23.02.1967
Neðri deild: 45. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (1939)

126. mál, launaskattur

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Það er nú e.t.v. ekki ástæða fyrir mig að halda langa ræðu, því að það hafa ekki komið sterk mótrök gegn frv. eða þeirri ræðu, sem ég hélt um daginn.

Hv. 7. landsk. þm. hélt hér ræðu. Vægast sagt var hún veik af rökum. Ráðh. flýja út, vilja ekki ræða málið. Ef málstaðurinn væri ákaflega sterkur, þyldu þeir að vera hérna inni. Þeir voru hér tveir um daginn, fyrrv. sjútvmrh. og forsrh., og báðir fóru út. Ef málstaðurinn væri ákaflega sterkur hjá þeim, hefðu þeir líklega tekið í mig á eftir. Þið heyrðuð allir málsvörnina hjá hæstv. sjútvmrh. í gær út af dráttarvöxtunum. Ég fékk ekkert svar, hvort hann áliti þetta sanngjarnt, hitti hann svo hér niðri á eftir og spurði hann, — ég vildi fá svar, og hann sagðist þá ekki álíta þetta sanngjarnt, að hafa svona háa dráttarvexti. Og þá sagði ég honum, að mér fyndist nú, að þjónarnir ættu ekki að ráða yfir húsbændunum, og það er mín skoðun.

Hv. 4. þm. Reykn. er búinn að svara nokkru af þessum atriðum, sem komu fram hjá hv. 7. landsk., svo að það er ekki ástæða fyrir mig að vera langorður um það. Það er rétt hjá hv. 4. þm. Reykn., að það er átt við, að það sé öll vinna í frystihúsum, og þarf ekkert að sortera af bátum, þannig að formaður útvegsmanna hefði átt að lesa þetta vandlegar. Er nokkuð unnið við að skattleggja þessi frystihús um 1% og borga þeim svo aftur stórar fjárhæðir? Það eru bara tvær stefnur, sem um er að tala í raun og veru í þessu: Þessi, sem hefur verið farin undanfarna áratugi, að láta atvinnuvegina ekki bera sig, koma svo og heimta uppbætur af ríkinu, og eins og ég tók fram áðan: alltaf meiri og meiri, reyna að gera útkomuna sem allra versta, krefjast alltaf meira og meira og láta svo stórar fjárhæðir renna til manna, sem þurfa þess ekki með, því að þeir bera sig mest eftir því, sem bezta hafa getuna, alveg eins og ef takmarkað er á stallinum hjá hestunum, eru það duglegustu hestarnir, sem bíta hina af, — eða að létta ósanngjörnum útgjöldum af atvinnuvegunum, búa að þeim þannig, að löggjöfin sé skynsamleg og sanngjörn, og segja þeim svo bara að spjara sig.

Ég spurði sjútvmrh. áðan, hvort hann hefði lesið frv. og grg. Nei, ónei, hann hafði ekki gert það. En í því eru talin upp öll atriði, sem þarf til þess að laga afkomu bátanna og segja þeim svo bara að hypja sig, en ekki venja þá á að koma og segja: Við förum ekki af stað, nema við fáum þetta og þetta mikið fé úr ríkissjóði. En það er ekkert annað en að segja við þá: Þið farið af stað, þið verðið að fara af stað, vegna þess að þið getið ekki stöðvazt. Það er ekki hægt annað en fara af stað með bátana á vertíðinni, og ef þeir gera það ekki, þá taka bátana af þeim, lánastofnanir geta ráðið því.

Ég vil, að við búum skynsamlega að atvinnuvegunum, en venjum þá svo af því að koma sífellt og heimta bein framlög úr ríkissjóði, og hrúga ekki þannig sköttum á alþýðu manna, að hún þurfi endalaust að gera kaupkröfur á kaupkröfur ofan. Ef fólk fyndi þetta og byggi við það, hætti það þessum heimskulegu kröfum, sem eingöngu eru til þess að minnka gengi krónunnar.

