24.02.1969
Neðri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

90. mál, greiðslufrestur á skuldum bænda

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Því miður gat ég ekki verið við, þegar framhaldsumr. fóru fram í þessu máli hér í hv. þd. Málið var flutt 18. des. s. l., og er því mál til komið að ljúka þessari umr. og koma því til n. Samt get ég ekki látið hjá líða að taka nokkur atriði úr ræðu hæstv. landbrh. til athugunar, þó að hún gefi ekki tilefni til mikilla andsvara.

Ég tek það ekki nærri mér, þó að hæstv. landbrh. beri mér á brýn vanþekkingu á málum landbúnaðarins. Ég tel hann ekki þess umkominn að dæma þar um. Ég er hins vegar tilbúinn að leggja það undir dóm þeirra, sem landbúnað stunda, hvort þekking mín og skilningur á þessum málum er minni en hæstv. landbrh. Ég vil með því gefa honum kærkomið tækifæri til þess að standa við þá fullyrðingu sína. Ég vil því gefa hæstv. landbrh. kost á því að mæta mér á fundi í hans kjördæmi til þess að ræða um stefnu núv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum. Hann ætti ekki að vera smeykur við það að leggja það undir dóm sinna umbjóðenda, hann með alla þekkinguna á þessum málum á móti minni vanþekkingu og reynsluleysi. Hæstv. ráðh. ætti ekki að hræðast dóm sinna kjósenda, ef hann hefur staðið sig eins vel sem landbrh. og hann vill vera láta í þessum ræðum sínum. Sunnlenzkir bændur hljóta að vera réttlátir í dómum sínum, ekki sízt þegar 1. þm. þeirra og ráðh. á í hlut.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeirri yfirlýsingu hæstv. landbrh., að hann hafi ákveðið að flytja nú á þessu þingi frv. þess efnis, að bændum verði gefinn kostur á að breyta lausaskuldum sínum í föst lán. Eins og greiðslugetu bænda er nú komið, er þetta mjög brýnt mál, sem við framsóknarmenn höfum mjög barizt fyrir, og þarna sést, hverju barátta okkar hefur til leiðar komið, þó að í minni hluta séum hér á hv. Alþ. Hins vegar vil ég undirstrika eftirtalin atriði: Sú könnun, sem hefur átt sér stað á efnahag og skuldum bænda og að sögn hæstv. landbrh. er að verða lokið, sýnir ekki rétta mynd af þessum málum, þar sem skuldir bænda munu vera þar í mörgum tilfellum vantaldar. Mun þetta koma fram, þegar hver og einn bóndi leggur fram sína lánsumsókn. Til þessa munu liggja fleiri en ein orsök og ekki þeim að kenna, sem þessa könnun hafa gert. En þetta ber að hafa í huga við meðferð málsins. Þessi breyting á lausaskuldum bænda í föst lán nær því aðeins tilgangi sínum, að lánin verði löng og vöxtunum mjög í hóf stillt, því að verði ársgreiðslurnar af þessum lánum allt að því víxilvextir, ofbýður það greiðslugetu fjölda bænda, eins og nú horfir, og þá er ávinningurinn ekki mikill. Þetta mál þarf að skoða mjög vel og reyna að leysa það á þann hátt, að það nái tilgangi sínum. Og í sumum tilvikum þurfa að koma til skuldaskil og því miður í æðimörgum — eða það er minn grunur, að það þurfi að gera það í æðimörgum tilvikum.

Eitt þótti mér athyglisvert við ræður hæstv. landbrh., að hann sneiddi að mestu hjá þeim veigamestu efnisatriðum, sem fram komu í minni frumræðu. Hins vegar kom það í ljós, að hæstv. ráðh. hafði ekki lesið þetta frv., er hann flutti sína fyrri ræðu, því að hann sagði, að það hefði verið flutt sams konar frv. af framsóknarmönnum í Ed., og flest annað var í samræmi við þetta, engu líkara en hæstv. ráðh. væri mjög miður sín og utan gátta.

Eitt af því, sem hæstv. landbrh. sagði og átti að vitna um hans miklu stjórnvizku og hvað hlutur okkar bænda hefði batnað mikið undir hans stjórn á þessum málum, var það, að 1966 hafi verið viðurkennt, að á 6 árum hafi kaupgjaldsliður verðlagsgrundvallarins hækkað um 144°%, en kaupgjald verkamanna hafi á sama tíma hækkað aðeins um 100%. Og ráðh. heldur áfram og spyr, með leyfi forseta: „Hvers vegna gerðist þetta? Það gerðist vegna þess, að ríkisstj. vildi ekki, að hlutur bændanna væri lakari en annarra vinnandi stétta. Þess vegna varð þessi leiðrétting að koma.“

