20.02.1969
Neðri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (3158)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þessar tölur, sem hæstv. ráðh. var að lesa hér upp, breyta ekki neitt þeirri staðreynd, að forsrh. gerði hagstæðari kaup, þegar hann keypti lóðirnar í Kirkjustræti, heldur en símamálarh., þegar hann keypti Sjálfstæðishúsið. Það stendur alveg óhaggað, að fyrir 600 fermetra lóð gaf símamálarh. 16 millj. kr., en fyrir um 1.600 fermetra lóð gaf forsrh. ekki nema 20 millj. kr. Ég held, að það geti hver og einn reiknað út, hvor kaupin muni vera hagstæðari af þessum tölum. Hæstv. símamálarh. var að vitna til þess, að ekki mundi verða leyft að byggja hús við Kirkjustræti, nema af ákveðinni hæð. Það hefur enn ekkert verið ákveðið endanlega um þetta, því að það ég bezt veit er ekki búið að ganga endanlega frá skipulagi miðbæjarins, þannig að það liggur ekkert endanlega fyrir um það, hver niðurstaðan verður í þessum efnum. Það er eitt af þessum eilífðarmálum, sem enn hefur ekki verið ráðstafað, hvernig á að skipuleggja miðbæ Reykjavíkurbæjar. Ég man ekki betur, en hæstv. forsrh. væri að lýsa því fyrir þingheimi í fyrra, þegar hann var að ræða um þinghúsbygginguna og fleiri slík mál.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta. Mér fannst rétt, að það kæmi þarna fram, að forsrh. hefði staðið sig miklu betur í þessum efnum en símamálarh. og það liggur líka ljóst fyrir af þeim tölum, sem ég hef hér nefnt. Svo vil ég líka bæta því við, sem gerir málstað forsrh. enn betri, að hann tók það ekki á eigin ábyrgð að ákveða þessi viðskipti. Hann bar það undir þingflokkana og fékk þannig samþykki Alþ. fyrir því, að þessi kaup yrðu gerð. Ég veit ekki til þess, að hæstv. símamálarh. hafi leitað eftir slíku samþykki.