21.02.1969
Sameinað þing: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

Efnahagsmál

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Sá höfuðvandi, sem við er að etja í íslenzkum efnahagsmálum, er augljós. Það eru þær staðreyndir, að nú á tveggja ára tímabili hafa útflutningstekjur af framleiðslu landsmanna minnkað á milli 40–50%, og ef litið er til þess aukna kostnaðar, sem fylgir þessari verðmætaöflun nú, vegna þess hversu langan veg þarf að fara til að sækja aflann, þá er óhætt að segja, að tekjurnar af sjávarútvegi hafi raunverulega minnkað mun meira en þeirri tölu nam, er ég nefndi, eða nokkuð yfir 50%. Þetta hefur svo aftur leitt til þess, að ekki einungis þau fyrirtæki, sem sjávarútveg stunda og á honum byggjast beinlínis, og þeir, sem við þessi störf vinna, hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum, heldur hefur þetta haft áhrif á allt þjóðlífið. Á þessu tímabili mun láta nærri, að þjóðartekjur á mann hafi minnkað um nær 17% og séu nú svipaðar í raunverulegum verðmætum og þær voru á árunum 1962–1963. Ef ekki hefði verið að gert, þá mundi þessi tekjurýrnun auðvitað hafa komið mjög misjafnlega niður og gerir það óhjákvæmilega að nokkru, en vegna margháttaðra ráðstafana og með margháttuðum ráðstöfunum hefur verið reynt að dreifa byrðunum af þessum skakkaföllum, og nú er aðalviðfangsefnið það, að menn kunni, þjóðarheildin og hver einstakur, að sníða sér stakk eftir vexti, geri sér grein fyrir því, að miða verður kröfur við greiðslumöguleikana, sem rýrnað hafa samkvæmt því, er ég áður sagði. Hverjar sem orsakir þessara vandræða eru, þá eru vandræðin staðreyndir, erfiðleikar, sem við getum ekki með nokkru móti skotið okkur undan.

Þetta eru, eins og ég segi, einfaldar og augljósar staðreyndir, en vegna þess að hv. stjórnarandstæðingar hafa óskað eftir því, að ríkisstj. gæfi skýrslu um efnahagsmálin, þá skal ég hér rifja upp nokkur höfuðatriði greinargerðar, sem ég hef fengið um þau efni frá Efnahagsstofnuninni nú þessa dagana. Meginhlutinn er dags. eða skýrslan í heild þann 20. febrúar. Ég get þó ekki lesið skýrsluna alla, mun aðallega gera grein fyrir og lesa meginþátt hennar, en fara lauslega yfir aðra kafla, sem minni þýðingu hafa.

Í þessari skýrslu segir:

Afkoma þjóðarbúsins á árinu 1968 reyndist mun óhagstæðari en í upphafi voru taldar horfur á. Eftir því sem leið á árið, kom fram æ óhagstæðari heildarafkoma af völdum hins mikla aflabrests á síldveiðum og auknum örðugleikum á útflutningsmörkuðum. Áhrif þessara áfalla til kjararýrnunar og samdráttar í eftirspurn og athafnalífi breiddust síðan út um allt efnahagslífið. Minnkun framleiðslu og tekna í útflutningsgreinunum, sem áföllin komu beinast niður á, varð að sjálfsögðu tilfinnanlegust.

Framleiðslumagn sjávarútvegsins minnkaði 1968 um 15%, en verðmæti að óbreyttu gengi um nærri 20%, en á tveimur síðustu árum, frá 1966, hefur framleiðslumagnið minnkað um 33% og útflutningsverðmætið eða gjaldeyrisverðmætið um það bil 44%. Breytingin er nálægt því hin sama, enda þótt miðað sé við árið 1965, en hvort áranna 1965 og 1966 nam verðmæti framleiddra sjávarafurða milli 5700 og 5800 millj. kr. á þágildandi gengi, en nam 1968 aðeins um 3200 millj. kr., umreiknað til sama gengis. Fiskaflann árið 1968 má samkvæmt síðustu heimildum áætla um 585 þús. tonn, en það er minna en helmingur aflans hvort áranna 1965 eða 1966, en um 35% minnkun frá árinu 1967.

Aflabrestur á síldveiðum olli þessari stórfelldu breytingu. Mun síldaraflinn árið 1968 hafa numið um 133 þús. tonnum eða aðeins tæplega þriðjungi síldaraflans árið áður, en um sjöttungi aflans 1966. Um fjórðungur aflans náðist þó aðeins með því að sækja á Norðursjávarmið og landa honum erlendis. Loðnuaflinn minnkaði um tæp 20 af hundraði og varð 78 þús. tonn. Leita þarf aftur til ársins 1960 og til 1958 og áranna þar á undan til þess að finna dæmi um svo lítinn síldarafla sem síðasta ár, en öll árin frá 1961 hefur síldaraflinn verið tvöfalt til þrefalt meiri hið minnsta og allt upp í sexfaldur á við aflann 1968. Sömuleiðis nam heildarfiskaflinn 1968 nokkurn veginn sama magni og 1960, 593 þús. t. eða 1958, þegar hann var 581 þús. tonn. Þorskaflinn, bolfiskaflinn 1968, varð rétt við meðaltal áranna 1961 til 1965, 382 þús. tonn, því að 1968 varð hann 370 þús. tonn eða um 11% meiri en árið áður. Ástæður þessa voru m. a., að vetrarvertíðin heppnaðist betur en árið áður, en auk þess var mikil aukning á úthaldi meðalstórra báta til þorskveiða s. l. sumar og haust. Stóð það að sjálfsögðu í sambandi við síldarleysið á miðunum við landið, en einnig, að því er virðist, við bætt rekstrarskilyrði bátaflotans.

