07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í D-deild Alþingistíðinda. (3148)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti Það hefur margt fróðlegt verið sagt í þessum umræðum og sumt skemmtilegt líka, sem vert væri að gera að umtalsefni, en það er ekki margt af því, sem ég þarf að gera aths. við. Í meginefnum er ég alveg sammála þeim hv. þm., sem hér hafa talað, um mikilvægi þess að ljúka þessari áætlanagerð og mikilvægi byggðaáætlana yfirleitt. Og það hefur, eins og ég áðan sagði, ýmislegt komið fram, sem í rauninni getur orðið til styrktar þessu máli. Ég tel það t.d. mjög miklu varða, að það hefur komið hér fram, að því að mér skilst, mjög almennur skilningur á mikilvægi Efnahagsstofnunarinnar og starfi hennar. Sá skilningur hefur nú ekki alltaf verið fyrir hendi, því að fyrir tveim þingum, held ég að það hafi verið, var það eitt af því, sem var fært ríkis stj. til dómsáfellis, að hafa sett á stofn skrifstofuapparat eins og Efnahagsstofnunina, sem væri einn þátturinn, sem sýndi, hvernig verið væri að þenja út stjórnsýslukerfið. Nú er talað um, að það þurfi að efla hana sem allra mest og sjá henni fyrir öllum nauðsynlegum starfskröftum. Ég er alveg sammála því og hef alltaf verið, og ég tel, að það sé þess vegna mjög gott, að þær raddir komi fram hér á Alþ. Hitt vil ég leggja jafnríka áherzlu á, að það þjónar engum tilgangi að fylla eina stofnun með starfsliði. Það, sem fyrst og fremst þarf að gera, er að sjá um það, að til stofnunarinnar ráðist sem beztir menn og hún sé skipuð úrvalsmönnum. Og stofnun með fámennu starfsliði, ef það er þannig skipað og valið, getur áreiðanlega unnið miklu meira verk en stofnun, sem hefði jafnvel tvöföldu starfsliði á að skipa sem ekki hefði sérþekkingu til að bera, sem þarf til að vinna að því verkefni, sem stofnunin á að vinna að. Þessu er alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir.

Ég er sammála þeim röddum, sem hér hafa komið fram um það, að auðvitað má ekki skjóta á frest nauðsynlegum verkum, vegna þess að starfskraftar séu þar ekki fyrir hendi. Ef þá starfskrafta er að fá, er sjálfsagt að gera það, og verður þá að meta það í ljósi þeirrar þýðingar, sem verkin hafa, hvort leggjandi sé í þann kostnað, en það hefur verið skoðun forstjóra Efnahagsstofnunarinnar, og ég er honum algerlega sammála í því, að það sé betra að fara í þetta með gætni og láta jafnvel heldur eitthvað bíða en að stofnunin fari úr þeim farvegi, sem hún hefur verið í og ég tel ákaflega mikilvægan. Hún hefur fengið á sig gott orð, fyrst og fremst vegna þess að hún hefur haft ágætum starfsmönnum á að skipa sem hafa haft þekkingu á þeim málum sem þeir hafa verið að fást við, og unnið með þeim hætti, að stofnunin hefur einmitt fengið þá tiltrú, sem hefur komið í ljós hér á Alþ., að hún hefur, og sem gleður mig mjög.

