11.02.1969
Neðri deild: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (2641)

90. mál, greiðslufrestur á skuldum bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði haldið, að þetta frv. væri að mestu leyti útrætt fyrir jólin. En hv. 2. þm. Sunnl. hefur nú samið ræðu í þinghléinu og flutt hér, sem við höfum heyrt. Ég er ekki að segja, að hann hafi verið sérstaklega lengi að semja þessa ræðu, en í þinghléinu hefur hún orðið til. Og hv. þm. er meðflm. að þessu frv., og þess vegna er ekkert óeðlilegt, þó að hann láti eitthvað í sér heyra. Og sannleikurinn er sá, að mér finnst nú vera ráðin að nokkru leyti gátan um það, hvers vegna hv. 1. flm. var ekki kosinn í bankaráð Búnaðarbankans. Ég gæti trúað því, að ýmsir hv. flokksbræður þeirra flm. að þessu frv. hafi álitið, að það væri ekki kannske alveg full ábyrgð, sem þessir menn bæru á gerðum sínum, að bera það fram og vilja lögfesta það, að bændur og vinnslustöðvar landbúnaðarafurða skuli hafa greiðslufrest til 1. maí 1969 á öllum afborgunum og vöxtum af þeim skuldum, sem þessir aðilar hafa stofnað til fyrir 1. sept. 1968 vegna framkvæmda eða framleiðslu og vinnslu landbúnaðarafurða. Það er nú alveg ljóst, hvað hefði orðið um stofnlánadeildina, ef þetta hefði verið lögfest um það leyti, sem frv. var flutt. Það hefði vitanlega verið grafið algerlega undan henni og komið í veg fyrir það, að hún gæti starfað áfram, nema þá hún fengi fjármagn annars staðar frá, t. d. frá ríkissjóði. En ekki fluttu þessir hv. flm. till. við fjárl. um það að taka á ríkissjóð nokkra tugi millj. kr. til handa stofnlánadeildinni, sem hún hefði orðið af, ef þetta frv, hefði orðið að lögum.

Hv. 2. þm. Sunnl. gerði mikið úr því, hvað greiðsluerfiðleikar bænda væru alvarlegir nú, að þeir gætu ekki staðið í skilum með skuldbindingar sínar, og það væri þeim raun. Það er rétt. Það er nokkur hluti bænda, sem á í erfiðleikum. En það eru betri skil hjá stofnlánadeild landbúnaðarins á árinu 1968 heldur en áður. Það er minna ógreitt við síðustu áramót hjá stofnlánadeildinni heldur en áður. Og það staðfestir ekki þá staðhæfingu, sem hér var viðhöfð áðan. Það nálgast það að vera ekki heiðarlegur málflutningur hjá hv. 2. þm. Sunnl. En hann var viðkvæmur fyrir því í byrjun sinnar ræðu, að ég hafði fullyrt, að hv. 1. flm. þessa frv. hefði ekki haft heiðarlegan málflutning í frammi, þegar hann flutti framsöguræðu sína hér í þessu máli. Ég leyfði mér að kalla það óheiðarlegan málflutning, þegar hann fullyrti t. d., að það hefði ávallt verið stefna núv. ríkisstj. að draga úr framleiðslunni, að fækka bændum og jafnvel mátti lesa það á milli orðanna, að það hefði verið stefna ríkisstj. að búa illa að bændum. Það er vitanlega ekki rétt, þar sem hv. 1. flm. þessa frv. er ekki hér viðstaddur nú, að fara mörgum orðum um þetta, en það er hægt að lesa ræðu hv. þm. hér í þingtíðindunum, og þá geta menn áttað sig á því, hvort málflutningurinn hefur verið heiðarlegur og hvort það var viðeigandi hjá mér að viðhafa þau orð, sem ég hafði um þessa ræðu.