Þetta er líklega það, sem á máli hæstv. landbrh. flokkast undir það að vera heiðarlegur málflutningur. Eða skilur hæstv. landbrh. virkilega eins lítið í þessum málum og þessi ummæli hans gefa til kynna? Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að kanna, hvort þessar tölur, sem hæstv. ráðh. sló fram, eru réttar, og víst gæti það hitzt svo á, að þær væru það, þó að það sé þá ein af örfáum undantekningum í þessum umræddu ræðum hans. Ég ætla að ganga út frá því, að tölurnar séu réttar. En mér er þó ljóst, að það segir ekkert um það, hvort bændur hafa fengið leiðréttingu sinna mála eða ekki á þessum árum. Á meðan ekki fæst viðurkenndur í verðlagsgrundvellinum nema hluti af þeim rekstrarvörum, sem til búrekstrarins þarf, hvað þá það fjármagn, sem er bundið í tækjabúnaði, ræktun og byggingum, þá gefur vinnuliðurinn í verðlagsgrundvellinum enga bendingu í þá átt, hvort bændur hafa fengið leiðréttingu mála sinna á umræddu tímabili eða ekki. Hafi magntölur rekstrarvaranna í samræmi við vaxandi notkun þeirra ekki fengizt viðurkenndar, eins og átt hefur sér stað á þessu tímabili, og hin hraðvaxandi fjármagnsþörf vegna óðaverðbólgu, þá verkar það á vinnuliðinn fyrst og fremst og beinlínis ákvarðar, hvað vinnan hefur í sinn hlut. Það var það, sem skeði t. d. á árinu 1967, þegar bændur náðu ekki því að hafa hálfar tekjur viðmiðunarstéttanna. Og það sýnir, hvernig þessi viðleitni hæstv. ráðh. hefur tekizt til að rétta hlut bændanna. Þar er að finna blákaldan og beiskan sannleikann um það, hvernig tekizt hefur í þessu efni, en ekki í þessum samanburðartölum hæstv. landbrh.

Ég er ekki viss um, að lánastofnanir og verzlunarfyrirtæki taki fullyrðingar og sjálfhælni hæstv. landbrh. sem góðan og gildan gjaldmiðil frá bændum, því miður. Ef það væri, þyrftu þeir engu að kvíða, því að nóg er af hvoru tveggja. Og þó að valdaferill hæstv. landbrh. sé ein sorgarsaga, sem virðist ætla að fá skuggalegan endi, þá er þessi barnalegi ávani hans að segja hag bænda og afkomu þeirra miklu betri en er ámælisverðari en allt annað, enda hefur þetta orðið til þess, að óábyrg öfl í þjóðfélaginu hafa fengið vopn í hendur til þess að afflytja þessi mál á marga vegu, eins og t. d. bændafækkunarfrv. Alþfl. ber helzt með sér. Er það ekki líka einsýnt, að öll aðstaða hæstv. landbrh. er miklu verri til að sækja öll mál fyrir bændur innan ríkisstj., þegar hann viðhefur slíkan málflutning við hvert einasta tækifæri, sem gefst? Ég held, að enginn skynsamur og ábyrgur maður, svo að ég noti orð ráðh. sjálfs, muni telja slík vinnubrögð vænleg til árangurs. Með þessum málflutningi er hæstv. ráðh. að gera þessi mál enn erfiðari úrlausnar fyrir hann sjálfan. Hæstv. landbrh. sagði m. a. í seinni ræðu sinni um þetta mál, með leyfi forseta:

„Það eru betri skil hjá stofnlánadeild landbúnaðarins á árinu 1968 heldur en áður. Það er minna ógreitt við síðustu áramót hjá stofnlánadeildinni heldur en áður. Og það staðfestir ekki þá staðhæfingu, sem hér var viðhöfð áðan, og það nálgast það að vera ekki heiðarlegur málflutningur hjá 2. þm. Sunnl.“

Þannig talar hæstv. landbrh. En þó liggur það fyrir, sem allir aðrir vita, sem á annað borð fylgjast nokkuð með þessum málum, að vanskilin hafa farið vaxandi hjá stofnlánadeildinni ár frá ári. 31. des. 1968 voru 77.7 millj. í vanskilum af þess árs greiðslum eða 60% af heildarupphæð. Árið áður, eða 31. des. 1967, voru 62.4 millj. af greiðslum frá því ári í vanskilum, eða 52% af heildarfjárhæð, og höfðu því hækkað um 15.3 millj. á þessu eina ári. Þó segja þessar tölur ekki allan sannleikann, því að við síðustu áramót voru vanskil eldri lána miklu meiri en nokkurn tíma áður. Ég læt þetta nægja, enda sýnir það nógu vel, hvernig sá málflutningur er, sem hæstv. landbrh. temur sér.

