17.04.1968
Sameinað þing: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. forsrh. hóf mál sitt í umr. hér fyrr í kvöld á því að reyna að afsaka framkomu sína í sambandi við till. þær, sem fluttar voru á þessu þingi af nokkrum Alþb.-mönnum og framsóknarmönnum, um styrjöldina í Víetnam. Till. um Víetnam-styrjöldina áttu augljóslega miklu fylgi að fagna á Alþ., þar sem stjórnarandstöðuflokkarnir stóðu að þeim, og þar sem utanrrh. og Alþfl.-menn voru þeim einnig fylgjandi, eins og fram kom í umr. hér á þingi. En samt hafa þessar till. ekki fengizt samþykktar vegna andstöðu forsrh. og flokksmanna hans. Forsrh. var þó eftir nokkur fundahöld neyddur til þess að gera samkomulag um afgreiðslu þessara till., en aðeins fáum dögum eftir að hann hafði gert samkomulagið við aðra flokka þingsins um afgreiðslu þessara till. hljóp hann frá því með yfirborðsafsökunum.

Enn hefur verið gert nýtt samkomulag á Alþ. um afgreiðslu Víetnam-till., en augljóst er á fjasi ráðh. nú, að enn hugsar hann sér að þvælast fyrir afgreiðslu málsins af fylgispekt sinni við erlenda aðila. Það er grátlegt, að forsrh. Íslands skuli vera svo ósjálfstæður að þora ekki að hafa sína eigin skoðun á þörf þess að stuðla að réttlátum friði í Víetnam.

Fátt hygg ég lýsa betur ráðleysi ríkisstj. og algeru getuleysi hennar að fást við þau verkefni, sem við er að glíma í málefnum þjóðarinnar, en þau furðulegu vinnubrögð, sem upp hafa verið tekin á Alþ. þessa síðustu daga af hálfu ríkisstj. Hverju stórmálinu af öðru er kastað fyrir þingið um leið og stjórnin tilkynnir, að þingstörfum verði að vera lokið ekki síðar en n. k. laugardag. Flest eru þessi mál illa undirbúin, sýnilega flutt í flaustri og oftast án lágmarksskýringa eða grg. Öll eiga þessi mál að fá afgreiðslu, þó að augljóst sé, að enginn möguleiki sé á því, að n. geti athugað þau eins og til er ætlazt samkv. þingsköpum. Hvað er það, sem veldur þessum einkennilega hamagangi og þeirri ófrávíkjanlegu kröfu, að þinginu verði að vera lokið nú á laugardaginn kemur? Jú, skýringin er sú, að ráðh. mega ekki vera að þessu þinghaldi lengur. Þeir þurfa að fara að ferðast til útlanda. Einn er þegar farinn fyrir nokkru og dvelst enn erlendis, annar hefur ákveðið að fljúga austur um haf á sunnudaginn, og verður því að vera laus við þingið á laugardag, og sá þriðji, höfuðpaurinn sjálfur, ætlar að fljúga vestur um haf einnig á sunnudaginn, og því þarf hann að losna við þingið. Kannske eru hinir ráðh. líka farnir að tygja sig til einhverra ferðalaga.

Af þessum ástæðum verður að ljúka þingi fyrir næstu helgi, hvað sem það kostar og hvernig sem ástatt er um afgreiðslu stórmála. Eitt af þeim málum, sem lagt var fyrir þingið á síðustu starfsdögum þess, var frv. um heimild handa ríkisstj. til þess að taka á þessu ári innlend og erlend lán nokkuð yfir 500 millj. kr. Í frv. er gerð lausleg grein fyrir því, til hvers þessu lánsfé skuli varið, en engar upplýsingar eru um væntanleg lánskjör á erlendu lánunum. Samkv. grg. frv. nema erlendu lánin nokkuð á 4. hundrað millj. kr., og þeim á að verja til ýmiss konar almennra framkvæmda, sem hingað til hafa verið kostaðar af ríkissjóði. Þannig á t. d. að verja 7 millj. kr. til þess að þoka áfram byggingu lögreglustöðvarinnar í Reykjavík og 7.2 millj. til þess að láta gera á kostnað ríkissjóðs hitaveitu fyrir kísiliðjuna við Mývatn. Þá á að verja nokkru af þessu erlenda fé til þess, að hægt verði að halda áfram við ýmsar vegagerðir, og nokkru á að verja til framkvæmda við þrjár landshafnir. Nokkru til venjulegra, árlegra framkvæmda á vegum Rafveitna ríkisins, og nokkuð af lánsfénu á að renna til þess að greiða afborganir af eldri lánum.