Það er dálítið merkilegt, að hv. 2. þm. Sunnl. skuli jafnvel taka undir það, að það hafi verið og sé stefna núv. ríkisstj. að draga úr búvöruframleiðslunni, þrátt fyrir allar tölur og opinberar skýrslur, sem vitna algerlega gegn þessu öllu saman. Þetta nálgast að vera það, sem er ekki svaravert. Og sérstaklega er þetta vítavert af bónda á Suðurlandi, sem hefur séð fyrir augum sér undanfarin ár vöxt í búskap bænda á Suðurlandi og vaxandi uppbyggingu hjá þeim á flestum sviðum. Og mér þótti vænt um það, að hv. ræðumaður vitnaði hér í eitt blómlegt byggðarlag á Suðurlandi, Hrunamannahrepp. Þar væri þéttbýli. Þar væri blómlegur hagur bænda almennt. En hv. þm. hefði getað nefnt fleiri sveitarfélög, sem slíkt má segja um á Suðurlandi, sem betur fer. Þar er víða þéttbýli, og það hefði verið eðlilegt, að hv. þm., þegar hann var að tala um eyðijarðirnar og eymdina, sem núv. ríkisstj. hafi leitt yfir bændastéttina, að hann hefði minnzt á einhverjar jarðir á Suðurlandi, sem væru að fara í eyði. Hvaða jarðir eru það á Suðurlandi núna, sem eru að fara í eyði? Hvaða jarðir eru það, sem eru að losna úr ábúð? Mér þætti fróðlegt að heyra eitthvað um það. En ég veit það, að jarðeignadeild ríkisins veit ekki af mörgum jörðum, sem losna úr ábúð á næstu fardögum. Hitt er rétt, að á undanförnum árum hafa ýmsar smájarðir losnað úr ábúð og verið lagðar undir önnur býli og eitt býli gert byggilegt úr tveimur litlum jörðum. Og þetta á enn eftir að ske. Það eiga enn eftir að fara í eyði nokkrar jarðir. Og það er ekkert böl. En það er rangt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að með því að reikna með, að 5 hektara tún hefði verið á þessum jörðum, sem hann taldi upp, eitthvað um 500, sem hefðu farið í eyði, þá hefði ræktað land þar með farið í auðn og úr notkun. Það er algerlega rangt. Það er víða á þessum jörðum, sem fólk hefur flutt af, að túnin eru höfð í fullri rækt og eru nytjuð og land þessara jarða, sem hafa verið lagðar undir aðrar jarðir, er að fullu nytjað.

Framleiðslan hefur vaxið, eins og hv. 2. þm. Sunnl. veit, og hún hefur ekki vaxið af því, að ríkisstj. hafi haft á stefnuskrá sinni að draga úr framleiðslunni, heldur vegna þess, að hún hefur stuðlað að því, að þessi vöxtur gæti átt sér stað.

Hv. þm. talaði um, að ég hefði neyðzt til 1962 að flytja frv. til l. um það, að bændur breyti lausaskuldum sínum í föst lán, — ég hefði neyðzt til þess 1962. Þetta frv. gerði ráð fyrir því, að þær skuldir, sem hefðu orðið til fyrir 1961, gætu komizt undir þessa lagaframkvæmd. Það voru skuldir, sem urðu til á árunum 1956, 1957, 1958, 1959 og 1960. Það voru skuldir, sem höfðu orðið til t. d. í tíð vinstri stjórnarinnar. Það er rétt, að áður var ekki hugsað um þetta. Bændur höfðu verið skuldugir undanfarna áratugi, allt frá aldamótum, síðan framkvæmdir byrjuðu, en það hafði ekki verið um það hugsað að gera þeim mögulegt að breyta lausaskuldum í föst lán fyrr en 1962, ef undan eru skilin kreppulánin, en það er nú heldur langsótt að kenna núv. ríkisstj. um það. En 1962 var meginhlutinn af lausaskuldunum frá vinstristjórnarárunum. Nú er fyrirhugað að gera þetta að nýju, og að því hefur verið unnið síðan í ágústmánuði s. l. að safna gögnum og skýrslum um þetta og fá heildarmynd af efnahag bændastéttarinnar og rekstraraðstöðu. Meginhlutinn er nú þegar búinn og gefur glögga mynd af ástandinu, og myndin verður nú miklu fallegri, hún verður miklu betri en sú mynd, sem hv. 2. þm. Sunnl. hefur dregið upp og hann hefur búizt við að sjá, sem betur fer. En ég ætla ekki að fara að vitna í þessa skýrslu enn, vegna þess að hún er ekki alveg tilbúin, en á grundvelli hennar verður lagt fram frv. til þess að gera bændum, sem safnað hafa miklum lausaskuldum, mögulegt að breyta þeim í föst lán. Það tel ég vera eðlilegt og sjálfsagt að gera. Og það þarf ekki að vera vegna þess, að bændastéttin í heild sé illa stödd, að þetta þyki eðlilegt. Við vitum, að fjárfesting og framkvæmdir í landbúnaði hafa verið miklu örari undanfarin ár en nokkurn tíma áður, og það er enginn vafi á því, að það hefur orðið stórkostleg eignaaukning hjá bændum. Það er enginn vafi á því, að margir bændur geta verið í nokkrum greiðsluerfiðleikum, þótt þeir eigi drjúgar eignir. Þótt þeir eigi drjúgar eignir umfram skuldir, geta þeir verið í nokkrum greiðsluerfiðleikum.