Það eru þarna tvær stefnur, og af því að mér er vel við þessa menn, sem eru í ríkisstj., lagði ég þetta litla vit, sem ég hef, fram við að benda á þessi atriði. Hitt er mesti misskilningur hjá hv. 7. landsk. þm., að ég hafi nokkurn tíma sagt, að ég væri vitrasti maður þingsins, en ég hef heyrt fleiri en einn mann annan segja það. Ég hef aldrei brigzlað hv. 7. landsk. þm. um heimsku, ég dreg það í efa, að hann sé heimskur, en ég hef sagt honum, að mér fyndist hann ekki kjarkmaður. Ég var ekkert hissa á hans ræðu hér. Hann þarf að þjóna sínum húsbændum. Við vitum það, allir útvegsmenn, að hann er ekki bardagamaður, en hann kemur auðmjúkur til sinna húsbænda, góða barnið, er hlýðinn og biður um meira og meira og meira og meiri mjólk, eins og gott barn. Ég vil ekki láta vera að íþyngja okkur með ósanngjörnum sköttum og óþörfum, en ég vil líka, að við séum ekki alltaf betlandi á ríkisstj. Ég þekki mann svona kjarklítinn eins og hann, og ég þekki mann líka, sem alltaf er auðmjúkur, hann kemst dálítið langt að betla svona út, en þetta hefur ákaflega ill áhrif á aðra, telja þeim trú um, að hlutirnir geti ekki borið sig, hlaupa svo og biðja um aðstoð á aðstoð ofan, og það gengur auðvitað allt aftur á bak í bæjarfélögum, sem svona menn eiga að stjórna. Í raun og veru er þessi launaskattur ekki nema bara einn lítill punktur. Ég taldi þarna upp hvern liðinn af öðrum. Það er ekki nóg að gera þessa ráðstöfun, það þarf hver ráðstöfunin að reka aðra, afnema þessar vitlausu álögur. Þeir segja, þessir hv. herrar, að þetta hafi verið samningur við verkalýðsfélögin. Það má vel vera, að þessir menn hafi samið, en það var ekki eftir beiðni okkar útvegsmanna, sem var samið svona. En ef einhvern tíma er gerður vitlaus samningur, á hann þá að standa endalaust, á ekki að laga vitleysurnar? Hver er afleiðing af þessu fræga júnísamkomulagi? Dýrtíðarskriðan hefur haldið áfram alveg í fullum gangi, sennilega aldrei hraðar. Nei, það þarf nefnilega að taka öðrum tökum á þessu, og það getur hæstv. ríkisstj., ef hún bara hefur kjark til þess. Það eru tvær leiðir til, það er annaðhvort að lækka útgjöldin, bæði á fólkinu og atvinnuvegunum, og auka verðgildi krónunnar á þann hátt eða skriðan heldur áfram.

Hæstv. sjútvmrh. sagði við mig áðan: Það er ekkert leyndarmál, ef það eru lækkaðir vextirnir, sem eru stærsti liðurinn við sjávarútveginn, kemur landbúnaðurinn og heimtar lækkun líka. — Gott og vel, segi ég, lækkið þið bara. Hverjir eru það, sem borga þessa háu vexti í Búnaðarbankann? Það var hækkað um meira en þriðjung. Fólkið. Það er reiknað út afurðaverð, og neytendurnir borga og ríkissjóður tekur á sig kúfinn af því með niðurgreiðslunum. Hún er ekki til annars en að þynna út krónuna, þessi vaxtahækkun. Ein mesta vitleysa, sem ríkisstj. gerði, var vaxtahækkunin, og hefur átt drjúgan þátt í því að auka verðbólguna og koma skriðunni af stað. Henni hefur gersamlega mistekizt að ná tilgangi sínum. Það átti að vera til að draga úr eftirspurn lánsfjár. Hvenær hefur eftirspurnin verið meiri en síðan þessi vaxtahækkun kom? Það eru biðraðir hjá bönkunum og ekkert til í þeim núna, af því að skattarnir eru orðnir svo háir, að þegar þarf að borga ársfjórðungslega söluskattinn, er ekkert eftir í viðskiptabönkunum. Það er komið upp í Seðlabankann, og þaðan kemur það ekki fyrr en út á fiskinn á vertíðinni.

