20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. fyrir þessi svör og þessar upplýsingar. Sé það rétt, sem hann upplýsti, að öll Norðurlöndin hefðu fellt niður gjaldeyrisviðskipti hjá sér, þá má sjálfsagt telja þessa ráðstöfun, sem hér hefur verið gerð, eðlilega eftir atvikum. Ég hafði nú ekki heyrt það áður, að öll Norðurlöndin hefðu gert þetta. Ég hafði heyrt eitthvað um Danmörku og Noreg. En hæstv. ráðh. upplýsir, að Svíþjóð og Finnland fari þar með. Hins vegar gat hæstv. ráðh. ekki gert mikla grein fyrir því, hvað væri að gerast, sem varla var kannske heldur að búast við. Hann lét þess þó getið, að það væri augljóst, að það væri ekkert vit í því að vera að verzla með gjaldeyri, sem enginn vissi, hvað gilti. Þetta segir náttúrlega sína sögu. Að sjálfsögðu er það augljóst mál, að það, sem gerist í þessum efnum á næstunni í helztu viðskiptalöndum okkar, getur haft mikla þýðingu hér. Auðvitað höfum við allir okkar frómu óskir, en óskirnar virðast nú duga lítið í þessu sambandi. Ekki get ég nú verið hæstv. ráðh. öldungis sammála um það, að enginn mannlegur máttur hafi mátt sjá, til hverra tíðinda mundi draga, vegna þess að undanfarna daga og jafnvel lengur heldur en undanfarna daga hefur verið sterkur orðrómur, eins og allir þekkja, um það, að breytingar mundu verða gerðar á gildi frankans. Að vísu hafa frönsk stjórnarvöld borið á móti því, en það þekkja nú allir, að það er ekki alltaf mikið leggjandi upp úr því, hvað viðkomandi stjórnarvöld segja um það efni, þannig að ég held, að það sé of sterkt að orði kveðið hjá hæstv. ráðh., að það hafi enginn mannlegur máttur mátt gera ráð fyrir þessu, þó að auðvitað hafi enginn getað séð það fyrir, að þetta mundi skella yfir akkúrat í dag. En ég ætla ekkert að fara að krefja hæstv. ráðh. frekari sagna um það, hvað hér mundi gerast eða hverra tíðinda hér mundi að vænta, ef svo færi, að frankinn yrði felldur og fall hans hefði áhrif á gengi pundsins.

Ég get alveg fallizt á það sjónarmið, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að það geti verið eðlilegt, þegar svona stendur á, að loka gjaldeyrisviðskiptum til þess að koma í veg fyrir spákaupmennsku og annað verra. Og ég get meira að segja bætt því við, að ég held, að það hefði verið full ástæða til þess að grípa til þvílíkra ráðstafana oftar. Ég býst t. d. við því, að það hefði ekki sakað að grípa til þess að loka gjaldeyrisviðskiptum hér um skeið, áður en gengisfellingin var ákveðin. En um það ætla ég nú ekki að fara að deila nú. Það gefst tækifæri til þess síðar. En ég vil aðeins segja það, að þó að það megi segja eins og hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekkert samband á milli þessara atburða, sem nú eru að gerast, og gengisfellingarinnar, sem gerð var hér u. þ. b. fyrir 1½ viku, þá stendur það óhaggað, sem ég sagði, að þá þóttu ein ósköp við liggja, að gjaldeyrisbankarnir væru ekki lokaðir nema einn einasta dag. Það þótti svo mikið við liggja, að þörf var talin á næturfundi og ástæða til að knýja málið fram, án þess að nokkur venjuleg, þingleg athugun gæti þá farið fram á því. En ég dreg þá ályktun af því, sem einmitt nú kemur fram, að það veltir hlutunum ekkert á annan endann, þó að gjaldeyrisviðskiptum sé lokað 1, 2 eða 3 daga, og það eitt út af fyrir sig setur traust landsins út á við ekki í neina hættu. Þess vegna tel ég einmitt með þessum atburði sannað, það sem ég vissi alltaf, að var rétt, að það var engin þörf á því að fá það mál afgreitt samdægurs.