú er undir Rússum.“

Hvert orð í þessum leiðara var eins og talað út úr hjarta Hitlers. Það er í algeru samræmi víð allan áróður þýzku nazistanna á þessum tíma, bókstaflega látin í ljós vonin, sem verstu afturhaldsmenn Evrópu þá báru í brjósti: Þetta var nú gott, að hann gleypti Tékkóslóvakíu. Nú heldur hann áfram í austurátt o hann tekur Pólland, Ungverjaland, Rúmeníu og Úkraínu. Og þegar ég svo er að vekja athygli á því, að nokkur hætta kunni að stafa að Íslandi af þessu, og síma út um heim svörin, sem gefin eru hér, þá er bara sagt, að svona skeyti skaði vináttusambandið, sem ríki á milli Íslands og Þýzkalands, og það sé landráðastarfsemi. — Þetta eru orð Morgunblaðsins og þeirra á þeim tíma.

M.ö.o.: meðan við sósíalistar reynum að vekja athygli á gerbreyttum aðstæðum í Evrópu, reynum að stinga upp á nýjum aðferðum til þess að tryggja það hlutleysi, sem er rétt og gott í sjálfu sér, en ekki orðið öruggt með aðra eins brjálaða valdaræningja við völd eins og þá í Hitler-Þýzkalandi, — þegar við reynum að vekja athygli á þeirri hættu, sem líka kunni að vofa yfir Íslandi, þá er ekkert annað að finna hjá Morgunblaðsliðinu en algera fylgispekt við Hitler og allt miðað aðeins við eitt, og það er, að Hitler gæti orðið eins konar forvörður, brautryðjandi fyrir auðvaldi Evrópu á móti sósíalismanum. Menn muna það kannske ekki lengur, en við munum það, að meira að segja þegar Norðmenn, norska stórþingið, þegar veitt voru friðarverðlaun Nóbels 1936, þegar Norðmenn sem sé risu upp til þess að undirstrika hættuna, sem af Hitler-Þýzkalandi stafaði og meðferðinni á fólkinu þar, og veitti Niemüller, sem þá var fangi í fangabúðum Hitlers, Nóbelsverðlaunin, þá var fyrirsögn Morgunblaðsins hér heima, að landráðamanni hefðu verið veitt friðarverðlaun Nóbels, og um leið tekið fram, — það var held ég sama daginn svo að segja eða daginn eftir, að hótað var út af verzlunarsamningnum 1936, — að nú óttist menn í Noregi, að þetta kunni að hafa slæm áhrif á verzlunarsamninga Hitler-Þýzkalands við Noreg. Við álitum það þá vera ábyrgðartilfinningu af okkar hálfu að koma fram með tillögur til athugunar um, hvernig hægt væri einhvern veginn að tryggja betur sjálfstæðið en með yfirlýsingunni einni saman. Ég áleit þá, að það væri rétt, ég álít enn, að það hafi verið rétt, og ég álít, að það sé líka rétt pólitík í dag, þegar í Evrópu a.m.k. lítur jafnfriðsamlega út eins og frá 1918 til 1936. Við hörmuðum það, þegar Hitler gleypti hvert landið á fætur öðru. En hér voru aðrir aðilar, sem fögnuðu og sáu enga hættu í því fyrir Ísland. Ég held þess vegna,að það hafi verið alveg að ófyrirsynju af hæstv. forsrh. að fara að reyna að snúa út úr og ráðast á þá tillögu, sem við vorum þá með. Ég held þvert á móti, að sagan muni sýna það, að við höfum sýnt ábyrgðartilfinningu, sem skorti á öðrum hinum svokölluðu æðri stöðum þá.