Þetta er nú ráðslagið, og það er algert heimsmet að gera hvort tveggja í einu: fella gengið úr 16 kr. dollarann og í 38 kr., eins og gert var, og raunar var eðlilegt, að gengið væri lagað, en það var gengið of langt, og um leið að hækka vextina svona mikið. Þeir fóru í 12% þá. Sannleikurinn er sá, að afkoman var alveg herfileg 1959. Það var ekkert hugsað um nema kosningar og kjördæmabreytingu, og greiðsluhallinn versnaði um kringum 1000 millj., og það var svo mikið fát, þegar ríkisstj. tók við, hún hélt, að allt væri að fara á hausinn, og vextirnir fóru í 12% og allt eftir því, gengið fellt meira en þurfti, þeir bjuggust við enn þá lakara. Svo kom þessi skriða, síldin fór að veiðast, og þeir eru oft búnir að þakka sér það í hæstv. ríkisstj. En þeir fundu ekki upp síldarleitartækin og ekki heldur blökkina og ekkert af því, sem gaf þetta, en þeir hafa verið heppnir með árferðið, auk þess sífelldar hækkanir á hráefninu, og þetta hefur allt verið jákvætt, og þetta hefur getað oltið svona áfram, þótt vitlaust væri að farið á margan hátt. En svo bara um leið og þetta hættir, um leið og verðlagið hættir að hækka, fer auðvitað allt í vitleysu, eins og ég sagði um daginn. Ég lýsti því yfir um aflatryggingasjóðinn, að ég væri með því, ég áliti það í raun og veru ekkert ósanngjarnt, ég var ekki að telja eftir þær álögur, þó að það sé náttúrlega þó nokkuð mikill skattur, og það álít ég í raun og veru heilbrigða aðstoð, ef hún er rétt notuð, en hún á líka að nægja. Svo eigum við að hafa okkar löggjöf þannig og okkar gengisskráningu og okkar vexti, að útvegurinn þurfi ekki annað, og venja hann af því að þurfa annað, nema í einstökum tilfellum, þar sem erfið aðstaða er á einhvern hátt. Þar þarf raunhæfan stuðning við atvinnuveginn, og það á að gera það á skynsamlegan hátt og á þann hátt, að það verði að gagni í framtíðinni, en ekki að það sé étið upp jafnóðum. Það á að undirbyggja atvinnuvegina, og það ætti atvinnujöfnunarsjóður að gera í framtíðinni, og ég var hlynntur því. En það þarf bara að gera það á skynsamlegan hátt.

Það er enn fremur ekki rétt hjá hv. 7. landsk., að ég hafi verið með árásir á fiskimálasjóð. Það, sem ég sagði, var það, að ég væri hræddur um, að það væru ekki öll lánin, sem hefði verið nauðsynlegt að lána eða réttlætanlegt, þau hefðu verið betur ólánuð. Maður getur orðað þetta á ýmsan hátt, og ég veit jafnvel um, að það er rétt út af fyrir sig og ekkert sérstakt að ráðast á stjórnina fyrir það, því að það er bæði ókunnugleiki og ýmislegt annað, sem kemur þar inn í. Það er náttúrlega svo með allar lánastofnanir, að það eru veitt misjafnlega þörf lán og koma að misjafnlega hagkvæmum notum. Og ég efast ekki um, að þeir hafi gert eitthvert gagn í útlánastarfsemi sinni, í mörgum tilfellum mikið. En þeir hafa líka lánað sumum aðilum, sem e.t.v. hefði verið betra að lána ekki. En jafnvel þó að það sé dálitið tilfinnanlegt gjald, sem útvegurinn borgar til hans, var það ekki árásarefni, enda ekki minnzt á hann hjá mér í grg., þó að þar séu mörg atriði tekin, þannig að hv. 7. landsk. er svolítið viðkvæmur fyrir því.

Viðvíkjandi orlofinu, þá var ekki rétt með farið hjá hv. ræðumanni, 7, landsk. Ég orðaði það á þá leið, að mér vitanlega, ég veit ekki til, að sjómannasamtökin hafi sjálf verið með neinar sérstakar kröfur, þegar júnísamningurinn var gerður. Hitt veit ég, að stjórnmálamenn eru alltaf með yfirboð til að reyna að veiða kjósendurna á, en ég tel það ekki kröfur fólksins, og það gladdi mig, að hann er þó sammála mér um, að það sé vitleysa að borga þetta af hlutunum, hve háir sem þeir eru.

Ég veit og dreg það ekki í efa, að hv. 7. landsk. vill útvegsmönnum vel. Hann hefur bara þessa aðferð, hann vill vera auðmjúkur við sína húsbændur og geta svo komið til þeirra með góða samvizku eftir góða og dygga þjónustu og beðið þá um að gefa börnum sínum meiri mjólk. Ég vil bara, að við vinnum fyrir okkur og losum okkur við þær heimskulegu og óþörfu og óviðkomandi byrðar, sem á okkur er hrúgað, og þurfum svo ekkert að vera að biðja um neina aðstoð. Við verðum náttúrlega að taka misjöfnu árferði. Það er ekki nema gott um það að segja, að það sé skilningur hjá lánastofnunum að vægja þá um innheimtu í bili.