Aukið úthald og afli yfir sumar- og haustmánuðina varð mjög til þess að efla og jafna atvinnu víða um land, en olli jafnframt sums staðar örðugleikum við móttöku og vinnslu, ekki sízt þar sem markaðsskilyrði versnuðu um sama leyti. Af hálfu ríkisins var greitt úr þeim örðugleikum með fyrirgreiðslu til rýmkunar verðábyrgða og annars stuðnings við freðfiskframleiðslu og til stuðnings við vissar, illa settar greinar saltfiskverkunar. Ríkisstj. gaf og síldveiðibátum, síldarbræðslum og hvalútvegi fyrirheit um stuðning og að vissu marki ábyrgð til þess að tryggja að framleiðslu þessara tvísýnu greina sjávarútvegsins yrði haldið uppi. Verðfall sjávarafurða taldist nema rúmum fimm af hundraði árið 1968, en 11.6% árið áður metið eftir því magni hinna ýmsu afurða, er til útflutnings féll hvort árið. Það hefði þó talizt mun meira að heildarmeðaltali, ef ekki hefði komið til mikil magnminnkun síldarafurðanna, er féllu mest í verði. Verðfall bræðslusíldarafurða, einkum lýsis, óx þegar að verulegu marki á árinu 1966. Á síðasta ári féll mjölverð um rúm 12% og lýsisverð um 29% að meðalverði frá meðalverði fyrra árs. En frá 1965 hefur mjölið fallið um 28% og lýsið um fullan helming eða 52%. Er þá miðað við verð í erlendum gjaldeyri. Mjög tilfinnanlegt verðfall varð einnig á freðfiski. Nam það um 15% árið 1967 frá meðalverði ársins á undan. Náði verðið sér lítið eitt upp um áramótin 1967 og 1968, og var við það miðað við ákvörðun fiskverðs og um stuðning við frystiiðnaðinn í upphafi árs 1968. En er leið á árið varð enn á ný verðfall á frystum fiski, einkum þorskblokkum. Meðalverð þorsks á árinu reyndist um 8% lægra en áramótaverð, en á öllum freðfiski um 4% lægra. Flestar aðrar sjávarafurðir hafa einnig fallið meira eða minna í verði á síðustu tveimur árum.

Aðrar greinar framleiðslu, framkvæmda og þjónustu áttu einnig erfitt uppdráttar bæði vegna örðugs árferðis og af völdum minnkaðrar kaupgetu og umsvifa í atvinnulífinu. Um þetta liggja ekki fyrir eins glöggar heimildir og um sjávarútveginn. Landbúnaðarframleiðslan mun sennilega hafa staðið í stað eða jafnvel minnkað, a. m. k. ef tekið er tillit til hinnar miklu notkunar aðfenginna rekstrarvara af völdum árferðisins. Svipuðu máli gegnir um iðnaðarframleiðslu fyrir innlendan markað. Bendir flest til þess, að í heild hafi sú framleiðsla staðið í stað árið 1968 eða jafnvel dregizt saman lítið eitt frá árinu áður, enda þótt sumar greinar iðnaðarins hafi tekið nokkurri aukningu. Árið 1967 mun hið sama hafa orðið uppi á teningnum. Það voru að sjálfsögðu þær greinar, sem nátengdastar eru sjávarútveginum, sem helzt kreppti að þessi ár. Sumar aðrar greinar iðnaðarins, er einkum stunda neyzluvöruframleiðslu fyrir innlendan markað, áttu hins vegar örðugt uppdráttar af völdum hækkandi framleiðslukostnaðar árin 1965 og 1966, en bættu aftur á móti aðstöðu sína árið 1967. Framleiðslusamdráttur í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð varð um 6% árið 1968, þrátt fyrir aukningu stórframkvæmdanna við Búrfell og Straumsvík, er út af fyrir sig hefði valdið 10% aukningu fjármunamyndunar í þessum greinum í heild að öðru óbreyttu. Árið áður varð hins vegar framleiðsluaukning byggingarstarfsemi um það bil 10%. Umskiptin frá vexti til samdráttar í þessari grein, sem tekið hafa árabil, á móti drjúgum hluta aukningar mannaflans, hafa þannig numið um 16% milli þessara ára. Á sú breyting ásamt minnkun sjávarafla ríkastan þátt í þeirri breytingu atvinnuástandsins, sem á er orðin. Auk þess samdráttar í framleiðslu, sem hér hefur verið rakinn, er ljóst, að samdráttur hefur orðið í verzlun og þjónustu, annarri en opinberri.

Verðmæti þjóðarframleiðslunnar 1968 er áætlað um 25700 millj. kr. á meðalverðlagi ársins. Áætlað er, að minnkun þjóðarframleiðslunnar á árinu 1968 í samanburði við 1967 hafi orðið a. m. k. 5%. Til viðbótar þessari minnkun koma áhrif verðfalls útflutningsafurða. Nam það verðfali um 5.5% milli meðalverðlags 1967 og 1968, og veldur það ásamt minnkaðri framleiðslu því, að þjóðartekjur lækka um nálægt 7% á milli áranna 1967 og 1968. Reiknað á mann hefur minnkun þjóðarframleiðslunnar orðið nálægt 6,5%, en lækkun þjóðartekna um rúmlega 8%. Skakkaföll þessi komu í kjölfar sams konar áfalla er yfir dundu árið 1967, en á síðustu tveim árum til samans er varlega áætlað, að þjóðarframleiðsla hafi minnkað um 6.7%, þjóðartekjur um rúm 14%, en þjóðarframleiðsla á mann um 9–10%, þjóðartekjur á mann um 17%. Við þennan mikla afturkipp hefur þjóðarframleiðslan komizt á stig, er liggur á milli þess, er hún var árið 1964 og 1965, en þjóðartekjur á milli þess, er þær voru 1963 og 1964. Að tiltölu við mannfjölda hefur afturkippurinn orðið enn meiri. Bæði þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur á mann 1968 lágu á milli þess, sem var 1962 og 1963.

Þessi afturkippur sýnir, hversu náið samband er á milli útflutningsatvinnuveganna annars vegar og annarra atvinnuvega hins vegar. Hið mikla tekjufall í útflutningi leiddi óhjákvæmilega til samdráttar í framkvæmdum og framleiðslu fyrir innlendan markað. Fjárfestingin hér á landi er að miklu leyti kostuð af samtíma tekjum framkvæmdaaðila auk útlána viðskiptabanka og sparisjóða, er fást að mestu af spariinnlögum og samtímatekjum. Arðsemi atvinnurekstrar ræður og að sjálfsögðu mati fyrirtækja á þörf fyrir nýjar framkvæmdir. Enn fremur ráða útflutningstekjurnar mestu um almenna neyzlueftirspurn í landinu, og úr þeirri eftirspurn dregur stig af stigi, þegar tekjur hverrar greinar á fætur annarri minnka.

