14.02.1968
Sameinað þing: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í D-deild Alþingistíðinda. (3152)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hélt nú satt að segja, að hv. þm. mundu láta þingfréttamann Tímans um það einan að rangfæra orð mín hér. En það virðist ekki ætla að vera svo, þannig að ég neyðist til þess að segja hér nokkur orð.

Hv. síðasti ræðumaður lét nefnilega þau orð falla, sem gera það að verkum, að ég sé alveg nauðsynlegt að ítreka það, sem ég hafði sagt í þessu efni um það, hvað ég teldi eiga að felast í Norðurlandsáætlun. Hann rangfærði einnig sjálfur ummæli mín í minni frumræðu, eins og m.a. það, að ég hefði ekki talið þörf á nýjum atvinnutækjum á Norðurlandi. Þetta er mesti misskilningur. Ég var ekkert að segja um það. Ég sagði frá því hér síðast, og ég hygg, að ég þekki álíka mikið til atvinnumála á Norðurlandi og hann, að þetta væri vandamál víða norðanlands. Það væri staðreynd, eins og hann raunar játaði líka, að ef fiskur væri fyrir Norðurlandi, væru til nægileg atvinnufyrirtæki, bæði til að afla fiskjar og til þess að nýta hann til þess að veita öllu fólki þar atvinnu. Ég er í engum vafa um, að þetta er rétt. Og ég benti jafnframt á það, að það, sem væri vandamálið í sambandi við uppbyggingu nýrra atvinnufyrirtækja á Norðurlandi, væri einmitt þetta, að ef það væru byggð upp ný atvinnufyrirtæki, sem tækju meginhluta fólksins til vinnu, og síðan breyttist það, sem við skulum vona, að verði fyrr en seinna, að fiskur legðist að Norðurlandi, þá væri þarna við mikið vandamál að stríða. Þá væri annaðhvort ekki til vinnuafl til að nýta fiskinn og hagnýta fiskvinnslustöðvarnar eða þá að það þyrfti að taka fólkið frá þessum nýju atvinnufyrirtækjum, ef þau væru nú miðuð við það að veita öllu fólki atvinnu. Ég var aðeins að lýsa þessu vandamáli, sem þarna væri við að glíma, og ég efast ekkert um, að allir hv. þm. gera sér fulla grein fyrir, en ekki að halda því fram sem minni skoðun, að af þessari ástæðu ætti ekkert að gera á Norðurlandi. Ég benti hins vegar á það, sem ég hygg, að allir norðlenzkir þm. viti, að það hefur verið áhyggjuefni manna, sem eru búnir að festa þar stórfé í atvinnuframkvæmdum, og sveitarfélögin eru reyndar meira og minna í ábyrgðum fyrir þeim framkvæmdum, að þessi fyrirtæki sjávarútvegsins verði þarna meira og minna verðlaus. Og þess vegna væri það, að á ýmsum stöðum hefðu menn heldur kosið að bíða en að fara að ráðast í stórfelldar nýjar framkvæmdir, við skulum segja í einhverjum iðnaði, sem tæki meginhluta vinnuaflsins og skapaði þannig erfiðleika fyrir þessi atvinnufyrirtæki, sem fyrir eru á staðnum, ef aðstaða þeirra breyttist. Þetta er tvímælalaus staðreynd, og ég sé enga ástæðu til þess að vera að rangfæra hana eða ummæli mín eða annarra manna í sambandi við það.

Það, að ríkisstj. hafi svo haldið að sér höndum og ekkert gert, er auðvitað gersamlega út í hött líka. Það hefur á síðustu árum verið varið miklu fé einmitt til þess að gera þessum byggðarlögum bærilegt að búa við þessa erfiðleika, sem við er að stríða, og til þess að reyna að auka útgerð frá þessum stöðum. Ég vék einnig að því í minni frumræðu, að það hefði verið varið miklu fé til þess að hjálpa til við að halda skipastóli fyrir norðan og til þess að skipin yrðu gerð þar út, borga aukauppbætur á veiddan fisk og annað þess konar og raunar einnig stuðla að því að flytja fisk frá öðrum miðum, sem þó hefur ekki verið gert, vegna þess að því miður hefur ekki veiðzt eða veiddist ekki á s.1. ári annars staðar, þannig að það væri grundvöllur til að flytja fisk á milli. Hitt er staðreynd, sem ég hygg, að þessi hv. þm. geti fengið staðfest hjá þeim mönnum hjá verkalýðshreyfingunni, sem hafa starfað í atvinnumálanefnd Norðurlands, að þessi aðstoð ríkisvaldsins hefur tvímælalaust komið Norðurlandi að mjög miklu gagni.