Þá ræddi hæstv. forsrh. um hernaðargildi Íslands og kom með ýmsar sögur í því sambandi. Ég vil segja eitt í sambandi við þetta: því meira hernaðargildi sem Ísland fær og því ægilegri sem vopnin verða, sem beitt er í heiminum, því meiri þörf álit ég á því fyrir okkur, sem hyggjum þetta land, að reyna að halda þessu landi utan við hernaðinn og hindra, að það sé herstöð. Þannig hlýtur það a.m.k. að lita út frá sjónarmiði þeirra, sem fyrst og fremst væru að hugsa um, hvað um þetta land yrði, en ekki bara hitt, hverjir hefðu völdin í því.

Hæstv. forsrh. vildi ætla, að það hefði verið Lenín fyrstur manna, sem uppgötvaði það, að Ísland hefði einhverja hernaðarlega þýðingu. Ég held nú, að frá því að yfirleitt þjóðirnar hér við Norður-Atlantshaf hafi farið að hugsa til hernaðar, hafi flestum þeirra verið ljóst, að Ísland hafði þar þýðingu, a.m.k. fyrir alla þá, sem flota höfðu á þeim tíma. Við vitum, að Englandi, sem drottnaði yfir heimshöfunum í krafti síns flota, forustumönnum Englands var alltaf mjög vel ljóst, hvert gildi Ísland hafði. Þeir tryggðu sér hér raunverulega aðstöðu eða höfðu möguleikann á því opinn alltaf að tryggja sér hana jafnvel enn betur í öllum Napóleonsstyrjöldunum, og það var svo einnig í stríðinu 1914—1918, að Bretar höfðu alltaf vakandi auga á því, hvað hér gerðist, og sköpuðu sér hér vissa aðstöðu í því sambandi. Einmitt einn af hernaðarsérfræðingum Þýzkalands, Wegener, sem ritaði 1929 um reynsluna af fyrri heimsstyrjöldinni, er einmitt að gagnrýna það, að Þýzkaland skuli ekki í þeirri heimsstyrjöld hafa tekið Danmörku og Noreg og Færeyjar og Ísland, og bendir mjög á það til athugunar viðvíkjandi næstu heimsstyrjöld. Það þurfti náttúrlega engan sérstakan stjórnmálasnilling til þess að sjá, hvaða gildi Ísland hlaut að hafa þannig.

Hins vegar það, sem hæstv. forsrh. vitnaði í um það, sem Hendrik heitinn Ottósson hafði ritað, býst ég við, að það fari eitthvað á milli mála. Það er ekki rétt hjá honum, hann hefur vafalaust miklað það fyrir sér seinna meir, Lenín hélt aldrei neina ræðu um þessi mál. Hins vegar heyrðust sagnir um það, að hann hefði sagt við amerískan kommúnista eitthvað um það í einkasamtölum, að Ísland hefði vafalaust mjög mikið hernaðarlegt gildi, ef Evrópa og Ameríka ættu einhvern tíma eftir að berjast. Það þurfti engan sérstakan snilling til þess að sjá slíkt.

En í þessu sambandi komum við að því, sem snertir hertöku Íslands 10. maí 1940. Þegar Ísland þá er hertekið, hver er þá eðlileg afstaða okkar Íslendinga? Við skulum gera okkur alveg ljóst, að það gat margt illt hent okkur þá. Hertaka Þjóðverja hefði náttúrlega orðið hræðileg fyrir okkur, ekki sízt kannske þá okkar, sem vorum taldir þeim hvað andvígastir. En staðreyndin varð hins vegar sú, að Bretar hertóku landið. Það gerðist þar með, að sú hætta, sem var nærtækust hér fyrir okkur og við þurftum að standa á verði gegn, var, að Bretar yrðu hér áfram, þeir ílengdust hér og þeir svo að segja legðu þetta land alveg undir sig. Það er vitanlegt, að Bretar hafa hertekið mörg lönd úti um heim í styrjöldum, öllum þeim styrjöldum, sem þeir hafa háð öldum saman, og þeir eru ekkí vanir að sleppa þeim aftur, nema þeir þurfi þess. Afstaða sósíalista hér á Íslandi þá var að vissu leyti á ýmsan hátt erfið. Hún var að sumu leyti kannske ekki alveg ólík því, sem var t.d. hjá sósíalistunum í Indlandi, mönnum, sem vissulega hötuðu fyrst og fremst fasismann. En í þeirra eigin landi var það hins vegar England, sem drottnaði og kúgaði þá. Þann tíma, sem Bretar höfðu Ísland hersetið, var aldrei af okkar sósialista hálfu unnið eitt einasta skemmdarverk af neinum gegn þeirra hernaði hér, og vitum við þó, sem þekktum alla hluti þá, að símalínurnar þeirra lágu um allt land ofan á jörðunni, og það var aldrei skorið á eina einustu þeirra. Skemmdarverk voru aldrei framin, og Bretum var aldrei gert að neinu leyti erfitt að framfylgja sínum aðgerðum hér. En hitt aftur á móti álitum við sjálfsagt, að við yrðum á verði gagnvart öllum yfirgangi af þeirra hálfu, m.a. þegar þeir fara að skipta sér af okkar innlandsmálum, sem þeir höfðu lofað að gera ekki.

