10.04.1969
Efri deild: 71. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

203. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. 2. maí s.l. voru samþ. lög um heimild fyrir ríkisstj. til þess að kaupa upp hlutabréf í Áburðarverksmiðju ríkisins, sem eru í einkaeign, á allt að fimmföldu verði. Ríkisstj. hefur ákveðið að nota þessa heimild, og í tilefni af því var hluthöfum skrifað á s.l. sumri og spurzt fyrir um það, hvort þeir vildu selja með þessum kjörum, á fimmföldu verði og að hlutabréfin yrðu greidd með jöfnun afborgunum á fimm árum. Flestir hluthafarnir hafa svarað játandi, en örfáir hafa ekki svarað. Þeir sem ekki hafa svarað, eiga hlutafé að upphæð kr. 30 þúsund, þeir sem hafa neitað, eru með hlutaféð 5 þúsund, en þeir, sem hafa svarað játandi með fyrirvara, eru með hlutafjáreign 6 þúsund kr., en hlutabréfaeign einkaaðila í Áburðarverksmiðjunni er eins og flestir alþm. vita 4 millj. kr., en ríkið á aftur á móti 6 millj. kr., óg þannig hefur það verið frá byrjun, að ríkið hefur átt 3/5 hlutafjárins, en einkaaðilar 2/5. Það má því segja, að flestir, sem hlutabréf eiga í verksmiðjunni, séu samþykkir því að selja með þessum kjörum, á fimmföldu verði, og með þeim greiðsluskilmálum, sem ákveðnir hafa verið. Gert er ráð fyrir með því frv., sem hér er flutt, að sá hluti, sem ekki fæst með samkomulagi, verði tekinn með eignarnámi.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt og rétt þykir að breyta hlutafélaginu Áburðarverksmiðjan h.f. í Áburðarverksmiðju ríkisins, er sú, að nú stendur fyrir dyrum stækkun Áburðarverksmiðjunnar, sem kostar mjög mikið, og er gert ráð fyrir, að sá áfangi, sem stefnt er að að byrja á á þessu ári, kosti nokkuð á 3. hundrað millj. kr. Hlutaféð er hins vegar ekki nema 10 millj., og það er ekki reiknað með því, að hluthafar hafi áhuga á því að auka hlutafjáreign sína í verksmiðjunni og reyndar alveg víst, að einkaaðilar kæra sig ekki um það. Þeir hafa ekki fengið vexti af hlutafjáreigninni nema annað hvert ár að meðaltali síðan verksmiðjan tók til starfa og aldrei meira heldur en 6%, eins og lögin ákveða. Þetta út af fyrir sig er vitanlega ekki hvetjandi fyrir aðila að festa fjármagn í þannig fyrirtæki, og geta flestir farið í eigin barm með það, því að þegar menn leggja fram fé, hvort sem það er í hlutafélag eða annað, þá mun það nú oftast vera, að samfara því, að menn trúa því, að þeir séu að gera gagn með því að mynda gott fyrirtæki, að leggja fé í það, þá ræður hagnaðarvonin alltaf talsverðu. Þess vegna er það, þegar ráðast á í þessar miklu framkvæmdir við stækkun verksmiðjunnar, að það þykir rétt að leysa þetta hlutafélag upp og að Áburðarverksmiðjan verði eftirleiðis algerlega í eigu ríkisins, og því er það, að með þessu frv. er gert ráð fyrir. að ef það verður að lögum, þá verði Áburðarverksmiðja ríkisins ríkisstofnun, sem hefur það markmið að framleiða og selja áburðarefni og önnur þau efni, sem tengd eru áburðarvinnslunni.

Verksmiðjan lýtur sérstakri stjórn samkvæmt lögum þessum undir yfirstjórn landbrh. Rekstri verksmiðjunnar skal jafnan hagað þannig, að hún sé þess tæknilega og fjárhagslega umkomin að gefa áburðarnotendum kost á eins góðum og ódýrum áburðarefnum sem frekast er völ á.