Einn hv. ræðumanna sagði hér áðan, að höfuðvandinn og orsökin í efnahagsvandamálum Norðurlands væri röng stjórnarstefna. Það er nú auðvelt að slá svona löguðu fram, og það höfum við oft heyrt, en vitanlega er þetta fjarri öllum veruleika. Það, sem er höfuðvandinn, og það þekkjum við allir, sem þekkjum norðlenzk vandamál, er fyrst og fremst hinn stórkostlegi aflabrestur fyrir Norðurlandi. Ef aflabrögð hefðu verið með eðlilegum hætti fyrir Norðurlandi undanfarin ár, væru engin atvinnuvandamál á Norðurlandi. Og þetta er m.a. einn þátturinn, sem við er að fást í sambandi við áætlanagerð og spurningu um uppbyggingu þessa landshluta, og hef ég sjálfur átt kost á að ræða þetta við marga menn norðanlands. Spurningin er um það, hvort þessi byggðarlög ætla að hverfa frá sjávarútvegi eða ekki, og það eru miklar efasemdir í fólki í sjávarplássunum norðanlands, hvort það vilji breyta um stefnu eða hvort það vilji heldur reyna að þrauka nokkuð enn í von um það, að fiskur leggist að landi, bæði síld og annar fiskur, því að það er alveg ljóst, að á mörgum þessum stöðum hafa verið byggð upp nægileg atvinnutæki í sjávarútvegi til að veita öllum íbúum þar atvinnu, þannig að það er ekki þessi tæki, sem skortir, síður en svo. Það vantar hráefnið, og ef það ætti að fara að breyta atvinnuskilyrðum og atvinnuaðstöðu í þessum byggðarlögum með því að fara nú að byggja upp ný atvinnutæki í allt öðrum greinum, sem tækju við þorra af þessu fólki, og síðan kæmi fiskur, þá annaðhvort yrðu þessi atvinnutæki að leggjast niður eða þá að ekki væri hægt að stunda sjávarútveginn sem skyldi, þannig að hér er ekki um neitt einfalt mál að ræða, sem sé hægt að leysa ósköp vandalítið bara ef menn fá áætlun. Vandamálið err miklu víðtækara en þetta, og eins og ég segi, það vita allir Norðlendingar, hvort sem er á Norðurlandi vestra eða eystra, að ef aflabrögð væru með eðlilegum hætti, væri ekki við þann vanda að glíma, sem þarna er að glíma við í dag.

Ég leyfi mér að harma það, að jafnglöggur maður og hv. 5. þm. Norðurl. v. skyldi láta ýmis þau orð falla, sem hann gerði, fyrst og fremst að það skyldi koma fram í hans ræðu jafnmikil vantrú á því, að það ætti að hafa opinbera starfsemi úti á landi, eins og kom fram í ræðu hans. Þetta er sjónarmið, sem auðvitað er í algerri andstöðu við þá skoðun, sem við erum að berjast fyrir, sem viljum stuðla að eðlilegu jafnvægi í byggð landsins. Það er einmitt, að vissar stofnanir séu fluttar út á land, og ég segi: Hvaða starfsemi á fremur að flytja út á land en athugun á byggðavandamálinu og framkvæmdaáætlunum strjálbýlisins? Ég veit ekki hvað frekar ætti að vera þar. Og það, að þm. sitji hér í Reykjavík og þess vegna hljóti allt að verða að vera hér, það er kannske stefna, sem ýmsir geta skrifað undir. Ég veit það ekki. En ég held, að það sé þá ekki hægt fyrir okkur að komast mikið áleiðis með okkar byggðamál, ef ekki á einmitt að stuðla að því að dreifa eitthvað um landið ýmsum framkvæmdastofnunum ríkisins.

Það, að einn maður geti haft allt vit, það dettur auðvitað engum manni í hug. Það hefur enginn allt vit til að bera, þannig að hann hafi þekkingu á öllum hlutum. Og það hefur engum hugkvæmzt það, þó að hann væri sérfræðingur, sem ynni að þessum byggðavandamálum, að hann gæti sjálfur vitað alla hluti. Hann á vitanlega að safna gögnum og upplýsingum og vinna úr þeim og leita til þeirra sérfræðinga, sem til þarf í hverri einstakri grein. Hann á að hafa forustu um að vinna verkið undir leiðsögn forstjóra stofnunarinnar, eins og gerist í öllum þeim greinum, sem þessi stofnun og aðrar slíkar hafa með að gera.

