17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

87. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. til l. um breytingar á l. um námslán og námsstyrki er þess efnis að auka þann hóp námsmanna, sem njóta fyrirgreiðslu hjá Lánasjóði íslenzkra námsmanna. Er bætt við þann hóp nemendum í kennaradeild stúdenta, framhaldsdeild og menntadeild Kennaraskóla Íslands og fyrsta hluta Tækniskóla Íslands. Stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hafði áður um þetta frv. fjallað, og var samþ. efni þess.

Menntmn. hefur athugað frv. og er sammála um efni þess, svo langt sem það nær.

N. barst erindi frá Bændaskólanum á Hvanneyri varðandi framhaldsdeild þess skóla. Erindið var sent til umsagnar stjórnar Lánasjóðsins, sem átti að halda fund síðdegis í dag. En því miður var svo illa mætt á þeim fundi vegna anna, að hann gat ekki farið fram á eðlilegan hátt. En þeir stjórnarmenn, sem þar voru viðstaddir, sáu ekki ástæðu til að amast við þessu erindi frá Hvanneyri, þó þannig, að það næði aðeins til 3. árs framhaldsdeildarinnar. Nemendur, sem fara í framhaldsdeild Bændaskólans, eru ýmist stúdentar eða þeir hafa landspróf og hafa síðan lokið búnaðarskóla, sem tekur flesta tvo vetur, og nokkru aukanámi þar til viðbótar. Þetta er ekki sambærilegt við þá aðila, sem nú fá þessi réttindi, en ef 1. og 2. ár framhaldsdeildarinnar eru reiknuð með, hygg ég, að verði varla um það deilt. Með því að þessar upplýsingar hafa borizt síðdegis í dag og eftir að menntmn. hafði afgreitt málið, höfum við ekki gert till. um þetta efni og gerum ekki við 2. umr., höfðum gert okkur vonir um, að unnt yrði að taka afstöðu til þess við 3. umr.

Í menntmn. kom fram till., sem hefur verið flutt á þskj. 184 af þremur þm. stjórnarandstöðunnar. Þar er tekið upp annað mál en felst í frv., en þó viðkomandi Lánasjóði íslenzkra námsmanna. Það er um vandamál, sem skapazt hafa fyrir námsmenn erlendis vegna gengislækkunarinnar. Stuðningsmenn ríkisstj. í n. sáu sér ekki fært að taka afstöðu með þessari till., þar sem ríkisstj. hefur tilkynnt sérstakar ráðstafanir og mikla hækkun á fjárveitingum og fjárútvegun til sjóðsins í tilefni af gengislækkuninni.

N. mælir sem sagt með frv., eins og það liggur fyrir, og áskilur sér rétt, ef tækifæri gefst á síðara stigi, til að taka afstöðu til erindis Bændaskólans, en einstakir nm. áskilja sér einnig rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.