16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

189. mál, kaup ríkissjóðs á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfá orð, sérstaklega vegna þess að það var beinlínis óskað eftir því, að ég svaraði fsp., sem fram voru bornar, og önnur þeirra var eitthvað á þessa leið: Eru líkur til, að hluthafar vilji selja á fimmföldu verði?

Ég get upplýst það, að nokkrir hluthafar og líklega þeir stærstu allir hafa gefið svar um það nýlega, að þeir vildu selja á sexföldu verði, en meiri hl. n. telur nú víst hæfilegt, að bréfin séu keypt á fimmföldu verði og þess vegna er frv. flutt um heimild handa ríkisstj. til að kaupa hlutabréfin á fimmföldu verði. Ég gæti hins vegar bezt trúað því, að þessir sömu aðilar, sem buðu hlutabréfin á fimmföldu verði fyrir tveimur árum, væru jafnvel tilleiðanlegir að láta þau nú á fimmföldu verði, ef þetta frv. verður að l. og ríkisstj. hefur heimild til þess að kaupa á allt að fimmföldu verði, en ekki hærra. Þetta er nú skoðun, sem ég hef, en ekki nein vissa. Og ég teldi það eðlilegt, að hluthafar seldu á fimmföldu verði. Á það reynir, ef ríkisstj. hefur heimild, sem hún vill nota í þessu skyni.

Önnur spurningin var þessi: Verður l. breytt, ef þetta frv. verður samþ., þannig að Áburðarverksmiðjan verði hreint ríkisfyrirtæki? Það liggur í augum uppi, að ef þetta frv. verður samþ. og sú heimild notuð, sem í því felst, þá verður að breyta l. um Áburðarverksmiðjuna. Það liggur í augum uppi, að það er margt, sem þar verður að breyta, og það er meira heldur en 13. gr. Það er t. d, það, að öll stjórnin verður þá kosin af Alþ., en ekki hluti hennar af hluthöfunum, og ýmsum fleiri ákvæðum verður að breyta í gildandi l., ef hlutabréf Áburðarverksmiðjunnar verða keypt.

Í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að þetta frv. næði ekki tilgangi sínum, ef einhverjir hluthafar neituðu að selja, má kannske segja það, ef ekki er horft á annað heldur en aðeins það, sem sagt er í frv., en ég hygg nú eigi að síður, að ef stærstu hluthafarnir vildu selja og af þeim væri keypt, væri stigið það stórt spor í þessa átt, að það væri lítill vandi að ganga til enda það, sem þyrfti. En það var talað um, að ég hefði nú verið með hálfgerðar hótanir hér í vetur, þegar ég minntist á það, hvernig viðhorfið yrði í þessum málum, ef vissir hlutir gerðust, svo að ég tel nú ekki ástæðu til þess að vera að fara þá mörgum orðum um það, sem öllum má vera augljóst, að það eru vitanlega nógir möguleikar til, eftir að þetta frv. hefur verið samþ. og ef sú heimild verður notuð, sem í því felst, að kaupa meiri hl., kannske mestan hlutann af hlutabréfunum, þá er alveg opin leið til þess að gera það, sem nauðsynlegt er, á eftir. Og ef stærstu hluthafarnir hafa selt á fimmföldu verði, er þar kominn mælikvarði, þá er þar komið mat á bréfin, og þá er vitanlega hvenær sem er hægt að afla heimildar til eignarnáms o. s. frv., því að beint framhald af þessu hlýtur að verða ný löggjöf.

Ég tel ekki ástæðu til þess að orðlengja öllu meira um þetta, en ég tel, að það sé eðlilegt, að þetta frv. verði samþ. og á það reyni, hvort bréfin fást á því verði, sem talið er hóflegt og eðlilegt, og ef mestur hlutinn fæst á því verði, þá verði ekki ýkjamikill vandi að eignast það, sem eftir er, og ég tel, að þeir, sem kynnu að eiga lítinn hluta, mundu þá sjá sínum hag bezt borgið á eftir með því að selja eins og hinir stærri hefðu þá gert.