Varðandi það atriði, hvort togveiðar eru leyfðar eða ekki, verður það nú varla þáttur í Norðurlandsáætlun. Það er nú miklu víðtækara vandamál. Um rekstur frystihúsanna, það er alvegi hárrétt hjá hv. þm., að það er mikið vandamál. En það er hins vegar ekki sérstakt vandamál í sambandi við Norðurlandsáætlun. Að því er unnið á öðrum vettvangi, og ég skal játa það einnig, að það ber einnig að harma, að því verki skuli ekki hafa lokið fyrr. En það á allt sínar skýringar. Hann kom einmitt inn á eitt atriði, sem er ósköp fróðlegt að víkja að, spurningunni um það, að í einu byggðarlagi norðanlands væru tvö frystihús, sem hefðu alls ekki nægjanleg verkefni til að starfa bæði. Þetta er stórfellt vandamál. Vitanlega mun Norðurlandsáætlun ekkert úrskurða um það, segja til um það, að á þessum stað sé ekki auðið að reka nema eitt frystihús. Það verður áreiðanlega niðurstaðan hjá henni. En hún vill auðvitað ekki segja fyrir um það, hvoru frystihúsanna skuli loka. Það er alveg útilokað mál. Að hálfu Atvinnujöfnunarsjóðs hefur þegar verið lögð á það áherzla við forráðamenn á þessum stað og forráðamenn beggja frystihúsanna, að sjóðurinn væri reiðubúinn til þess að leggja fram verulega aðstoð, ef þeir kæmu sér saman um að sameina þessi fyrirtæki og starfrækja þau með eðlilegum hætti. Við höfum ekkert vald til að knýja þau til að gera þetta, nema með þeim einum hætti þá að neita um alla aðstoð og bíða þess, að allt fari í strand. Þetta er auðvitað eitt vandarnál, þessi mannlegu viðbrögð, sem við er að fást og engar áætlunargerðir geta leyst. En gott er að nefna þetta, því að það er mjög dæmigert, alveg raunverulegt dæmi um þann vanda, sem við er að glíma á svona sviðum.

Það er alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir nauðsyn þess að láta allt sitja í fyrirrúmi varðandi atvinnumálin á Norðurlandi. Ég er alveg sammála um, að það er höfuðvandamálið í dag. En því verða menn að gera sér grein fyrir, að Norðurlandsáætlun út af fyrir sig er ekki áætlun um það, að á viðkomandi stöðum skuli gerðar þessar tilteknu framkvæmdir. Hún er ekki áætlun um það, að ríkið skuli setja upp atvinnufyrirtæki á þessum og þessum stað. Hún gerir alls ekki ráð fyrir því og mun alls ekki gera. Og það hefur verið meginsjónarmið okkar í atvinnujöfnunarsjóðsstjórn, alveg burtséð frá skiptingu okkar í flokka, að það væri frumnauðsyn þess, að um raunverulega uppbyggingu staðar gæti verið að ræða, að frumkvæðið kæmi heiman frá um það og þaðan kæmi forustan í atvinnulífinu. Það, sem væri okkar verkefni, væri að reyna innan þess ramma, sem kæmi í ljós, við skulum segja við Norðurlandsathugun., að væri talið skynsamlegt á viðkomandi stað að byggja upp, að hjálpa til með lánveitingar eða með fyrirgreiðslu við lánastofnanir. Það er ekki ætlunin, að við getum tekið á okkur allan vanda, heldur eiga það að vera viðbótarlán, að greiða fyrir þeim, ef frumkvæðið er heima fyrir og framtak til þess að standa að þessum atvinnuframkvæmdum. En alls ekki það, að þessi áætlun eigi að segja fyrir um hlutina og síðan eigi það samstundis að komast í framkvæmd, séu atvinnuvandamál á einhverjum stað, skuli þar reisa eitthvert tiltekið atvinnufyrirtæki og ríkisvaldið skuli þá tryggja það, að þetta fyrirtæki rísi. Það hefur aldrei verið hugmyndin með þessari áætlunargerð. Áætlunargerðin er kortlagning þeirra vandamála, sem við er að glíma. Hún er að vísu fyrst og fremst áætlun um ríkisframkvæmdir, eins og gerðist á Vestfjörðum, þar sem eru samgöngumálin. Það eru vissir þættir, sem ríkið sjálft hefur forustu um. Það eru samgöngumálin, og það eru, eins og hv. 1. þm. Austf. vék að, að vissu leyti raforkumálin, og það eru menntamálin. Tvær heildaráætlanir fyrir landið eru í gangi bæði í fræðslumálum og samgöngumálum, og vitanlega verður Norðurlandsáætlunin í þeim háttum tengd þessari heildaráætlun. Og hér er vitanlega um að ræða ríkisframkvæmdir í samgöngumálum að öllu leyti og í skólamálum að mjög verulegu leyti. Og hér er það, sem þörf er á að athuga, hvenær ríkið ætti að leggja fram fé til þessara ákveðnu þátta.

