12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2931)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Frsm. minni hl. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Minni hl. utanrmn. leggur til, að þessari till. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, sem er að finna á þskj. 58 í lok nál. Þetta er byggt á þeirri skoðun, að ekki sé tímabært að senda umsókn um aðild að Fríverzlunarbandalaginu nú og eru færð rök fyrir þessu í nál., sem eru að vísu mjög þau sömu og komu fram af hendi þeirra, sem töluðu í þessa stefnu við fyrri umr. Ég ætla að leyfa mér að rekja þessi rök ofurlítið og benda á í því sambandi nokkur atriði, sem ég tel afar þýðingarmikið, að meira séu rædd, en enn þá hefur orðið.

Við álítum, að mestu máli skipti, að Íslendingar búi sig vel undir þær umr., sem vafalaust verða teknar upp við EFTA um viðskiptaleg tengsl eða tengsli Íslands við það. Það er rætt um það í grg. fyrir þessu máli og flm. þess og stuðningsmenn segja, að þessi umsókn eigi einmitt að vera til þess að slíkar könnunarumr. fari fram. Þá er ágreiningurinn um þetta, eins og hv. frsm. meiri hl. benti á, hvort það sé skynsamlegt að leggja út í þær núna eða eigi að búa sig betur undir, sem þýðir, að það yrði að fresta umr. enn um sinn. Við álítum, að ef Íslendingar mæta til þessara könnunarviðræðna án þess að vita, hvað þeir vilja, án þess að vita eftir hverju þeir ætla að sækjast, þá sé verr farið, en heima setið, því að enginn getur haft hina minnstu von um að koma sínu máli fram, ef hann veit ekki, hvað hann vill. Grundvöllurinn er sá, áður en menn hefja umr. við einn eða annan um sín málefni, að vita, hvað maður vill og þetta er kjarninn í öllu þessu máli. Að okkar dómi hefur ekki enn farið fram sú skoðun á ýmsum þýðingarmiklum þáttum í þjóðarbúskapnum, sem þetta mál varða, sem þarf að eiga sér stað, til þess að við getum í raun og veru vitað, hvað við viljum. En það er grundvöllurinn.

Auðvitað verða samningar um tengsli eða aðild að EFTA mjög vandasamir vegna þess, hvernig Ísland er og íslenzka þjóðin er samanborið við aðrar þjóðir. Við hljótum að fara ákaflega varlega í því að tengjast öðrum þjóðum eða fella okkar efnahagskerfi svo að segja inn í efnahagskerfi annarra þjóða af þeirri einföldu ástæðu, að okkar efnahagskerfi og atvinnukerfi hlýtur ætíð að vera allt öðru vísi en allra hinna. Það er vegna þess að við erum dvergur samanborið við alla aðra. Enginn annar er okkur líkur. Bandalag eins og EFTA er bandalag jafningja, eins og málin standa í dag. En við getum ekki notað sama stakk í þessu tilliti og aðrir eða farið í annarra stakka. Þeir eru okkur ekki mátulegir af ástæðum, sem við þurfum ekki að skammast okkar fyrir á nokkurn hátt, en þeir eru það ekki. Ég hygg, að allir séu sammála um, að svo sé, en þá kemur spurningin: Hvað snertir sú staðreynd þátttöku eða hugsanleg tengsl við EFTA og hafa þau atriði, sem þar koma til greina, verið nægilega skoðuð nú þegar, til þess að hægt sé að búa út samningamenn með nægilegt nesti og skynsamlega matreitt? Og það er í þessu tilliti, sem okkur sýnist á skorta mjög alvarlega og við viljum biðja menn að íhuga og hlusta á okkar rök í því sambandi og jafnvel þó að meiri hl. haldi fast við það áform sitt að senda umsókn strax og þá með það fyrir augum að taka upp viðræður nú, sem ég teldi mjög illa farið, þá skorum við samt sem áður á menn að hlusta á það, sem við höfum að segja um þetta, þannig að tíminn geti þá orðið snarplega notaður, meðan umr. standa yfir, til þess að skoða það, sem við viljum benda á, að áfátt sé.

