18.03.1969
Neðri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

120. mál, áfengislög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þegar frv. þetta var til umr. á síðasta fundi, talaði hv. 1. þm. Vestf. um það nokkurt mál. Í þeirri ræðu sinni gerði hann sérstaka árás á Ríkisútvarpið og einn af starfsmönnum þess, Árna Gunnarsson, fyrir útvarpsþátt, sem Árni stjórnar. Tilefni árásarinnar var, að Árni hafði í þessum þætti átt viðtöl við ýmislegt fólk um næturklúbba þá, sem mikið hefur verið rætt um hér í Reykjavík í seinni tíð, og kannað viðhorf manna til þeirra. Þótti hv. 1. þm. Vestf. þetta mjög óviðeigandi og fór ýmsum orðum í gagnrýnisátt bæði um útvarpsmanninn og um stofnunina, sem fyrir þessu stæði.

Hv. 1. þm. Vestf. kallaði þennan útvarpsþátt skoðanakönnun, og vil ég byrja á að leiðrétta þá hugmynd hans. Þátturinn var ekki skoðanakönnun, og forstöðumaður þáttarins hefur fullvissað mig um, að hann hafi hvorki að þessu sinni eða við önnur slík tækifæri notað orðið skoðanakönnun eða reynt að gefa í skyn, að hann væri að flytja það, sem kallað er skoðanakönnun.

Skoðanakönnun er hugtak, sem þýðir, að reynt er með úrtaki úr stærri heild að fá mynd, sem ætla má, að gefi hugmynd um skoðanir heildarinnar. Hins vegar er það óskylt mál þó að hljóðvarp, sjónvarp eða blöð eigi viðtöl við fleiri eða færri einstaklinga, sem aðeins flytja þá hver sína skoðun. Nú er það svo, að þessi fjölmiðlunartæki eiga jafnan mikið af viðtölum við hina háttsettu ráðamenn þjóðfélagsins í ýmsum greinum og spyrja þá álits. Þess vegna hafa bæði blöð og útvarp tekið upp á því að leita stundum viðtala við almenning, við fólk, sem valið er af tilviljun, og er erfitt að telja nokkuð óeðlilegt við það. Það er þetta, sem gerðist. Árni Gunnarsson leitaði til nokkurs hóps manna og spurði um skoðanir á næturklúbbum. Árni hefur ávallt verið mjög samvizkusamur um það, hvernig hann velur fólk, sem hann á viðtöl við á þennan hátt, hvort sem er í síma eða án síma, og hefur oft haft vitni að því, að hann gerði það á algerlega tilviljanakenndan hátt, en gerði enga tilraun til þess að ráða því fyrir fram sjálfur, hvaða fólk veldist. Það vill svo til að meðal þeirra, sem spurðir voru um næturklúbbana, voru t. d. tveir lögregluþjónar, þó að þess væri ekki getið í útvarpsviðtalinu. Ég vil því ítreka, að þessi þáttur var ekki skoðanakönnun. Hann bar og engin merki þess, að útvarpið eða stjórnandinn teldu þetta vera skoðanakönnun. Það var ekki flutt sem slíkt, heldur var aðeins um að ræða skoðanir nokkurra einstaklinga.

Í öðru lagi talaði hv. 1. þm. Vestf. nokkuð um hlutleysi Ríkisútvarpsins. Ég tel ástæðu til að leiðrétta þetta og minna hann á, að í lögum og reglugerðum Ríkisútvarpsins er ekki talað um hlutleysi, heldur um óhlutdrægni, sem oft og tíðum getur verið óskylt mál. Það er vitað, að Ríkisútvarpið hefur reynt að auka mjög flutning á ýmiss konar samræðuþáttum og viðtalsþáttum, sem gefa fólki tækifæri til að flytja skoðanir og taka upp frjálslyndari hætti í þeim efnum heldur en áður voru. Þegar litið er á slíka þætti með tilliti til lagaákvæða um óhlutdrægni, verður að líta á starfsemi útvarpsins sem heildar. Ef það hefur farið svo í þessum umrædda þætti, að allmiklu fleiri hlustendur, sem spurðir voru, reyndust fylgjandi því, að næturklúbbar yrðu hér áfram heldur en voru á móti, þá bið ég menn að íhuga um leið, að Ríkisútvarpið hefur árum saman og allt frá stofnun sinni lagt sig sérstaklega fram um að flytja efni um baráttuna gegn áfenginu og misnotkun þess.

Væri það mál athugað, hygg ég, að það mundi hallast verulega á og þau met mundu ekki breytast, þó að þessar skoðanir hafi komið fram í þættinum.

Árni Gunnarsson hefur flutt útvarpsþátt, sem hefur almennt fengið góða dóma, þótt vera ferskur og lifandi, og ég tel að þessi árás, sem á hann var gerð hér í þingsalnum, sé byggð á algerum misskilningi og vildi því ekki láta málið hjá líða án þess, að fram kæmu mótmæli gegn árásinni.