Eins og ég sagði áðan, er atvinnumálaáætlunin með allt öðrum hætti. Hún er kortlagning atvinnuvandamálanna, ástandsins í atvinnumálum á hverjum stað, athugun á því, bæði eftir því sem sérfræðingar okkar segja til um, og eftir því sem skoðanir manna í sveitarfélögum og verkalýðssamtökum á hverjum stað segja til um, hvað væri skynsamlegt að byggja upp á þessum stað miðað við atvinnuaðstæður þar, miðað við fólksfjölda og miðað við horfur um fólksaukningu. Síðan verður þetta vinnuplan, ef svo má segja, fyrir Atvinnujöfnunarsjóð og eftir atvikum aðra framkvæmdasjóði í landinu, ef koma til aðilar á þessum stöðum, sem vilja beita sér fyrir því á raunhæfan hátt og með skynsamlegri uppbyggingu, að þessar framkvæmdir geti orðið að veruleika. Þannig er þessi áætlunargerð hugsuð. Og því fer vitanlega víðs fjarri, að það merki einhverja algera stöðnun, að framkvæmdaáætlunin sem slík hafi ekki endanlega séð dagsins ljós. Eins og ég hef sagt, hefur þegar fyrir meira en ári síðan verið farið um þessi svæði, og athuganir þær, sem þá fóru fram, voru samstundis afhentar stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, og sjóðsstjórnin hefur haft þessar skýrslur til athugunar og hliðsjónar við aðstoð sína við ýmis atvinnufyrirtæki á þessum stöðum. Og auk þess hefur nú síðustu árin verið varið mjög verulegu fé fyrir samstarf verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlandi og ríkisstj. og fyrir aðstoð Atvinnuleysistryggingasjóðs og Atvinnujöfnunarsjóðs til þess að reyna að létta þann stóra vanda, sem er höfuðorsök atvinnuleysisins á Norðurlandi, en það er aflabresturinn. Í þetta hefur verið varið milljónatugum á þessum árum, og nú síðast í haust samþykkti ríkisstj. að verja 12 millj. kr. á þessum vetri til þess að aðstoða við útgerð á Norðurlandi, og vitanlega er þetta veigamikil og jákvæð aðgerð til þess að stuðla að því að leysa — ég segi ekki leysa, en létta þann mikla vanda, sem við er að glíma á Norðurlandi í þessum efnum, þannig að því fer víðs fjarri, að öllu hafi verið kastað fyrir borð eða allt látið bíða, bara með því að bíða eftir endanlegri gerð Norðurlandsáætlunar. Það hefur margt verið gert jákvætt í þessum efnum, og það hefur verið reynt að greiða fyrir atvinnufyrirtækjum á Norðurlandi, og mun vissulega verða reynt að gera það á þessu ári, eftir því sem aðstaða Atvinnujöfnunarsjóðs frekast leyfir. Það má enn benta á að mjög merkilegt átak hefur verið gert fyrir Norðurland með stálskipasmíðinni á Akureyri, sem er eitt þýðingarmesta atvinnufyrirtækið norðanlands. Ég er ekki með þessu að segja, að vel hafi verið gert við Norðurland og þar megi ekki margt fleira gera. Og ég er ekki með þessu að draga úr nauðsyn Norðurlandsáætlunar. En ég er aðeins að segja það, að menn verða að horfa með raunsæi á þetta, og vitanlega má það ekki ske, að það sé t.d. sagt, ef það er rétt, sem ég veit ekki um, sem einhver sagði hér áðan, að það væri látinn bíða stuðningur við ákveðin atvinnufyrirtæki á Norðurlandi með skírskotun til þess, að það yrði ekkert gert í því fyrr en Norðurlandsáætlun sæist. Mér er ekki kunnugt um þetta, en ef svo er, tel ég það mjög miður farið og fráleitt.