Það fyrsta, sem við viljum benda á í þessu sambandi, er ástandið í íslenzkum þjóðarbúskap, eins og sakir standa og ætla ég ekki að endurtaka hér þær ræður um það efni, sem fluttar voru í gær. En það ætla ég, að sé öllum mönnum ljóst, að við erum ákaflega illa settir efnahagslega séð, til þess að hefja slíkar umr. á skynsamlegum grundvelli. Bæði er það, að við stöndum mjög höllum fæti, að ekki sé meira sagt, sem mun nú ekki vera vel séð á allan hátt í þeim herbúðum, sem þarna er um að ræða. Í annan stað held ég, að það sé lífsnauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að þó að það hafi verið framkvæmd stórkostleg gengislækkun, sem sumir kannske halda, að sé nægilegur aðgangseyrir að EFTA og nægileg ein út af fyrir sig til að setja okkur á sama grunn og aðra og nægileg ein út af fyrir sig, til þess að eyða öllum efasemdum hjá öðrum í þessu sambandi, þá er þessu ekki þannig varið. Því þó að gengislækkunin sé stórfelld og breyti mörgu, þá mun hún ekki breyta því, eins og atvinnuástandið til að mynda er hjá okkur núna, þar sem geigvænlegt atvinnuleysi er framundan, að við hljótum að verða — og það munu næstu mánuðir sýna, — að við hljótum að verða þrátt fyrir gengislækkunina að grípa til fjölmargra ráðstafana af ýmsu tagi, sem alls ekki kom heim og saman við þá meginstefnu, sem EFTA vill, að sínar þjóðir fylgi. Ég nefni í þessu sambandi það, sem augljóst er, að hversu mikið, sem menn fella gengið, þá er nú komið þannig okkar hag, að við hljótum að verða að grípa til einhvers konar hamla í gjaldeyrismálum og innflutningsmálum og það er í fyrsta skipti núna, sem örlar ekki svo lítið á því í ræðum hæstv. ráðh., að þeir viðurkenna þetta. Enda er þetta algerlega augljóst mál.

Efnahagssérfræðingar stjórnarinnar telja, að þrátt fyrir gengislækkunina og það heljarslag, sem hún nú er í búskapnum, séu í raun og veru engar líkur til þess, að hægt sé að komast af án þess að hafa stórfelldan greiðsluhalla við útlönd á næsta ári, líklega stórfelldari, en við getum þolað. Þess vegna verður gengislækkunin ekki nægileg ein og það mun koma að því mjög fljótlega, að það verði að gera aðrar ráðstafanir, eins og t.d. takmarkanir á innflutningi, takmarkanir á frjálsri gjaldeyrisverzlun o.s.frv. Það þarf ekkert að fara í grafgötur um, að fyrir þessu vottar nú þegar í málflutningi af hendi sjálfra stjórnarflokkanna, sem ekki hafa mátt heyra slíka hluti nefnda á undanförnum árum. Enn fremur er alveg ljóst, að það er óhugsandi annað en hér verði dunandi atvinnuleysi, ef ekki verður gripið til sérstakra ráðstafana vegna iðnaðarins umfram gengislækkunina, að því leyti, sem hún gengur til hagsbóta fyrir iðnaðinn. Og þessar ráðstafanir verða sannarlega ekki af þeirri gerð, sem heppilegt er að þurfa að gera á sama tíma og teknir eru upp samningar við EFTA um að afnema alla verndartolla á Íslandi eða að lofa því að afnema alla verndartolla og allan sérstakan stuðning við íslenzkan iðnað, þar á meðal íslenzkan þjónustuiðnað. Í þessu sambandi er nægilegt að minna á, að í umr., sem þegar hafa átt sér stað um efnahagsmálin, hefur það t.d. komið eða gægzt fram hjá ríkisstj., að það muni verða nauðsynlegt, að á næstunni verði íslenzk fyrirtæki látin sitja við annað og hagstæðara borð, en erlend varðandi þjónustuframkvæmdir, eins og verktakasamninga og annað slíkt, t.d. skipabyggingar o.fl. Og þetta kom mjög greinilega fram í umr. þeim, sem hér urðu í gær.