Við reyndum þannig á hverjum tíma að meta aðstæðurunar, eins og þær voru, líka eftir því, hvernig þær breyttust. Það var ekkert ofstæki í því. Það var alltaf raunsætt mat á því, hvar var sú raunverulega hætta á hverjum tíma og hver var sú nærtækasta hætta. Við vöktum athygli á því, þegar við vissum, að Bandaríkin voru að búa sig undir að taka hér við af Bretlandi, og 27. apríl 1941, daginn sem Þjóðviljinn er bannaður, eru í þeim leiðara, sem ég skrifaði í hann þá, seinustu orðin þau, — og höfðum við þá náttúrlega ekki nokkra hugmynd um, hvað okkar beið, — þá voru seinustu orðin þau, að það geti nú farið svo, að Bandaríkin taki hér við af Bretlandi, sumum kunni að finnast það fagnaðarefni, en það sé síður en svo. Þannig mátum við það þá, að við álitum, að þó að Bandaríkin þá tækju við, mundi það jafnvel verða enn þá erfiðara fyrir okkur seinna meir að losa okkur frá þeim, svo voldugt ríki sem þau voru, heldur en losa okkur úr klóm Bretans. Við reyndum á hverjum tíma að meta þá hættu, sem Íslandi stafaði af öllum þeim löndum, sem þarna voru í kringum okkur og meira eða minna seildust til ítaka hér, allt saman út frá því sjónarmiði, hvernig Ísland sem slíkt gæti sem bezt sloppið í þessum efnum og ekkert af þessum löndum gæti varanlega náð hér ítökum. Við framkvæmdum þá stefnu okkar að vinna í sífellu gegn þeirri hættu, sem væri mest í svipinn, en hafa samt opin augu fyrir öllum þeim hættum, sem í kringum okkur væru. Það sýndi sig, að það var rétt, sem við sögðum þennan dag í leiðara Þjóðviljans, síðasta blaðinu, sem þá kom út af honum um tíma. Bretland varð að gefa Ísland upp, afhenda Bandaríkjunum ítökin hér, og Bandaríkin hafa síðan í 25 ár haldið þeim ítökum á einn eða annan máta. 20 ár erum við nú bráðlega búnir að vera í NATO, 15 ár eru búnar að vera opinberar herstöðvar hér, eftir að hermennirnir, sem í þeim voru, voru um tíma umklæddir í sérfræðinga. Hernaðargildi Íslands heldur áfram að vera, og frá sjónarmiði okkar þjóðar verðum við alltaf að halda áfram að miða við það, á hvern hátt er hægt að losa þessa þjóð út úr því að verða þessum stóru aðilum, sem eru að slást í veröldinni, að bráð. Út frá því höfum við flutt okkar till. og flytjum enn um að losa okkur við herstöðvar hér og losa okkur út úr hernaðarbandalögum.

