10.12.1968
Neðri deild: 26. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af aths. hv. 1. þm. Norðurl. e. varðandi tollhafnirnar. Ég vék einmitt sérstaklega að þessu atriði í ræðu minni áðan, vegna þess að ég gerði mér grein fyrir, að það mundu væntanlega koma einhverjar slíkar aths., og það er út af fyrir sig rétt, að þarna er takmörkun á tollafgreiðslu á einstökum stöðum á landinu, og eins og ég vék að áðan, er hér aðeins að gera það upp við sig, hvað menn vilja ganga langt í þessu efni og hvort menn vilja leggja í aukinn kostnað eða ekki. Þetta er vitanlega það atriði, sem alltaf kemur upp, að það er erfitt um vik að gera ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði, vegna þess að menn heimta fullkomna þjónustu hvar sem er á landinu, jafnvel þó að sé um að ræða ákaflega lítinn grundvöll til þess að halda þar uppi slíkri starfsemi sem þessari, t.d. á stöðum, þar sem koma kannske vörusendingar einu sinni eða tvisvar á ári, að hafa þar skipulagða tollgæzlu, er auðvitað ákaflega dýrt og erfitt. Þetta kemur allt til álita, og ég vil á engan hátt vera að gagnrýna þá skoðun, sem kom fram hjá hv. þm. Hún er efnislega rétt, að þetta getur leitt til erfiðleika á vissum verzlunarstöðum. Ég tel hins vegar með öllu útilokað að fara að taka hvern einasta verzlunarstað á landinu inn í þetta og gera að tollhöfn. Það mundi leiða af sér svo mikinn kostnað við þetta, að það er ófært. Ástæðan til þess, að ekki eru taldir upp staðir, sem hv. þm. segir, að séu sambærilegir þeim, sem upp eru taldir, er sú, að það hefur verið lögð til grundvallar við ákvörðun tollhafnanna reynslan af innflutningi á þessa staði, og þegar valið var, hvaða hafnir yrðu tollhafnir, hafa þeir staðir verið valdir, þar sem mestur innflutningur var samkv. fenginni reynslu, og þeir staðir, sem ekki eru taldir upp sem tollhafnir, eru staðir, þar sem innflutningur hefur verið svo sáralítill, að ekki hefur verið talið mögulegt að halda þar uppi tollgæzlu að staðaldri. Þetta er ástæðan til þess, að ekki er að finna verzlunarstaði, þar sem mönnum annars í fljótu bragði mundi sýnast, að væri hliðstætt ástatt eins og er í þeim höfnum í frv., sem er gert ráð fyrir, að verði tollhafnir. Þetta kemur að sjálfsögðu til athugunar, þegar hv. n. fær þetta til meðferðar, og má þá vitanlega skoða það og eðlilegt, að það sé skoðað, hvort það sé ástæða til þess að bæta við einhverjum fleiri höfnum, en ég legg aðeins áherzlu á það, að þetta gerist að sjálfsögðu á þann hátt, að það leiðir til aukins kostnaðar, a.m.k. ef menn vilja hverfa frá því ákvæði, sem er í 7. gr., að gert sé ráð fyrir, þegar svona sérstaklega stendur á. að þeir, sem hlut eiga að máli, greiði kostnaðinn við þessa aukafyrirhöfn, sem hér er um að ræða.