Úr þessum hringrásarverkunum innan hagkerfisins hefur stórum verið dregið á undangengnu örðugleikatímabili með ýmiss konar aðgerðum, sem til hefur verið stofnað af hálfu almannavaldsins. Í fyrsta lagi með stórframkvæmdunum, sem fjár er aflað til erlendis frá með stuðningi ríkissjóðs við atvinnurekstur og með niðurgreiðslum til að halda framleiðslukostnaði niðri og enn með útlánum fjárfestingarlánasjóða og banka umfram samtímafjárhagsmyndun af tekjum. Meðan áhrif áfallanna voru að koma fram og talið var fært að halda áfram umfangsmiklum hallarekstri þessara opinberu aðila, var kaupgetunni haldið uppi, þótt slíkt leiddi til gjaldeyriseyðslu umfram tekjur. En þessi gjaldeyrisnotkun hefur sem sagt verið forsenda viðhalds innlendrar framleiðslu og framkvæmda í því umfangi, sem verið hefur.

Við upphaf ársins 1968 var vonazt til þess, að verðmætaráðstöfunin í heild þyrfti aðeins að dragast saman um 3–4%, enda var þá búizt við lítilsháttar aukningu þjóðarframleiðslu, þ. e. 1.7%. En sá framleiðsluhnekkir, er þjóðarbúið varð fyrir, leiddi óhjákvæmilega til þess, að verðmætaráðstöfun til endanlegra nota, þ. e. a. s. auk útflutningsvörubirgða, minnkaði um meira, eða um rúmlega 6%. Munar hér þó ekki nærri eins miklu og á sjálfum framleiðsluhnekkinum frá því, sem ráðgert hafði verið. Dregið mun hafa úr einkaneyzlu á árinu 1968 um allt að 6% og enn meir úr fjármunamyndun eða um 9%. Minnkun þessi kom í tiltölulega miklum mæli niður á innfluttum gögnum og gæðum, svo sem lýsir sér í því, að innlend byggingarstarfsemi minnkaði mun minna en fjármunamyndunin eða um 6%, sem fyrr segir. Samneyzla er aftur á móti talin hafa aukizt um 2.7%. Er þá miðað við fyrirætlanir fjárlaga og fjárhagsáætlanir sveitarfélaga, sem í aðalatriðum munu hafa orðið að veruleika. Stefndu þessar fyrirætlanir í aðalatriðum að því að halda þeirri þjónustu við almenning, sem opinber neyzla felur í sér, óskertri, þrátt fyrir vaxandi fólksfjölda. Aukning þessi er þó aðeins milli helmings og þriðjungs þeirrar aukningar, er verið hafði á árinu áður. Þess ber að gæta, að samdráttur verðmætaráðstöfunar árið 1968 kom í kjölfar stórstígra aukninga um árabil.

Verðstöðvunaraðgerðirnar haustið 1966, er stóðu til hausts 1967, höfðu mikil áhrif á þróunina á árinu 1967. Annars vegar stuðluðu þessar aðgerðir að því að koma í veg fyrir frekari hækkun peningatekna, eftir að vöxtur raunverulegra þjóðartekna hafði fyrst stöðvazt og síðan snúizt til lækkunar. Hins vegar urðu þessar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir, að tekjurýrnun þjóðarbúsins hefði í bili áhrif á afkomu almennings. Var þetta réttlætanlegt og kleift, meðan vonazt var til, að áföllin væru tímabundin. Verðlagsuppbætur á laun hafa haft tímabundin áhrif í sömu átt. Við þau skilyrði, sem ríkt hafa á þriðja ár, hafa þessir tveir þættir valdið miklu um að draga úr og tefja fyrir tekjurýrnun einstaklinga og fyrirtækja og þar með stuðlað að aðlögun neyzlu og verðmætaráðstöfunar í heild að lækkuðum raunverulegum tekjum þjóðarinnar, þ. e. a. s. mildað áhrif þeirrar miklu tekjurýrnunar, sem þjóðin hefur orðið fyrir.

Fjármunamyndun er sá þáttur verðmætaráðstöfunar, er byggir upp afkastagetu þjóðarbúsins. Fjármunamyndun atvinnuveganna hefur til og með 1967 vaxið álíka ört og heildarfjármunamyndunin og haldið á þeim tíma hlutdeild sinni, þ. e. a. s. nærri helmingi allrar fjármunamyndunar. Þjóðarauður í framleiðslutækjum, byggingum og öðrum mannvirkjum hefur á síðustu árum aukizt mun örar en magn þjóðarframleiðslunnar, eða t. d. frá árslokum 1961 til 1966 um 31%, og fjármunir atvinnuveganna um 40%, þar sem þjóðarframleiðslan jókst milli næstu ára á eftir, 1962–1967, einungis um 22%. Af þessum staðreyndum má draga þær ályktanir, að eðlilegur hluti afraksturs góðærisins hafi orðið eftir í varanlegum verðmætum og samdráttur framleiðslunnar síðustu tvö árin hafi engan veginn stafað af ónógri afkastagetu atvinnuveganna. Ástæður samdráttarins eru þvert á móti hið mikla brottfall tekna í undirstöðuatvinnuvegunum og áhrif þess á almenna eftirspurn. En þessi stórfellda tekjuskerðing undirstöðuatvinnuveganna, ásamt hækkuðum framleiðslukostnaði, gróf undan rekstrargrundvelli þeirra, unz rennt var stoðum undir þá á ný með gengisbreytingunni í nóvember s. l.