Þá fór hæstv. forsrh. inn á svokallað stríðsyfirlýsingamál, þar sem hann vildi segja, að við. sósíalistar hefðum verið inni á því, að Ísland ætti að segja Þýzkalandi stríð á hendur. Það er eitt af mörgu, sem reynt er að villa um með og snúa út úr og gefa rangar yfirlýsingar um. Það, sem þarna var um að ræða, var, að þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, hafði það verið gert að skilyrði af hálfu ýmissa þjóða, að þarna væru ekki aðrir með en þau ríki, sem segðu Þýzkalandi stríð á hendur, og ýmis smáríki, t.d. í Mið-Ameríku, Suður-Ameríku og ýmis ríki úti um heim, höfðu sagt Þýzkalandi þá stríð á hendur án þess að senda þangað einn einasta hermann eða taka á nokkurn hátt þátt í þeirri baráttu, en gerðu þannig kröfu til að vera stofnendur Sameinuðu þjóðanna. Við sósíalistar lögðum aldrei til, að Ísland segði Þýzkalandi stríð á hendur. Á þeim leynifundum, sem haldnir voru þarna, kom greinilega fram, að slíkt gætum við ekki. Það, sem við hins vegar lögðum til, var, að við segðum við þessi stórveldi: Ísland hefur misst fleiri menn í þessu stríði heldur en Bandaríkin að tiltölu, og Ísland á þess vegna kröfu á því, að slíkt framlag Íslands í styrjöldinni sé metið jafnmikilvægt og það, þó að einhverjar þjóðir segi Þýzkalandi stríð á hendur, sem ekkert hafa gert og ekkert gera. Og frá mórölsku sjónarmiði áttum við sannarlega kröfu á því að vera þannig með stofnendum Sameinuðu þjóðanna, og það hefði verið eðlilegt, að þau stórveldi, hver sem þau voru, sem þarna áttu hlut að máli, tækju fyrst og fremst tillit til slíkra fórna, ekki til hins, að forminu einu saman væri fullnægt af þeim ríkjum, sem að nafninu til höfðu her.

Svo kom hæstv. forsrh. inn á það um þing Sameinuðu þjóðanna í des. 1946, þegar nýsköpunarstjórnin var farin frá og engin stjórn með þingræðislegan meiri hl. sat að völdum á Íslandi og rætt var um, hvort það ættu ekki að fara nokkrir menn frá Íslands hálfu og jafnvel helztu forustumenn stjórnmálaflokkanna í sendinefndina, þegar átti að taka Ísland inn í Sameinuðu þjóðirnar. Það var engin stjórn og enginn utanrrh., sem gat beint haft vald á þessum tíma til að ákveða, hvað gera skyldi. Og það, sem ég hafði persónulega stungið upp á, var, að ef við færum þarna frá öllum flokkunum, kæmum við okkur saman um, að við sætum hjá, nema við værum sammála um það mál, sem ætti að greiða atkv. um, einmitt með tilliti til þess, að það var enginn utanrrh., sem hafði vald til að ákveða, eins og utanrrh. annars hefði. Og hæstv. forsrh. var svo elskulegur að fara að gera mér alls konar getsakir í þeim efnum. Ég skal þá rifja upp fyrir honum, að það var eitt mál, sem kom til umr. í þessu sambandi og ég minntist á, og það var það mál, að ég sagði: Ég álít t.d. alveg óhjákvæmilegt, að Ísland taki afstöðu með því, að Indverjar fái að kaupa jarðir í Suður-Afríku. Og það gall einn af forustumönnum stjórnmálaflokkanna hér við og sagði: Hvað á þetta að þýða? Hvað eigum við að vera að skipta okkur af því? Er það eitthvert mál, sem kemur fyrir Sameinuðu þjóðirnar? Ég sagði já, þetta verður eitt af þeim veigameiri málum, sem rædd verða á þessu þingi, vegna þess að það verður skoðað sem spursmál um almenn mannréttindi, hvort litaðir menn í Suður-Afríku hafa rétt til að eiga jörð, og Ísland á að taka afstöðu með slíku. Þetta var eina málið, sem var rætt um, og ég sagði fyrir mitt leyti, að ef við gætum ekki verið öruggir um að geta staðið saman um svona mál, yrðum við Íslandi til skammar, og ég kærði mig ekkert um að vera með í sendinefnd eða einhver okkar upp á þau býti, að við gætum ekki reynt að koma okkar saman um svona mál. Það var byrjunin á því, sem nú er kallað „apartheit“, sem þá var að byrja í Suður-Afríku. Og til allrar hamingju fór það svo seinna meir, að íslenzka sendinefndin tók afstöðu með Indverjum í þessu, og ég man alveg sérstaklega eftir því, þegar formaður þeirrar sendinefndar, — ég man ekki, hvort það var á því þingi eða seinna, ég þori ekki að fullyrða það, - Finnur heitinn Jónsson dómsmrh. þáv. hæstv. sagði mér einmitt sérstaklega frá því á eftir, þegar systir Nehrus, formaður indversku sendinefndarinnar, gekk þvert yfir salinn til hans til þess að þakka honum fyrir stuðning Íslands í þessu máli. En það er nauðsynlegt fyrir Ísland upp á þess framkomu út á við að fylgjast ætíð með í því, sem er að gerast á alþjóðavettvangi, og reyna að sjá til þess, að okkar framkoma þar sé eins og hæfir virðingu okkar þjóðar.

