20.02.1969
Neðri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (3157)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vissi það nú áður, að hv. 4. þm. Reykv. bar hlýjan hug til hæstv. forsrh. og einnig til mín og það var gott að fá það staðfest í dag hér í hv. deild, að hann vill ekki, að forsrh. sé borinn röngum sökum, þegar hann er fjarverandi, en ég hafði ekki skilið það svo, að verið væri að bera sakir á hv. forsrh. í þessum umr. af einum eða öðrum.

Lóðin í Kirkjustræti var samþykkt og kaupin á þeim lóðum voru borin undir alla flokka. Þær þóttu dýrar og það var borið undir alla flokka, og það eru allir þar ábyrgir. Einmitt vegna þess, að það var borið undir alla flokka og þetta þóttu eðlileg kaup, þá var talið gott fyrir Landssímann að geta fengið lóð á svipuðum stað með mun betri kjörum heldur en Kirkjustrætislóðin var.

Nú verður að afsaka, að hv. 4. þm. Reykv. talaði af sér áðan, vegna þess að hann mun ekki hafa verið hér í hv. Alþ., þegar þetta mál var rætt í vetur, en ég hafði búizt við því samt, að hann kynnti sér málið, áður en hann færi að tala um það. Í tilefni af því, að hv. þm. fullyrti hér áðan, sem ekki er rétt, þegar hann var að gera samanburð á kaupum á Kirkjustrætinu og Sjálfstæðishúsinu, þá vil ég endurtaka nokkuð af því, sem kom fram í gögnum í þessu máli fyrr í vetur, en þar segir m.a., með leyfi hv. forseta:

„Sami grundvöllur var notaður við mat fyrir kaup póst– og símamálastjórnarinnar á lóðinni Thorvaldsensstræti 6 og Thorvaldsensstræti 2. Verð Íóðar og húss að Thorvaldsensstræti 2 var 16 millj. 243 þús. kr. og er þá miðað við, að 2 millj. kr. greiðist við undirskrift samnings og 2 millj. 619 þús. að 6 mánuðum liðnum, en það sem eftir er, 71.2% verðsins, á 10 árum. Ef um staðgreiðslu hefði verið að ræða, hefði verðið orðið um 13.9 millj. kr., sem má skipta á lóðarverð 7.3 millj. kr. og húsverð 6.6 millj. kr. eða 55% af brunabótaverði. Meginhluti hússins er steinhús 21– 22 ára gamalt.“

Nú getur hv. 4. þm. Reykv. borið saman Torvaldsensstræti 2, húseignina þar og Kirkjustræti, 57 ára gamalt timburhús. Þar var miðað við 57% brunabótamatsverð, en 55% í Thorvaldsensstræti 2. Samkvæmt skipulagi Reykjavíkurborgar, bls. 146 og 150 má aðeins byggja lág hús, 1— 2 hæða, sunnan Kirkjustrætis með samtals gólffleti á hæðum ofan jarðar 50% meiri en lóðarstærðin. Nýtingarstuðull er aðeins 1.5. Þar sem lóðir nefndra 3 húsa eru samtals 1.170 fermetrar að stærð, svarar það til að byggja megi þar hús með samanlögðum gólffleti 1.755 fermetrum ofan jarðar eða minni, en að Thorvaldsensstræti 2 sem er 2.000 fermetrar ofan jarðar. Lóðin, sem póst– og símamálastjórnin hafði áður keypt að Thorvaldsensstræti 6 er 693.5 fermetrar og kostaði 12.150 hver. Var það verð miðað við lóðakaup ríkisstj. norðan Kirkjustrætis, en þar mátti aðeins byggja á 781 fermetra samanlagðs gólfflatar. Nú fullyrti hv. 4. þm. hér áðan, að lóðin í Kirkjustræti væri ódýrari, en í Thorvaldsensstræti 2 og þó má ekki byggja þar nema 1.755 fermetra ofanjarðar, en í Thorvaldsensstræti 2 má byggja 2.000 fermetra á fjórum hæðum. Lóðin í Kirkjustræti kostaði, eins og hv. 4. þm. sagði hér áðan, 20 millj. kr., en 16 millj. kr. í Thorvaldsensstræti 2. Samt segir hv. 4. þm. Reykv., að kaupin að Thorvaldsensstræti 2 hafi verið óhagstæðari. Ég læt hv. alþm. um að reikna dæmið og draga ályktanir. Út af því tel ég ekki þörf á að eyða fleiri orðum þar yfir.