Ég held, að það væri mjög skynsamlegt fyrir Íslendinga að sjá, hvaða mynd íslenzkur þjóðarbúskapur tekur á sig næstu mánuði og íhuga sitt ráð í því sambandi, áður en ákvarðanir eru teknar, sem gætu haft grundvallarþýðingu og ég vil segja, áður en menn leggja út í viðræður um þessi málefni, sem hafa geysilega mikla þýðingu fyrir íslenzku þjóðina um alla framtíð og þá líka vegna þess, að það er náttúrlega ekkert smámál, hvort samningar við EFTA takast, þannig að við gætum fengið frjálsan, eða a.m.k. okkur fullnægjandi, aðgang að mörkuðum EFTA–landanna í framtíðinni. Og því er ekkert smámál, að skynsamlega sé á þessu haldið. Í þessu sambandi segja menn, að það megi skoða þessi mál meðan umr. fara fram, en ég bið skynsama menn að athuga, að þetta er ekki rétt hugsun. Þessi mál þurfa menn að hafa skoðað, áður en samningarnir byrja, vegna þess að útspilið hlýtur ævinlega að verða eftir því, hvaða spil menn hafa á hendinni, þegar spilið hefst. Og það er, eins og ég sagði áðan, lífsnauðsyn að vita, hvað maður vill.

Annars getur maður ekki búizt við því að fá heppilega niðurstöðu úr samningum.

Það er næst annað atriði, sem ég vil leyfa mér að benda mönnum á og biðja menn að hugsa um og líka snertir það, sem út úr þessum samningum gæti komið og eins hitt, hvort heppilegt sé að byrja á þeim eins og þessi mál standa nú hjá okkur. Og það er þetta, að aðild að EFTA, — ef enginn fyrirvari er um það atriði, — þýðir, að þjóðin, sem í EFTA gengur, lofar að afnema með öllu alla verndartolla fyrir sinn eigin iðnað og allan sérstakan stuðning sínum eigin iðnaði til handa og lofar því að láta sinn eigin iðnrekstur sitja algerlega við sama borð og iðnrekstur annarra þjóða. Ef núna ætti t.d. að ganga í EFTA fyrirvaralaust varðandi þetta atriði, þá yrðum við að lofa þessu. Þorið þið að lofa þessu? Þorið þið að lofa því, að þetta verði gert hér? Þorið þið að lofa því nú, ef við fengjum jákvæð svör við því að taka upp samninga við EFTA og samningar ættu að byrja í desember eða janúarmánuði n.k., og það fyrsta, sem þyrfti að taka afstöðu til, yrði þetta: Eruð þið reiðubúnir að leggja til, að Íslendingar lofi þessu? Ég spyr hvern alþm. um sig: Þorið þið að lofa þessu? Hafið þið fengið þær upplýsingar nú, að þið þorið að skuldbinda Íslendinga til þess að afnema gersamlega allan sérstakan stuðning við íslenzkan iðnað? Menn tala hér um aðlögunartíma, 8–10 ár. Ég spyr. Hafa menn krufið þessi mál þannig til mergjar, að þeir þori að gefa slíkt fyrirheit varðandi framtíðina? Er hægt að hugga sig við aðlögunartímann einan? Ég álít, að það verði að athuga þessi mál öll hleypidómalaust og það sé geysilega þýðingarmikið fyrir okkur að fá einhver tengsl við EFTA, en ég vil benda mönnum á — og ég segi það að nokkru í gamni — að það var líka aðlögunartími í sögunni um Gilitrutt. Ég spyr: Þora menn að lofa þessu nú? Og ég get sagt mönnum það alveg hreinskilnislega, að þetta stendur eins og fleinn í mínu holdi og ég hef ekki gert það upp við mig, hvort ég mundi þora að lofa slíku og í dag mundi ég alls ekki þora að gera það.

Það er allt annað fyrir okkur að gefa slík fyrirheit eða t.d. Breta eða Norðurlandaþjóðirnar, vegna þess að við erum á allt öðru stigi en þessar þjóðir. Við erum ekki að neinu leyti sambærilegir við þær og samningar, sem væru annars vegar um það, að þeir afnemi allan stuðning við innlendan iðnað hjá sér og við aftur á móti hjá okkur, eru engir jafnréttissamningar. Það eru engir jafnréttissamningar. Þess vegna segi ég, að þetta mál þurfi að athuga miklu betur en gert hefur verið og kryfja til mergjar.