Nei, ég hef síður en svo misst trú á gildi áætlunargerðar, eins og hér var sagt af einum hv, þm. áðan, að orð mín bentu til. Það eina, sem ég sagði áðan, var það, að áætlunargerðin ein væri ekki lausn á vandanum. Áætlunargerðin er, eins og ég sagði, nánast vinnuplan, nauðsynlegt vinnuplan. En það, sem er höfuðnauðsyn til þess að málið leysist, er vitanlega fjármagnið annars vegar og þá samhliða framtak þess fólks, sem í þessum byggðarlögum býr, til þess að byggja upp atvinnulíf sitt. Og þess vegna var það, að ég lýsti líka í frumræðu minni því áliti ríkisstj., að höfuðnauðsyn væri að gera nú þegar, enda þótt endanleg áætlun liggi ekki fyrir fyrr en síðar á þessu ári, ráðstafanir til þess að afla fjár. Þau lýstu ekki neinu nýju viðhorfi hjá mér eða vantrú á því, að Atvinnujöfnunarsjóður gæti leyst málið, þau orð, sem ég notaði í svari mínu hér áðan. Ég átti við það, að hann væri þess ekki megnugur af eigin fé sínu að leysa þennan vanda, og það hefur aldrei verið reiknað með því. Sjóðurinn hefur víðtækar lántökuheimildir, og Vestfjarðaáætlunin eða samgönguáætlun Vestfjarða var leyst fyrir lánsfé. Það er vitanlegt, að ef á að gera einhver heilsteypt átök í tilteknum flokki mála, hvort sem það er á sviði atvinnumála, samgöngumála, menntamála eða á einhverjum öðrum sviðum, fyrir ákveðna landshluta verður að gera það með öflun lánsfjár, og ég álít, að það sé ekkert voðalegt, a.m.k. ekki það að taka erlent lánsfé í sambandi við uppbyggingu framleiðslu, aukinnar framleiðslu. Það er okkur vitanlega ekkert hættulegt. Það hefur þegar verið hafizt handa um að leita fyrir sér um þetta fé og ég geri mér vonir um það, eins og ég áðan sagði, að það sé hægt að leysa þennan vanda, og það er vitanlega höfuðnauðsyn, og ég mundi segja, að það væri að bregðast fólki, ef við reyndum ekki einmitt, jafnhliða því sem Norðurlandsáætlunin verður til, að hafa þegar athugað fjármagnshlið málsins, þannig að hún yrði ekki aðeins pappírsplagg. Það er höfuðnauðsyn, og um það er ég sammála öllum hv. þm., sem að því hafa vikið.