Samfara öllum þessum erfiðleikum og óhjákvæmileg afleiðing þeirra var sú, að á árinu var óhagstæður viðskiptajöfnuður, og er hann áætlaður um 2685 millj. kr., miðað við fyrra gengi ársins, í framhaldi af álíka miklum viðskiptahalla ársins 1967, er var um 2350 millj. kr. á meðalgengi þess árs. Bæði árin stafaði mikill hluti viðskiptahallans af innflutningi til stórframkvæmdanna, og var þeim hluta hans mætt með erlendum lántökum og innflutningi einkafjármagns. Opinberar lántökur á síðasta ári námu 1570 millj. kr., innflutt einkafjármagn 825 millj. kr., auk þess námu lántökur einkaaðila 220 millj. kr., en á móti þessu koma endurgreiðslur fyrri lána, er á síðasta ári námu 1030 millj. kr.

Lækkun gjaldeyrisstöðu bankanna nam miðað við gengið, er gilti meginhluta ársins 1968, um 1500 millj. kr. árið 1967, en um 850 millj. kr. árið 1968. Um síðustu áramót nam nettóstaðan 302 millj. kr. á núgildandi gengi, en til viðbótar því hafa verið tekin stutt gjaldeyrislán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusjóðnum. Nam upphæð þeirra á síðasta ári 8.75 millj. dollara eða um 770 millj. kr.

Með gengisbreytingunni í nóv. 1967 var stefnt að því að draga mjög verulega úr viðskiptahallanum út á við, enda þótt óviðráðanlegar ytri orsakir kæmu í veg fyrir, að svo gæti orðið. Gengisbreytingin hafði þó tilætluð áhrif á innflutninginn, og minnkaði gjaldeyrisverðmæti almenns vöruinnflutnings um 13.5% milli 1967 og 1968. Þessi aðlögun var þó ófullnægjandi miðað við þær aðstæður, er mynduðust á árinu. Sést þetta bezt af því, að samtímis því, að útflutningsframleiðslan hafði minnkað að gjaldeyrisverðmæti niður fyrir það, er hún nam 1962, hafði almennur vöruinnflutningur aðeins minnkað niður fyrir gjaldeyrisverðmæti innflutningsins árið 1965.

Hinir gífurlegu örðugleikar í efnahagsmálum, ásamt viðleitni stjórnarvalda til þess að vinna á móti áhrifum þeirra á atvinnu- og lífskjör, hafa markað djúp spor á vettvangi peningamála. Versnandi fjárhagur ríkissjóðs, en hann var einnig rekinn með verulegum halla á s. l. ári, og versnandi hagur fjárfestingarlánasjóða og viðskiptabanka hefur komið fram í stöðu þessara aðila gagnvart Seðlabankanum. En í stórum dráttum svara samanlagðar breytingar á stöðu þessara aðila við Seðlabankann til breytinga gjaldeyrisstöðunnar. Skoðað í samhengi peningamála, hefur útstreymi fjár úr Seðlabankanum þannig verið orsök eða skilyrði fyrir rýrnun gjaldeyrisstöðunnar undanfarin tvö ár. Staða ríkissjóðs og ríkisstofnana gagnvart Seðlabankanum versnaði um 241 millj. kr. á árinu 1968. Var þó um mikla breytingu í hagstæða átt að ræða frá árinu 1967, er staðan versnaði um 458 millj. kr., en árið 1966 hafði staðan aftur á móti batnað verulega, eða um 331 millj. kr. Að sjálfsögðu hefði staðan versnað mun meira á árinu 1968, ef gengisbreytingin og efnahagsaðgerðir tengdar henni hefðu ekki komið til. Staða fjárfestingarlánastofnana gagnvart Seðlabankanum versnaði um 60 millj. kr. 1968, en 192 millj. kr. 1967, en staða innlánastofnana versnaði um 297 millj. kr. 1968, en um 175 millj. kr. 1967. Alls nam óhagstæð breyting innlendra aðila gagnvart Seðlabankanum 535 millj. kr. árið 1968, en 950 millj. kr. 1967, en rýrnun gjaldeyriseigna bankans nam bæði árin mjög svipuðum upphæðum þessum, eða 553 millj. kr. 1968 og 999 millj. kr. árið 1967. Þróun sparifjármyndunar hefur svo sem vænta mátti verið óhagstæð miðað við fyrri ár. Nam aukning spariinnlána í kringum 600 millj. kr. hvort áranna 1967 og 1968 samanborið við 983 millj. kr. árið 1966.

Öllu þessu samfara hefur svo orðið verulegur atvinnubrestur víðsvegar um landið. Við þekkjum það, að fram til ársins 1967 hafði um langt árabil ekki borið á atvinnuleysi, heldur miklu fremur hinu, að skortur var á vinnuafli, nema í einstökum landshlutum, þar sem sérstakar ástæður komu til, eins og aðallega á Norðurlandi. En þar höfðu ráðstafanir verið gerðar af hálfu ríkisins og annarra aðila með skipun atvinnumálanefndar Norðurlands, sem starfaði frá 1965 og þangað til nú og öllum kemur saman um, að gert hafi verulegt gagn. Segja má, að almenn atvinnuvandkvæði hafi fyrst orðið alvarleg á vetrinum 1967–1968. Náði tala atvinnulausra, sem beinar upplýsingar tóku til, um 1200 manns í byrjun febr. 1968, en áætluð heildartala þeirra var þá um 1500 manns.

Nú má ekki skilja það svo, að hér hafi verið um algjörlega nýtt fyrirbæri að ræða, vegna þess að ýmsar breyttar ástæður gerðu það að verkum, að menn voru mun fúsari til að láta skrá sig á árinu 1968 en áður, og hið sama hefur að nokkru leyti einnig komið fram nú í vetur. Þetta atvinnuleysi, sem varð í fyrravetur, hjaðnaði þó, sem betur fer, þegar fram á veturinn leið, og hefðu hvergi orðið vandræði á síðari hluta ársins, að því er manni nú virðist, ef síldarleysið hefði ekki sagt mjög til sín, ekki einungis í þeim byggðarlögum, þar sem síldarbátarnir leggja upp, heldur hlaut það mikla tap og sá hnekkir, sem þessi atvinnuvegur varð fyrir, einnig að segja til sín um land allt, svo sem raun hefur á orðið. Og í árslok 1968 nam skráð atvinnuleysi kaupstaða og kauptúna með yfir 1000 íbúa 1340 manns. Með samanburði við aðrar heimildir um atvinnuástand hinna ýmsu staða áætlaði Efnahagsstofnunin tölu atvinnuleysingja á öllu landinu í árslok vera um 2200 manns. Var það mest á Norðurlandi, eða um 1/3 alls fjöldans.