Þá kom hæstv. forsrh. inn á Marshall-samninginn. Ég hafði minnzt á Marshall-samninginn eins og þátt í því, að Bandaríkin tryggðu sér ítök á Íslandi og skiptu sér af stjórnmálum Íslands og hvernig hér ætti að ráða málum. Hann fór hins vegar að tala um, hve dásamlegur Marshall-samningurinn hefði verið fyrir Evrópu. Jú, vissulega, ég er reiðubúinn að ræða við hæstv. forsrh. líka um Marshall-samninginn viðkomandi Evrópu, ef hann vill fara að teygja umr. inn á það svið. Ég er reiðubúinn til að ræða hann jafnt viðvíkjandi Evrópu og heiminum, afstöðu Bandaríkjanna, ef hann kýs það heldur en einbeita sér bara við Ísland. Mér er alveg jafnljóst og honum, og ég er honum sammála um það, að í krafti Marshallsamningsins var framkvæmd stórfelld uppbygging í Evrópu, alveg stórfelld uppbygging. Og ég held, að það hafi verið eitt það gróðavænlegasta og skynsamlegasta, sem ameríska auðmannastéttin gerði, að leggja út í þá miklu uppbyggingu. Það, sem vofði yfir Bandaríkjunum í stríðslok með því gífurlega framleiðslubákni, sem Bandaríkjamenn voru búnir að byggja sér upp, var ægileg kreppa og hrun, svo framarlega sem þeir tryggðu sér ekki nýja, mikla framleiðslumöguleika og markaði fyrir þá framleiðslu. Og þeir slógu tvær flugur í einu höggi, svo skynsamir stjórnendur fjármála sem þeir menn eru. Þeir hjálpuðu til að byggja Evrópu upp, og þeir eignuðust drjúgan skerf í Evrópu. Ég veit ekki, hvort hæstv. forsrh. er það ljóst, en þau 6% af íbúum jarðarinnar, sem byggja Bandaríkin, eiga núna um 60% af öllum auðæfum heimsins. Þessi þjóð, sem á tveim stríðum hefur stórgrætt, meðan aðrar þjóðir hafa verið flakandi í sárum og fátækar eftir þau stríð, er orðin svo rík, að hún er ekki aðeins ríkasta þjóð heims, hún er líka svo rík, að hún á upp undir helming og meira af því, sem teljast mestu auðæfin í veröldinni. Hún græddi líka á Marshall-samningnum. Á hvern hátt fór hún að því að græða á honum? Ég veit ekki, hvort hæstv. forsrh. er það ljóst, en ég skal reyna að skýra fyrir honum tvö atriði í sambandi við það. Fyrra atriðið er það, að samkv. Marshall-samningnum réð hún genginu á öllum gjaldeyri í Vestur-Evrópu, líka hér á Íslandi. Og hvernig setti hún það gengi? Hún setti það gengi þannig, að dollarinn er metinn helmingi hærra en eðlilegt er. Sterlingspundið og allur annar gjaldeyrir Evrópu er notaður þannig, að dollarinn hefur tvöfaldan kaupmátt í Evrópu á við það, sem hann hefur í Bandaríkjunum, þannig að hver einasti auðmaður og auðhringur í Bandaríkjunum með því að flytja út sitt fjármagn fær helmingi meira fyrir það fjármagn í Evrópu heldur en hann fengi heima í Bandaríkjunum, þannig að ef Bandaríkjaauðmenn á öllum þessum tíma, — og svo er enn, — kaupa upp fyrirtæki í Evrópu, er það helmingi ódýrari fjárfesting heldur en að byggja þau sömu fyrirtæki í Bandaríkjunum. M.ö.o.: það jafngildir hersetu Bandaríkjanna í allri Evrópu að geta fyrirskipað það, að dollarinn skuli hafa þessa sérstöðu. Þetta hefur að vísu þýtt það, að auðmenn Bandaríkjanna hafa haft meiri hagsmuni af því að byggja upp fyrirtæki í Evrópu heldur en að byggja upp fyrirtæki í Bandaríkjunum. En í Evrópu hafa þeir eignazt meir og meir og náð fleiri og fleiri fyrirtækjum á sitt vald og eiga þau nú.