Það má ekki gera lítið úr hluta tollverndaða iðnaðarins í íslenzkum þjóðarbúskap, eins og sumir virðast hafa tilhneigingu til að gera af miklu kappi, en það er áríðandi, að í þetta mál hlaupi ekki kapp, heldur haldi menn sér í fullu jafnvægi og skoði þetta hleypidómalaust. Í skýrslunni, sem fylgir nál., er sagt, að um 3.800 manns hafi nú atvinnu af tollvernduðum iðnaði, sem mundi missa alla sína vernd og allan sinn sérstaka stuðning. Er ekki gert mjög mikið úr því í skýrslunni, að þetta sé stór hópur. En mér skilst, að hver sá maður, sem starfar í grundvallaratvinnuvegi, hafi með sér aðra þrjá. A.m.k. hefur dæmið verið reiknað þannig, þegar um stóriðju er að ræða. Ef þetta er rétt, er þarna kominn 12 þúsund manna hópur. Síðan skilst mér megi margfalda með tveimur vegna fjölskyldustærðar eða jafnvel 21/2, þannig að þá er komið upp í 25–26 þús. manns. Ef svo meginhlutanum af þessum iðnaði hlekktist á á næstu árum, þegar menn væru búnir að lofa afnámi tollverndarinnar, kemur þarna spurningin um að koma með eitthvað í staðinn fyrir þetta. Það yrði þá að vera útflutningsiðnaður eða iðnaður, sem væri svo harðsnúinn, að hann gæti þolað verndar- og stuðningslaust t.d. samkeppni frá Bretum. Þá yrði nýtt að koma upp í staðinn fyrir þetta, plús það sem þyrfti, til þess að byggja upp til viðbótar nýjan iðnað og í staðinn fyrir það, sem þessi tollverndaði iðnaður hefði vaxið að öllu óbreyttu.

Það er ekki hægt að taka dæmið eins og gert er í skýrslunni. Það gefur engar upplýsingar. Þetta er miklu alvarlegra mál en þar kemur fram. Þess vegna segi ég, að þetta þarf að skoða betur, og það þarf að athuga þetta alveg hleypidómalaust, hvort það er nokkur ósanngirni í því fyrir þjóð eins og Íslendinga að fara fram á, — þó farið væri í EFTA með aðild, aukaaðild eða tengslum eða hvernig sem það nú væri, — að vegna sinnar algeru sérstöðu, þar sem er dvergurinn í hópi hinna, hefðu þeir möguleika til að hafa einhverja skynsamlega verndartolla og byggju við einhver sérákvæði að þessu leyti. Og ég verð að segja, að ég sakna þess ákaflega, að í málflutningi þeirra, sem vilja senda þessa inntökubeiðni strax og telja einmitt, að umr. eigi að hefjast strax, hefur ekki örlað á því, að þeim finnist eðlilegt að taka upp þetta sjónarmið. En þetta er grundvallarsjónarmið í mínum huga. Ég trúi ekki öðru, en þær þjóðir, sem skipa EFTA, mundu sýna, ef hér væri vel á málum haldið, fullan skilning á því, að við getum ekki einn góðan veðurdag núna á næstunni, — kannske í næsta mánuði eða eftir jólin, — stigið fram og sagt: Nú lofum við að afnema alla vernd fyrir allan íslenzkan iðnað á næstu 8–10 árum. Ekki treysti ég mér til að gera það. Það verða þá að koma einhverjar nýjar upplýsingar fram í þessu máli, sem breyta stöðunni.

Þá er annað atriði, sem ég vil telja, að ekki sé fullathugað og ég er dálítið hissa á, að ekki skuli hafa verið skoðað, og það er þetta: Hvernig verkar fjarlægð Íslands frá öðrum löndum á þessi mál? Ég hef hvergi séð nokkra skoðun á því. Fjarlægð Íslands er vafalaust einhver vernd fyrir íslenzkan iðnað, að því er heimamarkað varðar. Hversu mikil vernd er fjarlægð Íslands? Ég hef ekki séð neitt mat á þessu. Ég tel alveg lífsnauðsyn, að slíkt mat fari fram, áður en menn byrja á samningaþjarki um þetta efni. Ég hef heldur ekki séð nokkra tilraun gerða, til þess að gera grein fyrir því, hvaða hindrun fjarlægð Íslands frá öðrum löndum er þeim útflutningsiðnaði, sem hér yrði að byggja upp og ætti

að gera annað eins risaátak með í okkar þjóðarbúskap á næstunni, eins og þyrfti að vera, til þess að taka við allri þeirri aukningu, sem hér ætti að verða á iðnaði; plús því, sem þyrfti að koma í staðinn fyrir verndaða iðnaðinn, — fylla það skarð, sem yrði í okkar þjóðarbúskap, ef verndaði iðnaðurinn hætti ekki aðeins að aukast, heldur hyrfi að verulegu leyti. Ég sakna þess ákaflega, að skoðun á þessu skuli ekki hafa farið fram, því að vitanlega getur fjarlægð Íslands frá öðrum orðið vernd í vissu falli, en líka orðið geysilegur fjötur um fót í öðru tilliti.

