29.03.1968
Neðri deild: 86. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í C-deild Alþingistíðinda. (2537)

172. mál, laun listamanna

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það má vera, að það sé eins og að bera í bakkafullan lækinn að leggja fram frv. um laun listamanna, skálda og rithöfunda, á þessu þingi, sökum þess að einstakt mál var til meðferðar á seinasta þingi. Það mál var þannig til komið, að veruleg óánægja hafði ríkt um þá skipan, sem hafði verið á úthlutun listamannalauna á undanförnum árum, og því hafði verið borin fram í Sþ. og samþykkt sérstök tillaga, þar sem skorað var á ríkisstj. að hlutast til um, að sett yrði ný löggjöf um þessi mál. Hæstv. menntmrh. tók að sér að hafa forgöngu um undirbúning þessarar löggjafar, sem var ekki vandalaust, og ég hygg, að það megi mjög þakka honum það, að það tókst að ná samkomulagi við viðkomandi listamannasamtök og fleirri aðila, um það, hvernig úthlutuninni skyldi verða háttað til frambúðar.

Þær reglur, sem samkomulag náðist um, felast í þeim l. um listamannalaun, sem samþykkt voru á seinasta Alþingi. Það má að vísu segja, að það sé ekki enn komin full reynsla á, hvernig þessar reglur muni reynast, en þó hygg ég, að frekar megi segja, að þær séu líklegar til þess að verða heldur til bóta.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, eru þessar reglur teknar upp nokkurn veginn óbreyttar, því þó að einhverjir agnúar kunni að felast á þeim, er reynslan enn svo skömm af þeim, eins og ég sagði áðan, að rétt þykir, að það sjáist betur, hvort þær gefi ekki þá raun, sem búizt hefur verið við, eða að minnsta kosti að menn geti gert sér gleggri grein fyrir því, hverjir agnúar kunni á þessu að vera.

Það hefur komið glöggt í ljós í sambandi við þær 2 úthlutanir, sem hafa farið fram skv. þessum 1., að á þeim er verulegur annmarki, og hann er sá, að l. er ekki tryggt neitt ákveðið fjármagn til listamannalauna, heldur aðeins sagt, að þar skuli farið eftir þeirri fjárveitingu, sem er ákveðin til þeirra á fjárlögum hverju sinni. Niðurstaðan hefur orðið sú, eins og reyndar var áður, að þetta framlag hefur reynzt allt of lágt, og mikil gagnrýni hefur orðið á úthlutunum í bæði skiptin, síðan l. voru sett. Sú gagnrýni stafar að mjög verulegu leyti af því, að fjármagn það, sem úthlutunarn. hefur haft handa á milli, hefur reynzt allt of lítið. Þess vegna er það annað meginatriði þess frv., sem hér liggur fyrir, að ráða bót á þessu, með því að ákveða fasta fjárveitingu til listamannalauna. Í fyrsta lagi er lagt til, að sú fjárveiting, sem nú er á fjárl., haldist óbreytt, en ekki þó, ef heildarhækkun verður á fjárl., ef hækkun verður á heildarútgjöldum fjárl. í samræmi við þá hækkun, sem á útgjöldum verður, þannig að það á að vera tryggt, að þetta tillag verði aldrei lægra miðað við fjárl. en það er nú. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að þetta tillag renni eingöngu til listamanna annarra en skálda og rithöfunda. Til launa handa skáldum og rithöfundum er gert ráð fyrir annarri fjáröflun, sem er sú, að til þeirra renni sá söluskattur, sem nú er greiddur af bóksölu í landinu. Það mun vera áætlað, að umsetning bóksölu í landinu sé nú á milli 80—100 millj. kr., nákvæmar tölur eru ekki fyrir hendi um það efni. Söluskatturinn er, eins og kunnugt er, 7 1/2%. Þess vegna ættu þarna að fást tekjur, sem nema nokkrum millj., sennilega alltaf 6—7 millj. kr. miðað við þá umsetningu, sem verið hefur í bókasölunni tvö síðustu árin, eða reiknað er með að hafi verið tvö síðustu árin. Það er ekki óeðlilegt, að þessi skattur renni til þess að styrkja skáld og rithöfunda, því að það má segja, að þeir standi raunverulega mest undir bókaútgáfunni, því að frá þeim er það komið, sem oft á tíðum er merkast í henni og hefur mest sölugildi, og með því að láta þetta fé renna til þeirra, er líka óbeint verið að styrkja bókaútgáfuna í landinu, því að í sumum tilfellum gæti það kannske auðveldað bókaútgefendum að greiða ekki eins hátt til listamannanna eða rithöfundanna og ella, þó að það sé að sjálfsögðu ekki tilgangurinn með þessu frv.

