12.02.1968
Efri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

121. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. fjhn. fyrir góða afgreiðslu þessa máls, og þá ekki síður til þess að þakka hv. talsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna, hvernig þeir hafa tekið á málinu. Ég er í engum efa um það, eins og þeir hafa báðir lýst, að þeir hefðu gjarnan viljað gera hér ýmsar aths. og koma við ýmsum breytingum, eins og við var að búast, þar sem frv. er ekki undirbúið af þeim. Og ég sé því sérstaka ástæðu til þess að þakka þeim fyrir, að þeir hafa látið það hjá líða, þar sem það mundi hafa dregið afgreiðslu þessa máls og torveldað, að það gæti gengið með þeim hraða, sem nauðsynlegur er, því að það skal fúslega játað, að það er búið að taka of langan tíma, þetta mál, af þeim ástæðum, sem ég gerði grein fyrir í minni frumræðu um það, vegna þeirra aðstæðubreytinga, sem orðið hafa og hafa leitt til þess, að það hefur orðið að endurskoða frv. í grundvallaratriðum.

Ég hefði vitanlega haft gaman af því að gera aths. við eitt og annað af því, sem fram hefur komið hér, og skýra ýmis atriði betur, sem aths. hafa verið gerðar við varðandi tollamálið sjálft. Ég sé enga ástæðu til þess að fara að ræða sérstaklega um efnahagsástandið eða þær aðstæður, sem hafa skapazt nú eftir áramótin í sambandi við sjávarútveginn, og hvaða orsakir hafa til þess leitt. Þau mál munu koma hér inn í þingið nú alveg á næstunni og verður þá vafalaust það tækifæri notað til þess að ræða efnahagsmálastefnuna og þá þróun, sem hefur orðið í þeim efnum nú að undanförnu og hefur leitt til þess, að óumflýjanlegt verður að leita nú samþykkis Alþ. til þess að veita sjávarútveginum viðbótaraðstoð.

Það er vitanlega rétt, sem var sagt hér af hálfu hv. 3. þm. Norðurl. v., að það er erfitt að ræða þetta mál í öllum atriðum nema hafa mynd þess fyrir sér, bæði í sundurliðaðri aðstoð við sjávarútveginn og einnig þær lækkanir á útgjöldum ríkissjóðs, sem fyrirhugaðar eru til að mæta að verulegu leyti tollabreytingunni. Og ég vil jafnframt taka það fram, að vitanlega hefur ríkisstj. lofað sjávarútveginum þeirri aðstoð, sem um hefur verið rætt, að því tilskildu, að samþykki Alþingis fáist til þess, þannig að sú skuldbinding, sem ríkisstj. hefur gert, er gerð með þeim fyrirvara. Og það mál hlýtur að koma hér til kasta þingsins. Ef Alþ. staðfestir ekki það samkomulag, sem gert hefur verið með þeim fyrirvara, er það að sjálfsögðu úr gildi fallið með þeim afleiðingum, sem það kann að hafa, þannig að enn sem komið er hefur engu fé verið ráðstafað formlega af Alþ. í þessu skyni, þó að ríkisstj. vonist að sjálfsögðu til þess, að þingið geti fallizt á þær röksemdir, sem liggja að baki þeirrar ákvörðunar, sem ríkisstj. hefur tekið og geti fallizt á þau rök, sem liggja til þeirrar niðurstöðu. Hér hefur verið rætt um niðurskurð á ríkisútgjöldum og menn hafa af eðlilegum ástæðum spurt að því, hvort ekki væri hægt að upplýsa, hvað ætti að gera í því efni og enda af sumra hálfu verið tekið fram, að það gæti haft veruleg áhrif á afstöðuna til tollabreytingarinnar, að menn jafnvel myndu vilja fórna henni heldur en skera niður þau útgjöld, sem hugsanlegt væri að skera niður til að mæta þessum tekjumissi, sem af tollabreytingunni leiðir.

Vitanlega hefur þetta sama sjónarmið verið til hliðsjónar hjá ríkisstj., þegar rædd hafa verið hugsanleg úrræði til niðurskurðar á útgjöldum, þannig að það er auðvitað rétt, að sum útgjöld ríkissjóðs eru með þeim hætti, að menn vildu gjarnan fremur halda þeim heldur en tollabreytingunni. Þetta er alveg rétt, og þessu hefur ríkisstj. gert sér grein fyrir, og eins og ég sagði í frumræðu minni, er sannleikurinn sá, að það er ekkert auðvelt að skera niður útgjöld ríkissjóðs. Ef það væri auðvelt, er þetta auðvitað hrein vanræksla hjá fjmrh. að vera ekki búinn að gera það eða að hafa látið hjá líða að lækka um þess ar 100 millj., þegar fjárlög voru til afgreiðslu hér fyrir jólin. Og einmitt þetta er orsökin til þess, að ég er ekki reiðubúinn í einstökum atriðum að gefa hér á þessu stigi málsins yfirlýsingu um það, hvernig þessum niðurskurði útgjalda verði háttað. Það kom ekki til fyrr en eftir áramótin, að það var talið óumflýjanlegt að fara inn á þessa braut og raunar ekki fyrr en séð var, hvernig aðstoðinni við sjávarútveginn yrði háttað, þannig áð það hefur ekki unnizt langur tími til þess að undirbúa þennan niðurskurð, og þó að þeim í fljótu bragði kunni að virðast ekki sérlega erfitt að skera niður 100 millj. af fjárlögum, þar sem bein ríkisútgjöld nema á 6. milljarð kr., er það engu að síður svo, að þetta er langt frá því að vera einfalt mál. Og það er þess vegna ekki mögulegt, og vona ég, að hv. þm., þó að þeim þyki leitt að geta ekki fengið slíka grg., skilji það, að mér er það ekki mögulegt í einstökum atriðum nú. Þótt ég að sjálfsögðu hafi gert mér grein fyrir því og ríkisstj., að þetta væri hægt, þá eru ýmis atriði þessa máls enn þá á því athugunarstigi og kunna að leiða til breytinga frá því, sem er í dag, þar til endanleg niðurstaða er fengin, þannig að það verði valdir e.t.v. aðrir liðir, vegna þess að það sýni sig, að óviðráðanlegt sé að gera það, sem við höfum hugsað okkur nú, og því tel ég mér því miður ekki gerlegt að gefa þessa grg.