Gerðar hafa verið ráðstafanir til þess, um leið og stækkun verksmiðjunnar er undirbúin, að tryggja það, að með stækkuninni verði gert mögulegt að framleiða þann áburð, sem íslenzkum landbúnaði bezt hentar. Þess vegna var það, að Stéttarsamband bænda, Búnaðarfélag Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins rannsökuðu í sameiningu, hvaða áburð hentugast væri að framleiða og kæmi sér bezt fyrir íslenzkan landbúnað. Verksmiðjustjórnin hefur fengið álit þessara aðila, sem var sameiginlegt, og er undirbúningi stækkunarinnar hagað þannig, að það megi fullnægja þessum óskum. Þá er gert ráð fyrir að Áburðarverksmiðja ríkisins taki við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum Áburðarverksmiðjunnar h.f. 1. maí 1969, og kemur þá að öllu leyti í hennar stað. Það má vera. að það þurfi að breyta þessum mánaðardegi í meðferð Alþ., það verður að ráðast, hversu hratt það getur gengið í gegnum þingið, eða hvort Alþ. fellst á að hafa þetta takmark. Hlutafélagið Áburðarverksmiðjan h.f. verður jafnframt leyst upp miðað við sama tíma, og hlutabréf. sem þá verða í annarra eign en ríkisins, verða tekin eignarnámi samkvæmt ákvæðum 13. og 14. gr. þessara laga. Ríkissjóður leggi Áburðarverksmiðju ríkisins til sem stofnfé hlutafé Áburðarverksmiðjunnar h.f., sem er 6 millj. kr. Ríkissjóður leggi Áburðarverksmiðjunni enn fremur til stofnfjárframlög, eins og ákveðið kann að verða í fjárlögum. Að því leyti sem stofnfé ríkissjóðs hrekkur ekki til greiðslu stofnkostnaðar, er verksmiðjunni heimilt að taka fé að láni innan lands og utan, enda samþykki ríkisstj. lántökuna samkvæmt sérstakri heimild í fjárlögum hverju sinni. Heimilt er Áburðarverksmiðju ríkisins að taka lán og ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum til þarfa fyrirtækisins annarra en stofnkostnaðar. Stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins verði skipuð 5 mönnum, sem kosnir skulu hlutfallskosningum í sameinuðu alþingi til 4 ára í senn. Landbrh. skipar einn þeirra formann verksmiðjunnar. Ráðh. setur stjórninni erindisbréf og ákveður henni laun. Til að skuldbinda Áburðarverksmiðjuna þarf undirskrift 3 stjórnarmanna. Stjórn Áburðarverksmiðjunnar ræður framkvæmdastjóra, sem veitir fyrirtækinu forstöðu og annast alla daglega stjórn og rekstur fyrirtækisins og hefur prókúruumboð fyrir það. Stjórnin ræður einnig verksmiðjustjóra með verkfræðilega menntun, er annist tæknilega stjórnun á framkvæmdum og sjálfum verksmiðjurekstrinum. Stjórn Áburðarverksmiðjunnar setur framkvæmdastjóra og verksmiðjustjóra erindisbréf, sem kveði frekar á um starfsskyldur þeirra. Endurskoðendur Áburðarverksmiðjunnar skulu vera 2. skipaðir af landbrh. Stjórn Áburðarverksmiðjunnar ákveður að höfðu samráði við landbrh. heildsöluverð á framleiddum áburði. Skal verðið við það miðað, að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni, sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins, og skulu eignir þá metnar til endurkaupsverðs, að frádregnum hæfilegum afskriftum. Aldrei skal áburðarverð vera hærra en á sambærilegum innfluttum áburði, nema það sé nauðsynlegt, til þess að verksmiðjan geti staðið við skuldbindingar sínar. Áburðarverksmiðjan verði undanþegin öllum sköttum og opinberum gjöldum nema fasteignasköttum og tekjuútsvari samkvæmt 2. og 4. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga. Reikningsár Áburðarverksmiðjunnar er almanaksárið og skal stjórn hennar gera reikningsskil fyrir hvert starfsár svo fljótt. sem auðið er, og svo snemma, að endurskoðun geti farið fram fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Reikningarnir skulu sendir landbrh. þegar að lokinni endurskoðun, undirritaðir af stjórn og framkvæmdastjóra og áritaðir af endurskoðendum. Nánari ákvæði um rekstur og tilhögun Áburðarverksmiðjunnar setur landbrh. með reglugerð að fengnum tillögum verksmiðjustjórnar. Ríkisstj. skal vera heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að kaupa hlutabréf, sem eru í einkaeign, í Áburðarverksmiðjunni h. f. á allt að fimmföldu verði hlutabréfanna. Heimilt er ríkisstj. að taka lán í þessu skyni. Ríkisstj. tekur eignarnámi þau hlutabréf í Áburðarverksmiðjunni h.f., sem verða í einkaeign að kvöldi hins 30. apríl 1969. Kemur eignarnámið til framkvæmda hinn 1. maí 1969. og við það ber að gera þá athugasemd, sem ég minntist hér á áðan.