Eins og þessi upptalning ber með sér, er hér um það að ræða að taka erlend lán til venjulegra árlegra minni háttar framkvæmda á vegum ríkisins. Ástæðan til þess, að nú er ætlað að taka erlend lán í þessu skyni, er sú, að talið er útilokað, að hægt sé að fá innlend lán til þessara framkvæmda, og einnig er talið útilokað, að ríkissjóður geti ráðið við þessi útgjöld af sínum tekjum. Þegar „viðreisnin“ hóf göngu sína fyrir 8 árum, var mjög á því hamrað, að þjóðin hefði þá tekið of mikið af erlendum lánum.

Og þó voru lánin þá aðallega tekin vegna kaupa á nýjum framleiðslutækjum, sem stuðla áttu að aukinni gjaldeyrisöflun og vissulega gerðu það.

Nú er hins vegar önnur hagfræði komin til sögunnar. Nú virðist allt vera í lagi, þó að erlend lán séu tekin til þess að byggja lögreglustöð og til þess að þoka áfram vegaspottum hér og þar á landinu. Ég nefni hér annað mál, sem ríkisstj. hefur nýlega lagt fram á Alþ. og glögglega ber vitni um ráðleysi hennar og ringulreið. Hér er um að ræða frv. um hækkun á útflutningsgjöldum af sjávarafurðum til tekjuöflunar fyrir Vátryggingarsjóð fiskiskipa. Vátryggingarsjóður þessi er einstakur í sinni röð og hefur leitt til öngþveitisástands í vátryggingarmálum fiskiskipaflotans. Vátryggingariðgjöld íslenzkra fiskiskipa eru nú orðin meira en helmingi hærri en í nokkru öðru sambærilegu landi. Öll grundvallaratriði vátryggingarmála eru þverbrotin með þessu vátryggingarfyrirkomulagi. Þetta hefur ríkisstj. verið bent á æ ofan í æ á undanförnum árum, en hún virðist hvorki hafa heyrt né skilið þær aðvaranir. Þegar svo allt er komið í strand og vátryggingarsjóðurinn kominn raunverulega á hausinn, er það helzta úrræði ríkisstj. að hækka enn útflutningsgjöldin á sjávarafurðum, og draga þannig enn úr samkeppnismöguleikum okkar framleiðslu við þá erlendu á hinum erlendu mörkuðum. Samkv. þessu frv. verða öll útflutningsgjöld á saltsíld, ef frv. verður samþ., um það bil 14%, en á bræðslusíldarafurðum eru þau þegar orðin um 9.7%. Með þessu frv. er enn lagt til að ganga á umsaminn aflahlut sjómanna með því að taka þessi gjöld af óskiptu. Hér er því verið að lækka kaup sjómanna, skapa aðstæður, sem leiða til lækkunar á síldarverði og fiskverði. Afstaða ríkisstj. til undirstöðuatvinnuveganna og skilningsleysi hennar á þeim vandamálum atvinnulífsins, sem við er að fást, endurspeglast í þessu frv. Þegar vátryggingarmálefni fiskiskipanna eru komin í óefni, m.a. vegna rangrar stefnu, sem ríkisstj. ber sjálf ábyrgð á, þá kann hún engin ráð til úrbóta önnur en þau að leggja ný gjöld á sjávarútveginn sjálfan. Afleiðingarnar af slíkum nýjum álögum verða svo þær eins og venjulega, að sá, sem verið var að hjálpa, kemst í þrot, og honum þarf síðan að hjálpa á nýjan leik.

