25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

Efnahagsmál

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það hefur oft heyrzt í vetur og raunar undanfarna vetur af vörum stjórnarandstæðinga, að þeir telji, að ráðherrar láti sig oft vanta á þingfundi, og þeir hafi þess vegna þurft eða talið sig þurfa að fresta ræðum sínum eða staðið þegjandi hér í pontunni, á meðan leitað hefur verið að ráðherrum. En þess á milli hafa þeir talið, að allir þeir, sem skipuðu ríkisstj., væru menn, sem ættu fyrir löngu að vera búnir að segja af sér. En mörgum þeirra verður það á, að þeir geta alls ekki flutt ræðu nema hafa ráðh. viðstadda. Ég fyrir mitt leyti ætla að segja hér nokkur orð og verða við tilmælum hæstv. forseta að reyna að vera stuttorður og get flutt mitt mál, þó að enginn ráðh. sé viðstaddur. En hins vegar finnst mér það afar leiðinlegt, sérstaklega fyrir stjórnarandstöðuna, sem hefur svo mjög kvartað undan, hvað ráðh. vanti á fundi og þm. stjórnarliðsins sæki slíka fundi illa, en nú er aðeins mætt hér frá Alþb. 10% af þm., en þá á ég auðvitað við Alþb. eins og það var eftir síðustu kosningar. Og af Framsfl., stærri stjórnarandstöðuflokknum, hafa til skamms tíma verið inni 11%, en nú bættist þeim góður liðsauki, þar sem er hv. 5. þm. Norðurl. v.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa gert hér efnahagsmálin mjög að umræðuefni eftir skýrslu hæstv. forsrh., og ekki er það nema eðlilegt, að efnahagsmál séu mikið rædd og atvinnumálin. Þeir hafa flutt sitt mál auðvitað með misjöfnum hætti eins og gengur og gerist. Það hafa verið misjafnlega sanngjarnar ræður og margt verið sett út á, sem hefur gerzt í efnahagsmálunum. Mér finnst því ekki úr vegi að minnast stuttlega þess út af þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið frá hv. stjórnarandstæðingum, að þeir telja, að það vanti meira skipulag til atvinnuuppbyggingar í landinu, það þurfi að skipuleggja betur, hvernig fjármagni er varið til atvinnuuppbyggingar. Þegar efnahagslögin voru sett 1960 og brotið var blað í efnahagsmálum þjóðarinnar, voru þessir flokkar báðir á móti því, sem þá gerðist og var að gerast, og einn mesti reiknimeistari Framsfl. bæði fyrr og síðar komst að þeirri niðurstöðu, að með setningu efnahagslaganna mundi verða hér mjög mikið atvinnuleysi innan fárra mánaða. Það mundi byrja á því, að öll aukavinna vinnandi manna mundi hverfa, og höfuðpostuli kommúnistanna, sem nú er horfinn af þingi, taldi, að það mundi verða algert atvinnuleysi á þremur mánuðum.

Reynslan varð önnur. Hér var atvinna mikil, og það var mikil uppbygging í atvinnulífi landsmanna á þessum árum, og það var gert það mikið, að það varð fljótt skortur á vinnuafli, en það hefur líka sína geigvænlegu hættu, þegar skortur er á vinnuafli. Þá byrja yfirborganir og hver fer að bjóða upp fyrir öðrum. Hvernig vildu stjórnarandstæðingar bregðast við þessari þenslu, hvernig vildu þeir verja þeim ágóða, sem þá var af atvinnulífinu? Vildu þeir safna til mögru áranna á þeim tíma? Ég held ekki. Ég held, að ég sé ekki á nokkurn hátt að skrökva á þessa hv. þm. stjórnarandstöðunnar, þó að ég segi það, að þeir undir öllum kringumstæðum og hvenær sem er, bæði utan þings og innan, vildu alltaf auka á þessa spennu. Þeir hafa öll þessi ár flutt till. um aukin útgjöld úr ríkissjóði. Þeir hafa talið á öllum þessum árum, þegar atvinna var það mikil, að það var skortur á vinnuafli, að ríkisvaldið legði aldrei nóg fjármagn til hinna ýmsu framkvæmda og heimtuðu alltaf meiri framkvæmdir á þessum árum, og ég minnist þess, að þau fáu ár, sem ég hef átt sæti á Alþingi, þá hef ég heyrt þennan söng við afgreiðslu fjárl. og í hvert skipti, sem rætt hefur verið um efnahagsmálin. Hvernig voru viðbrögð stjórnarandstöðunnar, þegar gerðar voru kröfur um hækkað kaupgjald á þessum tíma? Sögðu þeir: Nei, fólkið hefur ágæt lífskjör, við skulum reyna að halda kaupgjaldi í skefjum og geyma aftur til mögru áranna, fyrst það gengur svo vel allt nú? Nei, þeir hafa tekið undir hverja kauphækkun og hverja hækkun, sem hefur orðið í þjóðfélaginu, og alltaf talið, að ríkisstj. á þessum árum hafi verið íhaldssöm að vilja ekki ganga lengra til þess að eyða öllu jafnóðum. Það, sem þó var til, þegar ógæfan dundi yfir og verðfall varð og samdráttur í framleiðslunni, var þó fyrir það, að ríkisstj. hamlaði á móti kröfum stjórnarandstöðunnar, og ástandið væri ólíkt verra í dag, ef núv. þingmeirihl. hefði orðið við þeim kröfum, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa alltaf haft uppi á þessum tíma.