Sannast að segja finnst mér, að í þetta mál allt vanti, enn sem komið er, athuganir af því tagi, sem rætt er um á bls. 55 í áliti embættismannanna, sem fylgir áliti n., eins og hv. alþm. Ólafur Jóhannesson benti á við fyrri umr. málsins. En vegna þess, hvað ég tel mikils vert, að þetta sé einmitt skoðað hér á hv. Alþ., þá ætla ég að leyfa mér að lesa aftur þá klausu, sem hér að lýtur. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessari skýrslu er ekki ætlunin að meta afkomu og vaxtarmöguleika íslenzks iðnaðar eða einstakra greina hans við þær breyttu aðstæður, að hann njóti frjáls aðgangs að stóru markaðssvæði, en taki jafnframt að lokum á sig fulla samkeppni utan frá. Þær ýmsu upplýsingar, sem fyrir liggja og aðrar, sem afla þyrfti frá iðnaðinum sjálfum, geta varpað Ijósi á mörg atriði, sem þar skipta máli. Slík rannsókn á málefnum iðnaðarins og einstökum greinum hans, sem legið gæti til grundvallar mótun alhliða stefnu í iðnaðarmálum, er meginverkefnið sem bíður úrlausnar.“

Síðan segir í framhaldi af þessu á bls. 56:

„Slík atriði og önnur yrði að taka til athugunar og framkvæmda af því opinbera og iðnaðinum sjálfum í sambandi við þátttöku Íslands í EFTA, ef af verður.“

En mundu menn ekki álíta, að það væri þýðingar mest að gera sér grein fyrir þessum framtíðarmöguleikum íslenzks iðnaðar, áður en menn leggja út í að lofa því að afnema alla verndartolla fyrir íslenzkan iðnað og allan sérstakan stuðning við íslenzkan iðnað? Mundi ekki vera hyggilegt að reyna að gera sér grein fyrir þessu áður? Ég hygg, að það væri einmitt það, sem þyrfti að gera og það, sem ég satt að segja hélt, að EFTA–nefndin mundi brjótast í að láta gera og það, sem við í minni hl. viljum, að EFTA–nefndin fái tóm og tíma til þess að láta gera á sínum vegum. Það er oft seint að fara í þetta, þegar menn eru búnir að taka á sig skuldbindingar, sem þeir eru svo kannske alls ekki menn til þess að standa við. Hvað ætla Íslendingar að gera, ef þeir eru búnir að lofa skilyrðislaust að afnema verndartollana og stuðninginn við iðnaðinn, en síðan kemur í ljós á eftir, að sá iðnaður fyrir erlendan markað, sem menn treystu á, – en höfðu þó ekki gert sér nema sáralitla grein fyrir, í hverju ætti að vera fólginn, — kemur ekki á fót? Jú, þá segja menn kannske: Þá er hægt að fara úr EFTA og þá er e.t.v. hægt að brjóta samningsákvæðin, eins og virðist satt að segja bera nokkuð á í EFTA–félagsskapnum.

Ég vil á hinn bóginn benda mönnum á, að málið er ekki svo einfalt, vegna þess að undir eins og búið væri að lofa skilyrðislaust að afnema alla verndartolla í íslenzkum iðnaði og allan sérstakan stuðning, mundi fjárfestingin á Íslandi taka snið eftir því loforði, sem búið væri að gefa. Þeir, sem væru í iðnaði, sem þeir gerðu ráð fyrir að mundi dragast saman vegna þessa loforðs, færu að draga sig út. Það yrði ekki lagt í að koma á fót nýjum verndunariðnaði á Íslandi, eftir að þetta hefði verið gert og fjárfestingin færi þegar í stað að laga sig eftir þessu. Ef hin nýja fjárfesting í útflutningsiðnaðinum kemur svo ekki upp nógu hratt — og þá m.a. í staðinn fyrir það, sem ella hefði komið upp af vernduðum iðnaði, — hvar er íslenzka þjóðin þá á vegi stödd? Hér þarf því að athuga sitt ráð allt mjög ýtarlega og skynsamlega og hafa fyrir sér í þessu þá fyrirvara, að menn lendi ekki út í hreina ófæru. Auðvitað mega menn ekki vera svo smeykir við þetta, að þeir þori ekki að skoða málið. Það verður að skoða málið og allar hliðar á því. Fyrst og fremst verðum við að skoða það sjálfir og síðan verðum við, — þegar við höfum sjálfir gert okkur grein fyrir erfiðleikum okkar í þessu, — að segja EFTA–mönnum hreinskilnislega frá í hverju þeir eru fólgnir, gleyma ekki neinu af þeim atriðum, sem eru algerlega lífsnauðsynlegar undirstöður fyrir okkur sjálfa. Og ég hef sterka trú á, að ef þetta er gert á þennan hátt og málið er tekið upp á réttum tíma og slíkur undirbúningur hefur farið fram, þá megi fá farsæla lausn á því.