Þetta vildi ég, að kæmi fram og hins vegar þá jafnframt skýra frá því, að þetta frv. varðandi niðurskurð ríkisútgjalda verður lagt fyrir Alþ. svo fljótt sem mögulega er hægt að koma því við, því að sjálfsögðu mun það þurfa að koma til kasta þingsins að fá heimild til þess að lækka þau útgjöld fjárlaga, sem til stendur að draga úr.

Að lokum vildi ég svo segja það út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, að þessi tollskrárbreyting er ekki tilviljanakennd og hún er ekki miðuð við það, að neinir einstakir aðilar hafi komið hér að neinum áróðri, það er langt í frá. Hún er miðuð við alveg ákveðin sjónarmið. Það kunna enn að vera ýmsir gallar á tollskránni. Það er mér eins ljóst og hverjum öðrum, að það þarf auðvitað, eins og hana sagði réttilega, að halda áfram endurskoðun hennar og það er það, sem til stendur á næstu árum, að gera víðtækar breytingar á tollakerfinu. En ég vil að það komi greinilega fram, að hér hafi ekki átt sér stað nein óeðlileg tillitssemi við einn eða annan einstakan aðila, heldur hefur heildarsjónarmiðið verið það, eins og reyndar allir hv. þm., sem um þetta mál hafa talað hér hafa staðfest, að það hefur verið leitazt við að ná árangri með þessari takmörkuðu fjárhæð í þá átt að orka sem mest til lækkunar á nauðsynjavörum almennings. Þess vegna hefur ekki verið farið út í hráefnalækkanir nema það, sem þar hefur þurft að gera í beinu sambandi við lækkun á fullunninni vöru. Það hefur ekki verið farið út í vélatolla, hvorki til landbúnaðar né iðnaðar né sjávarútvegs, vegna þess að það út af fyrir sig hefði ekki þjónað þeim tilgangi, sem við erum að stuðla að með þessu, þó að það geti verið full rök fyrir því að gera það miðað við aðrar aðstæður. Og það er út af fyrir sig eðlileg fsp., sem hér kom fram frá hv. 11. þm. Reykv., að það mætti hafa verið, að það hafi verið hægt að fella niður eða það hafa fallið niður um 90 millj. kr., án þess að það hefði veruleg áhrif á vísitölulækkunina, og hvort ekki hefði mátt nota þá fjárhæð til þess að lækka vísitölu meira.

Það er rétt, að í rauninni er breytingin frá upphaflega frv. sáralítil varðandi vísitöluáhrif eða úr 1.65 niður í 1.59, sem lítur fljótt á litið einkennilega út. Það skil ég mætavel. En ástæðan til þess, að breytingin er ekki meiri en þetta, er sú, að eftir að sýnt var, að ekki var hægt að hafa upphæðina svona háa og taka alla þá vöruflokka, sem við hefðum viljað, var farið inn á þá braut að lækka meira ýmsar vörutegundir, sérstaklega matvöruna, heldur en gert hafði verið ráð fyrir, þegar við reiknuðum með 250 millj. kr. ráðstöfunarfé, en til þess liggja aðrar orsakir, að það var ætlunin í þeirri tollabreytingu að lækka ýmsar vörur, sem ekki hafa mikil áhrif á vísitölu. Það eru m.a. pappírsvörur, umbúðir og annað þess konar. Það voru gólfteppi, það voru húsgögn, sem að vissu leyti var þó talið varasamt vegna innlendrar framleiðslu að lækka, sérstaklega húsgögnin. Þetta hefur ekki mikil vísitöluáhrif, en hefði engu að síður verið æskilegt að lækka. Og það var jafnframt ætlunin að lækka almennt heimilistæki. Það er rétt, sem hv. þm. vék að, að það væri æskilegt að gera það. Það hefur því miður ekki nein veruleg vísitöluáhrif. Þá má jafnframt á það benda, af því að hér hefur verið rætt um hagsmuni íslenzks iðnaðar, að það var miklum vanda bundið, vegna þess að viss rafmagnsiðnaður hér í landinu var mjög andsnúinn því, að tollalækkanir væru á innfluttum vörum í þessari grein. Og eins og getið er um í frv., hefðum við gjarnan viljað lækka fatnað meira. Það hefði vissulega verið mjög æskilegt að lækka tilbúinn fatnað meira og raunar jafnvel taka afleiðingunum af því og lækka fataefni meira, en þá kom bara innlendur fatavefnaður og þar fyrir neðan innlend gæruframleiðsla, þannig að það kom á daginn, að það var bara ekki hægt að lækka þetta meira, ef átti að ná saman sæmilegu samkomulagi við iðnaðinn, sem ég tel grundvallaratriði að náist á þessu stigi, svo að ekki þurfi að verða um þetta mál miklar deilur nú.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, herra forseti, en endurtek þakkir mínar til hv. þm. fyrir það, að þeir skuli hafa reynt að greiða götu málsins eins og raun ber vitni.