04.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2172 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

Verkföll

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. S. l. nótt skullu hér á einhver víðtækustu og mestu verkföll, sem hér hafa átt sér stað, svo að það er í rauninni ekki að ófyrirsynju, að á það er minnzt hér á Alþ. Það mun láta nærri, að yfir 20 þús. vinnandi menn í landinu séu aðilar að þeim verkföllum, sem nú eru á skollin, og það leikur því enginn vafi á því, að hér er um mjög alvarlegan hlut að ræða í sambandi við allt efnahagslíf landsins. Þessi miklu verkföll skella nú á einmitt á þýðingarmesta framleiðslutímabili ársins, en eins og kunnugt er, eru langsamlega þýðingarmestu mánuðirnir varðandi undirstöðuframleiðslu landsmanna einmitt mánuðirnir marz og apríl. Það getur því ekki leikið neinn vafi á því, að hér er um mikið alvörumál að ræða og það mun fljótlega sveiflast í tugum og jafnvel hundruðum millj. það tjón, sem landsmenn sem heild hafa af því, ef þessar vinnudeilur standa nokkuð sem heitir.

Við vitum það, að meginástæðan til þess, að til þessara verkfalla hefur nú komið, er sú, að ríkisstj. taldi óhjákvæmilegt í nóvembermánuði að fella niður lagaákvæði, sem í gildi hafa verið nú um nokkur ár um vísitöluuppbætur á laun. Þegar þetta var ákveðið hér á Alþ., vöruðum við í stjórnarandstöðunni mjög við því að fella niður þessi lagaákvæði, og þá komu einnig fram mjög skýrar yfirlýsingar frá forustumönnum verkalýðssamtakanna um það, að verkalýðshreyfingin mundi ekki una því, að vísitölubætur á laun yrðu ekki greiddar, og nú er komið að því, að við stöndum frammi fyrir þessu mikla vandamáli, að það er ekki eins létt eins og ýmsir höfðu búizt við, að ætla að fella niður þessi sjálfsögðu réttindi. Það er líka alveg augljóst mál, að eins og mál öll bera að er hér um mjög mikilvægt hagsmunamál vinnandi fólks að ræða. Það hafa þegar gengið yfir miklar verðhækkanir og það er vitað um það, að enn eiga eftir að koma allmiklar verðhækkanir, sem yrðu að sjálfsögðu að öllu leyti til þess að rýra kaupmátt launa, ef ekki væri um verðlagsuppbætur á laun að ræða. Og þegar það einnig liggur fyrir, að mikill hluti af vinnandi fólki í landinu hefur orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu á s. l. ári vegna minnkandi atvinnu, minni afla og lækkandi verðlags, þegar tekjur manna hafa þegar lækkað mjög verulega af þessum ástæðum, þá þarf enginn að vera hissa á því, að menn taki því ekki með góðu móti, að þá skuli einnig eiga að lækka kaupmátt þess kaups, sem um hafði verið samið áður. Ég veit, að það þarf ekki hér fyrir hv. alþm. að fara um það mörgum orðum, hvað nú hlýtur að gerast næstu daga í atvinnulífi landsins, ef verkföllin standa. Það stöðvast ekki einungis svo að segja öll þorskveiðiframleiðslan og fiskvinnslan í sambandi við hana, heldur stöðvast hér miklum mun meira, og í ýmsum tilfellum tekur fyrir útflutning á afurðum frá landinu, sem er í rauninni alveg aðkallandi, og getur skipt miklu meira máli en menn hafa gert sér grein fyrir, að sá útflutningur geti farið fram samkv. gerðum samningum og settum reglum. Það tekur fyrir þann útflutning einnig, svo að hér er auðvitað um feiknalegt tjón að ræða, ef verkföllin eiga að standa.

Ég vil nú í tilefni af því, sem hefur gerzt í þessum efnum, beina því til ríkisstj., hvort hún sjái sér ekki fært með tilliti til þess, hvernig mál hafa þróazt, að taka nú til endurskoðunar afstöðu sína til vísitölugreiðslu á laun. Ég trúi því varla, að ríkisstj. hafi ekki gert sér fulla grein fyrir því, að þessi hennar stefna fær ekki staðizt við þær aðstæður, sem við er að búa. Hér verður að gera á verulega breytingu frá því, sem ríkisstj. hefur hugsað sér. Það er hægt að koma í veg fyrir þessi miklu áföll með því, að ríkisstj. beitti sér nú fyrir því á ný að taka í lög ákvæði um verðlagsuppbætur á laun. Það er mjög ákveðin áskorun frá hálfu okkar Alþb.-manna, sem þykjumst hafa gert okkur fulla grein fyrir alvöru málsins, að ríkisstj. fallist á að íhuga þessi mál að nýju. Það er alveg útilokað, að ríkisstj. geti haldið sér við það áfram að ætla að skjóta sér framhjá þessum vanda eða undan þessum vanda og beina öllum vandanum til hinna almennu atvinnurekenda í landinu. Það er nokkurn veginn víst, að staða þeirra er þannig, að þeir munu ekki semja um vísitölubætur á laun á þann hátt, sem launþegasamtökin gera kröfur um, svona rétt eftir að ríkisstj. hefur afnumið slíkt ákvæði úr l. Ég held því, að þetta mál liggi þannig, að það verði ekki leyst, nema þá eftir stórfelld áföll fyrir þjóðarheildina á milli þeirra aðila, sem eigast við á vinnumarkaði, án þess að til komi bein afskipti ríkisvaldsins, eins og þetta mál allt er tilkomið. Ég tel, að það mundi skipta miklu einmitt nú, eins og komið er þessari deilu, ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað gefa hér yfirlýsingu á Alþ. um það, að hún vildi leggja sig alla fram um það að leysa deiluna og hún vildi viðurkenna það, eins og mér er kunnugt um, að vinnuveitendur hafa viðurkennt í viðræðum við verkalýðssamtökin, að undan því verður í rauninni ekki vikizt, að um vísitölugreiðslu á laun verður að vera að ræða. Vísitölugreiðslur á laun eru líka þýðingarmiklar fyrir atvinnureksturinn í landinu, því að það gefur miklu meiri festu á vinnumarkaði og bægir frá ýmsum smáverkföllum, sem alltaf vilja á skella, þegar samningar eru gerðir til örstutts tíma, en það er eðli málanna, að þeir verða gerðir til örstutts tíma í breytilegu verðlagi, ef ekki er um að ræða neina verðtryggingu á laun. Ég held, að það væri mjög þýðingarmikið, að hæstv. ríkisstj. gæfi einmitt nú út yfirlýsingu um það, að hún vildi leggja sig fram um það, að fá lausn á þessu máli, m. a. á þann hátt að setja að nýju í lög ákvæði um verðtryggingu launa, a. m. k. á þeim grundvelli, sem verkalýðssamtökin í landinu geta unað við.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri nú, en vænti þess, að hæstv. ríkisstj. verði við beiðni minni um það að gefa hér yfirlýsingu í þessa átt.