05.11.1968
Neðri deild: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2554)

28. mál, vinnuvernd

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil við 1. umr. þessa frv., sem er um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar, láta koma fram nokkrar athugasemdir.

Ég ætla ekki að ræða efnislega málið mikið og tel, að ýmislegt af þeim ábendingum, sem fram koma í þessu frv., séu athyglisverðar. En ég vil sérstaklega minna á, hvernig l. um atvinnuleysistryggingasjóð eru til orðin. Um atvinnuleysistryggingasjóðinn var samið sem lausn í verkföllunum miklu 1955. Það verkfall var eitt harðasta og víðtækasta verkfall, sem hér hefur verið háð, og stóð, ef ég man rétt, í 6 vikur. Þetta verkfall var ákaflega erfitt úrlausnar. Samningarnir um atvinnuleysistryggingasjóðinn voru afgerandi þáttur í lausn þessa verkfalls. Þá var ekki aðeins samið um það, að stofna skyldi atvinnuleysistryggingasjóðinn, heldur einnig samið um grundvallaratriði, sem sjóðurinn skyldi byggður á. Þessi grundvallaratriði voru síðan lögfest hér á hv. Alþingi skv. frv., sem þáv. ríkisstj. flutti. Í þessum grundvallarsamningi, sem ávallt síðan hefur verið nefndur stjórnarskrá sjóðsins, fólst samkomulag um lausn margra einkar viðkvæmra atriða, — og ég vil undirstrika, það var samkomulag um lausn þessara atriða.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, stefnir að breytingum á nokkrum af veigamestu atriðum þessa grundvallarsamkomulags frá 1955. Við lausn verkfallsins 1955 starfaði sáttanefnd, skipuð af ríkisstjórn, einn þessara sáttanefndarmanna er hér á Alþingi nú, hæstv. utanrrh., hann hefur nokkrum sinnum verið talinn faðir þessarar lausnar á verkfallinu 1955. Ég álít, að ég rýri hvorki hans mikilvæga starf þá né annarra sáttanefndarmanna, þó að ég segi, að ég telji það of mikið sagt, að hann væri faðir þessarar lausnar, atvinnuleysistryggingasjóðsins, en ég hygg, að bæði hann og aðrir sáttanefndarmenn gætu verið mér sammála um tvennt: Í fyrsta lagi, að það var ekki auðunnið verk að koma saman samkomulaginu um atvinnuleysistryggingasjóðinn 1955. Og í öðru lagi, að verkfallið þá hefði ekki leystst á grundvelli þess kaupgjalds, sem þá var samið um, ef ekki hefði komið til samningurinn um atvinnuleysistryggingasjóðinn. Þetta vil ég, að menn hafi í huga, þegar rætt er um breytingar á þessum lögum.

Ég vil þá nefna aðeins helztu atriðin í samkomulaginu 1955, sem nú er lagt til að breytist með þessu frv.

Það er í fyrsta lagi í 1. gr., þá er lagt til, að sérreikningar verkalýðsfélaganna falli niður.

Í öðru lagi er í 2. gr. frv. gert ráð fyrir gjörbreytingu á skipan sjóðsstjórnar.

Í þriðja lagi eru í 4. gr. frv. gerðar verulegar breytingar á upphæð iðgjalda.

Og í fjórða lagi eru í 9. gr. breyttar reglur um úthlutunarnefndir og greiðslu bótafjár.

Ég skal ekki ræða mikið hvern þessara efnisliða út af fyrir sig. Ég vil segja það um 1. liðinn, sérreikningana, að þeir hafa lengi verið þyrnir í augum margra og einkum embættismannanna, sem vinna þetta starf. Það hefur fyrir löngu legið fyrir í raun og veru samkomulag um að gera þetta ákaflega einfalt, og væri þá ekki neitt aukastarf fyrir skattstofur eða aðra, eins og hv. flm. taldi að þetta væri nú. Sannleikurinn er sá, að þetta hefur ekki verið framkvæmt nema að litlu leyti, en væri í rauninni ákaflega auðvelt í framkvæmd. Ég ætla ekki að fara að tíunda þær hugmyndir, sem liggja til grundvallar, en þær liggja fyrir frá stjórnskipaðri nefnd, sem endurskoðaði lögin nú fyrir nokkrum árum, en sú endurskoðun fór aldrei lengra en á borð ráðherranna.

Í öðru lagi er svo gjörbreyting á skipan sjóðsstjórnarinnar. Það mætti segja kannske, að það sæti ekki á mér að hafa á móti þeirri skipan sjóðsstjórnar, sem hv. flm. leggur til, en það hefur ævinlega verið afstaða mín í þessum efnum, að ég vil taka tillit til gerðs samkomulags.

Í þriðja lagi er svo um upphæð iðgjaldanna. Þau munu samkv. þessu lækka verulega, ég skal ekki segja um heildargreiðslu, ég skal ekki segja, hvað það vegur á móti, sem hann reiknar með að fleiri verði, sem greiða iðgjöldin. Iðgjald atvinnurekendanna hvers um sig yrði eitthvað, þó lítið lægra en nú er, en hins vegar er framlag sveitarfélaga og ríkissjóðs til muna lækkað. Ég vildi segja það í sem fæstum orðum, að afstaða mín til þessa máls er svipuð og um væri að ræða lækkun á umsömdu kaupgjaldi.