Fulltrúi Alþb., sem hér talaði í dag, sagði, að það hefði átt að byggja upp iðnað, spara innflutning á vörum og annað eftir þeim götunum. Það átti auðvitað að færa skipabyggingarnar allar inn í landið. Ég segi: Hvar var vinnuaflið til þess að stunda þessi störf á þessum árum? Það var ekki fyrir hendi. Hver starfandi hönd í þessu þjóðfélagi hafði nóga vinnu, og þegar hv. stjórnarandstæðingar voru komnir yfir það, að það yrði atvinnuleysi eftir setningu efnahagslaganna 1960, þá hófu þeir sönginn á því, að það væri verið að þræla þjóðinni út með allt of mikilli vinnu. Hvernig hafa viðbrögð stjórnarandstöðunnar verið í því að auka fjölbreytni atvinnulífsins? Hvernig voru viðbrögð stjórnarandstöðunnar, þegar stærsta atvinnumál, sem hefur borið hér á góma á Alþ. var hér til umr. og afgreiðslu, bygging álverksmiðjunnar í Straumsvík? Hvernig féllu atkv. stjórnarandstöðunnar þá? Væri það ekki til þess að bæta ástandið, ef ríkisstj. hefði farið að ráðum stjórnarandstöðunnar og beðið í allmörg ár enn að hefja stóriðju á Íslandi? Væru þá ekki færri atvinnulausir en nú eru í Hafnarfirði og annars staðar, eins og nefnt var hér áðan, ef við hefðum farið að ráðum stjórnarandstöðunnar? Nei, sem betur fór gerði ríkisstj. það ekki. Fólki var stefnt hér á pallana af málgögnum stjórnarandstöðunnar til þess að mótmæla því að fara út í byggingu álbræðslunnar í Straumsvík og hefja stóriðju á Íslandi. Það mistókst. Þjóðin stóð með stjórninni í þessu máli. Nú vilja hv. stjórnarandstæðingar ekkert á þetta mál minnast. Nei, ég fullyrði það, að ástandið væri mun verra, ef það hefði verið farið að ráðum hv. stjórnarandstöðu, eins og hún hefur túlkað málin hér á Alþ. á undanförnum árum.

Það hefur verið geigvænleg hræðsla við erlent fjármagn, sem hefur komið fram í ræðum margra hv. stjórnarandstæðinga. Ég fagna því, að einn þm. Framsfl., hv. 1. þm. Norðurl. e., sagði hér í sinni jómfrúrræðu í dag, að Framsfl. væri ekkert hræddur við það að taka við erlendu fjármagni til skynsamlegrar atvinnuuppbyggingar, og ég fagna því, ef skoðun þessa þm., sem flutti sitt mál hér mjög prúðmannlega, ef hún nú er loks orðin ofan á í Framsfl.