Eftir áramót jókst þessi tala mjög og var í janúarlok talin um 5500 manns. Nú er það enginn vafi, að sjómannaverkfallið átti verulegan þátt í þessari miklu aukningu og eins því, að atvinnuleysi hélzt á ýmsum stöðum, þar sem það hefði hjaðnað með öllu, ef flotinn hefði verið gerður út með eðlilegum hætti. Á þessu stigi verður ekki fullyrt, hversu mikil áhrif lausn sjómannaverkfallsins hefur. Þau hljóta að taka nokkurn tíma, en víðast hvar mun þó brýnum vandræðum verða afstýrt með því, að flotinn stundi veiðar með eðlilegum hætti. Hitt skal játað og dylst engum, að hér í þéttbýlinu, Reykjavík og nágrenni, og eins á Norðurlandi umhverfis Akureyri, og ef til vill víðar, þá eru aðrar og flóknari ástæður, sem koma til, þannig að það er ljóst, að lausn þessa sjómannaverkfalls ein nægir ekki til að koma málunum í það horf, sem æskilegt væri. En þá er að því komið, hvaða ráðstafanir sé hægt að gera og gerðar hafi verið til þess að bæta úr atvinnuástandinu.

Ríkisstj. hefur verið ávítuð af ýmsum fyrir það að hafa aðhafzt of lítið til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi, bæði á árinu 1968 og það, sem af er þessu ári. Sannleikurinn er sá, að hér er um algjört öfugmæli að ræða. Ríkisstj. gerði margháttaðar ráðstafanir allt árið 1968 til þess að greiða fyrir almennri atvinnu. Það er óhætt að segja, að hvorki síldveiðar né hvalveiðar hefðu komizt af stað s. l. vor, ef ríkisstj. hefði ekki stuðlað þar að. Eins má heita öruggt, að hraðfrystiiðnaðurinn hefði gefizt upp á miðju sumri, ef ekki hefði komið til atbeini ríkisstj. Þá er ekki þess að dyljast, sem öllum er auðvitað ljóst, að gengisbreytingin nú í haust var fyrst og fremst gerð til þess að skapa atvinnuvegunum lífsskilyrði. Með gengisbreytingunni varð að gera mjög óþægilegan tekjutilflutning, sem í ýmsum tilfellum kemur harkalega niður, en var óhjákvæmilegur, ef höfuðatvinnuvegir landsmanna áttu að geta staðizt. Og án þeirrar ráðstöfunar var, eins og horfði, vonlaust, að hér yrði atvinnurekstur stundaður, ekki sjávarútvegur og, ef hann féll, þá auðvitað ekki heldur aðrir átvinnuvegir, svo að miklu næmi. Enda er það ljóst, að gengisbreytingin er ekki einungis til stórfellds hags fyrir sjálfan sjávarútveginn, heldur einnig hefur innlendur iðnaður af henni margháttað gagn. Og þegar litið er til þeirra tollalaga, sem enn eru í gildi, þá má segja, að, þetta tvennt, gengisbreytingin og óbreyttir tollar, jafngildi í raun og veru innflutningsbanni á fjöldann af erlendri iðnaðarvöru, einmitt þeirri sem Íslendingar hafa átt í harðastri samkeppni við, og þegar af þeirri ástæðu, þá er tal um það, að þessi atvinnuvegur þurfi til viðbótar á beinum innflutningsbönnum að halda, á misskilningi byggt. Hitt má miklu frekar segja, að til lengdar þarf að breyta tollskránni, til þess að þessi atvinnurekstur fái eðlilegt aðhald, en ekki hreina einokunaraðstöðu. Þá má einnig minna á það í þessu sambandi, að ríkisstj. hefur bæði varðandi vissar iðngreinar, svo sem skipasmíðar, stuðlað mjög að því, að þær hefðu verkefni. Það má minna á aukin lán til smíði fiskibáta innanlands. Það má minna á þá ráðstöfun, að samið var við skipasmíðastöð á Akureyri um smíði strandferðaskipa. Hér kemur einnig margt fleira til greina, sem ég skal ekki telja upp að sinni. En það er ekki einungis fyrirgreiðsla við einstakar greinar, sem hefur átt sér stað, heldur einnig við fjölmörg fyrirtæki, þar sem reynt hefur verið að hlaupa undir bagga og stuðla að því, að þau yrðu rekin, sbr. atbeina Alþ. á s. l. ári til að greiða fyrir rekstri Norðurstjörnunnar. Loksins að ógleymdu því, sem ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar knúðu fram við mikla andstöðu fyrir rúmlega tveimur árum, að ráðizt var í virkjun Þjórsár og hún var gerð möguleg með álbræðslusamningnum við Alusuisse. Ef ekki hefði verið ráðizt í þessi stórfyrirtæki á sínum tíma, þá mundi atvinnuástandið vissulega vera nú miklu verra, ósambærilega verra en það er.

Það hefur verið um það talað, að ríkisstj. hafi verið of athafnalítil í því að greiða fyrir aukningu lánsfjár, þannig að bæði útgerð og iðnaður gæti notað sér þá bættu aðstöðu, sem þessir aðilar fengu við gengisbreytinguna. Ríkisstj. hefur verið í stöðugu samráði og samstarfi við Seðlabankann um lausn þessara vandamála og raunar við viðskiptabankana yfirleitt, og þá einkum ríkisbankana. Eftir að atvinnumálanefndirnar voru komnar á laggirnar, þá var endanlega lokið við ákvarðanir í samráði við atvinnumálanefnd ríkisins um mjög aukið lánsfé bæði til sjávarútvegs í framleiðslulánum, til útvegsins með útgerðarlánum og til iðnaðarins, þar sem ætlazt er til, að annars vegar Seðlabankinn, en hins vegar viðskiptabankarnir leggist á eitt um að greiða fyrir eðlilegri starfsemi, eðlilegri lánsfjárútvegun, svo að atvinnufyrirtæki þurfi ekki að stöðvast af þeim sökum.