Varðandi úthlutunarnefndirnar vil ég segja það, að ég held, að það sé engin ástæða til að breyta því fyrirkomulagi. Það hefur sýnt sig í framkvæmd að duga sæmilega, og ég efast um, að betra væri það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., og það mundi jafnvel líða lengri tími, að þeir, sem bótanna þurfa að njóta, fengju þær.

En sem sagt, ég ætla ekki að fara frekar inn á efnisatriði þessa frv. Ég tek það aftur fram, að ég tel, að ýmislegt í því sé athygli vert, en vil undirstrika, að hér er um mjög viðkvæm atriði að ræða, sem samningar tókust um á sínum tíma.

Langjákvæðasti hluti þessa frv, að mínu viti er sú breyting, sem gerir ráð fyrir verulegum hækkunum atvinnuleysisbóta og kveður á um aukinn bótarétt. Það er aldeilis rétt, sem hv. flm, segir, að hér er um atriði að ræða, sem er orðið í raun og veru öllum til vansæmdar að skuli standa enn óbreytt. Um þessi atriði voru hér á s. l. vetri í þessari hv. d. fluttar breytingar af hálfu Alþb.-manna, sem fóru mjög í sömu átt og það, sem nú er í þessu frv., þótt það sé nokkuð öðruvísi uppbyggt, en öll aðalatriðin voru þar hin sömu. Það frv. náði ekki afgreiðslu hér í hv. d. En í samningum verkalýðsfélaganna í marzmánuði í vetur, við lausn þeirra samninga var gefið fyrirheit af ríkisstj., að hækkaðar skyldu bætur atvinnuleysistrygginga og bótaréttur aukinn. Loforð á þessu fyrirheiti hafa dregizt úr hömlu, en ég hef ástæðu til að halda, að á því verði nú ekki löng bið, að efndir verði á.

Þegar l. um atvinnuleysistryggingasjóð voru samþ. fyrir um það bil 12 árum, var það ákvæði í l., að þau skyldu endurskoðuð eftir 2 ár í samráði við samningsaðila. Það var sjálfsagt þeim einna ljósast, sem að þessari lagasmíð unnu í upphafi, að þar var ekki við neina reynslu að styðjast, margt í l. gat orkað tvímælis og reynslan yrði að skera úr um, hvernig um hin ýmsu atriði l. færi í framkvæmd. Sem betur fer hefur ekki reynt mikið á þessi lög fyrr en nú alveg á síðustu árum og má segja kannske síðustu mánuðum, fyrst og fremst á síðasta ári og nú á þessu ári. En þá hefur líka komið í ljós margs konar reynsla, og nú tel ég, að það væri mjög nauðsynlegt að taka þessi lög til endurskoðunar. Það hefur að vísu verið einu sinni gert áður. Það má ýmislegt nota af þeim till., sem þá komu fram um breyt. á l., en ýmislegt af því er einnig nú orðið úrelt.

Í stuttu máli vil ég segja það, að ég tel alveg bráðnauðsynlegt að þegar í stað verði gerðar breytingar á bótaupphæðum og bótarétturinn aukinn, einkum með tilliti til tekjuhámarks einstaklinga.

Það er annað vandamál, sem hv. flm. kom hér inn á áðan, það eru tekjur maka. Það er mál, sem þyrfti að íhuga mjög gaumgæfilega og að mínum dómi verður að finna viðunandi lausn á. Og síðan er það ákvæði, sem hann einnig minntist á, að almannatryggingar, einkum ellilaunin, skerði ekki bótarétt úr atvinnuleysistryggingum. Slíkt má ekki viðgangast lengur. Síðan teldi ég, að það ætti nú strax að skipa n. til þess að endurskoða l. á grundvelli þeirrar reynslu, sem fengin er, og sú endurskoðun á að fara fram, eins og segir í l., í samráði við þá samningsaðila, sem hlut áttu að máli, þegar til atvinnuleysistrygginganna var stofnað. En jafnhliða endurskoðun á þessum l. er einnig alveg bráðnauðsynlegt, að fram fari endurskoðun á l. um vinnumiðlun. Þar er um ýmis vandamál að ræða, sem ég ætla ekki að koma hér inn á, en teldi, að væri alveg bráðnauðsynlegt, að héldist í hendur.

Okkur getur greint á um það, hvort það sé rétt, að samningsaðilar á vinnumarkaðinum semji um löggjafaratriði eins og þau, sem hér um ræðir. Um það geta verið skiptar skoðanir. En þetta hefur engu að síður verið gert, og þá má ekki gleyma við breytingar á slíkri löggjöf, hvernig hún er til komin, því að þá gætu ýmis slys hent. Þetta vildi ég sem sagt láta fram koma við þessa umr. í Nd.