Eins og málum er nú háttað, er allt í óvissu með síldveiðar á komandi sumri. Engir samningar hafa enn verið gerðir um rekstrargrundvöll fyrir síldveiðiflotann. En samt kemur ríkisstj. fram með till. um að minnka enn launahlut síldveiðisjómanna, og gera enn erfiðara fyrir með það að sækja síld langt norður í höf og koma henni í salt eða verðmeiri verkun. Ríkisstj. getur hugsað sér að taka erlend lán til þess að byggja lögreglustöð og til þess að leggja kísilveg, en hún sér engin ráð til þess að skipa málum undirstöðuatvinnuveganna þannig, að þeir geti yfirleitt gengið. Stefna ríkisstj. í málefnum atvinnuveganna veldur þeim miklu meiri vanda en misjöfn aflabrögð og sveiflur á erlendum mörkuðum. Lækkandi verðlag á þýðingarmiklum útflutningsafurðum er vissulega þungbært. En afleiðingar þess verða óviðráðanlegar, þegar jafnframt fylgja okurháir vextir af öllum lánum, stuttur lánstími og óhagstæð lánskjör. Ónóg rekstrarlán og þar af leiðandi sífelldir greiðsluörðugleikar, síhækkandi innanlandsverðlag, drepþung útflutningsgjöld og óheyrileg ríkisyfirbygging með óteljandi skattlagningarformum. Sú stefna núv. stjórnarvalda að láta blind gróðasjónarmið ráða allri fjárfestingu í landinu, hefur vissulega kostað mikið fé. Einhver undirstöðuframleiðsla verður að borga allar bankabyggingarnar og allar nýju verzlunarhallirnar. Og einhver undirstöðuframleiðsla verður að greiða öllu því fólki, sem dregizt hefur í þjónustustörfin á undanförnum árum. Einhver undirstöðuframleiðsla verður að standa undir allri yfirbyggingu ríkiskerfisins. Og hver er svo þessi undirstöðuframleiðsla? Veit ríkisstj. það? Það er hvorki að sjá af till. hennar né heldur hægt að ráða af stefnu hennar í efnahagsmálum. Sú stefna, sem leitt hefur af sér á nokkrum árum margföldun bankakerfisins, 7 banka með mörgum tugum útibúa, sú stefna, sem leitt hefur til margföldunar á öllum kostnaði við verzlun, sú stefna, sem leitt hefur til þess, að vaxandi hluti af fjármagni þjóðarinnar hefur runnið til milliliðastarfsemi, sú stefna, sem leitt hefur til þess, að ríkisútgjöldin hafa meira en þrefaldazt á 5 árum, hún hefur kostað undirstöðuatvinnuvegina meiri og þyngri byrðar en þeir fá undir risið. Það er afleiðing þessarar stefnu, sem nú kemur fram í þeirri kaldhæðnislegu fjarstæðu, að undirstöðuatvinnuvegurinn, sjávarútvegurinn, er orðinn styrktar þurfi af þeim, sem áður hafa mergsogið hann. Það er stefna ríkisstj., sem leitt hefur af sér óheyrilega eyðslu í rekstri ríkisins á mörgum sviðum. Hún hefur leitt til þess, að nú kostar utanríkisþjónustan um 90 millj. á ári og lögreglukostnaðurinn í landinu fyrir utan allan kostnað af almennri löggæzlu, almennum löggæzlumálum, nemur nú orðið 135 millj. Það er þessi eyðslustefna, sem leitt hefur af sér hvers konar óreiðu og spillingu, eins og t.d. þá, að ríkissjóður skuli greiða í beina bílastyrki til ýmissa starfsmanna sinna um 13 millj. á ári, og auk þess þó að reka að fullu einkabíla fyrir 80 forstöðumenn ríkisstofnana. Það er þessi eyðslustefna, sem komið hefur löggæzlukostnaði ríkisins á Keflavíkurflugvelli, aðeins innan girðingarinnar þar syðra, upp í 19 millj. kr. á ári. Það er þessi eyðslustefna, sem gert hefur það að hversdagslegum fyrirbærum, að uppvíst verði um ótrúlegustu fjársóun, eins og t.d. það, að veitt hafi verið 18 millj. kr. til einskis nýtra almannavarna á nokkrum árum eða til þess, að búið sé að eyða 2½ millj. kr. í teikningar af væntanlegu stjórnarráðshúsi, sem þó er óráðið, hvort eða hvenær byggt verður.

Stefna ríkisstj. í málefnum atvinnuveganna hefur mótazt af skilningsleysi og vantrú. Af þeim ástæðum hefur togaraútgerðin verið að grotna niður. Af þeim ástæðum hefur minni fiskibátunum, sem veiðar stunda fyrir fiskiðnaðinn, fækkað og rekstur þeirra dregizt saman. Af þeim ástæðum hefur ekkert miðað í þá átt að byggja hér upp nýjar greinar sjávarvinnslu, eins og niðursuðu og niðurlagningu. Og vegna þessa trúleysis stjórnarvaldanna á íslenzkum atvinnuvegum ríkir nú algert skipulagsleysi í framleiðslu landbúnaðarins með tilheyrandi stórfelldum erfiðleikum fyrir bændur, og það sama er að segja um stöðu iðnaðarins, en í málefnum hans hefur ríkisstj. heldur enga frambærilega stefnu. Stefna ríkisstj. í atvinnumálum og í verzlunar- og viðskiptamálum leiðir síðan óhjákvæmilega til sífelldra árekstra við vinnandi fólk í landinu. Ráð ríkisstj. út úr þeim vanda, sem stefna hennar óhjákvæmilega leiðir til, er svo jafnan aðeins eitt og hið sama: Aðeins að lækka kaupið annaðhvort með hækkunum verðlags án verðlagsuppbóta eða með beinni og umbúðalausri launalækkun, eins og nú á þessum vetri. Við þessa alröngu stjórnarstefnu verður þjóðin að losa sig hið allra fyrsta, ef ekki á illa að fara. — Góða nótt.