21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í D-deild Alþingistíðinda. (3021)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Utanrrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég minntist á það núna í minni ræðu, og ég gerði það líka í gær, að ég hefði ekki á móti því, að hér færi fram umr. eins og þessi, sem hv. 6. þm. Reykv. er nú að biðja um, að fari fram. Ég sagði þá, og ég skal standa við það, að ég skal mæta við þá umr.. þegar þetta mál verður tekið fyrir. Mér skilst hins vegar, að það sé rétt, að þeir, sem vilja þessa umr. eða beita sér fyrir henni, komi þá með till. um það og við höldum þá umr. á venjulegan, þinglegan hátt. Ég tel þetta vera alveg fullkomið svar við því, sem hann er alltaf að spyrja um.

Hitt er, hvort við höfum enga stefnu í kjarnorkumálum. Vissulega höfum við stefnu. Við höfum marglýst því yfir, að við værum á móti því, að hér væru geymd kjarnorkuvopn, og við værum líka á móti því, að hér væri flogið yfir íslenzka lofthelgi með kjarnorkuvopn, og við höfum fengið fyrir þessu þá tryggingu, sem ég tel, að sé nægileg. (MK: Ber að skilja þetta sem frambúðarstefnu?) Það er stefna okkar í dag, en sú stefna getur breytzt. Það er ómögulegt að móta nú stefnu, sem á að gilda fyrir alla eilífð. Það er mjög fávíslegt að hugsa sér að mynda sér eða móta sér stefnu lengra heldur en maður sér fram fyrir sig.

Þá þótti hv. þm. það undarlegt, að varnarmálanefnd og utanrrn. væru ekki dómbær um þá hluti, sem þeim væri falið að annast. Ja, ég verð nú að segja það, að í öllum rn. og við mörg verk eru yfirmenn þeirra mála ekki sérfræðingar í ýmsum atriðum, sem framkvæmdir þeirra snertir. Ég segi fyrir mig, og ég hygg, að það sama væri um hv. 6. þm. Reykv. að segja líka, að ef við ættum að fara að leggja mat á hernaðarlegar aðgerðir, dygði ekki þekking okkar til þess, heldur yrðum við að fá þar til menn, sem við tryðum, og sem hefðu vit á því, hvað þeir væru að segja. Þó að hv. þm. færi að hafa hér einhverjar skoðanir um hertæknileg mál, þá mundi ég ekki taka mikið mark á þeim, ef hann ætlaði að mynda sér þær skoðanir sjálfur. Hitt er nauðsynlegt, þegar um slík mál er að ræða, að það séu fengnir til menn, sem hafa vit á því, sem þeir eru að gefa umsögn um. Þó að það sé hér varnarmálanefnd, er ekki hægt að ætlast til, að í henni séu neinir sérfræðingar, vegna þess að við eigum enga sérfræðinga í þessum málum, og þess vegna var líka sú hugsun, sem kom upp í ríkisstj., að það gæti vel komið til álita, að við reyndum að mennta einhverja menn til þess að verða færir um að gefa málefnalegar umsagnir um þessi mál.

Það var ekki meira sem hv. þm. spurði um.