Manni dettur ýmislegt í hug í þessu sambandi. Það er kannske fjarstæða að kasta því fram, hvort það væri möguleiki fyrir land, sem hefur svo algerlega sérstakar aðstæður sem Ísland, að taka þetta í einhvers konar áföngum, taka ekki á sig fullar skuldbindingar strax í þessu tilliti og þá njóta ekki fullra hlunninda strax, fikra sig þannig áfram í áföngum. Allt slíkt verður að skoða hleypidómalaust og með það fyrir augum, hvað þarna er mikill vandi á höndum vegna okkar sérstöðu. En einkanlega vildi ég leggja sterka áherzlu á þetta með verndina og sérstöðu okkar í því tilliti og svo ýtarlega rannsókn sem enn hefur ekki farið fram á því, hvernig lega Íslands og fjarlægð þess frá öðrum löndum verkar á stöðu þess í þessu, ásamt smæðinni.

Þá er það í þessu sambandi að sjálfsögðu afar mikilsvert atriði, að íslenzkur iðnaður hefur nálega enga möguleika, til þess að verða útflutningsiðnaður eða megnugur þess að standa óverndaður af sér samkeppni erlendis frá, nema alveg verði breytt um búskaparlag á Íslandi, teknir upp alveg nýir búskaparhættir. Það hefur verið bent í þessa átt af hæstv. ráðh. Það yrði, til þess að nokkur von væri um þetta, að koma þannig málum, að íslenzkur iðnaður byggi við öll þau beztu kjör, sem íslenzkum útflutningsatvinnuvegum eru nú ætluð, og líklega mundi það ekki duga til. Líklega mundi ekki þýða neitt fyrir íslenzk iðnaðarfyrirtæki að ætla sér að vaxa upp og keppa á þessum mörkuðum miðað við þau lánskjör t.d., sem sjávarútvegurinn íslenzki býr við núna. Ég held raunar, að það væri algerlega tómt mál að tala um. Ég held, að það mundi alls ekki duga, að iðnaðurinn byggi við það, sem bezt gerist nú með íslenzkar útflutningsgreinar, heldur yrði að breyta enn miklu meiru. Ég held, að það mundi alls ekki koma til greina, að íslenzkur iðnaður gæti staðizt samkeppni erlendis frá eða flutt út á þessa markaði með því að búa við sömu kjör og við bjóðum okkar sjávarútvegi upp á, þó að hann sé okkar aðalgrein. Að hann heldur áfram samt, byggist á því, hversu gífurleg uppgrip eru hér, – meiri en nokkurs staðar annars staðar í veröldinni, — og á því að við eigum betri fiskimannastétt, en nokkurs staðar annars staðar er til á byggðu bóli. Eiginlega byggist íslenzkur þjóðarbúskapur mest á því, hversu mikla íþróttamenn við eigum í íslenzkri sjómannastétt. Það er nú sannleikurinn. Það er grundvöllurinn í þessu öllu saman, að þeir eiga enga sína líka nokkurs staðar á jarðarkringlunni og svo náttúrlega, að við höfum þessi góðu fiskimið. Útkoman verður þessi: Við höfum sjávarútveg, sem getur haldið uppi okkar sérkennilega þjóðfélagi, þó að hann búi að mörgu leyti við mjög ömurlegan aðbúnað, t.d. í lánamálum og öðru slíku, sem þýddi ekki að bjóða neinum iðnaði, sem ætti að keppa við iðnað EFTA–landanna. Í íslenzkum iðnaði yrði varla um svo mikla sérstöðu að ræða í nokkurri grein nema sjávarútvegi að bjargað gæti.