Undanfarin tvö ár hafa stjórnarandstæðingar ekki átt nógu sterk orð til þess að lýsa erfiðleikum framleiðsluatvinnuveganna. En með þeim efnahagsaðgerðum, sem gerðar voru í nóvember s. l., voru sumir þeirra fljótir að snúa við blaðinu. Þá var allt talið eftir, sem útgerðin fékk með þeim aðgerðum, sem áður, á meðan hún var í mestum erfiðleikum, var talið, að þyrfti að bæta, og þá var sagt, að nú hefði sjómaðurinn of lítið. Það má alltaf og í það óendanlega reyna að skara eld að glóðum óánægjunnar en við verðum að sætta okkur við það, að góðu árin, sem við lifðum, eru búin í bili. Við höfum orðið fyrir það þungum áföllum, að útflutningsverðmæti þjóðarinnar, sem var rúmir 6 milljarðar kr. á árinu 1966, lækkaði niður í 3.6 milljarða kr. á árinu 1967 miðað við sama gengi. Það hlýtur hver heilvita maður að skilja, hvar sem hann er í flokki, að þjóð, sem verður fyrir jafn þungu áfalli getur ekki lifað við sömu lífskjör og áður var. Hvar eru þeir í þessu þjóðfélagi, sem geta brúað það bil, að þjóðin geti, á meðan hún er að komast yfir þessa erfiðleika, lifað við sömu lífskjör.

Hv. 4. þm. Austf. sagði hér við þessar umr. um skýrsluna í efnahagsmálum, að ríkisstj. hefði gert allt fyrir verzlunina, og þar væri sem sagt gróðinn og þar væri fjármagnið. Nú spyr ég fulltrúa hins stjórnarandstöðuflokksins, fulltrúa Framsfl., að því, hvort þeir telji, að samvinnuverzlunin, félagsverzlunin í landinu, sem þarf að byggja sinn rekstur á aðkeyptu vinnuafli, telji sig hafa það of gott nú á undanförnum árum og hafi það enn. Ég hef heyrt annað úr þeim herbúðum, og ég get vel skilið það, að það sé borið sig illa þar. Þess vegna eru þetta ómakleg ummæli frá hv. 4. þm. Austf.

Við verðum auðvitað að taka á okkur þessa erfiðleika, þjóðfélagið í heild, og við skulum líka gera okkur það ljóst, að efnahagsstefna, sem ein ríkisstj. markar, er ekki efnahagsstefna, sem hvorki sést á blettur né hrukka, þegar árin líða. Það verður að endurskoða bæði þessa stefnu og aðrar. Það verður að taka tillit til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Það verður að taka tillit til þeirra áfalla, sem þjóðin hefur orðið fyrir og enginn maður ræður við. Þetta veit ég, að allir greindari menn úr hópi stjórnarandstæðinga skilja vel og hafa ekki síður skilning á en við úr liði stjórnarinnar. Hv. stjórnarandstæðingar hafa bent á ýmislegt, sem ég skal fúslega játa, að megi betur fara. En við erum aðeins mannlegir menn, sem þurfum auðvitað að læra af reynslunni, bæta það, sem miður fer á hverjum tíma.

Það hefur verið mikið talað í þessum umr. um útþensluna í þjónustukerfinu. Vissulega má það til sanns vegar færa. Fulltrúi frá Alþb. og annar frá Framsfl. talaði um það hér í dag, hvað bankarnir væru margir í landinu og útþensluna í bankakerfinu og taldi, að það væri engin þörf fyrir alla þessa banka. Þetta má vel vera rétt. Barðist Framsfl. á móti því að gera Samvinnusparisjóðinn að Samvinnubanka? Ætlar Alþb. að berjast gegn því, að Sparisjóður alþýðu verði gerður að banka, sem nú er verið að fara fram á? Það væri fróðlegt að fá svör við þessu.

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum Íslendingi, að einn af þeim þm. Framsfl., sem nú lætur mest á sér bera í þingsölum og er sennilega einn mesti hagfræðingur flokksins, var kjörinn í bankaráð Búnaðarbankans fyrir jólin. Og hann taldi hér í ræðu í dag, að það ætti að fækka stórlega starfsfólki bankanna. Ég hefði nú ekki trúað því, að þessi kjarkmikli maður, sem skoraði í gær landbrh. á hólm og endaði ræðu sína á séra Sigvalda, en í því sambandi minnti hann mig sérstaklega á Jón sterka úr Skugga-Sveini, hann mundi láta sig vanta hér í umr. í kvöld, sérstaklega eftir þá gagnrýni, sem hann hefur viðhaft, að menn hlusti ekki á umr. hér í Alþingi. Ég hefði viljað spyrja þennan bankaráðsmann að því, hvað hann hafi lagt til í bankaráði Búnaðarbankans að segja upp mörgum starfsmönnum. Það hefði verið fróðlegt fyrir okkur, þessa illa upplýstu þm., sem ekki eigum nein sæti í bankaráðum, — þótt ýmsir komist þar að, eru þeir þó fleiri, sem ekki eru í bankaráðum — að fá upplýsingar um það, hvað þessir menn, sem telja, að megi þarna færa verulega saman, hvað þeir hafi sjálfir lagt til málanna.

