04.04.1968
Efri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

62. mál, jarðræktarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hv. 5. þm. Sunnl. hefur sagt varðandi þetta mál, en vil þó gera grein fyrir þeirri till., sem ég flyt hér ásamt hv. 2. þm. Austf., og enn fremur hreyfa vissum þáttum varðandi þessa löggjöf, jarðræktarlögin, af því að það er ein af okkar þýðingarmestu löggjöfum, sem landbúnaðurinn býr við.

Þurrkun lands er frumskilyrði ræktunar. Og það tekur langan tíma að breyta forarflóum í grænar grasbreiður. Af þeim ástæðum er það ekki óeðlilegt, að ríkið kosti alla þurrkun lands. Till. um þetta efni hafa oft komið fram hér á hv. Alþ., og eiga þær sinn þátt í því, að ríkið greiðir nú um 70% af kostnaði framræslunnar. Skoðun mín er sú, að það beri að stefna að því, að þegar um framkvæmdir er að ræða, sem eru meira fyrir framtíðina en nútíðina, eigi ríkið að kosta þær að öllu leyti, eins og t. d. í þessu tilfelli, þegar um er að ræða þurrkun landsins. Ég tel þetta líka áhættuminna nú en oft áður fyrir ríkið að kosta framræsluna að öllu leyti, þar sem nú á í framtíðinni að skipuleggja þessi mál nokkuð fram í tímann og þar með á að vera hægt að fylgjast betur með, hvað árleg framræsla kann að kosta, en verið hefur til þessa.

Þá vil ég minna á það, að það er ýmislegt fleira, sem rætt hefur verið um á meðal bænda og þarf að breyta í jarðræktarlögunum. Nú gildir hámarksjarðræktarframlag við land, sem ræktað er innan við 25 ha., þ. e. á. s. þeir, sem komnir eru yfir þetta 25 ha. ákvæði, fá mun minna framlag frá ríkinu en hinir, og þetta hefur leitt til þess, að ýmsir hafa séð sér hag í því að fara í kringum lögin á þann hátt að skipta landinu og fjölga býlum til þess að komast undir hærra ræktunarframlagið. Ég tel, að þetta sé ekki æskileg þróun, og ég held, að í framtíðinni komumst við ekki hjá því að láta hámarksríkisframlag ná til fleiri ha. á hverju býli en nú gildir. Ég vil líka minna á það í þessu sambandi, þegar rætt er um jarðræktarlögin, að fyrir ári síðan var einni breyt. á jarðræktarlögum vísað til hæstv. ríkisstj. í trausti þess, að hún beitti sér fyrir málinu og legði fram frv. til l. í þeim efnum. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn talið sér fært eða séð sér hag í því að sinna því máli, eins og við væntum fyrir ári síðan, en það var að taka inn í jarðræktarlögin framlag vegna vatnslagna á sveitabæjum, þ. e. a. s., að ríkið tæki þátt í þeim kostnaði að einum þriðja hluta og þetta væri fast framlag, sem hver og einn bóndi fengi, þegar framkvæmdin væri tekin út. En sá háttur hefur verið á hafður, að ef bændur hafa komið upp vatnsveitu á félagslegum grundvelli, þrír eða fleiri, hafa þeir fengið stuðning þess opinbera, en annars ekki, enda þótt þeir hafi lagt í allkostnaðarsamar framkvæmdir, eins og margir hafa orðið að gera hin síðari ár.

Ég flyt hér brtt. ásamt hv. 2. þm. Austf. Till. þessi er á þskj. 462 og felur það í sér, að ræktunarsambönd þau, sem annast framræslu með eigin vélakosti, séu ekki skyldug til þess að bjóða út þau verkefni, sem þeim tilheyra. Fyrst í stað verður talsverð vinna fólgin í því að kanna land og komast að niðurstöðu um það, hvað sanngjarnt er að borga fyrir framræsluna á hverjum stað og hverjum tíma. Hér er því möguleiki fyrir ríkið að spara pening í óþarfa vinnu, sem það verður að borga annars, og býst ég við, að sá þáttur málsins ætti að vera vel þeginn af því opinbera, sem nú beitir sér mjög fyrir sparnaði í ýmiss konar framkvæmdum og opinberum rekstri. Ég tel, að þetta sé algerlega áhættulaust fyrir alla aðila, að undanþiggja ræktunarsamböndin og ekki sízt vegna þess, að ráðunautarnir þekkja landið og eru kunnugir þeim vélakosti, sem fyrir liggur, og geta því af þeirri reynslu, sem þeir hafa, nokkurn veginn komizt mjög nálægt því, hver raunverulegur kostnaður muni verða við framræsluna, og því er hægt að spara sér allt umstang við undirbúning útboða í þeim tilfellum. Ég tel þetta líka þeim mun hættuminna, þar sem Búnaðarfélag Íslands á að fjalla um og samþykkja vinnutaxta, hvort heldur útboð eiga sér stað eða ekki. Ég tel því, að fyllsta samræmis muni verða gætt í þessum efnum og þar eigi ekki nein hætta að vera fólgin fyrir þá, sem bjóða út sín verk, og þeim mun síður fyrir þá, sem verða að sæta því, að útboð séu ekki viðhöfð. Þeirra hagur verði ekki fyrir borð borinn, þar sem í fyrsta lagi að kunnugir menn, vanir þessum áætlunum og störfum og rekstri þessara véla, eiga í hlut, og í öðru lagi kunnugir menn á vegum Búnaðarfélags Íslands, sem leggja til, hverjir vinnutaxtar verða á hverjum stað.

Búnaðarþing óskaði eindregið eftir því, að till. þessi næði fram að ganga, en eins og hv. þm. er kunnugt, er búnaðarþing og Búnaðarfélag íslands ráðgefandi á fjölmörgum sviðum í málefnum bænda, og hefur það jafnan verið mikill styrkur Alþingis að fara að þeim ráðum á fjölmörgum sviðum. Ég tel það bæði vera skyldu og einnig styrk Alþingis að hlusta á raddir og óskir þeirra, sem standa í sjálfu athafnalífinu. Á þann hátt verða málefni atvinnulífsins bezt leyst, svo að til heilla horfi. Ég vænti því þess, að hv. alþm. geti fallizt á þá till., sem við leggjum hér fram á þskj. 462, og samþykki hana. En að öðru leyti vil ég taka það fram, að við erum samþykkir því frv. í heild, sem hér liggur fyrir, með þeirri breyt., sem landbn. hefur lagt fram. Ég vænti því, að hv. þm. komi til móts við okkur flm. og samþ. þessa litlu brtt.