20.02.1969
Neðri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (3155)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Hv. 6. þm. Reykv. fullyrðir, að Landssíminn hagnist ekkert á þessari eign, þótt að hún hækki í verði. Hann hagnist aðeins, ef hann fari að braska með þessa lóð. En nú er það svo, eins og hv. 6. þm. Reykv. hefur margsinnis heyrt, að forstöðumenn Landssímans, landssímastjóri, verkfræðingar hans og aðrir tæknimenn hafa sagt: Landssíminn verður að eignast þessa lóð, Landssíminn verður að hagnýta sér þá aðstöðu, sem þarna er hægt að fá. Ef Landssíminn hefði ekki keypt húsið árið 1968, þá er enginn vafi á því, að hann hefði haldið áfram að sækjast eftir því að fá þessa eign og ef það hefði dregist í 5 ár, þá er alveg víst, að verðið hefði orðið hærra heldur en nú er. Þess vegna hagnast Landssíminn á þessu að hafa ekki dregið það lengur að festa þessi kaup, vegna þess að hvernig sem þróunin verður hjá okkur, þá hefur það alltaf verið, bæði á Íslandi og í öðrum löndum, að peningarnir hafa lækkað í verði, einnig þó að ekki teljist vera verðbólgutímar og seinna meir verður lóðin, sem Sjálfstæðishúsið stendur á, meira virði, en hún var á árinu 1968 og hv. 6. þm. Reykv. viðurkenndi áðan, að einmitt gengisbreytingin í nóv. gerir þessar eignir miklu verðmætari, en salan fór fram fyrir gengisbreytinguna. Þetta gildir alveg eins með Landssímann, þó að hann selji ekki lóðina, af því að hann nýtir lóðina og þegar hv. 6. þm. Reykv. segir, að Landssíminn þurfi að leggja 16 millj. á notendurna, þá er það vitanlega einnig rangt, vegna þess að það er viðurkennt, að Landssíminn sparar stórfé — fleiri millj. — á því að þurfa ekki að byggja hús annars staðar í bænum og leggja í þann mikla kostnað, sem af því leiðir að leggja jarðstrengi út frá miðstöðinni hér í miðbænum. Þetta hefur margsinnis verið sagt, og þarf ekki að endurtaka það hér, að með því að kaupa þessa eign fyrir 16 millj. kr., sparar Landssíminn í framtíðinni miklu meira en það og þetta verður ekki til þess að hækka símagjöldin á notendunum, heldur verður það til þess, þegar fram í sækir, að þau verða lægri en annars hefði orðið, ef Landssíminn hefði ekki getað fengið þessa lóð.