Það hefur stundum verið sagt, að lausaskuldirnar hafi safnazt vegna þess, að stofnlánin hafi verið of lítil. Þetta má segja, að sé ástæðan. En það hefur aldrei verið reiknað með því að veita stofnlán úr stofnlánadeildinni til þess t. d. að kaupa bifreið. En nú má segja, að það sé bifreið á hverju heimili og jafnvel tvær. Það hefur aldrei verið reiknað með því, að bændur gætu fengið lán úr stofnlánadeildinni til þess að kaupa húsgögn, heimilistæki, sjónvörp og annað slíkt. En sem betur fer hefur bændastéttin á síðustu árum keypt þessi tæki, húsgögn, heimilistæki, sjónvarp og ýmislegt fleira, sem áður var óþekkt og þótti ekki nauðsynlegt á sveitaheimilum. En það er ánægjulegt, að nú getum við víða komið á sveitaheimili, þar sem enginn munur er á þægindum og þar sem gerist bezt við sjóinn. Við komum inn í ágæt íbúðarhús, vel hirt, þar sem eru húsgögn eins og víða í Reykjavík, þar sem eru heimilistæki til þess að létta störfin og önnur nútímaþægindi. En stofnlánadeildinni var aldrei ætlað að lána til þessara hluta. Og þegar bændur hafa byggt yfir sjálfa sig og heimilisfólkið og búpeninginn vandaðar byggingar, keypt húsgögn, heimilistæki og vélar allar, bifreið og jafnvel bifreiðar og ræktað eins og raun ber vitni, þá er ekkert undarlegt, þó að þetta hafi ekki allt verið borgað, um leið og framkvæmdin átti sér stað. Það er eðlilegt, að það sé talsvert af þessu óborgað, og það er eðlilegt, að það sé talsvert af þessu á víxlum og í lausaskuldum. En það get ég fullyrt, að þær skýrslur, sem nú eru að berast frá þeim mönnum, sem annazt hafa gagnasöfnunina um efnahag bænda, sýna það og sanna, að bændur hafa ekki safnað skuldum vegna neyzluvöru. Skuldirnar eru ekki vegna eyðslu, þær eru ekki vegna þess, að illa hafi verið haldið á eða til óreiðu stofnað. Þær eru vegna framkvæmda og vegna myndarlegs átaks, og það er það ánægjulega. Og þótt sagt sé, að bændur hafi búið við slæm lánskjör, þá er þetta ekki rétt, því að bændur hafa fengið tiltölulega góð lánskjör í stofnlánadeildinni. Þeir hafa ekki tekið gengistryggð lán og orðið fyrir áföllum við gengisbreytinguna. Þeir hafa fengið lán með tiltölulega lágum vöxtum til langs tíma. Hv. 2. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að lánstíminn hefði verið styttur. Þetta er ekki rétt. Hann var aldrei styttur til íbúðarhúsalána, en það stóð í tvö ár, að hann hafði verið styttur um 5 ár til útihúsabygginga og ræktunar. En það er langt síðan þetta var leiðrétt, og lánstíminn er nú sá sami og hann var áður. En það er eins og hv. 2. þm. Sunnl. vilji ekki við þetta kannast eða það hafi farið fram hjá honum, sem ég vil heldur ætla en hann haldi því fram gegn betri vitund. (Forseti: Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geti lokið máli sínu eða vilji fresta ræðu sinni.)

Ég skal verða við beiðni forseta. Ég veit ástæðuna fyrir því, að hann vill ekki halda fundi áfram, og lýk því máli mínu.