23.11.1967
Neðri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að blanda mér í þessar deilur, sem hér hafa farið fram, enda hætti ég mér ekki út á svo hálan ís, því að þeir eru svo vígdjarfir og vel vígir, báðir þessir ræðumenn, að ég ætla nú ekki að fara að deila við þá. En á sínum tíma var ég á móti þessari gr. í framleiðsluráðsl., m.a. af því, að ég taldi hana óframkvæmanlega, og ég gat um það þá við hæstv. landbrh., að það lægju engar rannsóknir fyrir um það, hversu margar vinnustundir þyrfti til þess að framfleyta hverri búgrein eða t.d. hverri kú og hverri kind o.s.frv. Það lægi ekkert fyrir um það og þess vegna væru l. ekki framkvæmanleg. Í öðru lagi taldi ég á þeim tíma l. ekki sanngjörn, því að ákvæðisvinna iðnaðarmanna var tekin úr viðmiðunarkaupinu, og þá unnu þeir aðallega í ákvæðisvinnu og höfðu mikið meira upp úr en sem tímakaupsmenn, og þá höfðu sjómenn mikið meira tímakaup. Á þessu hefur orðið nokkur breyting núna, það skal ég játa. En á þeim tíma var þetta ekki sanngjarnt gagnvart bændunum.

Nú ætla ég ekki að halda því fram, að kjör bænda séu neitt verri en annarra manna í dag. Ég held, að því sé alls ekki til að dreifa, og ég held því ekki fram, að neinir vilji sérstaklega niðast á bændum. Hitt er svo annað mál með þá, sem kaupa landbúnaðarvörurnar, að þeir vilja náttúrlega fá þær fyrir sem minnst og hafa á þann hátt sem mest upp úr vinnu sinni. Aftur er með bændurna, þeir vilja fá sem mest fyrir þetta. Þetta er þannig eilíf togstreita hjá öllum stéttum í þjóðfélaginu. En á sínum tíma var ég á móti l., m.a. af því, að ég áleit þau óframkvæmanleg. Það lágu ekki fyrir þau gögn, sem þurfti, til þess að geta framkvæmt þau. Og þannig er það enn þá. Það er ekki verið að tala um beint lögbrot, en l. eru bara alls ekki framkvæmd. Það þarf að koma með lagabreytingar, af því að það er ekki hægt að framkvæma þau. Því er lýst yfir, að gögnin séu ekki nógu góð, sem fyrir hendi eru. Um það skal ég ekki dæma. Ég er ekki nógu kunnugur því. Má vel vera, að þetta sé rétt. En staðreynd er bara, að l. eru ekki framkvæmanleg, eins og frá þeim er gengið, þau eru ekki framkvæmd. Og það vita allir, að á s.l. ári var þetta samkomulagsatriði með verðlagninguna, en ekki farið eftir l. Og m.a. mun landbrh. hafa átt þar mikinn hlut að máli að koma á sættum og fá það fram, að samkomulag varð um þetta verðlag. Ég ætla ekkert að dæma um það. Ég býst við, að það hafi ekki verið hægt að hafa það hærra heldur en það var, því að það þýðir ekkert fyrir bændur náttúrlega frekar en aðra menn — það er víst — það þýðir ekkert að ætla sér að fá óendanlega hátt fyrir vöruna. Kaupgeta launþeganna skapar það, hvað þeir hafa efni á að kaupa, og ef við hækkum vöruna óeðlilega mikið, minnkar salan í henni, þannig að það má eilíflega deila um það, hvort bændur græða á því, þó að það sé hækkað svo og svo mikið. Salan minnkar, það þarf að flytja meira út, og hversu lengi duga útflutningsuppbæturnar? Það er ekki nema viss hluti, sem hægt er að bæta upp með þeim. Og þannig var það á s.l. ári. Útflutningsuppbæturnar nægðu alls ekki til þess að bæta upp allar vörurnar. Þess vegna voru t.d. til kjötbirgðir frá fyrra ári í haust, þannig að það þarf náttúrlega að stilla kröfum um verð á landbúnaðarvörum í hóf alveg eins og öðru, eins og t.d. vinnu launþegans og öðru slíku. En það sem ég vildi minnast á hér, er það, því í ósköpunum eru mennirnir að burðast með fleiri tugi búreikninga, 46 búreikninga, sem þeir ætla að byggja allt á, og þykja þeir of fáir. Því í ósköpunum setja þeir ekki upp tilraunabú og fá þetta frá einu búi og fá þetta alveg nákvæmlega á borðið? Það væri allt í lagi, að hæstv. menntmrh. fengi eða útvegaði bústjórann, því að þetta var nú gert fyrir krata að breyta þessu svona, til þess að gera þá pínulítið ánægða, taka tillit til þeirra. Við vissum það ósköp vel, að það var Sæmundur nokkur, sem kom þessu fram, og sjálfstæðismenn vissu, að það var ekkert vit í þessu. Þeir gerðu þetta fyrir kratana eins og fleiri vitleysur, sem þeir hafa gert fyrir þá. En það er nú annað atriði.