Ástæðan fyrir því, að við sömdum þetta frv. og fórum að tala um þetta mál, var sú, að við erum á vegamótum, hvort við eigum að fara gömlu slóðina, fá sífellt meiri og meiri greiðslur úr ríkissjóði, meiri og meiri aðstoð, láta kaupmátt krónunnar sí og æ minnka, og svo þegar við erum búnir að reka þetta vitlausa gengi nokkur ár, að lækka gengið, eða hvort við eigum að snúa alveg við, búa skynsamlega að atvinnuvegunum hvað löggjöfina snertir, vaxtagreiðslur og lánstíma og láta þá bera sig og svíkja launþegana ekki á þeirri krónutölu, sem þeir fá. Ég er sannfærður um, að raunsæir forráðamenn fyrir launþegana vildu semja um svona hluti, ef komið væri á móti þeim, og ég get sagt ykkur það, að ef það hefðu verið gerðar skynsamlegar ráðstafanir 1960, hefði fólkið staðið með stjórninni langt út fyrir raðir flokkanna, ef þeir hefðu raunverulega stöðvað, þar sem þeir voru þá, stöðvað það, að kaupmáttur krónunnar héldi áfram að minnka, þá hefðu margir viljað hjálpa þeim. En þeir gerðu það ekki. En svo þegar fólkið sá, að þeir ætluðu ekki að gera það, hætti það að hafa nokkurn áhuga á þessu, og eftir gengisfellinguna endurtekna 1961, sem því miður var gerð meira af hefnigirni en þörf, hætti fólkið að trúa því, að það yrði um verðstöðvun að ræða.

En ástæðan fyrir því, að við komum með þetta frv., er m.a. sú, að við stöndum á vegamótum, og í öðru lagi, að till. bátanefndarinnar eru vægast sagt ófullnægjandi. Þetta eru ágætir menn, sem eru í þessu, en þeir hafa ekki gert mikið að því að gera upp reikninga fyrir fiskibáta og tóku ekki á þeim kýlunum, sem verst voru: Ég skal játa það, að till. eru velviljaðar og frekar til bóta, en þær eru ekki áhrifamiklar. T.d. þessi 10%, sem var verið að deila hér um í gær, hafði verið ákaflega lítils virði fyrir bátaútveginn að fá síðari hluta árs 1966, 10 aura hækkun. Aflinn var lítill þá, og 10 aurar eru ekki mikið fé. Bátur, sem hefði aflað 100 tonn, hefði fengið eftir því 10 þús. kr., og það dregur ekki langt, þannig að það er ekki varanleg úrlausn að bæta alltaf aurum við. Og viðvíkjandi 50 aura gjaldinu er það að nokkru leyti komið. En það eru ekki gerðar raunhæfar till. um, hvað gera eigi. Það má vel vera, að það væri ekki svo vitlaust að hlaupa eitthvað undir bagga með þessum bátum, sem sitja með nætur og kraftblakkir og verða að hætta. En ég er ekki farinn að sjá, að það verði gert, enda leggur n. ekki beint till. fram um það, heldur að þetta sé athugað. Þá er að lengja lánstímann, það er ekkert nema gott um það að segja, og ég tel till. frekar jákvæðar, en bara ekki nógu róttækar og raunhæfar í raun og veru. Um dráttarvextina er það jákvætt, en það vill ríkisstj. ekki gera. Það er eitt það jákvæðasta, sem n. kemur með, því að þetta er náttúrlega hrein firra, að ætla að refsa mönnum með 12% vöxtum, sem eru í erfiðleikum að geta haldið bátunum, alveg hrein firra, koma svo núna og segja, að þeir geti auðmjúklega sent umsóknir, sem eiga minni bátana, og þá verði þeim náðarsamlega af þessum herrum, sem nýlega eru búnir að leggja þetta í Seðlabankann, kannske veittar einhverjar ívilnanir með dráttarvextina. Er ekki heilbrigðara að hafa þá pínulítið lægri og þurfa ekki að vera að senda þessar bjálfabeiðnir alltaf? Þá er það ábyrgðargjaldið hjá bátunum, sem eru keyptir erlendis frá. Jú, það er náttúrlega til bóta að afnema það, en ræður engum úrslitum um rekstur báta. Og þá er viðvíkjandi slysaforföllunum, þurfa ekki að borga þeim hlut. Þetta geta verið geysi fjárhæðir hjá yfirmönnum á skipum, en það virtist mér á hæstv. sjútvmrh. í gær, að hann ætlaði nú, held ég, varla að þora að leggja í það að eiga neitt við það. Þetta er nú eitt af því jákvæða, sem n. kemur með. Sjálfsagt er að borga mönnunum tryggingu, en alveg ástæðulaust að borga skipstjóra þreföld laun á síldarvertíð fyrir að liggja í rúminu eða vera haltur, vera með gigt í hnénu eða eitthvað svoleiðis. Þá er viðvíkjandi því, að línuútgerðin aukist. En það er bara ýmislegt annað, sem n. kemur þarna ekki inn á, sem veldur því, að það er ákaflega erfitt að auka línuútgerð, og það er m.a., að það er orðið ómögulegt að fá menn til að beita. Í öðru lagi er beitan orðin svo dýr og allt í kringum þetta og tryggingin svo há, að það er útilokað eiginlega að láta bát á línuvertíð bera sig. Helzt er það fyrir Vestfjörðum, af því að þar er aflinn mestur. Það verður þess vegna að lita á þetta frá alveg raunhæfu sjónarmiði. Menn vinna ekki fyrir sama kaup núna og þeir gerðu fyrir nokkrum árum, og eftirspurnin eftir sjómönnunum er svo mikil á stærri skipum. Þess vegna verðum við að gera aðrar ráðstafanir, sem duga, og ég get tekið undir það með hv. 7. landsk., að ég álít, að það þurfi viðvíkjandi minni bátunum að taka til rækilegrar athugunar og skipuleggja veiðina á réttari hátt en gert hefur verið og þar á meðal að veita vissar undanþágur til togveiða, auðvitað allt eftir áliti fiskifræðinga og í samráði við kunnugustu menn á þessu sviði.