Út frá þessum bendingum vil ég segja, að mér sýnist það alls ekki hafa verið krufið til mergjar, hvað gera þurfi fyrir íslenzkan iðnað, til þess að hann geti haft nokkra von um að standast eða verða full hlutgengur í EFTA. En nú geta menn kannske sagt: Já, en liggur nokkuð á? Þarf þetta að liggja fyrir svona nokkurn veginn um leið og farið er í EFTA? Er ekki hægt að taka þetta rólega og gefa út skuldbindinguna fyrst um að afnema tollverndina á ísl. iðnaði og stuðningi við hann og taka þetta svo rólega? En það er mikill misskilningur, ef menn halda, að það sé hægt að gera þetta þannig og það er vegna þess, að fjárfestingin verður að hafa ákveðna stefnu. Um leið og búið er að ganga í EFTA, gera EFTA–samning, byrjar fjárfestingin í verndunariðnaðinum að minnka. Þá verður hún strax að aukast óðfluga í öðrum greinum. Það er ekki hægt að taka sér einhver ár til þess að breyta þessu í hægðum sínum, það yrði strax að vera búið þannig í haginn, að nýi iðnaðurinn gæti farið af stað svo að segja í sprettinum við hin allra beztu og hagstæðustu skilyrði. Það yrði m.ö.o. að snúa sér að því í flughasti að breyta íslenzkum þjóðarbúskap á þá lund, að ekki væri hreinn voði framundan, þegar búið væri að kasta lausu. Auðvitað allt miðað við, að ekki séu sérákvæði fyrir íslenzkan verndunariðnað. Fengjust þau, þá breytist allt þetta mál og þyrfti ekki að taka þetta eins róttækum tökum þegar í byrjun. Á þetta benda samtök ísl. iðnaðarins greinilega, enda eru meðmæli þeirra, ef hægt er að kalla það meðmæli stjórnar iðnaðarsamtakanna, — byggð á því, að á þessa lund sé á málum haldið. En þá er eftir að athuga, hvernig menn ætla að koma þessu í framkvæmd, því það hefur ekki komið fram nein áætlanagerð eða álitsgerð um það, hvaða áhrif slíkar stökkbreytingar hefðu á okkar þjóðarbúskap. Það er þó alveg víst, að það yrði að taka upp allt aðra lánapólitík, en nú á sér stað. Það yrði að taka upp allt aðra vaxtapólitík og það yrði að taka upp allt aðra tollapólitík, bæði varðandi vélar og efni og allt slíkt, en nú er rekin og endurskoða alla fyrirgreiðslu gjörsamlega frá rótum í sambandi við uppbyggingu fyrirtækja á Íslandi. Það er alveg víst. Það yrði að verða bylting í þeim efnum frá því sem nú er.

Að sjálfsögðu þarf að endurskoða grundvöll iðnaðarins, þó við förum ekki í EFTA. Það þarf að vinna að því að byggja hér upp öflugan, sívaxandi iðnað, sem gæti þolað betur samkeppni erlendis frá og gæti spjarað sig á erlendum mörkuðum. En ég bendi á, hvernig staðan væri, ef að yrði staðið á þá lund að taka á sig hreina og klára skuldbindingu um að afnema alla tollvernd og allan sérstakan stuðning. Það er verð, sem ég tel, að við gætum ekki borgað fyrir þetta. Við yrðum þá heldur að reyna að fá einhvern sérsamning við EFTA, kannske á takmörkuðu sviði. Ég sé í þeim ófullkomnu gögnum, sem hér liggja fyrir um EFTA–málið, að það eru vissar undanþágur einmitt í þessa stefnu fyrir einstök lönd varðandi einstakar vörutegundir. Mér finnst þetta allt ekki vera nægilega vel skoðað og ég óttast, að ef það verður farið af stað núna, þá verði það ekki nógu vel skoðað, þegar allt er komið á skrið.

Ég vil mjög biðja menn að taka þetta ekki sem fjarstæðu, sem ég er að segja eða neitt í þá átt, heldur athuga þetta hleypidómalaust og ofan í kjölinn, því að hér er um málefni að ræða, sem ég veit, að við skiljum allir, að hefur alveg grundvallarþýðingu fyrir allt líf þjóðarinnar í landinu um alla framtíð.