En því í ósköpunum setjið þið bara ekki upp eitt tilraunabú, látið Gylfa útvega bústjórann. Það er bezt að hafa þetta svona meðaljörð, mann á meðalaldri, t.d. 45 ára. Við skulum segja, að bændur búi svona frá 25 ára og upp í sjötugt og þá er eðlilegt, að maðurinn væri svona 45 ára. Þetta gæti verið hnubbaralegur krati og þið létuð hann búa og gera tilraunir með þetta, hve margar vinnustundir færu í að reka þetta, skaffið honum vélar og sæmileg hús og allt slíkt. Svo hefðu aftur bændasamtökin mann til að líta eftir, skrifa niður vinnustundirnar á hverjum degi. T.d. gætu Alþb.-menn haft annan og kratinn rekið búið og þá fengist þetta alveg á borðið. Þarna væri hægt að nota ýtrustu hagsýni og sjálfsagt að láta kratann hafa eins og hann þyrfti af vélum og öðru slíku og þarna fengist þetta bara með einu búi alveg á borðið. En mér finnst, að Stéttarsambandið gæti nú borgað bæði Alþb.- manninum og eins fulltrúa sínum eða bændanna, því að það hefur það ríflegar tekjur af afurðum okkar bænda, að það munar ekkert um að borga tveimur mönnum. Þeir mættu náttúrlega ekki tefja og ekki vera að neinu masi annað en bara taka tímann kvöld og morgna, ekki tefja kratann neitt við vinnu sína eða slíkt, og þá hefði hæstv. landbrh. þetta alveg á borðinu. Það væri hægt að hafa þetta svona í meðalhéraði, t.d. Húnavatnssýslu, og þá hefði hann þetta algerlega á borðinu og þyrfti ekki að vera að þræta um búreikninga eða neina vitleysu svoleiðis. Ef kratinn gæti svo búið betur og kennt okkur að búa, væri það líka allt í fínu lagi þá segði hann okkur, hvernig við ættum að fara að því og þarna gætu allir verið ánægðir. Kratarnir ánægðir með sinn bústjóra, Alþb.-mennirnir með sinn eftirlitsmann og bændurnir með sinn fulltrúa. Þá kæmi þetta alveg á borðið. En hitt er eins og hver önnur endileysa að vera að þvæla út svona 100 bændum í að halda þessa reikninga, og náttúrlega eru þeir hliðhollir bændum og ljúga eins og þeir hafa vit á, og það er bara vitleysa. Við eigum að hafa tilraunabú með þetta, eitt tilraunabú með ströngu eftirliti og ég get vel gengið inn á það, að Gylfi útvegaði bústjórann, og svo gæti Gylfi komið líka — eða hæstv. menntmrh. skulum við segja, og litið eftir svona einu sinni í mánuði, að þetta væri allt í lagi. Þetta þykir mér vera hagsýni, og upp á þessu vildi ég stinga, gera þetta að till. minni. En ég tek það fram, að ég var upphaflega á móti þessari breytingu, því að það lágu engin rök fyrir því, hversu mikla vinnu þyrfti til þess að reka hverja búeiningu.

Hitt vil ég svo taka fram, að ég tel, að ekkert hafi verið níðzt á bændum s.l. ár. Þetta samkomulag, sem varð um afurðirnar, það er ekkert ósanngjarnt og ég álít, að við höfum enga sérstaka ástæðu til þess að kvarta. Hversu verður núna, skal ég ekkert fullyrða.