16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði raunar getað fallið frá orðinu, en ætla samt að segja fáar setningar. Ég kvaddi mér hljóðs í tilefni af ræðu hæstv. fjmrh. áðan og hvernig hann tók í brtt., sem tveir þm. Austf. flytja. En nú hefur hv. 4. þm. Austf. tekið fram allt það, sem þarf að segja frá mínum bæjardyrum séð um þetta sjónarmið, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum af ræðu ráðh., því að hann taldi ekki tímabært að samþykkja þessa lánsheimild. En það er einmitt tímabært að samþykkja slíka heimild til þess að hæstv. ríkisstj. fái þingviljann um það, hvort leita skuli eftir fjármunum í Austfjarðaáætlun. Ég vil taka undir það og strika undir það, sem hv. 4. þm. Austf. sagði, að þegar um var að tefla Norðurlandsáætlun og Vestfjarðaáætlun, þá var sótt um lán sumpart erlendis af hálfu hæstv. ríkisstj., áður en búið var að gera nokkur drög, sem því nafni væri hægt að nefna, að þessum áætlunum. Það var aðeins búið af hendi hæstv. ríkisstj. að taka þá stefnu, að þessar áætlanir skyldu gerðar, lengra var málunum ekki komið, þegar lánsumsóknir voru sendar. Í raun réttri eiga fyrst að koma heimildir frá Alþ. og síðan á að senda lánsumsóknir. Ég vil ekki samþykkja það eða viðurkenna með þögninni, að það verði öðru vísi haldið á Austfjarðamálunum en hinum, og vil því telja, að það sé fullkomlega tímabært að fá lánsheimild, t.d. ef ætti að fara í sjóðinn, sem starfar á vegum Evrópuráðsins. Það er fullkomlega tímabært að senda slíka umsókn inn, eins og á sínum tíma umsókn um fjármagn í Norðurlandsáætlunina var send inn löngu áður en áætlunin fór að mótast.