13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (2722)

142. mál, meðferð á hrossum

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég verð ekki langorður um þá till., sem hér liggur fyrir, en hún er á þá leið, að Alþ. skori á landbrh. að sjá til þess, að ákvæðum laga um hýsingu, fóðrun og aðra hirðingu sé framfylgt að því er varðar hross sem annan búpening. Málalengingar út af þessu, hvort lögum skuli framfylgt, ættu að vera óþarfar, enda getur þetta varla valdið miklum deilum hér á sjálfri löggjafarsamkomunni.

Þegar ég var búinn að ganga frá þessari till., frétti ég það af Búnaðarþingi, að hæstv. landbrh. hefði þar í ræðu vikið að þessum málum og lagt á það ríka áherzlu, að eftir því yrði gengið, að umræddum Iögum yrði framfylgt, og vel sé honum fyrir það. Engu að síður taldi ég rétt að leggja till. fram, enda þykist ég vita, að hæstv. ráðh. Mundi frekar fagna því heldur en hitt, að Alþ lýsti yfir stuðningi sínum við þá viðleitni hans að bæta hlutskipti þeirra, sem vegna virðingarleysis manna fyrir umræddum lögum, — svo að maður tali nú ekki um þau lög, sem ekki byggjast á bókstafnum, heldur siðgæðisvitund hvers og eins, þ.á.m. því, sem við nefnum mannúð, — hlutskipti þeirra, sem af þessum sökum verða að þola margs kyns þrengingar og raunir, þ.e.a.s. útigangshrossanna.

Ég mun þó ekki tefja við rökstuðning varðandi þá hlið þessa máls, sem að mannúðinni snýr, umfram það, sem fram kemur í bréfi frá heiðursbóndanum Kristjáni á Snorrastöðum, sem ég hef leyft mér að birta í grg. með till., enda má segja, að löggjafinn á þessu sviði sé ekki nema að takmörkuðu leyti þessi samkoma, hið háa Alþ., heldur hjartalag þjóðarinnar og sómatilfinning. Gengi mannúðarinnar það má segja, að það sé fyrir utan valdsvið Alþ, eins og gengi reyndar á mörgum fleiri sviðum nú á þessum síðustu og erfiðustu tímum. En til að hamla gegn gengisfellingu á þessu sviði hefur Alþ. sett l., og Alþ. hlýtur að ætlast til þess, að eftir þeim l. sé farið.

En virðingarleysi manna fyrir þessum l., sem vitnað er til í till. og grg. með henni, þ.e.a.s. um hýsingu og fóðrun og aðra hirðingu búfjár, virðingarleysi manna fyrir þessum l. kemur m.a. fram í því, að lausagangur hrossa er að verða eitt meiri háttar vandamál í flestum eða öllum byggðarlögum landsins. Í kauptúnum og þorpum eru umhirðulaus hross á rangli vetrarlangt um götur og garða, brjótandi niður girðingar og viðkvæman trjágróður og hafandi iðulega ekkert að éta nema það, sem til fellur á ruslahaugum og í sorptunnum. Og umferðartruflanir upp til sveita stafa ekki allar af því slæma ástandi, sem þar ríkir í vegamálum, því að oft er það í skammdegismyrkri og hríðarbyljum, að ferðir manna tefjast af heilum hópum hrossa, sem standa eins og veggur þvert yfir veginn og verða ekki hrakin burt nema með harðri hendi Verra er þó, að af þessu stafar mikil slysahætta, því að oft er það þannig, að ökumaður kemur ekki auga á þessi hross í myrkri og hríð fyrr en tími til þess að hemla er orðinn svo naumur, að það er ekki um annað að ræða en að aka beint inn í hópinn eða þá út af veginum, og mun þá flestum verða að velja frekar síðari kostinn, og hafa margir hlotið af þessu meiðsl og sumir mjög alvarleg, auk meiri og minni skemmda á bifreiðum sínum. Þá hafa sennilega enn fleiri slík slys orðið af völdum hrossa, sem allt í einu stökkva upp úr skorningum eða lægðum í veg fyrir bifreiðar.

Nauðsynjar þær, sem sveitafólk kaupir sér úr kaupstaðnum, eru yfirleitt skildar eftir á brúsapöllum við veginn, og víða er það þannig, að ásókn hrossa í þessa brúsapalla verður helzt líkt við stöðugt umsátursástand. Ég veit dæmi þess, að menn hafa lagt á sig að standa vörð í verstu veðrum við brúsapallana,meðan þeir bíða eftir bílnum með nauðsynjarnar, vegna þess að þeir vita, að ef það dregst eitthvað að bjarga nauðsynjunum heim í bæ, er allt að því eins líklegt, að hrossin verði búin að éta nauðsynjarnar upp til agna, þegar að er komið. Já bókstaflega upp til agna. Það eru ýmsir, sem halda fram þeirri kenningu, að útigangshross þurfi aldrei að Iíða neinn teljandi skort og allra sízt í byggð. En hvað sem líður þeirri kenningu, er það staðreynd, að útigangshrossin éta ekki aðeins það, sem þau kunna að finna matarkyns á brúsapöllum, heldur éta þau líka það, sem í fljótu bragði virðist ekki hafa mikið næringargildi, eins og t.d. vefnaðarvörur, umbúðapappír og jafnvel dagblöð.

Þannig mætti lengi rekja þau vandræði, sem stafa af þessum hrossum, sem ráfa umhirðulaus um byggðir landsins. Ég ætla, eins og ég sagði, ekki að fjölyrða hér um líðan þeirra eða ásigkomulag. Ég verð þó að segja það fyrir mig persónulega, að mér hefur oft runnið það til rifja, og þó fullyrði ég, að meðferð hrossa í því héraði, þar sem ég á heima og þekki bezt til, er eflaust miklu betri og mannúðlegri en hún er víða annars staðar, þar sem þau verða kannske hundruðum eða þúsundum saman að þreyja þorrann og góuna í óbyggðum, e.t.v. snævi þöktum, þar sem hvergi eru nærri neinir brúsapallar eða ruslahaugar eða sorptunnur, sem þau geta sótt í saðningu við sárasta sultinum.

Ég mun svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég legg til, að þegar menn hafa sagt það, sem þeir kunna að vilja segja hér í dag varðandi till., verði umr. frestað og till. vísað til allshn.

Og þó, kannske ég bæti hér við aths., sem var gerð í mín eyru núna ekki alls fyrir löngu, að vísu í gamni, en öllu gamni fylgir nokkur alvara, og gott ef svipaðar aths. hafa ekki einhvers staðar komið fram á prenti, sem sé, að till þessi muni hljóta dræmar undirtektir hér á hinu háa Alþ., þar sem ýmsir þm. muni óttast fylgistap, ef þeir láta í ljós opinberan stuðning við hana, vegna þess að þeir, sem setja hrossin á gaddinn, séu allir á kjörskrá en hrossin hins vegar ekki. Ég er sannfærður um, að þessar ásakanir eru ekki aðeins ósæmilegar, heldur ástæðulausar með öllu, eins og ég veit, að sannast mun með farsælli afgreiðslu þessarar litlu till. minnar.