Hæstv. landbrh. segir, að ég hafi sagt í minni frumræðu, að það hafi ávallt verið stefna núv. ríkisstj. að draga úr framleiðslunni, að fækka bændum. Ég held, að þetta fari eitthvað á milli mála hjá hæstv. ráðh., enda er sannleikurinn sá, að hæstv. landbrh. hvatti bændur mjög til þess að stækka búin og framleiða meira. Hins vegar breytti hann lánakjörum á þann veg, að vextir plús stofnlánaskattur þrefölduðu greiðslur bænda til stofnlánadeildarinnar, þannig að lánakjörin að skattinum meðtöldum eru hærri en nokkurn tíma víxilvextir. Hæstv. landbrh. sagði við bændur, að það skipti þá ekki neinu máli, hvað vextir hækkuðu og allt annað, sem til búrekstrarins þyrfti, þeir fengju það allt aftur í hækkuðu verði á afurðum sínum.

Höfuðtilgangur stofnlánaskattsins var sagður sá, að hægt væri að auka stofnlánin til bænda. Hvernig hefur verið staðið við það loforð? Framkvæmdamáttur lánanna hefur lækkað um 10% á viðreisnartímabilinu frá því, sem áður var. En það er rétt hjá hæstv. landbrh., að bændur hafa haldið áfram að byggja og rækta, enda til þess sérstaklega hvattir af ráðh. sjálfum. Og framleiðsla þeirra hefur aukizt, þrátt fyrir það að nú séu komnar á sjötta hundrað jarðir í eyði. En skuldirnar uxu hjá bændum þrátt fyrir hagstætt árferði fram til ársins 1966. Ástæðurnar fyrir því voru óðaverðbólga í landinu. Aukin notkun rekstrarvara fékkst ekki viðurkennd við verðlagningu búvara og aðeins hluti af öðrum útgjöldum, t. d. í sambandi við vélar og rekstur þeirra, og aðeins lítill hluti af því fjármagni, sem nútímabúskapur þarf.

En hin raunverulega bændafækkunarstefna fer ekki að verða ráðandi afl hjá ríkisstjórnarflokkunum fyrr en á árinu 1967. Þó að vitað væri áður um afstöðu forustu þess flokks, sem enn gengur undir nafninu Alþýðuflokkur, og án efa hafi afstaða hans ráðið miklu um það, að hlutur bænda var flest árin miklu lakari en viðmiðunarstéttanna, þá urðu þáttaskilin í þessum málum í sambandi við verðlagninguna 1967. Það var þá, sem stefna Alþfl. í landbúnaðarmálum var upp tekin, bændafækkunarstefnan. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Mjólkurframleiðslan hefur dregizt það saman, að í allan vetur er framleiðslan aðeins fyrir daglega notkun. Smjörfjallið, sem var talið þjóðarböl fyrir 2–3 árum, er aðeins orðið lítil þúfa, og allt bendir til þess, að hún verði horfin með öllu um miðjan næsta vetur. Bændur hafa ekki fengið neina hækkun vegna þeirra hækkana, sem orðið hafa á rekstrarvörum þeirra af völdum gengisfellingarinnar í nóv. s. l. Þeir fengu þó hækkun 1. jan. 1968 vegna gengisfellingarinnar 1967. Hækkunin, sem bændur áttu að fá nú, mun vera um 6.4% á verðlagsgrundvöllinn, sem þýðir 13% lækkun á vinnulið grundvallarins, fái þeir ekki hækkunina.

Nú liggur það fyrir, að stór hluti bændastéttarinnar getur ekki keypt áburð á tún sín í vor, þó að áburðarverð hækki ekkert, hvað þá ef áburður hækkar sem svarar gengisfellingunni. Ef ekki verður borið á nema að hluta, verður tilsvarandi minni heyskapur í landinu nema í mjög góðu árferði. Það mundi þýða mikla fækkun á bústofni landsmanna næsta haust, afleiðingin af því mjólkurskortur næsta vetur og alger skortur á vinnsluvörum mjólkurinnar um miðjan vetur. Þá hefur draumur Alþfl. rætzt.

Í þessu sambandi vil ég leggja þá spurningu fyrir hæstv. landbrh.: Hvers virði verður hinn aukni húsakostur bænda, sem þeir hafa byggt að undanförnu, ef þessi þróun verður ekki stöðvuð, og hvers virði verður hin aukna ræktun liðinna ára fyrir bændur, ef þeir hafa enga möguleika til að fá áburð á tún sín? Ætli skuldabagginn, sem þessar framkvæmdir leiddu af sér, verði ekki mörgum bóndanum ofviða og þjóðinni framkvæmdin til lítils gagns, ef framvindan verður eins og nú horfir? Ætli það reynist ekki bændum dýrt spaug að hafa farið eftir leiðsögn og áeggjun hæstv. landbrh. undanfarin ár um að stækka búin, rækta og byggja meira og meira, ef hann bregzt þeim nú, eins og allt útlit er fyrir? Og hann vinnur það til að ráða engu til þess að hanga í ráðherrastóli enn í nokkrar vikur. Ég hafði meiri trú á hæstv. landbrh. en þetta. Það hlýtur þó að vera mikil raun fyrir hæstv. ráðh., er hann ekur um Suðurland á túnaslætti og sér heil flæmi af graslausum, gulum túnum, tákn um dugleysi og mistök þeirra manna, sem hvorki skilja þjóðina né þekkja landið, sem þeir telja sig þó borna til að stjórna.

