18.12.1967
Efri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af brtt., sem hv. 2. þm. Austf. flutti hér. Þessi undanþága eða sérhlunnindi, sem veitt eru sjómönnum, sem hafa unnið 6 mán. eða lengur á fiskiskipum og nú er einnig lagt til að nái til farmanna almennt, er beinlínis við það bundin, að þetta gildi um þá, sem hafa þetta að föstu starfi, en ekki fyrir íhlaupamenn. Og af þessum sökum tel ég mjög varhugavert að gera breytingu á þessu ákvæði. Varðandi farmennina var m.a.s. í þeirra óskum um þessa breytingu gert ráð fyrir því, að sett yrði að skilyrði, að þeir hefðu unnið 9 mán. Það þótti hins vegar óeðlilegt að vera að gera mun á þessum tveim hópum manna, fiskimönnum og farmönnum, og óeðlilegt að vera að hafa tvær reglur til þess að gera málið ekki flóknara en þörf krefðist, en ég vil sem sagt aðeins láta það koma fram, að ég tel, að grundvallarsjónarmiðið bak við þessa heimild, eins og hún nú er í l., mótist af því, að ætlunin sé að stuðla að því, að menn leggi þetta starf fyrir sig sem fasta atvinnu og að verulegu leyti stundi það allan ársins hring og því teldi ég það mjög varhugavert, ef farið yrði inn á þá breytingu, sem hér er gert ráð fyrir, að þetta geti einnig náð til þeirra, sem sinna allt öðrum störfum meginhluta ársins.