Fyrst við vorum að tala um alúminíum áðan, veit kannske hæstv. forsrh., að lengi vel var brezki alúminíumhringurinn, British Aluminium Company, einn sterkasti alúminíumhringur heims. Hvað gerðist fyrir nokkrum árum? Fyrir nokkrum árum gerðist það, að meiri hluti hlutabréfanna var keyptur upp í Lundúnakauphöllinni. Og af hverjum? Af Reynolds Metal Company, þeim aðila, sem m.a. einn mektarmaður Íslands, sem lengi var hér seðlahankastjóri, var að reyna að ná sambandi við til þess að vekja áhuga hans á Íslandi. Og það kom víst í fyrsta skipti fyrir, var sagt i brezkum blöðum, að í kauphöllinni í Bretlandi var farið að skírskota til patríotisma og reyna að hindra, að meiri hlutinn af öllum hlutabréfum British Aluminum Company lenti í höndunum á amerískum fyrirtækjum. En það fór svo, að það var amerískt fyrirtæki, sem náði brezka alúminíumhringnum á sitt vald.

Þannig hefur amerískt auðmagn valsað um Evrópu, og í krafti þeirra ákvæða og þeirrar nóteringar á dollaranum, sem ákveðin var með Marshall-samningnum og síðan hefur haldizt, hafa þeir verið að leggja undir sig fyrirtækin í Evrópu. Það væri hægt að rekja; — ég skal ekki fara út f það hér, — en það má taka í hverju einasta landi, Frakklandi, Ítalíu, Vestur-Þýzkalandi og alls staðar, Vestur-Þýzkaland, alveg sérstaklega mikið, hvernig þetta hefur gerzt.

Annað atriði gerist samtímis. Það er samtímis ákveðið, að dollarinn skuli vera alþjóðleg mynt, sem allir séu skyldugir að taka tillit til sem alþjóðlegrar myntar. Hvað þýðir það? Það þýðir, að seðlaútgáfuréttur Bandaríkjanna, Bandaríkjastjórnar og banka Bandaríkjanna, er sama sem seðlaútgáfuréttur á öll þessi lönd. Bandaríkin geta gefið út sína dollaraseðla, keypt fyrir þá í öllum löndum Evrópu þau fyrirtæki, sem þeim þóknast.