Hitt á auðvitað ekki að dyljast, að hér er örðugt um vik, sbr. atriði úr þeirri skýrslu, sem ég las áðan, varðandi lakari aðstöðu Seðlabankans nú en áður var. Hann hefur auðvitað yfir mun minna fjármagni að ráða einmitt sökum þessara almennu örðugleika, sem yfir okkur hafa dunið, og þó að hann hafi fengið stuðning erlendra lánsfjárstofnana, þá ber honum skylda til að halda þannig á, að lánsfé verði ekki til að gera örðugra það, sem okkur er lífsnauðsyn, að stórminnka viðskiptahallann á árinu 1969 frá því, sem var 1968. Það eitt að veita lánsfé hér innanlands dugar auðvitað ekki, ef við megnum ekki á tiltölulega skömmum tíma að ná jafnvægi út á við. Hið góða traust, sem Ísland nýtur erlendis ásamt þátttöku í alþjóðlegum stofnunum, gerir það mögulegt, að við getum fengið lán til þess að fleyta okkur yfir, án of mikilla skerðinga innanlands, slíka örðugleika, sem við höfum nú lent í. Hér sem ella verður að gæta þess, að að lokum þurfum við sjálfir að greiða það fé, sem við fáum lánað í þessu skyni, og þess vegna verður að halda á með fullri varúð. Ég hygg, að það verði ekki með rökum á það bent, að í þessu hafi ekki verið gert mjög verulegt átak. Hitt er annað mál, að meðan útgerð gat ekki átt sér stað sökum verkfallsins, þá komu hin auknu útlán bankanna til útgerðar og til fiskvinnslustöðva ekki að gagni. Ef atvinnureksturinn stöðvast af annarlegum ástæðum, þá stoða engar slíkar ráðstafanir til að bæta úr vandanum. Slíkt verkfall hefur auðvitað ekki einungis áhrif á þá, sem eru í því sjálfir, heldur lamar það athafnaþrek og kaupgetu margfalt fleiri en beinir aðilar eru að. Þess vegna var það eitt af meginverkefnum til þess að auka atvinnu, ekki einungis þeirra, sem áttu hlut að máli, heldur landsmanna yfirleitt, að leysa þetta verkfall. Um þann vanda var rætt hér fyrr í þessari viku, og ég skal ekki rifja. þær umræður upp nú að neinu verulegu leyti. Ég minni einungis á það, að sem betur fer, þá reyndust þeir hv. þm. ekki sannspáir, sem fyrir jólin fullyrtu, að sjávarútvegsl. sem þá voru til meðferðar mundu verða brotin á bak aftur af launþegasamtökum. Þvert á móti sýndu allar samningaviðræðurnar, að þær fóru fram á grundvelli þessara l. og með skilningi allra aðila á óhjákvæmilegri nauðsyn þeirrar lagasetningar. Hitt var svo allt annað mál og engin nýjung, að á þessum grundvelli og innan þessa ramma reyndi hver aðili að fá sem mest í sinn hlut. Slíkt er engin nýjung og ekki við því að búast, að þvílíkur vandi verði skyndilega leystur, þó að enn megi segja, að vissulega var furðulegt og að sumu leyti ekki til hlítar skiljanlegt, að ekki skyldi takast að leysa þetta verkfall fyrr en raun varð á. Og ekki er fyrir það að synja, að þar hafi einhver annarleg öfl verið að verki.

Ég drap á það áður, að hér væru komnar atvinnumálanefndir. Þær hafa verið settar upp að samráði og tillögu verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitendasamtakanna. Ríkisstj. hefur stundum verið ávítuð fyrir það, að hún hafi þarna verið of sein í vöfum. Þetta er líka fullkominn misskilningur. Ríkisstj. skrifaði strax og tilefni gafst aðilum og óskaði eftir samstarfi við þá meðal annars um aðgerðir til að bæta úr atvinnuörðugleikum. Það tók hins vegar aðila langan tíma að koma sér saman innbyrðis, í fyrsta lagi sín á milli um það, hvort þeir ættu að taka upp slíkar viðræður við ríkisstj., síðan innbyrðis á milli þessara heildar almannasamtaka, með hverjum hætti þetta ætti að verða gert. Stóð þar miklu lengur á en þeim stutta fresti nam, sem ríkisstj. þurfti með eðlilegum hætti að hafa til þess að skoða málið af sinni hálfu, eftir að það var komið til hennar á ný. Nú eru þessar n. teknar til starfa, bæði hver í sínu héraði og atvinnumálanefnd ríkisins hér í bænum. Ég vil fullyrða, að þessar n. hafi nú þegar ráðið fram úr ýmsum málum, sem sum hafa verulega þýðingu, staðbundna að vísu. önnur þýðingarmikil mál eru til meðferðar, þó að heildarúthlutun þess fjár, sem tryggt hefur verið, 300 millj. kr., hljóti með eðlilegum hætti að taka nokkurn tíma og ekkert sé hægt að gera fyrr en heildaryfirlit hefur fengizt, bæði miðað við þörf og till. og umsagnir úr hinum ýmsu héruðum og eins skoðun verkefnisins, hversu mikið það er, eftir að sjómannadeilunni lýkur. En ég hygg, að allir aðilar geti með nokkurri bjartsýni horft fram til starfs þessarar n., hún hafi þegar gefið loforð um góða raun. Samstarf þar hefur enn verið með ágætum. Hitt er svo annað mál, að slíkar ráðstafanir leysa auðvitað aldrei til heildar þann meginvanda, sem við er að etja. Það eru hinar almennu ástæður, hinar almennu efnahagsráðstafanir, afli, verðlag erlendis og hvernig við bregðumst við slíkum ytri aðstæðum, sem gera það að verkum, hvort atvinnuástand hér helzt sæmilegt til frambúðar eða ekki, eða e. t. v. er öllu réttara að komast þannig að orði, hvort okkur tekst að koma því í sæmilegt horf nú og halda því svo til frambúðar eða ekki. Það verður ekki gert með slíkum ráðstöfunum, sem ég nú drap á, þó að þær geti haft sitt mjög mikla gildi til þess að koma mönnum yfir erfið tímabil. Þess vegna gefa þessar ráðstafanir eins og ég segi tilefni til hóflegrar bjartsýni. En einnig varðandi ráðstöfun slíks fjár er auðvitað nú um að gera að verja því sem mest til þess, sem gefur beinan arð og getur bætt aðstöðu þjóðarheildarinnar inn á við og út á við, bætt gjaldeyrisjöfnuðinn út á við og skapað skilyrði fyrir endurbættum lífsskilyrðum innanlands. Þess vegna er það mjög mikils vert, að samkomulag varð um það milli allra aðila, að hér ætti einkum að leggja áherzlu á að útvega lán og veita fyrirgreiðslu til arðbærs atvinnurekstrar.