Þá er eitt atriði í þessu máli, sem við bendum á í nál., — en það var meira rætt við 1. umr., þannig að ég get farið fljótt yfir sögu, – og það er þetta: Við yrðum auðvitað að fá það ljóst, að við gætum ráðið því sjálfir, hvaða erlend fyrirtæki hefðu starfrækslu á Íslandi. Ég er alveg sannfærður um, að það hlýtur að vera hægt að koma þessu þannig fyrir, því að ég hygg, að það sé ríkur skilningur á því meðal þeirra þjóða, sem hér eiga hlut að máli, að þannig verði þetta að vera vegna þess, hvernig við erum settir. Það er aldrei of oft minnt á það, hvernig farið gæti, ef þarna væri ekki farið með fullkominni gát, vegna þess hve okkar þjóðarbúskapur allur saman er dvergvaxinn samanborið við einkaatvinnurekstur í þessum löndum. Það er skemmst að minnast þess, að fyrir nokkrum árum voru tugir fyrirtækja í einu iðnaðarlandi Evrópu, sem höfðu meiri umsetningu hvert um sig, en nam allri þjóðarframleiðslu Íslendinga. Síðan hafa fyrirtæki í Evrópu yfirleitt stækkað, nálega eins og snjóbolti, sem veltur niður fjallshlíð. Svo ört hefur þróunin gengið í þá átt. Þar er orðið um iðnaðarrisa að ræða, sem hafa starfrækslu af nálega öllum greinum undir einum hatti og ætti ekki að þurfa að halda langar ræður um það, hversu mikil fjarstæða er að opna okkar land fyrir starfrækslu þvílíkra risa.

Þess vegna yrði þetta atriði að vera ljóst, að okkar dómi og þyrfti að leggja vinnu í að skoða betur 16. gr., en enn hefur verið gert, því það er mjög loðmullulegt, sem um hana er sagt í áliti embættismannanna. Þar er eiginlega verið að gefa í skyn, finnst mér hálfgert, að það sé mögulegt með klækjum að komast í kringum þetta ákvæði, en þó er allt svo þokukennt, að ég hef ekki getað áttað mig á í hverju sú aðferð er fólgin, sem þar er talað um, en þetta má að mínu viti með engu móti vera í neinni þoku.

Loks bendum við á, hversu þýðingarmikið það er, að rösklega sé haldið á fiskmálunum í þessu sambandi og það hefur komið greinilega fram, að þar erum við allir sammála.

Ég vil leyfa mér að vona, að þó minna hafi borið á hinum þáttunum, sem ég hef verið að ræða í málflutningi þeirra, sem fyrir þessu máli ráða, þá hafi þeir samt ríkt í huga undir niðri, hversu mikið er hér í húfi og skoði nákvæmlega hug sinn um það, hvort ekki eigi að koma fram með skynsamlega og öfluga fyrirvara af því tagi, sem ég hef verið að ræða, t.d. varðandi 16. gr. og verndartollamálið eða stuðning við iðnað með einhverjum sérstökum hætti, vegna þess hvað sérstaklega við erum settir.

Ég held, að ég hafi nú tekið fram þau aðalatriði, sem ég hafði áhuga fyrir að koma á framfæri og skal ekki þreyta menn á lengri ræðu, en niðurstaða minni hl. er á þessa lund, og vil ég leyfa mér að lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Talað er um aðildarumsókn nú sem upphaf að könnunarviðræðum, til þess að komast að því með hvaða kjörum mætti tengjast EFTA. Minni hl. telur, að engar könnunarviðræður komi að gagni fyrir Íslendinga, nema þeir mæti til þeirra, eftir að þeir hafa gert sér grein fyrir því, eftir hverju þeir ætli að sækjast í viðræðunum. Taki menn upp viðræður, án þess að hafa gert sér grein fyrir þessu, er verr farið, en heima setið. Minni hl. telur, að EFTA–nefndin ætti að halda áfram störfum og undirbúa rækilega í samráði við ríkisstj. og Alþ. þær viðræður, sem rétt kann að þykja að fari fram á sínum tíma um tengsl Íslands við EFTA, en þessari þáltill. vill minni hl. vísa frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Þar sem ekki er tímabært nú að taka ákvörðun um aðildarumsókn að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, m.a. vegna óvissu í efnahagsmálum, ófullnægjandi athugunar á sumum undirstöðuatriðum málsins, svo sem stöðu iðnaðarins og nýlegrar ákvörðunar Breta um 10% toll á freðfiskflökum frá EFTA–löndum, samþykkir Alþ. að taka fyrir næsta mál á dagskrá.“