Í sumum löndum hefur sá háttur verið upp tekinn að hafa alls ekki söluskatt af bókum, eins og t.d. í Noregi, en varðandi það virðist ekki vera neinn vilji fyrir hendi hér á landi, og þess vegna er eðlilegt, að sú ráðstöfun verði höfð á þessum skatti á bókasölunni, sem hér er gert ráð fyrir.

Eins og ég áðan sagði er það annar aðaltilgangurinn með þessu frv. að tryggja fast fjármagn til að launa listamönnum, skáldum og rithöfundum í staðinn fyrir, að það er nú háð fjárveitingu í fjárl. hverju sinni og geðþótta Alþ. og þeirra manna, sem um þetta fjalla.

Hitt aðalatriðið í frv. er það, að gert er ráð fyrir, að teknir verði upp sérstakir starfsstyrkir, að af þeim fjárveitingum, sem frv. gerir ráð fyrir, sé tekinn nokkur hluti og honum ráðstafað til þess að veita listamönnum og skáldum sérstaka starfsstyrki. Það hefur lengi verið áhugamál félagsskapar þessara aðila, að slíkar styrkveitingar væru teknar upp. Nokkurt fyrirheit hefur verið gefið um það í öðrum l., sem nýlega hafa verið samþ. hér á Alþ., en hins vegar þó svo takmarkað, að það getur aldrei fullnægt þeirri þörf, sem er fyrir hendi í þessum efnum.

Þetta eru meginatriðin í frv., en hvað snertir úthlutunarreglurnar sjálfar og kosningu úthlutunarn. er gert ráð fyrir, að þau ákvæði haldist nokkurn veginn óbreytt frá því, sem er í núgildandi l. eða þeim, sem voru samþ. á seinasta þingi

Ég hygg, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um nauðsyn þess að aðstaða listamanna og skálda sé bætt, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., því að ég hygg, að um það séu þm. nokkurn veginn sammála. Þó að fjárveitingar hafi ekki verið hærri til þessara mála á undanförnum þingum en raun ber vitni, þá eru aðrar ástæður fyrir því en óvilji í garð þessara manna, sem því hefur ráðið. Ég vil aðeins benda á eina röksemd, sem ég tei vera mjög mikilvæga í þessu sambandi, og eigi að vera okkur aukin hvatning til þess að tryggja aukið fjármagn til að launa listamenn og skáld. Þessi ástæða er sú, sem öllum er kunnugt um; að sú einangrun, sem við bjuggum við áður, er úr sögunni, en hún var á sínum tíma viss vernd fyrir okkar þjóðerni. Nú erum við komnir í alþjóðaleið og við megum búast við því, að alls konar samskipti okkar við aðrar þjóðir fari vaxandi á komandi árum. Við komum til með að taka þátt með einum eða öðrum hætti í alls konar bandalögum. færumst á þann hátt í nánara samstarf við aðrar þjóðir. Þessu fylgja að sjálfsögðu ýmsir kostir, því að einangrun hefur vitanlega sína galla, en fyrir þjóðerni okkar fylgir þessu líka margvísleg hætta. Það þýðir ekki annað en horfast í augu við það, og sú vernd, sem einangrunin veitti því áður, er úr sögunni. Hitt er á að líta, að við höfum nú ýmis tæki, sem við höfðum ekki áður, tæki, sem eiga að geta styrkt okkar aðstöðu í þessum efnum, skólarnir eru orðnir fleiri og fjölbreyttari en áður var, og menn fá aðstöðu til þess að njóta meiri skólamenntunar en áður tíðkaðist, og að sjálfsögðu geta skólarnir haft sitt að segja eða haft sína þýðingu í þessum efnum, að styrkja okkar þjóðernismeðvitund. Sama má segja bæði um útvarp og sjónvarp, ef því er réttilega beitt. Blöðin geta einnig haft sín áhrif í þessum efnum, ef rétt er á þeim haldið, en þó hygg ég, að ef við litum til reynslunnar, að þrátt fyrir það, að við megum treysta að meira eða minna leyti á alla þá aðila, sem ég hef hér nefnt, þá verður það samt drýgst, þegar til kemur, til þess að halda við okkar þjóðerniskennd og þjóðernismeðvitund, að við eigum góðum og þjóðlegum listamönnum á að skipa í sem flestum greinum og þá ekki sízt skáldum og listamönnum, því að þó að listirnar séu mikilvægar á öllum þessum sviðum, þá hafa að sjálfsögðu skáldin og rithöfundarnir mest að segja og þá alveg sérstaklega í sambandi við varðveizlu og eflingu tungunnar. Okkar reynsla af þýðingu listamanna, og þá sérstaklega skálda og rithöfunda í þessum efnum er slik á undanförnum öldum og áratugum, að það ætti ekki að vera þörf að fara um það mörgum orðum, og hún á jafnframt að gera okkur ljóst, hvaða þýðingu þessir aðilar geta haft á komandi árum, ef rétt er að þeim búið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni, en leyfi mér að leggja til, að því verði, að umr. lokinni, vísað til menntmn.