Við mundum einnig blekkja okkur mjög, ef við sæjum ekki af því, sem nú hefur gerzt, að þótt það taki langan tíma og ráði ekki fram úr bráðabirgðavandræðum okkar þá er það höfuðnauðsyn hvort tveggja að efla samvinnu við aðrar þjóðir, þannig að við einangrumst ekki frá þeim í viðskiptaefnum og verðum ekki vegna tollmúra annarra lokaðir frá viðskiptum við aðra, og eins að fá samvinnu annarra til þess að hagnýta auðlindir landsins til hlítar, okkur sjálfum til gagns.

Það er nú orðið berara en nokkru sinni fyrr, að atvinnulíf okkar er of einhæft. Það er einnig tómt mál að tala um það, að úr því eigi að bæta með því að auka úrvinnslu íslenzkra afurða hér innanlands. Þetta er sjálfsagt og um það er ekki deilt, að þetta er nauðsynlegt. En það eru annmarkar á þessu, því að svo kann að vera um sumt, að úr vörunni þurfi að vinna í öðrum löndum til þess að hún sé seljanleg þar. Það getur verið, að ef úr vörunni er unnið hér, lendi hún í tollaflokkum, þannig að hún útilokist með öllu frá útflutningi til annarra landa. Eins er það, að ef aflabrestur verður, eins og við höfum nú sárlega fengið að kenna á, þá bitnar hann auðvitað á og kemur fram ekki síður í vöru, sem unnið er úr hér innanlands, þótt hún sé flutt út tiltölulega lítt unnin, samanber þá örðugleika, sem Norðurstjarnan á við að etja sökum hráefnaskorts, samanber þá örðugleika, sem niðurlagningar- og niðursuðuverksmiðjur á Norðurlandi, bæði á Akureyri og Siglufirði, hafa átt við að etja vegna hráefnaskorts. Þess vegna er það höfuðnauðsyn, og algjörlega óhjákvæmilegt, að markvisst verði að því unnið, að við gerum stórátök, stærri en nokkru sinni fyrr, til þess að hagnýta allar auðlindir landsins. Aðrar Evrópuþjóðir, og þær, sem okkur eru tengdastar og skyldastar, eru í þessum efnum áratugum á undan okkur. Allir skynibornir menn í þeim löndum segja, að samvinna við aðra erlenda aðila um slíka iðnvæðingu í þeirra löndum hafi síður en svo orðið þjóðunum til ills, heldur hin mesta lyftistöng fyrir þeirra atvinnuvegi. Eins er það með samvinnu við önnur lönd, sem við ræddum hér lítillega s. l. miðvikudag, en verulegur misskilningur kom fram hjá sumum um þýðingu þess mikla máls. Það er t. d. síður en svo, að það þurfi að spilla okkar viðskiptum við Bandaríkin, þó að við gerumst aðilar að fríverzlunarbandalagi eins og EFTA. Við útilokumst engan veginn frá Bandaríkjamarkaði af þessum sökum, og við erum ekki að gera okkur sjálfa háðari EFTA-markaðinum, þ6 að við gerum ráðstafanir til þess að sleppa við þær álögur, sem koma fram í beinni tekjurýrnun hjá okkur nú þegar, en munu gera í vaxandi mæli, ef við stöndum utan við EFTA. Það er t. d. ljóst, og hefur verið síðustu ár svo, að ef við þurfum að selja síldarlýsi til Bretlands, þá er hagkvæmara að selja það yfir Danmörku, vegna þess að Danir geta flutt það tolllaust yfir til Bretlands, sem við getum ekki. En vitanlega taka Danir bróðurpartinn af þeim ágóða, sem við slíkt fæst. Þá er það einnig, ég vil skjóta því inn, — algjör misskilningur, sem kom fram, um hina væntanlegu auknu samvinnu Norðurlanda, áð til hennar sé stofnað í því skyni að kljúfa EFTA-samtökin, kljúfa þau í tvennt. Það er mjög athyglisvert, að einmitt í þessari viku er það haft eftir forsrh. Finnlands, að hann leggi höfuðáherzlu á að koma þessari Norðurlandasamvinnu á — NORDEK — til að halda því, sem áunnizt hafi með EFTA, til þess að EFTA geti haldið sínu samstarfi ótruflað, hvað sem verði um þátttöku sumra aðildarríkjanna í öðrum samtökum. Þetta er hans skilningur á því viðfangsefni.

Við komumst ekki hjá því að gera okkur grein fyrir þýðingu þessara alþjóðlegu samtaka fyrir okkur, þegar til lengdar lætur, ef við ætlum og reynum að tryggja hér öruggara og betra atvinnulíf en við höfum átt við að búa áður. Íslendingar eru ekki fremur í þessu en öðru undantekning frá því, sem hvarvetna á sér stað.

