09.12.1968
Neðri deild: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða hér almennt um landbúnaðarmál eða önnur efni, en ég vil aðeins í sambandi við þetta frv., við 1. umr. þess, láta í ljósi þá skoðun, að í þessu frv. felist óeðlilega víðtæk heimild til hæstv. landbrh. Það er óeðlilegt, að ráðh. geti haft svo mikla fjármuni á sínu valdi með því móti, sem gert er ráð fyrir í frv. En í því segir, að þessum gengismun, sem gæti orðið allt að 150 millj. kr., skuli ráðstafað í þágu landbúnaðarins samkv. ákvörðun landbrn., en landbrn. er sama sem landbrh. M.ö.o., ráðh. hefur það á sínu valdi að ráðstafa allt að 150 millj. kr. með þeim einu takmörkunum, að hann telji sig geta rökstutt, að það sé í þágu landbúnaðarins.

Ég vona, að hv. alþm. fallist á, og hæstv. ráðh. líka, að þetta sé ekki eðlilegt, og þó að þetta hafi verið haft svona í fyrra, þá sé þetta ekki eðlilegt. Nauðsynlegt væri að setja í lögin sjálf ákveðnari fyrirmæli um, í hvað þetta gífurlega mikla fjármagn skuli ganga. Ég fer ekkert dult með, að ég tel, að í löggjöf eins og þessari ætti að vera ákvæði um, að af þessu fé skyldi taka það, sem þarf, til þess að bændur fái fullt grundvallarverð fyrir afurðir sínar, sem sé það, sem kynni að vanta á útflutningsuppbætur til þess að svo geti orðið. Þetta ætti að sjálfsögðu að sitja fyrir. Gengishagnaður á útfluttum landbúnaðarafurðum renni að sjálfsögðu til þess að tryggja, að bændur fái fullt grundvallarverð.

En eins og við vitum, voru miklir erfiðleikar á þessu varðandi framleiðsluárið 1967–1968, og ég veit ekki betur en það hafi orðið að grípa til þess að taka fyrirfram af væntanlegum útflutningsuppbótum næsta árs til þess að ná endunum saman, og þar að auki varð að leggja á verðjöfnunargjald innanlands til þess að lyfta verðinu á útflutningnum.

Þegar ég tala um, að það væri eðlilegt, að af þessum fjármunum kæmi það, sem þyrfti, til þess að fullt grundvallarverð fengist til bænda, þá á ég við útflutninginn frá framleiðsluárinu 1968–1969, því að framleiðsluárið er ekki, eins og menn vita, almanaksárið, heldur talið frá vori til vors. Ég á því við þær sláturfjárafurðir t.d., sem féllu til á þessu hausti.

Þá vil ég beina því til hæstv. ráðh., að hann léti þeirri n., sem fjallar um málið, í té upplýsingar um, hvernig hliðstæðum fjármunum var ráðstafað samkv. löggjöfinni, sem sett var í fyrra um gengismismun á birgðum landbúnaðarafurða. Hann getur máske ekki svarað því á stundinni, hvernig því var varið, en að hann léti þá n. það í té, þannig að þm. gætu fengið upplýsingar um það við 2. umr. málsins.