Þarna er sem sagt um tvær leiðir að ræða. þ. e. leiðina, sem víð höfum farið undanfarna áratugi, að láta atvinnuvegina ekki bera sig, koma svo og biðja um aðstoð, meiri og meiri aðstoð, þá hætta þeir að hafa áhuga á að láta þetta bera sig, fara bara og heimta af ríkisstj. meiri framlög, — eða reyna að reka atvinnuvegina raunhæft og skynsamlega, og til þess þarf náttúrlega löggjafinn að búa þannig að þeim, að það sé einhver vegur, að þeir beri sig, en ekki íþyngja þeim með þeim ægilegu gjöldum, að það sé ómögulegt að reka þá. Og það er staðreynd, sem ég sagði, það er miðað við afla upp úr sjó, að það nær 20% með því, sem útflutningsgjöldin eru, sem fer í alls konar pósta, og það var ekki að sjá, að þarna ætti nein stöðvun að verða. Nú er gjaldið til Hampiðjunnar að koma til framkvæmda. Hjá þessari stjórn frelsisins á nú að fara að leggja innflutningshöft á kaðla og netateina og því um líkt, af því að þeir gátu ekki komið þessu gegnum þingið. Ég er ekkert á móti Hampiðjunni, en það er bara engin sanngirni að fara þessa leið, það er bezt að styðja hana með beinu fjárframlagi.

Það er auðvitað miklu nær að afnema innflutningsgjöldin á útveginum til að létta á honum heldur en greiða honum fjárhæðir úr ríkissjóði. Það er miklu skynsamlegri leið, því að þá kemur ekki þetta uppgjör á hverju einasta ári, eins og hefur verið hjá L. Í. Ú., að það er stór halli, ekki hægt að fara af stað með bátana. Bændur hafa ekki notað þetta, þar hefur verið unnið á annan hátt.

Svo er nú eitt í viðbót með þennan blessaða launaskatt. Þetta er náttúrlega fáránlegt, við erum búnir að borga í fiskveiðasjóðinn, svo erum við látnir fara að borga til húsbygginga. Hvar á að stöðvast? Og þegar lagt er á 1%, er þá ekki alveg eins hægt að leggja á 2%? Hvert fer þetta? Verðbólgan gleypir það. Ekki er auðveldara að kaupa hús núna en áður en launaskatturinn var lagður á, það vita allir. Er svo ekki hægt að fara í 3%? Þetta er hringavitleysa. Það átti að lækka húsaverðið, en ekki fara að skattleggja útvegsmenn. Landbúnaðurinn er ekki skattlagður í þetta.

Þetta frv. út af fyrir sig er ekki allt og nær takmarkað, en við fluttum þetta til þess að sýna fram á, að það er um tvær leiðir að velja. Og vilji ríkisstj. fara sína gömlu leið, gerir hún það, en það er bara ekki okkur að kenna. Sem þm. höfum við komið hér með þetta litla frv., og við höfum skýrt okkar afstöðu, og svo verða þeir, sem ráða, þeir náttúrlega verða að ráða, hverja götuna þeir fara. En það er þá á þeirra ábyrgð. Fyrir það verða þeir að svara.