Ég hét því hér í byrjun minnar ræðu, að ég skyldi ekki verða langorður. En þó vil ég ekki skilja hér við þessa ræðu án þess að minnast aðeins á það, að með þeim efnahagsaðgerðum, sem voru gerðar í nóvember s. l., tel ég, að stigið hafi verið stórt spor í þá átt að koma útflutningsatvinnuvegunum aftur á réttan grundvöll, og allt byggist nú á því, að við kunnum að haga okkar seglum eftir vindi, þannig að það þurfi ekki að grípa árlega til gengisfellinga. Þess vegna verðum við, meðan ekki kemur meiri afli á land og meðan verðmætið er ekki meira, sem þessi þjóð skapar, verðum við auðvitað að leggja hart að okkur í bili. Ég er ekkert hræddur um það, að þetta ástand eigi ekki eftir að batna verulega.

Ég vil ekki flytja ræðu eins og einn þm. Framsfl., sem talaði hér í dag og hefur raunar oftar talað, 5. þm. Norðurl. e., því að í hvert skipti, sem ég heyri hann flytja ræðu, er eins og það sé komið myrkur um miðjan dag. Hann sér ekki annað en allt sé svart framundan og það sé ekki nokkur leið að bjarga neinu. Hann talar sérstaklega um það, hvað bændur landsins séu illa komnir. Hann lýsir bændastéttinni eins og þeir séu einhverjir fátæklingar. Hvenær hefur verið meiri gróska í landbúnaði en þennan síðasta áratug? Hvenær hefur verið ræktað meira á Íslandi en þennan síðasta áratug? Hvenær hefur verið byggt meira og meira keypt af tækjum? Lífsafkoma fólks hefur aldrei verið betri en á þessum áratug, þó að nú hafi sú stétt auðvitað sem aðrar orðið fyrir þungum áföllum.

Ég sagði hér áðan, að ég tel, að við þurfum að læra af reynslunni. Við þurfum að haga okkar efnahagsmálum og atvinnuuppbyggingu þannig, að við eigum auðvitað að skipuleggja miklu meir en við höfum gert uppbyggingu bæði fiskiskipaflotans og fiskiðnaðarins, það skal ég fúslega játa. En hver mælti gegn þeirri uppbyggingu, sem hefur átt sér stað í hinum ýmsu greinum? Þá voru allir blindaðir af því, þegar síldin var mest, að alls staðar þyrfti að byggja síldarverksmiðjur. En það er ekki hægt að byggja eða gera alla hluti í einu. Það hefur komið fyrir okkur sem þjóð, hvar sem við erum í stjórnmálaflokki, að líta á stundarhag, líta á það, sem er bezt hverju sinni, en ekki að reyna, eins og haganlegast er, að auka sem mest fjölbreytni útflutningsframleiðslunnar. Og með því að skrá krónuna réttu verði þá ýtum við auðvitað undir það, að atvinnulífið verður með eðlilegum hætti. Nú er hægt fyrir nýjar greinar að hefja útflutning, en undir uppbótaleiðinni hefði slíkt verið ólíkt verra og hefði miklu frekar aukið á vantrú manna að fara út í nýjar greinar, ef sú stefna hefði verið tekin upp. Ég tel, að við eigum að auka útflutning framleiðsluatvinnuveganna eins og þegar er stefnt að að gera og margoft hefur verið rætt. Nú hefur atvinna minnkað það verulega hér í landinu, að nú eru fyrst tök á því að hefja marga þá framleiðslu innanlands, sem ekki voru tök á, meðan barizt var um hverja vinnandi hönd í landinu að fá hana til vinnu. Þessar aðstæður eru allar að breytast. Ríkisstj. og þingmeirihl. hennar hefur fullan skilning á því að laga sig eftir breyttum aðstæðum, og ég efast ekki um það, að allir greindari og sanngjarnari stjórnarandstæðingar vilja vinna og stefna að sama marki.