Nóg um þetta. E.t.v. er nauðsynlegt að taka það fram varðandi áætlunargerðina sjálfa, að það er alger misskilningur, að ég hafi sagt það, að það ætti ekki að ræða neitt um, hvað helzt ætti að koma til greina að gera á hverjum stað. Það hef ég aldrei sagt. Ég hef sagt, að áætlunin ætti ekki að vera um það, að ríkisvaldið ætti að hafa forgöngu um að byggja þetta og þetta á þessum eða hinum staðnum. Það sem væri fyrst og fremst grundvallaratriðið, svo að ég noti þetta orð, sem virðist hafa farið öfugt í ýmsa menn, væri að gera kortlagningu á vandamálinu. Það væri að gera sér grein fyrir því í hverju byggðarlagi, hvernig væri ástatt þar nú með atvinnutæki, hvaða horfur væru með fólksfjölda í þessum byggðarlögum, og þar af leiðandi gera sér grein fyrir, að hve miklu leyti núverandi atvinnutæki gætu tekið á móti vinnuframboðinu, og að sjálfsögðu í framhaldi af því, ef það vantaði atvinnufyrirtæki á þessum stöðum, að gera sér grein fyrir því, hvað sennilegast væri, að mætti gera á hverjum stað miðað við allar aðstæður, hvort það ætti að vera útgerð, hvort það ætti að vera iðnaður eða annað þess konar. En ég hef ekki reiknað með því, að það væri auðið í slíkri áætlun að segja nákvæmlega, að eitt tiltekið fyrirtæki skuli þarna reist og gerð áætlun um það, hvernig það skuli uppbyggt. Það er þetta, sem þarna ber á milli, og það kann vel að vera í einstaka tilfellum, ef það sýnir sig, að það er ekki framtak heima fyrir til þess að koma upp atvinnufyrirtækjum, að þá þurfi ríkið að einhverju leyti að grípa þar inn í. Það kann vel að vera. En ég álít, að það sé neyðarúrræði og það sé farsælasta uppbyggingin á hverjum stað, að það séu einstaklingar, félagasamtök eða þá viðkomandi sveitarfélög eftir atvikum, sem standa að uppbyggingu fyrirtækja, og þá auðvitað á að miða við það, að það sé veitt fjárhagsaðstoð til þess að koma upp þessum fyrirtækjum. Ég veit ekki, hvert mér hefur tekizt að tala nógu skýrt. Það getur vel verið, að það komi nýjar upplýsingar um það, að ég hafi komið með einhverjar dæmalausar opinberanir og talað af mér í þessu máli. En það verður þá að hafa það. Þetta er mín meining, og ég álít, að áætlunargerð geti ekki orðið með öðrum hætti. Annað er um ákveðnar áætlanir um ríkisframkvæmdir, einmitt þær framkvæmdir, sem ríkið á að vinna að, eins og vegamál og skólamál, hafnargerðir og annað þess konar, sem að verulegu leyti er á vegum ríkisins og þarf þar af leiðandi að gera nokkurra ára áætlun um, hvernig eigi að vinna að, sbr. það, sem gert var á Vestfjörðum með samgönguáætlun Vestfjarða. En að öðru leyti endurtek ég það, að áætlunargerð á fyrst og fremst að vera kortlagning á vandamálunum á hverjum stað. Hún á að gefa upplýsingar um það og vera til leiðbeiningar fyrir fólkið á þessum stöðum um það, hvað talið sé af sérfróðum mönnum, að líklegt sé til eflingar atvinnulífi á stöðunum og til þess að örva menn til að vinna að þeim framkvæmdum. Ég álít, að Atvinnujöfnunarsjóður og þeir ráðunautar, sem eru á hans vegum, eigi að hjálpa til með leiðbeiningum og sjóðurinn eigi að stuðla að tæknilegri aðstoð við þá aðila á þessum stöðum, sem vilja koma upp fyrirtækjum, sem áætlunin gerir ráð fyrir, að sé skynsamleg á þessum stöðum. Hún eigi fyrst og fremst, svo að ég noti orð annars hv. ræðumanns hér í dag, að vera bakhjarl sveitarfélaga, félagasamtaka og einstaklinga. Það er nákvæmlega rétt orðað. Hún á að vera það. En hún á ekki að vera áætlun um það, að ríkisvaldið eigi að hlutast til um þetta eða hitt, heldur til þess að örva menn til framtaks, og ríkisvaldið styðji síðan við bakið á þessum aðilum heima fyrir, sem hafa vilja til þess að vinna að þeim framkvæmdum, sem í áætluninni er talið sennilegast að starfrækja megi á hverjum stað á arðbæran hátt. Ég legg áherzlu á það að lokum, að ég álit, að það sé ekki hvað sízt mikils virði fyrir byggðarlögin, að það sé einmitt lögð áherzla á að setja upp þau atvinnufyrirtæki á hverjum stað, sem ekki verða atvinnubótatæki, heldur að hægt sé að reka þau á arðbæran hátt, bæði fyrir viðkomandi stað og þjóðarbúið í heild.