Ég skal ekki fara um þetta mörgum fleiri orðum. Það hefur verið sagt, að það sé óhæfilegt, hvað þessi áætlunargerð hafi dregizt. Það er auðvitað alltaf matsatriði. Ég álít, að mjög verði að vanda til áætlunargerðar sem þessarar, sem er frumsmíði hér á landi hvað snertir vinnu íslenzkra sérfræðinga. Þeir hafa algerlega unnið að þessari áætlun, og ég álít, að það sé nauðsynlegt, að hún sé unnin af íslenzkum sérfræðingum. Vestfjarðaáætlunin var ekki unnin af íslenzkum sérfræðingum nema að mjög litlu leyti, heldur af norskum. Ég er ekki að gera lítið úr þeirri áætlunargerð, en það hefur komið oft í ljós við athugun útlendinga á slíkum aðstæðum, að þeir eru ekki eins kunnugir íslenzkum staðháttum og nauðsynlegt er, og af því leiðir, að það er engum efa bundið, að það er æskilegt, að við höfum sérfræðinga, og ég álít, að við höfum þá nú sem betur fer, mjög færa menn. Og ég álít, að upp á framtíðina, hvort heldur er Austfjarðaáætlun eða framhald Vestfjarðaáætlunar, þá sé það höfuðnauðsyn að gera þessa áætlun nú, Norðurlandsáætlunina, sem bezt úr garði.

Ég sagði áðan og viðurkenndi það, að á þessu hefði orðið nokkur dráttur. Ég hef að vísu aldrei sagt, að áætlunin yrði til fyrr en nú um síðustu áramót, þannig að drátturinn er ekki enn þá orðinn mikill frá því, sem sagt var í þeim efnum. Það kann að vera, að þegar lengra líður frá geti menn sakað um óhæfilegan drátt, og þá er að sjálfsögðu að taka því. Ég sagði það, að ég gæti engu lofað um ákveðna dagsetningu. Ég tel öruggt, að áætlunin verði til á þessu ári, og ég vil leggja áherzlu á það, að það verði fyrr en seinna. Það eru mín orð um það efni.

Mér þykir það ekki nema gott, að um þetta hafa orðið umræður hér. Það er mikilvægt, að menn skoði þetta frá raunsæju sjónarmiði og geri sér grein fyrir, hvað hér er verið að tala um og fást við. Því aðeins, að menn geri það, er hægt að búast við árangri, Ég skil ákaflega vel alla hv. þm. Ég þekki það sjálfur sem þm. kjördæmis, sem á við atvinnuörðugleika að stríða, að það er brennandi vandamál að leysa þessi viðfangsefni. En við megum ómögulega, og það er að blekkja fólkið, gefa því í skyn, að vandinn stafi af allt öðrum ástæðum en hann stafar. Við þurfum að reyna að kryfja vandamálin til mergjar með þessu fólki, reyna að hjálpa þeim, sem framtak hafa á þessum stöðum, til að byggja upp arðbær atvinnufyrirtæki, sem geta orðið raunveruleg undirstaða þess, að atvinnulíf geti blómgazt úti um landið og fólk geti þar unað.

En það er alveg ljóst, að þótt það sé auðvitað höfuðatriði, að fólk hafi fulla atvinnu, fylgja jafnframt önnur vandamál, og í sambandi við atvinnuvandamálin er samgönguvandamálið kannske það mikilvægasta, sem er því nátengt. Það er ljóst, að það verður ekki hægt að byggja upp landsbyggðina nema með því að byggja upp byggðakjarna, það er alveg ljóst, þéttbýliskjarna, sem strjálbýlið styðst við. Þetta hefur orðið ljóst hér við Reykjavík, það er ljóst á Akureyrarsvæðinu, og ég hygg, að flestum sé að verða það ljóst, að svona verður að vinna að þessum málum. Og til þess að það sé hægt, þurfa einmitt samgöngur að koma til, greiðar og öruggar samgöngur milli þessara byggðakjarna og nærliggjandi strjálbýlli svæða. Og þess vegna er þetta hvað öðru tengt. Og við vitum jafnframt, að miðað við lífskröfur fólksins í dag, jafnvel þótt full atvinna sé og ekki hvað sízt þegar full atvinna er, þá krefst fólkið þess að hafa félagslega aðstöðu, hafa menntunaraðstöðu heima fyrir í sínum byggðarlögum, annars flytur það burt. Og jafnvel enn fremur flytur það burtu, ef efnahagsafkoman er góð.