Með þessari tvenns konar aðstöðu, aðstöðu, sem núna er farið að deila um, sem m.a. franska auðmannastéttin og de Gaulle eru mjög harðvítuglega að gagnrýna, — með þessari aðstöðu: fölsku gengi á dollarnum í allri Evrópu og einkaafstöðu dollarsins sem alþjóðlegs gjaldmiðils, hefur Bandaríkjaauðvaldið í krafti Marshallsamningsins og þess, sem á eftir hefur komið, verið að rupla og ræna fyrirtækin í Evrópu í upp undir tvo áratugi. Þetta átti að heita hjálp, var kallað hjálp. Það gerði heilmikið gott upp á það að gera, að það voru byggð iðnaðarfyrirtæki og allt saman slíkt. En eignirnar á þessum iðnaðarfyrirtækjum, um þær fór eins og ég hef rakið. Þetta var m.ö.o. hjálp, sem um leið var hin fínasta fjárfesting fyrir Bandaríkjastjórn og fyrir Bandaríkjaauðvaldið.

Ég veit ekki, af hverju hæstv. forsrh. fór ekki út í áhrif Marshall-samningsins hér heima, en það hefði þó verið fyrst og fremst ástæða fyrir okkur, ef við vorum að ræða almennt um þessi mál, að ræða það. Vissulega hlauzt, alveg eins og úti í Evrópu, ýmislegt gott af. Við fengum þarna lán. En okkur voru venjulega sett viss skilyrði í sambandi við slík lán, og ég skal ekki fara að rekja það. Ég hef áður rakið það í sambandi við Sogsvirkjun og áburðarverksmiðjuna, hvernig slíkt hefur verið. En ég vil líka minna á annað. Ég vil minna á, að einn þáttur í Marshall-samningnum og framkvæmd hans hér á landi var að draga úr atvinnunni á Íslandi, var að skapa atvinnuleysi hérna, var beinlínis að koma á atvinnuleysi hérna, eins og varð líka 1950, 1951, 1952. Og ég skal rekja eitt atriði í þessu sambandi. Ein af þeim ráðstöfunum til þess að tryggja atvinnuleysi hérna var að banna Íslendingum að byggja íbúðir, byggja íbúðarhús nema með leyfi sérstakrar n. hér í Reykjavík. Og einmitt vegna þess, að Sjálfstfl. hefur alveg sérstaklega mikla tilhneigingu til þess að tala um það, hvað hann sé óskaplega mikið fylgjandi frelsi og ekki sízt t.d. frelsi hvað snertir íbúðarhúsabyggingar, held ég, að sé ekkert úr vegi að rekja þá sögu.

Þegar Ameríkaninn heimtaði, að það væri ekki frelsi í íbúðabyggingum, hvernig stóð Sjálfstfl. og raunar fleiri flokkar þá? Fjárhagsráð var látið fá það vald að neita mönnum um að byggja íbúðarhús, og tókst með harðvítugum ráðstöfunum að fækka byggingu íbúða í Reykjavík úr 642, sem hafði verið 1946, niður í eitthvað 250 eða rétt þar í kring, sem það var 1951, og koma á atvinnuleysi um leið, því að við vitum allir, hvað húsbyggingarnar eru stór þáttur í því að tryggja fulla atvinnu. Ég hafði nokkrum sinnum á Alþ. þá flutt brtt. við fjárhagsráðslögin. Ég hafði flutt brtt. 1949 á þá leið, með leyfi hæstv. forseta :

„Þá skal þeim, sem ekki eiga íbúð, heimilt án fjárfestingarleyfis að byggja íbúðarhús fyrir sjálfan sig, enda sé hún ekki stærri en ákveðið. er um verkamannabústaði.“

Þessi till. var felld. Fjhn. Nd. flutti samt brtt. seinna á því þingi við sömu gr. þessara l., sem hljóðaði þannig:

„Þó skal heimilt að byggja hagkvæmar smáíbúðir án fjárfestingarleyfis, en ráðh. skal með. reglugerð ákveða stærð og takmörk íbúða.“