Ég vildi einnig minnast á það, sem stundum er sagt, að þegar ríkið hafi með ráðstöfun eins og gengislækkuninni miðað að því að skerða hlut annarra, gæti þess ekki nóg í þess eigin aðgerðum og framkvæmdum. Skattar séu ekki lækkaðir, hvorki beinir né tollar, og kröfur ríkisins á hendur almenningi haldist hinar sömu og áður. Að þessu var vikið í þeirri grg., sem ég las upp áðan. Það er rétt, að hin svokallaða samneyzla, þ. e. a. s. framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga hafa vaxið lítillega, þó ekki hlutfallslega eins mikið og áður, þegar framkvæmdir annarra aðila hafa minnkað. Þetta kann að koma kynlega fyrir og er þess vert, að um það sé rætt frekara en oft vill verða nú hafa að vísu víðtækar ráðstafanir verið gerðar til þess, bæði í fyrra og nú, að draga úrþenslunni, þannig að hún er eins og ég sagði, ekki eins ör og áður. En engu að síður er þarna haldið áfram miklum framkvæmdum. En mundu borgararnir sætta sig við það og una því, að dregið væri úr ráðstöfunum til aukningar heilbrigðis, til löggæzlu, til samgöngumála, til skóla og menningar fyrr en í síðustu lög? Mundu menn ekki þvert á móti segja, að ríkinu bæri skylda til á samdráttartímum að reyna að halda sem flestum í sinni þjónustu, að auka ekki með beinum uppsögnum á mannafla á hóp atvinnuleysingja? Ég hygg, að flestir átti sig á þessu, þegar þeir skoða málið. Ríkið stendur fyrir þeim grundvallarframkvæmdum og fullnægir þeim frumkröfum þjóðfélagsins, sem eru miklu síður sveigjanlegar en þær kröfur, sem hver einstaklingur gerir sér til handa. Þess vegna mundi það hafa ósegjanlegar afleiðingar og verða til að auka á vandræði, ef harkalega væri dregið úr framkvæmdum hjá ríkinu eða samdráttur ætti sér stað í þeirri lífsnauðsynlegu starfsemi, sem það annast sannast að segja oft við ótrúlega erfið skilyrði og frumstæð, miðað við það, sem víða annars staðar er, — en menn láta sér hér þó nægja vegna þess, að þeir skilja okkar sérstöðu í þessum efnum.

Nú er það ljóst, að gengislækkunin, sem nú þegar hefur skapað sjávarútvegi, iðnaði og ýmissi annarri þjónustustarfsemi, svo sem flugfélögum vegna aukinna mannflutninga og þjónustu innanlands og eins gistihúsarekstri, möguleika, sem þessir aðilar hafa ekki haft um langt bil áður, — þessi ráðstöfun getur orðið gagnslaus, ef menn kunna sér ekki hóf, ef menn gera sér ekki grein fyrir því, að ráðstöfunin er gerð vegna þess, að þjóðarheildin hefur minna fé handa á milli en áður var. Þess vegna er það þýðingarlaust og bitnar á mönnum sjálfum, áður en yfir lýkur, ef hver og einn segir: Ég vil hafa jafngóð kjör og þau voru bezt, þegar bezt lét í þjóðfélaginu. Ég uni engri kjaraskerðingu frá því, sem þá var. Erfiðleikar okkar núna eru ekki meiri en svo, eins og sagt hefur verið af sumum hv. stjórnarandstæðingum, að þjóðartekjur okkar eru núna sambærilegar við það, jafnvel eftir áföll tveggja ára, sem þær voru fyrir 6–7 árum. — En skerðingin, sem menn þurfa að taka á sig til þess að sleppa úr þessum vandræðum, er þá heldur ekki meiri en svo, að sætti menn sig við svipuð og þó vonandi ívið betri kjör en þjóðin hafði á þessum árum, ef menn vilja taka afleiðingunum af skerðingunni, þá er vandinn leystur.

Einmitt vegna þess að atvinnuvegirnir hafa jafnóðum látið allan almenning, launþega og aðra, njóta góðs af þeim auknu tekjum, sem þeir fluttu í þjóðarbúið, þá verður almenningur að taka á sig sams konar eða svipaða skerðingu eins og atvinnuvegirnir í heild þannig að menn geri sér grein fyrir, að með svipuðum hætti eins og þjóðarframleiðslan, þjóðartekjurnar á mann eru nú svipaðar því, sem var á árunum 1962, 1963, þá mundi allur okkar vandi leystur, ef menn, hver og einn, una við svipaðan hlut og menn þá höfðu. Og það er síður en svo, að sá hlutur sé í eðli sínu smár. Þrátt fyrir það mundi Ísland vera í hópi þeirra landa, sem geta boðið sínum þegnum einna bezt lífskjör. Við mundum ekki vera jafnframarlega í hópnum eins og við vorum á árunum 1965 og 1966 og framan af 1967. Það er rétt, en við mundum vera meðal þeirra þjóða, sem við bezt lífskjör eiga að búa.

Meðan við búum við þær sveiflur í atvinnulífi, sem við gerum, verðum við að vera reiðubúnir til þess að taka á okkur óþægindin af þeim sveiflum, og fátt er í raun og veru fráleitara en þegar sumir segja: Þetta kemur af því, að við treystum of mikið á síldarævintýrið og annað slíkt, — eins og þjóðin væri nú betur á vegi stödd, ef hún hefði ekki ausið upp úr þeirri miklu auðsuppsprettu sem gert var á þessum árum. Nei, einmitt á þessum árum öðluðust margir ýmisleg tæki og þægindi, sem þeir halda áfram að njóta og eru þess vegna miklu betur undir erfiðleikana búnir nú en áður var, ef menn fást til þess að skoða þetta eins og það er í raun og veru. Hitt skulum við svo játa, að það er alltaf erfitt að sætta sig við það að fá minna í hlut en áður var. En hvort sem mönnum þykir það erfitt eða erfitt ekki, þá er það óhjákvæmileg staðreynd, að svo verða menn að gera. Spurningin er sú: Vilja menn gera það á þann veg, að allt lendi í upplausn og vandræðum, eða vilja þeir gera það af forsjá og hyggindum, þannig að við getum sem fyrst komizt úr þeim erfiðleikum, sem við nú erum í, og sótt fram til betri og blómlegri tíma.