Nú hafa þær raddir heyrzt, að það geti verið, að þessi bréf, sem verði tekin eignarnámi, verði metin miklu hærra verði heldur en þau bréf, sem eru seld af fúsum og frjálsum vilja, en heldur finnst mér það nú ólíklegt. bæði vegna þess, að flest og meiri hlutinn af hlutabréfunum hefur verið boðinn fyrir þetta verð, og annars vegar hlýtur að verða á það litið, þegar á að fara að meta bréfin til verðs, að þau geta aldrei gefið meira en 6% arð og hafa ekki á undanförnum 15 árum gefið neinn arð nema annað hvert ár. Þetta held ég, að hljóti að verða til hliðsjónar, þegar að því kemur að meta þessi bréf til verðs, og hins vegar það, að þeir, sem hafa átt þarna stórar fjárhæðir, hafa af fúsum og frjálsum vilja selt bréfin á fimmföldu verði, og getur ekki verið, að þeir hafi gert það af öðrum ástæðum en þeirri, að þeir hafa ekki talið borga sig að eiga bréfin eftir að þetta tilboð var gefið.

Hinn fyrsta maí 1969 falla hlutabréf Áburðarverksmiðjunnar h.f. úr gildi sem hlutabréf. Eigendur bréfanna geta þá þegar í stað framvísað bréfum og krafizt bóta úr ríkissjóði samkvæmt mati. Skal verð bréfanna metið af 3 manna nefnd, er Hæstiréttur tilnefnir. Skipar Hæstiréttur einn þeirra formann, er skal vera lögfræðingur. Nefndin skal miða mat sitt við sannvirði hlutabréfanna við gildistöku laganna og veita eigendum bréfanna kost á að gæta hagsmuna sinna við matið. Mat nefndarinnar er endanlegt. Úrskurður matsnefndar er fullnaðarúrskurður um bætur til handa hluthöfum vegna eignarnáms hlutabréfanna, og er hluthöfunum skylt að afhenda bréf sín gegn greiðslu matsnefndar, auk 9% ársvaxta af matsverðinu frá 1. maí 1969 til greiðsludags.

Þá eru ákvæði um það að matsnefnd hafi heimild til þess að stefna eigendum hlutabréfa fyrir sig með opinberri innköllun í lögbirtingarblaði, ef þurfa þykir. Áburðarverksmiðja ríkisins tekur við öllum réttindum og skyldum gagnvart starfsfólki og framkvæmdastjóra Áburðarverksmiðjunnar h.f., er hlutafélagið hættir störfum. Allar bækur og skjöl Áburðarverksmiðjunnar h.f. skulu renna til Áburðarverksmiðjunnar. Umboð stjórnar Áburðarverksmiðjunnar h.f. fellur niður um leið og hlutafélagið hættir störfum.

Þetta eru aðalatriðin í þessu frv., og skýra þau sig að mestu leyti sjálf. Ég geri ráð fyrir því, að flestir hv. þdm. séu þeirrar skoðunar, að eins og Áburðarverksmiðjan h.f., hlutafélagið, hefur verið og yrði eftir stækkun Áburðarverksmiðjunnar án þess að hlutaféð væri aukið, þá væri það ekki annað heldur en gervihlutafélag. Frá upphafi hefur hlutafé þessa mikla fyrirtækis verið allt of lítið miðað við stofnkostnað og það fjármagn, sem bundið hefur verið í fyrirtækinu, aðeins 10 millj. kr., en upphaflega kostaði Áburðarverksmiðjan um 130 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir, að næsti áfangi stækkunar, sem má segja, að sé ákveðinn, kosti á 3 hundrað millj. kr. og væri þá óhugsanlegt, að halda hluthafaforminu án þess að auka hlutaféð, en það er upplýst, eins og ég áðan minntist á, að a.m.k. þeir einkaaðilar, sem hlutaféð eiga, hafa ekki áhuga fyrir því að auka hlutafjáreign sína. Alla vega yrði Áburðarverksmiðjan h.f. í framkvæmd ríkisfyrirtæki, þótt það héti hlutafélag áfram. M.a. þess vegna þykir sjálfsagt og rétt að breyta lögunum og gera verksmiðjuna að hreinu ríkisfyrirtæki.

Herra forseti, ég legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.