Þessi till. náði samþykki í Nd., en það var svo seint á þingi, að þetta frv. fékk ekki afgreiðslu.. Á næsta þingi, 1950, flutti meiri hl. fjhn. í Nd., þ.e. ég og Jóhann Hafstein, hæstv. dómsmrh., Sigurður Ágústsson og núv. herra forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, — við fluttum frv., þar sem var farið fram á samsvarandi breytingu, að við 5. gr. fjárhagsráðsl. væri bætt svo hljóðandi atriði:

„Þó skal heimilt að byggja hagkvæmar smáíbúðir án fjárfestingarleyfis, en ráðh. skal með reglugerð ákveða stærðartakmörk þeirra.“

Þetta litla frv. okkar að leyfa nú þessa litlu smugu var samþ. í Nd. og sent til Ed. Í Ed. fór málið til fjhn., og 17. jan. 1951 gaf fjhn. út sameiginlegt álit um frv., og segir í því áliti:

„Samkomulag varð um að leggja til, að frv. yrði samþ., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að bera fram brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma.“

En þegar hér var komið sögu í Ed., kom annar aðili til skjalanna. 3. þm. Sjálfstfl. höfðu flutt þáltill. um að afnema skömmtun á byggingarefni, og ég hafði gert brtt. við hana um að gefa frjálsan innflutning á byggingarvörum. Þessi till. hafði verið send fjárhagsráði til umsagnar. Í umsögn sinni um þessa till., dags. 13. jan. 1951, leggst fjárhagsráð gegn samþykkt þess að gefa frjálsa byggingu íbúðarhúsa og frjálsan innflutning byggingarefnis og færir fram svo hljóðandi röksemd, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhagsráði hefur skilizt, að vegna tilrauna til þess að fá að nota fé úr mótvirðissjóði verði að takmarka fjárfestingu við ákveðið hámark og það sé fullkomið skilyrði fyrir því, að leyfi fáist til þess að nota mótvirðissjóð. Ef fara ætti eftir til1. þessari, mundi það gera ómögulegt að sýna forráðamönnum mótvirðissjóðs fram á, hver fjárfestingin væri, þar sem takmarkanirnar næðu aðeins til hluta hennar.“

Eftir að þetta gerðist, snýr meiri hl. í Ed. við blaðinu. Þeir, sem áður höfðu sameiginlega í fjhn. samþ. að leggja til að samþykkja þetta frv., leggjast nú á móti því, og frv. er síðan vísað frá með rökst. dagskrá með 10:5 atkv. Nú var eftir lögunum um mótvirðissjóð Alþingi forráðamaður hans. En það kom í ljós, að umboðsmaður Alþjóðabankans hér á Íslandi þá hafði sagt við fjárhagsráð: Við leyfum ykkur ekki að nota mótvirðissjóð, ef þið samþykkið þessi lög á þinginu, sem fjhn. Nd. hafði lagt fram, það frv., sem hún hafði lagt fram og samþ. hafði verið í Nd. — M.ö.o.: hefði átt að lina ofurlítið á því og Íslendingar þyrftu ekki að sækja um leyfi til þess að fá að byggja íbúðarhús, var vald í Washington, sem greip inn í málin, stöðvaði frv. í síðari deild á Alþ. og bannaði Alþ. Íslendinga að samþykkja þau, með hótunum um, að annars yrði þetta gert í sambandi við fjármálin þá. Svona var ástandið orðið. Í krafti Marshall-samningsins hafði verið sköpuð aðstaða fyrir útlent vald til þess að skipta sér af íslenzkri lagasetningu og meira að segja skipta sér af því, hvort menn úti um allt land fengju að byggja íbúðir eða ekki. (Forseti: Ég vildi biðja hv. alþm. að gera svo vel að gera hlé á ræðu sinni, því að fundartíma er lokið.) Já, ég skal gera það. [Frh.]