Þeirri hugmynd hefur verið slegið fram, að það ætti að taka mikinn hluta af gengishagnaði landbúnaðarins nú til þess að borga niður verð á tilbúnum áburði. Hér er háskaleg hugsunarvilla á ferðinni. Í lögum um gengishagnað landbúnaðarins er sagt, að hann skuli ganga til landbúaaðarins. Með því að greiða niður verð á áburði með gengishagnaðinum fer hann ekki til bændanna, heldur til þess að borga niður vöruverð í landinu. Á þessu er meginmunur, sem bændur þurfa að átta sig á. Ég veit ekki betur en Stéttarsamband bænda hafi lagt til, að allur gengishagnaðurinn gangi til útflutningssjóðsins, og mun ekki af veita, til þess að bændur nái grundvallarverði á framleiðslu sína. Það er réttlátasta ráðstöfunin á gengishagnaðinum og kæmi bændastéttinni nú að langmestu gagni, eins og greiðsluvandræðum þeirra er nú háttað. Ef gengishagnaðurinn fer ekki í útflutningssjóðinn, þarf að setja stórkostlegt verðjöfnunargjald sérstaklega á kindakjöt. Það væri óréttlátt og gæti orðið háskaleg ráðstöfun, þar sem sauðfjárbændur standa nú allflestir mjög höllum fæti. Ég tek því mjög undir till. Stéttarsambands bænda um ráðstöfun gengishagnaðarins, en tel þá hugmynd að nota hann til þess að borga niður verð á áburði fráleita, og með því móti væri honum ekki ráðstafað samkvæmt gildandi lögum.

Ekki fer það á milli mála, að hæstv. landbrh. ber höfuðábyrgð á málum landbúnaðarins og hvernig komið er fyrir bændastéttinni. Ef hann mannar sig ekki upp og tekur þessi mál úr höndum hæstv. viðskmrh. og sér um, að bændur fái hlut sinn réttan, er mikil hætta á því, að stofnlánadeildin verði fyrir meiri áföllum á næstu árum en dæmi eru til um nokkra lánastofnun til þessa í landi okkar.

Ef við framsóknarmenn hefðum verið í þessari samsteypustjórn með Alþfl. í stað Sjálfstfl., og væri sama, hvaða hv. þm. Framsfl. hefði farið með landbúnaðarmálin, þá hefðu þeir verið búnir að segja af sér fyrir löngu, hefði Alþfl. tekizt að ná þeim kverkatökum, sem manni virðist, að þeir hafi náð á hæstv. landbrh. nú. Framsóknarmenn sætta sig ekki við það og gera sér það ekki að góðu að vera ávarpaðir hér á hv. Alþingi sem hæstv. landbrh., en vera það ekki. Ef við komum ekki málum fram samkv. yfirlýstri stefnu þess ráðh., sem með málaflokkinn fer, eða samkv. yfirlýstum málefnasamningi, þá eru forsendur fyrir samstarfi brostnar og lýðræðisleg viðbrögð að segja af sér. Af þessum ástæðum fór vinstri stjórnin frá.

Hæstv. landbrh. sagði undir þessum umr., að stefnan í landbúnaðarmálum væri óbreytt, að hann hefði rétt hlut bændanna frá því, sem áður var. Hæstv. viðskmrh. sagði Verzlunarráðinu, hver væri stefna Alþfl. í landbúnaðarmálum, lét flokksþing Alþfl. samþykkja þá stefnu og setja hana fram sem skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi um stjórn landsins. Menn geta svo velt því fyrir sér, eftir hvorri stefnunni er farið. Hafa bændur fengið þær hækkanir, sem urðu á rekstrarvörum landbúnaðarins vegna áhrifa gengisfellingarinnar, til baka í hækkuðu verði á framleiðslu sinni? Hvaða stétt í þjóðfélaginu verður að taka á sig með tvöföldum þunga áhrif gengisfellingarinnar önnur en bændur, aukinn framleiðslukostnað heimilanna eins og aðrir, en auk þess allar hækkanir á rekstrarvörum, sem þýðir a. m. k. 13% hækkun á vinnulið grundvallarins? Ef hæstv. landbrh. hefur ekki getu eða dug til að rétta hlut bændanna nú, þá skora ég á hann að segja af sér.